Leita í fréttum mbl.is

Andrés Pétursson (form. Evrópusamtakanna) um völd, áhrif og Morgunblaðið

Andrés PéturssonFormaður Evrópusamtakanna, Andrés Pétursson, ritar grein í Morgunblaðið í dag um Morgunblaðið og nálgun ritstjóra þess gagnvart ESB-málinu. Við birtum grein Andrésar hér í heild sinni: 

 UM VÖLD OG ÁHRIF

Höfundi leiðara Morgunblaðsins hefur orðið tíðrætt um lýðræðishalla Evrópusambandsins. Orð eins og „skrifræðið í Brussel“ og hið „ólýðræðislega bákn“ eru höfundinum einkar hjartfólgin. 

Staðreyndin er hins vegar sú að Evrópusambandið er metnaðarfyllsta tilraun sem reynd hefur verið til að finna lausn á ýmsum sameiginlegum vandamálum sem ekki verða leyst eingöngu innan landamæra núverandi þjóðríkja. Þar má til dæmis nefna mengun, alþjóðleg glæpastarfsemi og ýmis mál sem tengjast yfirþjóðlegum samgöngum og viðskiptum

En hver er aðalástæðan fyrir því að ekki er meira um beinar kosningar til hinna ýmsu stofnana eða embætta innan Evrópusambandsins til að auka lýðræðið innan sambandsins. Ástæðan er einföld; aðildarlönd Evrópusambandsins hafa ekki verið tilbúin að láta meiri völd til stofnana Evrópusambandsins.

Ég velti því stundum fyrir mér hvort sá sem heldur á pennanum í leiðaraskrifum Morgunblaðsins þekki ekki raunverulegt verklag hinna ýmsu stofnana ESB eða hvort viðkomandi sé svo sannfærður um hið illa innræti Evrópusambandsins að það skuli nota hvert tækifæri til að sverta ímynd þess.

Morgunblaðið taldi sig til dæmis hafa himin höndum tekið þegar Frosti Sigurjónsson framkvæmdastjóri skrifaði grein á bloggsíðu sína fyrir skömmu. Þar heldur Frosti því fram að þungamiðja valds í Evrópusambandinu sé hjá framkvæmdastjórninni og Evrópuþingið sé valdalítið.

Gallinn við þessa framsetningu Frosta er sú að þær forsendur sem hann gefur sér, annaðhvort vegna þekkingarskorts eða vísvitandi rangfærslna, standast ekki. Staðreyndin er sú að valdamiðja Evrópusambandsins er hjá ráðherraráðinu og leiðtogaráðinu þar sem sitja lýðræðislega kjörnir fulltrúar aðildarríkjanna. Evrópuþingið, sem einnig er kosið í beinni kosningu af íbúum ESB landa, hefur síðan smám saman verið að auka völd sín á kostnað Framkvæmdastjórnarinnar.

Lagasetningarferli Evrópusambandsins er nokkuð langt og það getur tekið upp í mörg ár að koma lagasetningu í gegnum Framkvæmdastjórnina, Evrópuþingið og ráðherraráðið. Mjög margir aðilar, bæði Evrópuþingmenn, starfsmenn Framkvæmdastjórnarinnar, hagsmunaaðilar, grasrótarsamtök, þrýstihópar og fleiri, hafa möguleika á því að hafa áhrif á lagagerðina.

Ýmsum finnst ferlið óþarflega langt og flókið en það gefur að minnsta kosti mjög mörgum aðilum tækifæri til að hafa áhrif á endanlega niðurstöðu. Einnig minnkar þetta möguleikana á því að illa unnin lagagerð komist í gegnum þetta ferli.

Morgunblaðið ætti því að fagna en ekki gera lítið úr þeirri kynningu sem í vændum er varðandi Evrópusambandið. Flestir þeir sem talað er við kvarta undan því að þekkja ekki nægjanlega vel til varðandi störf og stefnu ESB.

Allir ættu því að geta sameinast um það að fagna meiri upplýsingum um þetta mikilvæga málefni. Eða óttast Morgunblaðið að Íslendingar geti ekki tekið skynsamlega ákvörðun um tengsl sín við sambandið í ljósi upplýstrar umræðu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband