Leita í fréttum mbl.is

Fréttatíminn fjallar um gjaldmiðilsmál í leiðara

FréttatíminnÍ leiðara Fréttatímans í gær fjallaði Jón Kaldal um gjaldmiðilsmál og þar segir meðal annars:

" Það er makalaust en engu að síður staðreynd að tæplega þremur árum eftir að sett voru á gjaldeyrishöft er enn óljóst hvernig á að aflétta þeim. Eru þau þó ekki lítill farartálmi á leið til þess að koma fjárfestingum á Íslandi af stað á nýjan leik. Á bak við höftin veit enginn hvers virði gjaldmiðillinn er raunverulega og því er skiljanlega ákveðinn ótti meðal innlendra fjárfesta og erlendra við að binda sitt fé á Íslandi. Áður en höftunum verður aflétt þarf hins vegar að liggja fyrir hver peningamálastefnan á að vera."

Síðar segir: " Viðskiptablaðið hefur undanfarnar þrjár vikur birt athyglisverðan greinaflokk um peningamálastefnuna. Í nýjasta tölublaðinu er leitað álits nokkurra fróðra einstaklinga á framtíðarfyrirkomulagi hennar. Þar á meðal er Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sem fangar stöðuna í hnotskurn: „Næstu tólf mánuði þarf peningastefnan að styðja við endurreisn íslenska hagkerfisins og afnám gjaldeyrishafta. Grundvallaratriðið er heragi í hagstjórn, setja þarf ríkisfjármálareglu sem gengur jafnvel lengra en Maastrichtskilyrðin og draga úr fastgreiðslu-fyrirkomulagi verðtryggingar.“ Orri er þarna á sömu slóðum og Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sem bendir á í sama blaði að ef Íslendingar ætli að taka upp evru þurfi þeir að sýna meiri aga í ríkisfjármálum en hingað til og bætir svo við:, ,Ef við ætlum að vera utan evrusvæðisins og tryggja jafnframt efnahagslegan stöðugleika, þá þurfum við að sýna enn meiri aga en ef við værum með evru.“

Og undir lokin skrifar Jón Kaldal: " Sveigjanleiki íslensku krónunnar hefur lengi verið nefndur sem helsti kostur hennar. Þó var það sá sveigjanleiki sem keyrði efnahagslífið fram af bjargbrúninni, hleypti af stað tveggja stafa verðbólgu og skildi heimili og fyrirtæki eftir með stórfellda og óafturkræfa hækkun á höfuðstóli verðtryggðra lána. Og það er aðeins nýjasti kaflinn í sögu sveigjanleika krónunnar. Áður fyrr markaðist saga hennar af handstýrðum gengisfellingum að geðþótta sitjandi ríkisstjórna.

Afleiðingin af þessum marglofaða sveigjanleika er að heimilin og fyrirtækin hafa afar takmarkaða þekkingu á því hvaða rekstrarumhverfi bíður þeirra. Öllum heitstrengingum stjórnmálamanna  - væntanlega þverpólitískum -  um að nú þurfi að sýna meiri aga en áður, skal vissulega taka fagnandi en, í ljósi reynslunnar, með fyrirvörum. "

www.frettatiminn.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband