Leita í fréttum mbl.is

DV: Diana Wallis - "Smáríki hafa áhrif í ESB"

Diana WallisDV birtir í dag heilsíðuviðtal við Díönu Wallis, Evrópuþingmann og varaforseta Evrópuþingsins. Hún hélt erindi hér í vikunni um ESB.

Í viðtalinu segir: "Wallis segir að áhrif þingsins hafi aukist umtalsvert í kjölfar upptöku Lissabon-sáttmálans og ræddi hún núverandi stöðu þingsins sem löggjafarvalds í Evrópusambandinu og einnig hvernig smáríki geta látið að sér kveða innan þingsins. Að fyrirlestrinum loknum ræddi Wallis við blaðamann DV.

Geta haft frumkvæði

Það lá því beinast við að spyrja hvert væri hlutverk Evrópuþingsins sem löggjafarvalds, eftir upptöku Lissabon- sáttmálans. „Eftir upptöku sáttmálans er Evrópuþingið orðið viðurkenndur og áberandi aðili í löggjafarferlinu, í mun meira mæli en nokkurn tímann áður. Nú stendur þingið jafnfætis framkvæmdastjórninni við allar ákvarðanir, en áður má segja að framkvæmdastjórnin hafi haft yfirhöndina. Þingið er nú fullgildur samstarfsaðili framkvæmdastjórnarinnar sem löggjafi, " segir Wallis. Þegar kemur að löggjafarferlinu hafa hins vegar hvorki stakir þingmenn né þingmannanefndir rétt til þess að bera fram lagafrumvörp með beinum hætti. Það er framkvæmdastjórnin sem leggur fram lagafrumvörp enn þann dag í dag. Þingið getur hins vegar haft frumkvæði að lagafrumvörpum, með svokölluðum lagafrumvarpsskýrslum, sem framkvæmdastjórninni er skylt að taka til umfjöllunar." 

Í lok viðtalsins segir: "Evrópuþingið telur 736 þingmenn og þar starfa 20 fastanefndir. Samkvæmt Lissabon-sáttmálanum á hvert aðildarríki aldrei færri en sex þingmenn, sem er sú tala þingmanna sem Ísland fengi ef samningur að aðild yrði samþykktur. Gæti Ísland þá búist við því að hafa áhrif innan þingsins? Við verðum að muna að þingmenn starfa ekki sem fulltrúar landa sinna heldur sem fulltrúar stjórnmálasamtaka innan þingsins. Það veitir hverjum þingmanni stuðning til að afla sér upplýsinga um öll þau málefni sem hann vill. Einstök ríki geta sjaldnast fjallað um öll þau mál sem þeim þóknast, en innan ramma stjórnmálasamtakanna er það hins vegar mögulegt. Ekki má gleyma að smáríki kjósa sér yfirleitt nefndir þar sem fjallað er um mikilvægustu málefni þeirra, og þar sem tilteknir þingmenn geta búist við að hafa mikil áhrif. Ég býst fastlega við því til dæmis, að íslenskur Evrópuþingmaður myndi vafalaust sitja í sjávarútvegsnefnd. Þar sem Ísland yrði stærsta fiskveiðiþjóð sambandsins, ef af aðild verður, myndi sá þingmaður augljóslega hafa burði til að hafa mikil áhrif. En auðvitað skipta einstaklingarnir sjálfir miklu máli, séu þeir kraftmiklir og duglegir getur hvaða þingmaður sem er haft mikil áhrif, sama hvaðan hann kemur. Það er að minnsta kosti mín reynsla " 

Viðtalið er eftir Björn Teitsson og er í helgarútgáfu DV. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband