Leita í fréttum mbl.is

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir í FRBL: Íslensk heimili þurfa að losna við krónuna

Sigurlaug Anna JóhannsdóttirÞað er alltaf ánægjulegt að heyra í konum um ESB-málið, en það snertir þær jú ekkert síður en karlmenn. Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, stjórnmálafræðingur og formaður Sjálfstæðisfélags Hafnarfjarðar, birti grein í Fréttablaðinu í morgun undir yfirskriftinni: Íslensk heimili þurfa að losna við krónuna.

Þar segir Sigurlaug: ,,Það var afar fróðlegt að lesa grein Guðsteins Einarssonar, kaupfélagsstjóra í Borgarnesi, í Pressunni 2. september sl., þar sem hann fjallar um þær miklu byrðar sem lagðar eru á heimili landsins, vegna þess mikla aukakostnaðar sem krónan veldur, umfram það sem er innan evrunnar. Þetta stafar af því hversu örsmá krónan er (gata í stórborg), sem aftur skapar miklar sveiflur og áhættu, eins og þjóðin hefur mátt kynnast undanfarið. Þessi kostnaður jafngildir því að sá sem tekur 20 milljón króna íbúðarlán, til 25 ára, borgar um 105 þúsund meira á mánuði í 25 ár á Íslandi en ef hann væri í landi með evru. Á 25 árum nemur sú upphæð 32 milljónum. Hér er þó ekki öll sagan sögð.

Mestu kaupmáttartækifærin

Þessi upphæð, 105 þúsund krónur, er tala eftir skatta, þar sem hún er útlagður kostnaður. Þetta þýðir að viðkomandi einstaklingur þarf að hafa um 160 þúsund króna tekjur á mánuði fyrir skatta til greiðslu á kostnaðinum, sem fer í að halda uppi íslensku krónunni. Ef þetta er sett í annað samhengi, þá má benda á að meðaltekjur á Íslandi eru tæpar 400 þúsund krónur. Ef þessar 160 þúsund krónur, sem er 40% af launum fyrir skatta, vegna mánaðarlegs kostnaðar krónunnar, eru dregnar frá eru tekjur næstum því helmingi lægri - eða 240 þúsund! Ef skattar eru um 130 þúsund, þá eru ráðstöfunartekjur eftir skatta 270 þúsund til að lifa af. Af þessum 270 þúsundum fara 105 þúsund í krónuskatt eða um 40% af ráðstöfunartekjunum þannig að eftir eru einungis 165 þúsund! Ef hægt væri að losna við þetta 105 þúsund króna þrælaálag krónunnar með upptöku evru væri það mesta kaupmáttaraukning sem nokkurn tíma hefði orðið. Kaupmátturinn myndi aukast um 40% fyrir þennan einstakling án þess að íþyngja atvinnulífi - þvert á móti myndi krónuskattinum einnig verða aflétt af atvinnulífinu."

Síðan segir Sigurlaug: ,,Lántökur Íslendinga í erlendri mynt sem hófust í kringum árið 2005 voru í raun ekkert annað en flótti undan íslenskum lánakjörum, vöxtum og verðbólgu.

Kostnaður við að halda uppi allt of litlum gjaldmiðli - krónunni - sem kemur fram í háum vöxtum, verðbólgu og verðtryggingu - jafngildir sambærilegri upphæð og íbúðin eða húsið sem keypt er. Ónýtur gjaldmiðill er því að sá þáttur sem mest hefur grafið undan efnahagslegu sjálfstæði Íslendinga á umliðnum árum, og þar með sjálfstæði þjóðarinnar. Það er mál til komið að snúa af þeirri leið."

Hún lýkur grein sinni með þessum orðum:

,,Hafa ber í huga í umræðum um ESB að um er að ræða samband sjálfstæðra ríkja sem upphaflega er stofnað til til að tryggja frið og frjáls viðskipti innan Evrópu. Innan Evrópusambandsins virkar ákveðið samtryggingakerfi sem eftirsóknarvert er að vera innan en erfitt er að standa utan. Það eru hagsmunir sambandsins að öllum aðildarríkjunum vegni vel, lög og reglur séu virtar á milli þeirra og að ríkin séu sjálfbær. Það er ekki með nokkru móti hægt að halda því fram að Evrópusambandið hafi áform um annað en að Íslandi og Íslendingum vegni sem allra best."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband