Leita í fréttum mbl.is

Þorsteinn Pálsson um stöðuna í ESB-málinu: Þjóðin vill halda málinu áfram

Þorsteinn PálssonÍ pistli í Fréttablaðinu í gær skrifar Þorsteinn Pálsson, fyrrum ráðherra, um ESB-málið og segir þar:

"Glöggt má merkja að Evrópuandstæðingar telja sjálfir að þeir hafi náð undirtökum í aðildarumræðunni. Er það svo? Hefur eitthvað breyst frá því Alþingi ákvað að sækja um? Þetta þarf að skoða bæði í málefnalegu ljósi og eins í samhengi við pólitíska taflstöðu málsins.

Á taflborði valdanna hafa orðið nokkrar breytingar. Þjóðin valdi meirihluta þingmanna úr þeim þremur flokkum sem höfðu aðild á dagskrá. Þingmenn Framsóknarflokks og Borgarahreyfingar hafa að einhverju leyti snúið við blaðinu frá því sem þeir lofuðu kjósendum. Að þessu leyti hafa andstæðingar aðildar sótt í sig veðrið.

Á hinn bóginn sýna skoðanakannanir ótvírætt að meirihluti þjóðarinnar vill að Alþingi standi við þá ákvörðun sem tekin var með aðildarumsókninni og láti á hana reyna til þrautar. Eftir stendur eins og áður að þjóðin getur ekki tekið endanlega afstöðu fyrr en fyrir liggur hvernig viðræðum lyktar.

Andstæðingunum hefur einfaldlega ekki tekist að fá meirihluta þjóðarinnar á þá skoðun að stöðva viðræðurnar. Allur áróður og málflutningur hefur þó verið mjög einhliða frá þeirra hlið og án teljandi andsvara eins og þeir hafa sjálfir vakið athygli á. Þó að pólitíska taflstaðan hafi veikst á Alþingi vegna ístöðuleysis sýnist hún vera óbreytt úti á meðal fólksins."

Síðan víkur Þorsteinn að hinum ofsóknarkenndu hugmyndum andstæðinga ESB-aðildar og hræðsluáróðri og segir:

"Nýrri  innflutt hræðslukenning felst  í því að benda á alvarlegan efnahagsvanda  nokkurra aðildarríkja. Síðan er aðstoð Evrópusambandsins við þau gerð tortryggileg. Hún á að sýna að þau hafi misst sjálfstæði sitt. Ísland lenti utan Evrópusambandsins í dýpri kreppu en nokkurt aðildarlandanna. Við þurftum á aðstoð að halda. Hún var bundin margs konar skilyrðum meðal annars um fjárlög og peningastefnu. Þetta eru örlög skuldugra þjóða hvort sem þær eru innan eða utan ríkjabandalaga.

Loks er þeim hræðsluvendi veifað að þjóðir Evrópu sitji um Ísland og bíði þess eins að geta beitt þýskættuðum meðulum frá fjórða áratugnum til að knésetja landið.  Röksemdir af þessu tagi eru of barnalegar  til að taka þær alvarlega."

Öll grein Þorsteins


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þorsteinn Pálsson er hér í merkilegri mótsögn við það, sem var málflutningur hans (þá sem sjávarútvegsráðherra) í Morgunblaðinu 12. marz 1994, í innlendum fréttum:

Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra: Íslendingar hefðu ekki hag af aðild að ESB

"ÞORSTEINN Pálsson sjávarútvegsráðherra telur hagsmuni Íslendinga bærilega tryggða með samningnum um evrópska efnahagssvæðið og við hefðum ekki hag af aðild að Evrópusambandinu. Miðað við þá samninga sem séu í deiglunni milli sambandsins og Norðmanna myndi aðild Íslands að ESB ekki þýða bættan aðgang að Evrópumarkaðnum svo nokkru næmi en hins vegar þyrfum við að fórna yfirráðum yfir auðlindum sjávar.

Þorsteinn segir að Norðmenn séu ekki að bæta markaðsstöðu sína með aðild að ESB svo nokkru nemi. Hins vegar séu þeir að gefa Evrópusambandinu eftir yfirráð yfir norskum sjávarútvegi. 80% af útflutningstekjum Íslendinga komi frá sjávarútvegi og meðan við getum ekki bætt aðgang að Evrópumarkaði með aðild en þyrftum að fórna yfirráðum yfir auðlindinni komi ekki til álita að ganga í sambandið.

Þorsteinn segir Evrópubandalagið skuldbundið til þess að standa við EES-samninginn þótt hin EFTA-ríkin gangi í bandalagið. Þorsteinn segir tæknilegt úrlausnarefni að breyta EES-samningnum í tvíhliða samning milli Evrópusambandsins og Íslands.

"Mér sýnist að við höfum tryggt okkur. Með hinu værum við að fórna yfirráðum yfir landhelginni. Ég held að íslenskir sjómenn myndu aldrei sætta sig við að ákvarðanir um möskvastærð og friðunaraðgerðir með lokun á ákveðnum veiðisvæðum yrðu settar undir valdið í Brussel. Við ætlum okkur að ráða þessari auðlind, hún er undirstaðan undir okkar sjálfstæði," sagði Þorsteinn Pálsson."

http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=129125

Þorsteinn spilar þarna í lokin á það atriði, að í liðinni viku var farið að minnast á "Blitzkrieg" Esb., sem yfirvofandi sé hér á fjölmiðlavettvangi til að troða okkur í það sama Evrópusamband. Þetta gripu Frettablaðsmenn á lofti sem dylgjur um nazistískt eðli Esb. og þar með sem öfgakennd skrif!

En því fer fjarri, að Blitzkrieg eða leifturstríð, eins og það sem Þýzkaland háði gegn Póllandi og síðar Rússlandi, hafi verið hugmyndafræðilegs eðlis; þetta var einfaldlega hernaðartækni á vegum þýzka hersins eins og margt annað í herfræðum, og hugtakið hefur margsinnis verið notað síðan um ýmis stríð, þar sem (óvæntri) leiftursókn hefur verið beitt, m.a. um innrásir úr norðri til suðurs á Kóreuskaganum (á vegum kommúnista í Pyongjang og Peking), án nokkurra tengsla við nazista.

Esb.sinnar eru iðnir við kolann að búa til grýlur til heimabrúks, m.a. Þorsteinn Pálsson og Guðmundur Andri Thorsson, sem aldrei glímir í raun við aðalatriði máls ...

Jón Valur Jensson, 30.5.2011 kl. 17:11

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

"Þorsteinn spilar þarna í lokin ..."

Þar er ég að tala um lokaklausu hans í pistlinum hér efst á síðu ykkar.

Jón Valur Jensson, 30.5.2011 kl. 17:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband