Leita í fréttum mbl.is

Illugi Jökulsson í DV: "Ég vil fá að greiða atkvæði sjálfur!"

Illugi JökulssonIllugi Jökulsson rithöfundur og blaðamaður, er fastur gestur í DV og í helgarblaðinu er hann með fína grein undir yfirskriftinni "Ég vil fá að greiða atkvæði sjálfur" og fjallar þar um ESB-málið. Illugi byrjar grein sína svona:

"Ég sný ekki aftur með það - alveg sama hvað Ásmundi Einari Daðasyni eða Heimssýn eða kvótagreifunum finnst: Ein mikilvægasta spurningin sem við Íslendingar munum standa frammi fyrir á næstunni er hvort við ættum að ganga í Evrópusambandið eða ekki. Þetta er mjög mikilvæg spurning vegna þess að það er ljóst að aðild að ESB myndi hafa margvísleg góð áhrif á íslenskt samfélag. Það er enginn áróður, það er bara staðreynd."

Illugi heldur áfram, telur upp bæði kosti og galla ESB, enda er ESB ekki fullkomið fyrirbæri (slík fyrirbæri eru jú fá, ef nokkur!) og segir svo:

"Íslendingar virðast sumir halda að innganga í ESB sé að selja sálu sína. Það er aldeilis ekki, þetta er bara kalt hagsmunamat sem hátt í 30 þjóðir í Evrópu hafa staðið frammi fyrir nú þegar og allar utan ein hafa komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé rétta leiðin til að efla sinn hag. Í nánu sambandi við önnur fullvalda Evrópuríki. Af hverju skyldi það nú vera? Það er vitanlega vegna þess að það hefur góða kosti í för með sér að vera með í þessu sambandi. En gallarnir eru líka til, og kannski myndu þeir í okkar tilfelli vega þyngra en kostirnir. Ég veit það, en mér þætti verra að fá ekki að meta það sjálfur -heldur skuli menn eins og Ásmundur Einar, Sigmundur Davíð og Davíð Oddsson eiga að fá að meta það fyrir mig. Ég vil fá að taka afstöðu til ESB sjálfur, í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar samningur liggur fyrir, og ég hef skömm á þeim stjórnmálamönnum sem reyna nú af kappi að svipta mig þeim lýðræðislega rétti mínum - að taka sjálfur ákvörðun í einhverju mesta og mikilvægasta hagsmunamáli Íslendinga í náinni framtíð."   

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Illugi Jökulsson kann að vera leikinn með orð, en þetta verður ekki góð rökfærsla fyrir því í þessu stóra máli: "Íslendingar virðast sumir halda að innganga í ESB sé að selja sálu sína."

Talaðu skýrt, Illugi. Er innganga í Esb. framsal æðsta löggjafarvalds frá Alþingi, forseta Íslands og þjóðinni til löggjafarstofnana Esb. eða ekki?

Ég ætla ekki að fara að deila hér við þig um "sálu mína", þína eða þjóðarinnar, heldur er þetta spurning um grundvallaratriði valdsins á löggjafarsviði.

Myndir þú vera mér sammála um það, að sá sem hefur varanlegt vald yfir æðstu lögum þjóðar geti, a.m.k. með tímanum, haft yfir henni gríðarlegt vald?

Ertu sammála hinum ágæta Lárus Jónssyni (HÉR! og HÉR!), að "það er enginn sem beitir sér fyrir ákvæðum í samningum og berst fyrir að halda inni í samningum ákvæðum, sem þeir ætla ekki að nýta sér á einhverjum tímapunkti"?

Ef þú segir já við þessari spurningu, áttarðu þig þá (spyr ég) á þýðingu þess ákvæðis í inngöngusamningum nýrra Esb-ríkja, að "lög Evrópusambandsins hafa forgang fram yfir allar þær [lagalegu eða aðrar] ráðstafanir (Esb-)landanna sem kynnu að rekast á þau" ("Community law takes precedence over any national provisions which might conflict with it.")?

Það er mjög skiljanlegt, að margir hafa ekki tekið eftir slíkum árekstrum milli Esb-laga og laga þjóðríkjanna (nema þá einna helzt um s.k. fóstureyðingar, en Írland, Malta og e.t.v. Pólland hafa fengið undanþágu frá lögum Esb. í því efni og fengið hana inn í sína aðildarsamninga).

Esb. er vitaskuld umhugað að auglýsa ekki neinn þjösnahátt gagnvart aðildarríkjunum, meðan enn er verið að reyna að fjölga þeim. Þeir ætla t.d. ekki að fæla frá sér Norðmenn á þessum tíma með löggjöf um olíulindir og olíusölu, sem gengju þvert á það sem Norðmenn telja sjálfum sér hagkvæmt; og eins bíða þeir með löggjöf um að veita frjálsan aðgang að fiskveiðilögsögu allra ríkjanna eða t.d. að afnema "regluna" óstabílu um hlutfallslegt stabílitet fiskveiða hvers ríkis.

En valdið hefur Esb. til að gera þetta; aðildarríkin hafa treyst Brusselbatteríinu fyrir þessu, og ekki var beðið um eða ætlazt til þess valds í fyrsta falli nema með það fyrir augum að eiga þess kost "að nýta sér [það] á einhverjum tímapunkti".

Nú þjappast valdið saman í bandalaginu:

1) vald stóru ríkjanna í ráðherraráðinu eykst um 61% frá því, sem nú er, árið 2014,

2) Lissabonsáttmálinn afnemur líka neitunarvald einstakra ríkja í mörgum málum;

3) Þýzkaland og Frakkland hafa sýnt það á þessum vetri, sem er að líða, að þau ætlast til þess, að Esb. fái verulegt boðvald um fjárlög aðildarríkjanna; ef ekki verði farið eftir kröfum Esb. í því efni, missi jafnvel viðkomandi ríki sinn atkvæðisrétt í ráðherraráðinu!

4) Danir eru farnir að taka eftir því, að jafnvel stjórnarskrá þeirra dugir þeim ekki til að standa gegn lögum og reglum frá Esb., og þeir eru t.d. ekki sjálfráðir um sín innflytjendamál.

Og þetta er bara byrjunin. Þegar Esb. verður orðið að enn öfluga valdabatteríi, m.a. í krafti stóraukins valds fólksflestu ríkjanna (atkvæðavægi Þýzkalands eykst t.d. úr 8,41% í 16,41% 2014, sjá HÉR) og þegar inntöku nýrra ríkja linnir (fyrir utan kannski lítt þróuð ríki í Afríku), þá verður í æ ríkara mæli gripið til þessa afgerandi lagalega valds Esb. til að haga málum að hentugleikum fyrir hina voldugustu þar og sigrast á mótþróa.

PS. Ætli Illugi hafi gleymt því, að stjórnarmeirihlutinn neitaði árið 2009 að taka það í mál að gera þjóðaratkvæðagreiðsluna um aðildarsamning bindandi? Og man hann ekki hitt, að Samfylkingarmenn og aðrir Esb-sinnar höfnuðu þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfa inngöngu-umsóknina?

Jón Valur Jensson, 16.4.2011 kl. 04:00

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég segi við Illuga. Hversvegna vildir þú ekki greiða atkvæði fyrir þetta ferli. Hefði það breytt einhverju. hefði meirihluti landsmanna opnað dyr fyrir ESB þá hefði mátt fara í viðræður en eins og þessi Landráðastjórn sem vann gegn lögum bæði samkvæmt stjórnarskrá og hegningalögum kafla X grein 86/7. Ég er viss um að þú vilt ekki lögbrot í þessum miklu málum. fólkið í Landinu hefir ekki opnað dyr fyrir ESB en samt eru þeir komnir með útsendara og pening í öll skúmaskot sem er líka á móti lögum okkar og vínarsáttmálans varðandi sendiráð. þú mátt svara þessu ef þú lest þetta en ekki segja að allir hingað til hafi brotið lög til að koma ýmsum málum í gegn. Ég hef oft séð á skrifum þínum að þú ert ekki Íslandsvinur og líklega breytist ekki með það. Það eru lönd sem eru að opnast fyrir ESB sunnan Miðjarðahafsins svo þú vitir það.

Valdimar Samúelsson, 16.4.2011 kl. 12:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband