Leita í fréttum mbl.is

MBL pirrast út í ESB - ekki í síðasta sinn!

MBLSífellt fleiri gera að umtalsefni hinn "pirraða tón" sem berst úr Hádegismóum, sem ekki síst brýst út í heilagri reiði og vandlætingu á ESB og öllu því sem sambandinu tilheyrir.

Leiðarahöfundur Mogga reitir hár sitt enn og aftur yfir ESB í dag, nú vegna þess að fyrir liggur að kynna ESB fyrir Íslendingum, vegna þess að jú, Ísland hefur sótt um aðild að sambandinu.

Meginhluti leiðarans fer í að segja frá grein eftir fyrrum leiðtoga Nei-sinna á Íslandi, Frosta Sigurjónsson, þar sem hann fjallar um lýðræðishallann í ESB og þátttöku almennings í kosningum til Evrópuþingsins.

Hér er eitt brot úr leiðaranum: "Því er stundum haldið fram að Ísland eigi heima í hópi lýðræðisríkja og þess vegna sé aðild að ESB eðlileg. Hið rétta er að Ísland á vissulega heima í hópi lýðræðisríkja, en ESB hefur ekkert með lýðræði að gera og Ísland getur aldrei gerst aðili að sambandinu á þeim fölsku forsendum."

Þetta er dæmi um þá ótrúlegu einföldun og sleggjudóma sem ráðferðinni á toppi valdapýramídans í Hádegismóum..."en ESB hefur ekkert með lýðræði að gera"!

ESB tekur virkan þátt í lýðræði og þróun þess, völd Evrópuþingsins voru styrkt með Lissabon-sáttmálanum, en kannski veit leiðarahöfundur Moggans það ekki? ESB tekur þátt í kosningaeftirliti nánast út um allan heim,   svo dæmi sé tekið.

Leiðarhöfundur notar líka tækifærið til að gera lítið úr nýafstöðnu stjórnlagaþingi, sem til kom, vegna...krafna frá almenningi. Það er jú lýðræði. Í leiðaranum segir: "Hér á landi fékkst ágæt vísbending í kosningum til hins áhrifalausa stjórnlagaþings hver kosningaþátttakan gæti orðið til áhrifalítils Evrópuþings."

Í lok leiðarans segir svo þetta: "Íslendingar geta verið ánægðir með að hér er óvenjulega virkt lýðræði og tiltölulega stutt á milli valdhafanna og almennings, ólíkt því sem gerist í Evrópusambandinu. Enginn skyldi þó láta sér detta annað í hug en að áróðursmeistarar Evrópusambandsins og útsendarar þeirra muni halda hinu gagnstæða fram í umræðum vegna aðlögunarviðræðnanna hér á landi."

En var þá stjórnlagaþingið ekki hluti af þessu "óvenju virka lýðræði" ? 

Og það er einfaldlega rangt það sem gefið er í skyn að "að lagasetning ESB er aðallega í höndum 27 manna framkvæmdastjórnar..."

Framkvæmdastjórnin hefur FRUMKVÆÐI að lagasetningu, en semur ekki lögin! Það er gert sameiginlega af Evrópuþinginu og Ráðherraráðinu og er útskýrt hér!

Vandlæting Mogga á ESB er takmarkalaus! Og málflutingurinn er svo óvandaður og á skjön við oft á tíðum vönduð skrif blaðsins.

Án kynningar á ESB geta Íslendingar ekki tekið lýðræðislega afstöðu til málsins. Þetta veit sjálfsagt leiðarahöfundur MBL, en hann vill ekki sjá þessa kynningu.

Slík er lýðræðisástin! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Það er nú kaldhæðnin sjálf að kynna ESB núna þegar búið er að sækja um gegn vilja fólksins í landinu ofan á allar hótanir gegn þingmönnum sem vildu ekki samþykkja að send yrði inn umsókn um viðræður aðild sem var svo gerð að umsókn um aðild eftir á. Þetta er Hræsni ein.

Valdimar Samúelsson, 21.12.2010 kl. 14:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband