Leita í fréttum mbl.is

Þorgerður Katrín í MBL: Málið þarf að klára!

Þorgerður Katrín GunnarsdóttirÞorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritar grein í Morgunblaðið í dag um ESB-málið. Fyrirsögnin er: Engan hringlandahátt.

Þorgerður vill klára samningferlið og hún segir m.a.: ,,Það hafa ýmsir stigið fram á síðustu vikum og mánuðum og sagt að best væri að hægja á umsóknarferlinu eða hætta við umsóknina og draga hana til baka, m.a. til að spara í ríkisfjármálum. Undir þetta sjónarmið hefur síðan verið kynt á ýmsum stöðum, öllum frekar fyrirsjáanlegum. Það er að sjálfsögðu virðingarvert að menn vilji spara þótt það væri óskandi að óumflýjanleg sparnaðarskref í fjárlögum væru tekin af meiri festu og framsýni í stað þess að láta skoðanakannanir stýra tillögugerð í þeim efnum. 

En það verður líka að segja hlutina eins og þeir eru. Fyrir suma er einfaldlega aldrei rétti tíminn til að sækja um aðild að ESB, líkt og fyrir aðra er aldrei rétti tíminn til að lækka skatta eða virkja einkaframtakið í velferðar- eða menntamálum."

Síðar segir Þorgerður: ,,Þrátt fyrir umdeilda aðferðafræði ríkisstjórnarflokkanna tveggja fór málið í gegnum þingið og þann lýðræðislega farveg sem fylgir því að fá mál samþykkt. Meirihluti Alþingis Íslendinga samþykkti að fara í aðildarviðræður og er það ferli nú hafið. Málið þarf því að klára, á endanum með aðkomu þjóðarinnar, og hætta að tala um það í viðtengingarhætti. Það ætti að vera hagur jafnt stuðningsmanna sem andstæðinga að sá vilji verði hið endanlega úrskurðarvald.

Það væri óskandi, í ljósi þess að aðildarferlið er hafið, að forystumenn íslenskra stjórnmála bæru gæfu til þess að sameinast um að ná sem bestum samningi fyrir Íslands hönd þannig að þjóðin geti verið þess fullviss, þegar hún gengur að kjörborðinu í fyllingu tímans, að allir hafi lagt sitt af mörkum í þágu íslenskra hagsmuna. Leitum frekar að því sem sameinar okkur í málinu en sundrar.

Að stoppa viðræðurnar á þessu stigi og afturkalla umsóknina bæri vott um hringlandahátt og er ekki í samræmi við þá festu sem þarf að vera í sem flestum málaflokkum - ekki síst utanríkismálum."

(Leturbreyting ES-blogg) 


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þorgerður Katrín hélt fund um ESB fyrir nokkrum dögum.6 manns mættu á fundinn hjá henni.Það segir allt sem segja þarf.Nei við ESB.

Sigurgeir Jónsson, 24.11.2010 kl. 22:35

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Nefndarálit meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis:

"Þá óskaði nefndin eftir upplýsingum og mati utanríkisráðuneytisins á kostnaði við aðildarviðræður."

"Kemur fram í minnisblaði ráðuneytisins að kostnaður sem falli undir ráðuneytið sé metinn á tæpar 800 milljónir króna fyrir tímabilið 2010-2012.

Svarar það til ríflega 260 milljóna króna á ári að meðaltali en lunginn af þeim kostnaði felst í þýðingum reglna Evrópusambandsins yfir á íslensku sem ekki hafa verið þýddar á grunni EES-samningsins.

Telur meirihlutinn afar mikilvægt út frá meginreglum um aðgang almennings að lögum að þær megi nálgast á íslensku."

Þorsteinn Briem, 24.11.2010 kl. 22:35

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Um 6% af útgjöldum Evrópusambandsins renna til reksturs stofnana sambandsins.

Um 45% renna til landbúnaðar í aðildarríkjunum,
1% til ríkisstyrkja í sjávarútvegi og 39% til uppbyggingasjóða.

Um 7% fara í málefni sem Ísland tekur nú þegar þátt í
samkvæmt EES-samningnum."

"Nefndin fjallaði um mögulegan kostnað Íslands við aðild að Evrópusambandinu og í því samhengi hvernig greiðslum aðildarríkja til sambandsins er háttað.

Við mat á kostnaði er nauðsynlegt að taka tillit til greiðslujöfnuðar við ESB en með því er átt við svokallaðar nettógreiðslur. Nettóframlag aðildarríkja eða nettógreiðslur eru greiðslur hvers aðildarríkis til ESB að frádreginni heildarfjárhæð styrkja sem koma til baka úr sjóðum ESB til verkefna í aðildarríkinu."

"Meirihlutinn telur rétt að benda á að Ísland greiðir árlega háar fjárhæðir til stofnana EES-samningsins og í þróunarsjóð EFTA-ríkjanna."

"Beinn kostnaður árið 2007 var áætlaður rúmlega 1,3 milljarðar króna. Vegna gengisbreytinga telur meiri hlutinn raunhæft að tvöfalda þá upphæð og því megi segja að rúmlega 2,5 milljarða króna útgjöld falli niður á ári verði af aðild Íslands að Evrópusambandinu."

Nefndarálit meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis

Þorsteinn Briem, 24.11.2010 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband