Leita í fréttum mbl.is

Ræða Þorsteins Pálssonar á Sjávarútvegssýningunni

Þorsteinn PálssonÞorsteinn Pálsson hélt ræðu á sjávarútvegssýningunni, sem haldin var um miðjan október. Þar ræddi Þorsteinn Evrópumálin og sagði þar meðal annars:

"Á viðreisnarárunum varð Ísland virkur aðili að Bretton-Woods gjaldmiðlasamstarfinu þar sem breytingar á gengi lutu mjög hörðum reglum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og einhliða ákvörðunarvald Íslands var takmarkað að sama skapi. Einmitt við þær stöðugleikaaðstæður tókst að semja um fyrstu erlendu fjárfestinguna í áliðnaði hér á landi. Þannig hófst nýtt sóknartímabil.

Hækkun á verðgildi krónunnar á fyrsta áratug þessarar aldar stafaði ekki af óvild stjórnenda Seðlabankans í garð útflutningsgreina eins og halda mætti ef rökréttar ályktanir væru dregnar af málflutningi þeirra sem ákafast tala gegn erlendu myntsamstarfi.

Markaðsöflin voru einfaldlega sterkari en fullveldisyfirráð Seðlabankans. Eins réði vantraust á markaði meir um hrun krónunnar en ásetningur Seðlabankans að hjálpa útflutningsatvinnuvegunum með því að setja fjárhag heimila og fyrirtækja í rúst.

Gengishrunið fjölgaði verðminni krónum í bókhaldi þeirra útflutningsfyrirtækja sem nota ríkismyntina í reikningsuppgjöri. Það hefur hins vegar ekki aukið útflutning. Til þess að svo megi verða þarf grundvallarbreytingar á samkeppnisumhverfinu. Það markmið kallar á nýja viðreisnaráætlun og virkara alþjóðlegt samstarf.

Nákvæmlega þetta sá Jóhannes Nordal í byrjun viðreisnar fyrir fimmtíu árum þegar hann skrifaði „að þátttaka í Efnahagsbandalaginu mundi gefa Íslendingum ný og ómetanleg tækifæri til að byggja upp nýjar framleiðslugreinar.“ Fyrir tuttugu árum sagði hann „að nokkur ár hlytu að líða áður en Íslendingar gætu oriðið aðilar að formlegu gengissamstarfi Evrópuþjóða.“ Þessi orð segja þá sögu að í meira en hálfa öld hefur þekking og reynsla vísað veginn í þessa átt.

Veigamikil skref hafa verið stigin til að tryggja þessa hagsmuni. En því fer hins vegar fjarri að okkur hafi tekist að treysta samkeppnishæfni landsins eins og þörf er á. Það gerist ekki sjálfkrafa með aðild að Evrópusambandinu. Á hinn bóginn getur hún auðveldað okkur að ná því marki og verja þá stöðu til lengri tíma. Aðildin er þannig umgjörð um ríka pólitíska og efnahagslega hagmsuni.

Þá er spurt: En setja þeir gríðarlegu erfiðleikar sem evruríkin glíma nú við ekki strik í reikninginn? Svarið er: Jú. Við þurfum að haga viðræðunum í samræmi við þá stöðu. Þau ár sem við höfum til stefnu gefa okkur ráðrúm til þess.

Stundarerfiðleikar breyta hins vegar ekki þeim langtímahagsmunum sem eru í húfi. Jafnvel þó að allt færi á versta veg í Evrópu er blekking að halda að við stöndum þá betur að vígi ein og sér heldur en í sambandi við þær þjóðir sem starkastar eru í álfunni."

Öll ræðan Þorsteins


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband