Leita í fréttum mbl.is

Guðmundur Steingrímsson lætur móðann mása á Eyjunni

Guðmundur SteingrímssonGuðmundur Steingrímsson, þingmaður, skrifaði langan og ítarlegan pistil um stjórnmálin, efnhagsmál og fleira á Eyjuna um daginn. Guðmundur fer víða og ræðir meðal annars verðtrygginguna: "

"Ég ætla að demba mér beint í bununa hér og nú. Ástæðan fyrir því að íbúar þessa lands þurfa að greiða svo háa vexti af húsnæðislánum sínum og verðtryggingu í ofanálag er einfaldlega sú að fjármálakerfið treystir ekki krónunni. Skyldi engan undra: Hún hefur fallið í verði mörg þúsund falt frá upphafi, stundum hrunið. Stundum kippst til í stundarbrjálæði.

Út af þessu – háu vöxtunum og verðtryggingunni – þurfa Íslendingar að vinna miklu lengur fyrir eigin húsnæði heldur en aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við. Þetta er rótin að stritinu endalausa. Mig hefur lengi langað að sannreyna kenningu og lagði reyndar drög að því að skrifa um hana meistaraprófsritgerð í hagfræði. Kannski verður það einhvern tímann.

Kenningin er þessi: Stór hluti þjóðarinnar mun aldrei og hefur aldrei náð endum saman og mun ekki gera það nema eitthvað sé gert. Lánin eru of dýr. Og það sem meira er: Það má ekki hækka launin, því þá hækkar verðlagið, og þá hækka lánin. Við erum föst í gildru."

Síðan ræðir Gumundur gjaldmiðilsmálin:

"Ég sé ekki betur en að ríflega 20 milljarðar muni renna beint úr ríkiskassanum á næsta ári bara vegna krónunnar.[2] Þetta fé verður tekið af striti og púli almennings, beint af skattfé, ofan á allt annað sem krónan kostar fólk í vöxtum og verðtryggingu.[3] Þennan krónukostnað má lesa út úr fjárlögum á ári hverju, en einhvern veginn segir aldrei neinn neitt.

Hundruð milljarða liggja í gjaldeyrisvarasjóði Seðlabankans og hann er fjármagnaður með lánum. Við þurfum gjaldeyrisvarasjóð til þess að verja krónuna, til þess að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli. Kostnaðurinn er þá þessi. Ríflega 20 milljarðar á næsta ári úr ríkissjóði. Fyrir þann pening mætti gera ótrúlega margt annað.

Auk þess er krónan bundin í höftum. Höft eru annað orð yfir skerðingu á frelsi. Íslendingar búa ekki við frjálsa fjármagnsflutninga vegna þess að krónunni er ekki treystandi. Hún myndi sökkva ef hún væri sett á flot, með tilheyrandi hörmungum. Óþolið út af þessu mun bara aukast hér á landi, spái ég.

Hver er þá lausnin? Ég sagðist ætla að demba mér í bununa. Ég kýli á það: Ef Ísland gengi í Evrópusambandið, með góðum samningi sem ég held að við ættum vel að geta landað, gæti þjóðin innan mjög skamms tíma hafið gjaldmiðilssamstarf við Evrópska seðlabankann í gegnum hið svokallaða ERM II. Það er fordyri evrunnar.

Þetta myndi þýða að Íslendingar yrðu aðilar að Evrópska seðlabankanum. Evrópski seðlabankinn myndi verja gengi íslensku krónunnar innan vissra vikmarka. Smám saman yrði óþarfi að halda úti digrum íslenskum gjaldeyrisvarasjóði. Tugmilljarða vaxtagreiðslur myndu þar með heyra sögunni til. Það yrði hægt að nota þá peninga í annað.

Frelsi yrði komið á í viðskiptum, engin gjaldeyrishöft lengur. Stöðugleikinn sem þarna fengist myndi lækka vexti og gera verðtrygginguna óþarfa. Í fyrsta skipti á Íslandi yrði hægt að að beina auðæfum þjóðfélagsins, með hærri launum og betri kjörum, til almennings án þess að lánin hækkuðu og snaran hertist um hálsinn. Við yrðum laus úr gildrunni.

Auk þess gætu fyrirtæki vaxið og dafnað. Stöðugt umhverfi er þeim flestum ómetanlegt. Erlendir fjárfestar – aðrir en einstaka sérvitringar – myndu fá aukinn áhuga. Fjölbreytnin í atvinnulífinu myndi því aukast. Það yrðu góð tíðindi fyrir íbúa landsins, ekki síst ungt fólk sem er búið að mennta sig í alls kyns greinum en bíður fjölbreyttari tækifæra.

Sanngirnin og réttlætið í samfélaginu myndi aukast. Fólk myndi fremur uppskera í kjölfar erfiðis síns og skapandi hugsunar, í stað þess að horfa á fé sitt hverfa til fárra í gegnum áðurnefnda leynistíga með ófyrirsjáanlegum og tilviljanakenndu móti, aftur og aftur.

En þetta er ekki hættulaust. Þegar vextir lækka getur hið langþreytta – en þó hamingjusama skv. könnunum – stritsamfélag mögulega dottið í lánafyllerí. Það var í raun það sem gerðist í aðdraganda hrunsins eða „skakkafallanna“ eins og sumir kalla það. Ódýr erlend lán urðu þjóðinni ofviða. Sama gerðist í grundvallaratriðum í Grikklandi. Þessari hættu yrðum við að sjálfsögðu að mæta. Ekkert er alveg þrautalaust. Auk þess er yfir höfuð alltaf vandasamt að bæta kjör, án þess að þensla myndist. Það verkefni yrði þó einfaldara.

Það er til mikils að vinna. Hið nýja samfélag sem nú risi með stöðugum gjaldmiðli yrði sterkara, fjölbreyttara og réttlátara. Fyrir almenning allan yrði um fullkomin tímamót að ræða. Í fyrsta skipti á Íslandi yrði hægt að gera plön sem héldu að einhverju ráði, hægt að kaupa bíl og íbúð án þess að vera dæmdur til að vera spákaupmaður, sveittur á efri vör út af striti og óvissu.

Almennt myndi ríkja minna vesen."

Og Guðmundur heldur áfram: "Mér finnst ég heyra í skítadreifurunum.

„Til að mótmæla tækifærunum sem okkur standa til boða.“

Beinn kostnaður við þetta fyrirkomulag, þennan kerfisgalla í íslensku hagkerfi sem ég hef nú lítillega fjallað um, er æpandi. Ósanngirnin er ömurleg. Andstaðan við hugmyndir eins og þær sem ég hef nú reifað er hins vegar megn. Það getur vel verið að til séu betri hugmyndir. Ég er ein eyru. Ég vil þó segja það strax: Að taka upp gjaldmiðil annars lands, eins og Kanada – þar sem við værum t.d. ekki aðilar að seðlabanka þess lands – finnst mér mjög óráðlegt.

Eitt á ég í öllu falli erfitt með að sætta mig við, og það er að krónan sé ekki rædd, en sé látin standa eins og bleikur fíll með partíhatt í herberginu á meðan allir aðrir mögulegir hlutir eru til umfjöllunar. Alls konar kanínur úr hatti – verð ég að segja – til þess fallnar að búa til einhvers konar piss-í-skó-mekanisma fyrir íslenskt samfélag birtast líka með reglulegu millibili og verða oft kosningamál. Flatar niðurfellingar lána, afnám verðtryggingar, bygging álvera strax.

Allt svona, að mínu viti, er til þess fallið að beina sjónum frá aðalatriðinu: Sjálfur grunnurinn er skakkur. Einhverja framtíðarsýn sem felur í sér viðgerð á þessum grunni, almennilega og varanlega, verða stjórnmálamenn að bera á borð fyrir kjósendur í næstu kosningum. Ég tel þetta sigurstranglegast, svo enginn velkist í vafa: Að fara inn í ERM II. Evran kæmi svo í kjölfarið.

Fólk getur verið ósammála þessu. Þá auglýsi ég eftir betri hugmyndum. Vísa ég þá jafnframt á bug ásökunum um landráð, svik við sjálfstæðið, uppgjöf í baráttunni gegn samsæri annarra þjóða og hvað þetta heitir nú allt saman, frussið sem bunar úr dreifurunum um leið og maður minnist á ESB."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þetta er allt bull.Evrópski seðlabankinn skráir krónuna á 245kr. evran.Það þýðir 30%fall krónunar.Efnahagslíf á Íslandi,hvorki almenningu né obinberir aðila þola slíkt fall.Þar að auki fær Ísland ekki að taka upp evru fyrr en í  eftir fyrsta lagi eftir 10-15 ár eftir reglum ESB, þótt við gengum strax inn.Guðmundur er draumóramaður.Með ESB aðild er Ísland að afsala sér náttúruauðlindum og takast á hendur skuldbindingar til að bjarga gjaldþrota evrópskum bönkum og jafnvel mafíum,ítölskum jafnt sem rússneskum á Kýpur.Nei við ESB.

Sigurgeir Jónsson, 8.11.2012 kl. 21:46

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Guðmundur er meira en draumóramaður .Hann lýgur líka .Mest að sjálfum sér.Nei við ESB.

Sigurgeir Jónsson, 8.11.2012 kl. 21:49

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Og ekki er fjármálavitið mikið.Það var meira hjá föður hans sem vildi ekki sjá ESB.Nei við ESB.

Sigurgeir Jónsson, 8.11.2012 kl. 21:51

4 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Eðlilegt að ECB skrí krónuna svokölluðu þannig - miðað við núverandi stöðu.

þegar búið er að segja: Aðild að EU og upptaka Evru og þar með lausn á höftunum sem Sjallar settu á landið með bófahætti sínum - þá erum við að tala um allt annað dæmi.

Hitt er svo alveg verðug umræða hve innbyggjarar, og sleppum nú að minnast á trúarlega og genetíska fylgismenn Sjallaflokks sem er um 1/3 íbúa - að þá er athyglisvert hve stór hluti þjóðar er ófókuseraður og eltir í raun alltaf inhverja vitleysu sem áróðursfjölmiðlar Sjalla spinna upp í það og það skiptið.

Margt og sennilega flest af því sem liðið á skíadreifurunumhefur verið að fabúlera með undanfarin misseri - það skiptir engu máli. Einhver smáatriði bara sem tímbundið eru poppuð upp af fjölmiðlum sjalla til að spila með fólk.

Soldið áberandi við marga íslendinga að þeir líkt og forðast að horfa á heildarmyndina og virðast ekki hfa neinn skilning á því að öll framþróun er ferli sem getur tekið einhvern tíma. Hugsanlega geta þeir ekki horft á heildarmynd eða nenna því ekki. Og eltast frekar við einhverjar dægurflugur og fiðrildi - sem þeir ná náttúrulega aldrei.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.11.2012 kl. 22:05

5 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Guðmundur ætlar að tala af meiri einurð um ágæti aðildar en Samfylkingin hefur getað gert hingað til. Það verður flokknum hans til nokkurs frama. Íslendingar skilgreina sig tilfinningarlega sem eign krónunnar. Ekki öfugt. Það yrði því mikið andlegt áfall fyrir margan hérlendis að missa krónuna úr lífi sínu. Það væri einsog að missa fyrirvinnuna. Þræll lítur á eiganda sinn sem lífgjafa. Ég er sammála Guðmundi að lánafyllerí er fyrirsjáanleg afleiðing evru upptöku. Þess vegna er nauðsynlegt að konvertering krónunnar verð á sannvirði. Við þurfum að byrja á því að vinna okkur inn frá botninum. Það er eina leiðin til að læra á gildi peninga. Hort sem er mun krónan falla um 40% minnst á næstu árum ef við ákveðum að halda henni til frambúðar. Við munum ekki hafa efni á að reka hana á yfirverði einsog gert er um þessar mundir.

Gísli Ingvarsson, 8.11.2012 kl. 22:30

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Guðmundur Steingrímsson er flottur og veit hvað hann syngur.

Þorsteinn Briem, 9.11.2012 kl. 03:29

7 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Það er rétt hjá Gísla Ingvarssyni að lánafyllerí er fyrirsjánlegt ef íslendingar fá að taka upp evru í gegnum ESB á næstunni ef Ísland gengur í ESB.En það stendur ekki til af hálfu ESB að Ísland fái neina sérmeðferð.Í það fyrsta þá er það krafa ESB að krónan sé á floti þegar við förum inn og hún er 30-40% of hátt skráð í það minnsta miðað við það kaupgengi sem er á henni á svörtum markaði og hjá Seðlabanka Evrópu.Síðan eru skilmálar ESB um upptöku evru varðandi ríkisfjármál þess ríkis sem sækir um upptöku evru.Það eru í það minnsta 10-15 ár þangað til Ísland getur uppfyllt þau.í það minnsta meðan þau eru við völd sem Guðmundur styður.Guðmundur lýgur vísvitandi, eða vegna heimsku.Nei við ESB.

Sigurgeir Jónsson, 9.11.2012 kl. 15:21

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Greinargerð Más Guðmundssonar seðlabankastjóra 17. maí í fyrra um upptöku evru hérlendis:

"Til þess að aðildarríki [Evrópusambandsins] sé heimilt að taka upp evru verður að uppfylla ákveðin efnahagsleg og fjármálaleg skilyrði, svokölluð Maastricht-skilyrði:

Ársverðbólga má ekki vera meira en 1,5% yfir meðalverðbólgu í þeim þremur aðildarríkjum sem standa best að vígi varðandi verðbólgu.

Langtímavextir mega ekki vera hærri en 2% yfir meðalvöxtum í þeim þremur aðildar-ríkjum sem standa best með tilliti til verðstöðugleika.

Halli á rekstri hins opinbera má ekki vera meiri en 3% af landsframleiðslu.

Skuldir hins opinbera mega ekki vera hærri en 60% af landsframleiðslu nema hægt verði að sýna fram á fullnægjandi lækkunarferil að því markmiði.

Umsóknarríkið þarf að hafa tekið þátt í gengissamstarfi Evrópu, ERM II, í a.m.k. tvö ár án þess að rjúfa tilskilin gengisvikmörk eða fella miðgengið gagnvart evru (með þátttöku í ERM II aðstoðar Seðlabanki Evrópu við að halda gengi gjaldmiðilsins innan ±15% fráviks frá ákveðnu miðgengi við evru)."

"Skuldir hins opinbera mega ekki vera yfir 60% af landsframleiðslu samkvæmt Maastricht-skilyrðunum nema hægt verði að sýna fram á fullnægjandi lækkunarferil að því markmiði.

Mikilvægt er að halda á lofti að skuldastaðan er lækkandi og sjálfbær og að staða lífeyrisskuldbindinga til framtíðar er betri en víða í aðildarríkjunum.

Ef sýnt er fram á fullnægjandi lækkunarferil ætti skuldastaða hins opinbera ekki að seinka upptöku evru. Halda þarf til haga þróun opinberra skulda á Íslandi og að peningalegar eignir eru meiri en í flestum öðrum Evrópuríkjum."

"Gjaldeyrishöft koma óhjákvæmilega til umfjöllunar í samningaviðræðum þótt þau falli ekki beint undir þennan kafla. Höftin þarf að afnema áður en til inngöngu kemur. Ræða þarf hugsanlega aðstoð ESB við að komast út úr þeim."

"Í 126. gr. sáttmálans og viðaukum við hann er kveðið á um að halli á rekstri hins opinbera megi ekki vera umfram 3% af landsframleiðslu.

Tvær undantekningar eru þó á þeirri reglu. Annars vegar ef hallinn hefur lækkað og sé nærri 3% af VLF. Hins vegar ef umframhallinn er lítill, vegna sérstakra aðstæðna svo sem mikils samdráttar í hagkerfinu, og tímabundinn.

Auk þess mega skuldir hins opinbera ekki vera umfram 60% af landsframleiðslu. Gerð er undantekning frá því ef skuldirnar fara lækkandi og nálgast skuldahámarkið nægilega hratt.

Skuldir hins opinbera á Íslandi verða líklega innan við 100% af landsframleiðslu í árslok 2011. Stefnt er að því að þær fari síðan hratt lækkandi og verði um 80% af landsframleiðslu í árslok 2013.

Hægt væri að lækka skuldirnar umfram það nokkuð hratt með sölu eigna sem ríkissjóður hefur eignast við endurfjármögnun bankakerfisins og minnkun gjaldeyrisforðans þegar fram líða stundir.

Innan Evrópusambandsins er nú unnið að breytingum á þessum reglum, m.a. vegna þeirrar auknu athygli sem skuldastaða hins opinbera hefur fengið í núverandi fjármálakreppu."

"Meðal þeirra tillagna sem komið hafa fram er að skilyrða ríki með skuldir umfram 60% af VLF til þess að lækka skuldir sínar árlega um 1/20 af skuldum yfir 60% yfir þriggja ára tímabil.

Ef framhald verður á þeim afgangi af rekstri hins opinbera sem stefnt er að árið 2013 mun Ísland eiga í litlum vandræðum með að uppfylla þær kröfur."

"Við mat á skuldastöðu hins opinbera þarf að líta til þess að hreinar skuldir voru í lok árs 2010 um 69% af VLF. Þá eru peningalegar eignir ríkissjóðs meiri en t.d. í þeim ríkjum sem gengu í sambandið árið 2004.

Lífeyrissjóðir standa mun betur með tilliti til framtíðarskuldbindinga en gerist í mörgum Evrópuríkjum. Skuldastaða Íslands frá þessum sjónarhóli er því allsterk og síst lakari en í mörgum aðildarríkjum Evrópusambandsins."

Þorsteinn Briem, 9.11.2012 kl. 16:18

9 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Már Guðmundsson hefur orðið uppvís að því að ljúga til um skuldastöðu og greiðslustöðu Íslands á undanförnum mánuðum.Allt brölt hans við að afnema gjaldeyrishöftin og reyna að koma Íslandi inn í ESB, hafa skilað þeim árangri einum að Íslendingar, sem hafa náð að sanka að sér gjaldeyrir erlendis fá sérmeðferð hjá Seðlabankanum við kaup á krónum.Sumt af þessu fé hefur uppruna sem ekki hefur verið hægt að fá staðfestan.Hann er siðspilltur, og mun koma Íslandi í nýtt hrun ef hann verður ekki rekinn.Nei við ESB

Sigurgeir Jónsson, 9.11.2012 kl. 17:12

10 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Allt brölt Más við að afnema gjaldeyrishöftin með mismunun á fólki, sem er ekkert annað en stjórnarskrárbrot, kemur til af því einu að hann ætlar að þræla Íslandi inn í ESB sama hvað það kostar.En hann hefur þrátt fyrir lygar ekki lagt í að reyna að ljúga því upp að Ísland geti farið inn í ESB með gjaldeyrishöft.En það gerir Guðmundur Steingrímsson.Nei við ESB.

Sigurgeir Jónsson, 9.11.2012 kl. 17:20

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Nefndarálit meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis um aðildarumsókn að Evrópusambandinu:

Gjaldmiðilsmál.


"Viðkomandi ríki þarf að hafa verið í gengissamstarfi Evrópu (Exchange Rate Mechanism, ERM II) í að minnsta kosti tvö ár án gengisfellingar og innan vikmarka, sem nú eru 15%."

"Verði tillagan samþykkt og Ísland sækir um aðild að Evrópusambandinu  er aðild að ERM II, sem sett var á fót til að auðvelda ríkjum að undirbúa upptöku evru og ná stöðugleika í efnahagsmálum, kostur í stöðunni innan fárra mánaða frá aðild.

Á því tímabili sem aðildarríki er í ERM II er gengi gjaldmiðilsins fest gagnvart evru og seðlabanki aðildarríkis og evrópski seðlabankinn sameinast um að verja þjóðargjaldmiðilinn gegn sveiflum."

"Meiri hlutinn vill jafnframt geta þess í ljósi mikillar skuldsetningar ríkissjóðs að skuldaskilyrði Maastricht-sáttmálans hafa ekki komið í veg fyrir að ríki með skuldastöðu yfir 60% af vergri landsframleiðslu hafi getað tekið upp evru, enda gerir sáttmáli Evrópusambandsins ráð fyrir að raunhæf áætlun til lækkunar skulda umfram það mark sé fullnægjandi."

Þorsteinn Briem, 9.11.2012 kl. 17:54

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Slóvenía fékk aðild að Evrópusambandinu 1. maí 2004 og gengissamstarfi Evrópu, ERM II, tveimur mánuðum síðar, með möguleika á ±15% frávikum frá gengi evrunnar, og tók upp evru að tveimur og hálfu ári liðnu, í ársbyrjun 2007.

Economy of Slovenia

Þorsteinn Briem, 9.11.2012 kl. 17:56

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gengi íslensku krónunnar myndi falla mikið á skömmum tíma, vörur yrðu mun dýrari og verðbólgan ykist mikið EF gjaldeyrishöftunum hér yrði aflétt í einu vetfangi.

Það stendur hins vegar ekki til, enda væri þá löngu búið að því.

Gengi íslensku krónunnar er nú STÝRT af Seðlabanka Íslands með gjaldeyrishöftum og þeim er aflétt SMÁM SAMAN.

EF
gengi íslensku krónunnar myndi hins vegar HÆKKA mikið á skömmum tíma frá því sem nú er væri hætta á aukinni verðbólgu vegna aukinnar eftirspurnar.

Hins vegar er nú líklegra að gengið LÆKKI eitthvað á næstunni, frekar en að það hækki.

Gengi krónunnar verður bundið við gengi evrunnar í ERM II MEÐ AÐSTOÐ Seðlabanka Evrópu og um tveimur árum síðar verður tekin hér upp evra í stað krónunnar.

Laun hér á Íslandi verða þá greidd í evrum og verð á vörum og þjónustu verður að sjálfsögðu einnig í evrum.

Íslendingar fá þá lán á MUN LÆGRI VÖXTUM en áður og VERÐBÓLGAN hér á Íslandi verður MUN MINNI en hún hefur verið.

Skuldum verður breytt úr krónum í evrur og að sjálfsögðu þarf áfram að greiða af þeim.

Einstaklingar og fyrirtæki hér á Íslandi skulda nú gríðarlegar fjárhæðir.

Bankar hér munu lána einstaklingum í samræmi við tekjur þeirra í evrum og menn fá ekkert frekar lán í evrum en íslenskum krónum.

Hins vegar verður mun auðveldara fyrir Íslendinga að greiða af lánum í evrum EF þeir hafa einnig tekjur í evrum.

Þorsteinn Briem, 9.11.2012 kl. 18:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband