Leita í fréttum mbl.is

Jón Steindór í MBL um ESB-málið

Jón Steindór ValdimarssonFormaður Sterkara Íslands, Jón Steindór Valdimarsson, skrifar grein í MBL í dag um ESB-málið og hér er öll greinin. Yfirskriftin er: Skammgóður vermir og tittlingaskítur.

"Alla jafna þykir það ljóður á ráði manna að hugsa bara til skamms tíma. Ekki er betra þegar gripið er til ráða sem bæta úr við fyrstu sýn en gera illt verra. Um það er sagt að skammgóður vermir sé að pissa í skó sinn. Þarf sú myndlíking ekki frekari skýringar við.

„Því hefur verið haldið fram að íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum … en leysi vandræði sín með þvi að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls.“ segir í Innansveitarkroníku Halldórs Laxness.

Skynsemi og yfirvegun

Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu í júlí 2009. Evrópusambandið samþykkti að taka upp viðræður í júní 2010. Allt gengur samkvæmt áætlun og er búist við að svokallaðri rýnivinnu ljúki í vor og þá hefjist eiginlegar samningaviðræður sem gæti lokið á næstu misserum.

Maður skyldi ætla að ákvörðun Alþingis yrði fylgt eftir af þunga, samningaleiðin gengin til enda og samningurinn falinn þjóðinni til samþykktar eða synjunar. Á þeim tíma og ekki síst þegar samningur lægi fyrir yrði rætt um kjarna máls og hagsmuni Íslands til langs tíma. Þá fyrst gætum við leitt málið til lykta með skynsamlegum og yfirveguðum hætti. Því miður er þessu ekki aldeilis að heilsa. Hér verður tvennt nefnt.

Krónan

Ekki er langt síðan flestir voru þeirrar skoðunar að íslenska krónan dygði okkur ekki. Örmyntin okkar hentaði ekki lengur í ólgusjó alþjóðaefnahagsmála og saga hennar frá upphafi væri meira og minna ein samfelld hörmungarsaga. Þessu vilja margir gleyma núna þegar kollsteypan hefur sett allt úr skorðum og krónan vermir vissulega sumum til skamms tíma. Halda að ylurinn núna sanni ágæti hennar. Hætt er við að snöggkólni í fæturna þegar fram í sækir. Bitur reynsla fortíðar ætti að vera víti til varnaðar.

Að laga eða laga að

Strax og aðildarviðræður hófust fundu andstæðingar aðildar upp alveg nýtt þrætuepli, nýjan tittlingaskít. Allt í einu var skilgreining á eðli viðræðnanna orðið aðalatriðið. Aðlögun!, aðlögun! er nú hrópað á torgum. Ekki er einu orði minnst á það hvort þau lög og reglur sem Evrópusambandið notar eru betri eða verri en þær sem við notum. Ekkert dæmi er nefnt um að sambandið vilji þröngva upp á okkur afleitum reglum.

Kjarni máls er auðvitað sá, og það vita allir sem vilja vita, að fari svo að Ísland gangi í Evrópusambandið þá þarf það að laga sig að reglum þess, alveg eins og við gerum nú innan EES. Frá þessu verða frávik á einhverjum sviðum. Um það snúast samningarnir. Hvort við kjósum að laga okkar kerfi fyrirfram í einhverjum atriðum eða ekki er okkur í sjálfsvald sett en við verðum að gera grein fyrir hvernig við ætlum að gera það komi til aðildar. Kjósum við að bíða þar til ljóst verður hvort við göngum í ESB eða ekki kann það að tefja fyrir því að við njótum ávaxtanna af aðildinni.

Væri ekki nær að við ræddum, t.d. á sviði landbúnaðar, hvort núverandi kerfi þarfnist breytingar og hvort breytingin væri skynsamleg ein og sér, jafnvel þó hún fæli í sér að nýtt kerfi passaði við það sem ESB notar.

Ræðum frekar framtíðina

Óskandi er að gagnslausri umræðu um eðli viðræðnanna og um að draga umsóknina til baka linni og þess í stað snúum við bökum saman um góðan samning og ræðum um framtíðarhagsmuni Íslands.

MBL, 28.1.2001

Öll greinin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Er verið að tala um einhvað fótboltalið. ísland í ESB eða er verið að tala um meir en 1000 ára gamla þjóð jafnvel 250 árum eldri en Noregur og Bretland. Hverjir eru þið sem viljið ísland í ESB samsteypuna og afaverju. Fyrir sleikjó eða hvað. Við höfum allt hér okkar beljur kindur hesta . Okkar fjölskyldur, dásamlegar konur og menn börn og barnabörn. Hvað viljið þið ESB sinnar Viljið þið Pólverja sem vilja okkur ekki ekki einusinni okkar gjafa lambakjöt þegar þeir sultu. Viljið þið múslíma sem vilja okkur ekki til sína heimalands. hvað er það sem þið viljið. 

Valdimar Samúelsson, 28.1.2011 kl. 17:02

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Evran er nú ekki traustari en svo, að margir í ESB búast við að hún verði brátt úr sögunni. Háværar kröfur eru um það meðal þýzkra og franskra kjósenda. Þessi beita til að narra Ísland inn í valdfrekt stórveldi er því í bezta falli kjánaleg og ótrúlegt VERÐIÐ sem þið eru tilbúnir að greiða fyrir þennan gallvalta gjaldeyri: afsal okkar æðstu löggjafarréttinda og yfirráða fiskveiðilögsgunnar til ESB!

Jón Valur Jensson, 29.1.2011 kl. 12:06

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Dugar ykkur ekki dagurinn allur til að birta aths. mína?

Jón Valur Jensson, 29.1.2011 kl. 23:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband