Leita í fréttum mbl.is

Sigurlaug Anna: Er um eitthvað að semja? - Auðvitað eru sérlausnir!

Sigurlaug Anna JóhannsdóttirSigurlaug Anna Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna Já-Ísland, skrifaði grein um ESB-málið í Morgunblaðið þann 13.febrúar. Greinin birtist hér öll með leyfi höfundar: Er um eitthvað að semja?  - Auðvitað eru sérlausnir!

Á fundi með formönnum stjórnmálaflokkanna  þann 4. febrúar sl. um framtíð aðildarviðræðna við ESB var Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Bjarna Benediktssyni tíðrætt um að það væri ekkert til þess að semja um við Evrópusambandið því sambandið byggði á sáttmálum sem ekki væri vikið frá.  Fyrirspyrjendur spurðu hvernig þeir gætu  haldið þessu fram og komu með nokkur dæmi um sérlausnir og undanþágur sem vitað er að samið hefur verið um milli ESB og ýmissa aðildarríkja.  Þeir Sigmundur og Bjarni vildu ekki gera mikið úr þeim og sagði Bjarni m.a. að þau dæmi sem nefnd voru væru ekki af þeirri stærðargráðu sem Ísland þyrfti á að halda og vörðuðu ekki slíka hagsmuni eins og sjávarútvegurinn er fyrir okkur Íslendingum.

Af þessu tilefni fletti ég upp á skýrslu Evrópunefndar Forsætisráðuneytisins skipaða af Davíð Oddssyni árið 2004.  Skýrslan kom út árið 2007 og ber heitið Tengsl Íslands og Evrópusambandsins.  Hana er að finna á vef ráðuneytisins en í henni eru nefnd fjölmörg dæmi um sérlausnir og undanþágur sem ESB hefur samið um í aðildarviðræðum.

Hér eru nokkur þeirra:

·         Þegar Grikkir gengu inn í Evrópusambandið var sérákvæði um bómullarframleiðslu sett inn í aðildarsamning þeirra, en bómullarrækt var mjög mikilvæg fyrir grískt efnahagslíf. Þótti ljóst að landbúnaðarstefnan gæti að óbreyttu stefnt þessum mikilvæga atvinnuvegi í hættu og tókst Grikkjum því að fá sérstöðu bómullarræktunar viðurkennda í aðildarsamningum sínum. Hið sama gerðist þegar Spánverjar og Portúgalar gengu í ESB og þessi ákvæði hafa nú almennt gildi innan landbúnaðarstefnunnar.

·         Malta og Lettland sömdu einnig um tilteknar sérlausnir í sjávarútvegi í aðildarsamningum sínum, sem fela í sér sérstakt stjórnunarsvæði fiskveiða á tilteknum svæðum, en þær lausnir byggja á verndunarsjónarmiðum og fela ekki í sér undanþágu frá reglunni um jafnan aðgang.

·         Eitt þekktasta dæmið um sérlausn er að finna í aðildarsamningi Danmerkur árið 1973, en samkvæmt henni mega Danir viðhalda löggjöf sinni um kaup á sumarhúsum í Danmörku. Í þeirri löggjöf felst m.a. að aðeins þeir sem búsettir hafa verið í Danmörku í a.m.k. fimm ár mega kaupa sumarhús í Danmörku, en þó er hægt að sækja um undanþágu frá því skilyrði til dómsmálaráðherra Danmerkur.

·         Malta samdi um svipaða sérlausn í aðildarsamningi sínum, en samkvæmt bókun við aðildarsamninginn má Malta viðhalda löggjöf sinni um kaup á húseignum á Möltu og takmarka heimildir þeirra sem ekki hafa búið á Möltu í a.m.k. fimm ár til að eignast fleiri en eina húseign á eyjunni. Rökin fyrir þessari bókun eru m.a. að takmarkaður fjöldi húseigna, sem og takmarkað landrými fyrir nýbyggingar, sé til staðar á Möltu og því sé nauðsynlegt að tryggja að nægilegt landrými sé til staðar fyrir búsetuþróun núverandi íbúa.

·         Í aðildarsamningi Finnlands og Svíþjóðar 1994 var fundin sérlausn sem felst í því að samið var um að Finnum og Svíum yrði heimilt að veita sérstaka styrki vegna landbúnaðar á norðurslóðum, þ.e. norðan við 62. breiddargráðu. Sú lausn felur í sér að þeir mega sjálfir styrkja landbúnað sinn sem nemur 35% umfram önnur aðildarlönd. Í aðildarsamningi Finnlands er einnig ákvæði um að styrkja megi svæði sem eiga í alvarlegum erfiðleikum með aðlögun að hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB og Finnar hafa nýtt það ákvæði til að semja við ESB um sérstuðning fyrir Suður-Finnland.

·         Stuðningur við harðbýl svæði (Less Favoured Area, LFA) varð til við inngöngu Bretlands og Írlands í ESB, en þessi ríki höfðu áhyggjur af hálandalandbúnaði sínum og því var samið um sérstakan harðbýlisstuðning til að tryggja að landbúnaðurinn gæti staðið af sér samkeppni við frjósamari svæði Evrópu. Finnland, Svíþjóð og Austurríki sömdu einnig sérstaklega um þannig stuðning í aðildarsamningi sínum og sem dæmi má nefna að 85% Finnlands var skilgreint sem harðbýlt svæði.  Í aðildarsamningi Möltu er ákvæði um að Malta verði skilgreint sem harðbýlt svæði, auk þess sem í sérstakri yfirlýsingu er fjallað um eyjuna Gozo og m.a. tiltekið að hún verði flokkuð sérstaklega með tilliti til styrkja vegna sérstakra aðstæðna á eyjunni.

Mörg fleiri dæmi eru tekin í skýrslunni.  Ég legg til að þeir félagar, og allir áhugasamir, sæki hana á netinu og lesi sér betur til um málið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Meginrök Evrópusinna sem snúa að sjávarútvegsmálum er að við inngöngu í Evrópusambandið fái Íslendingar sérlausn og haldi öllum sínum fiski og fiskimiðum innan 200sjómílna alfarið fyrir sig. Þennan einkaaðgang eigum fáum við í krafti stöðugleikareglunnar frá 1983 sem mun þá væntanlega jafnframt tryggja okkur til frambúðar. Evrópusinnar telja að með þessari reglu séu öll vandamál úr vegi fyrir því að afhenda Evrópusambandinu Íslensku fiskveiðiauðlindina til ævarandi eignar og ráðstöfunnar.

Við nánari skoðun á ákvæðinu um stöðugleikareglunnar þá kemur strax í ljós að reglan hefur engin lagarök í stjórnarskrá sambandsins heldur er hún afleidd í reglugerð 2371/2002. Hægt er að breyta reglunni í krafti meirihlutavalds framkvæmdarstjórnarinnar þegar þurfa þykir.

Í grænubók um fiskveiðistefnu Evrópusambandsins árið 2002 þá koma fram efasemdir um ágæti stöðugleikareglunnar enda telur Evrópusambandið að um beina viðskiptahindrun að ræða sem skerðir hagkvæmni fiskiðnaðar í Evrópusambandinu sem heild, því verði að afnema hana þegar búið verður að koma böndum á ofveiði á fiskistofnum sambandsins.  Ein af hugmyndum höfunda grænubókar 2002 er að komið verði á frjálsum viðskiptum með kvóta þar sem útgerðarmenn í einu landi geta selt kvóta sinn til útgerðar í öðru landi án nokkurra kvaða eða skilyrða. Hugmyndin byggir á þeirri hugmyndafræði að Evrópa sé ein heild og hafi enga innbyrðis skiptingu. Þessu má líkja við að skip frá Eskifirði veiðir loðnu við Reykjanes enda er Ísland ein heild og við deilum auðlindinni á milli fjórðunga án nokkurra skilyrða, útgerðir geta skiptast á kvótum milli byggðarlaga eftir því sem hentar þeim best burtséð frá áhrifum á stök samfélög innanlands enda séu hagsmunum heildarinna ekki ógnað.

Í grænbók 2009 er en og aftur gerð athugasemd við stöðugleikaákvæðið og er vísað til reynslunnar af ákvæðinu síðasta aldarfjórðung sem sögð er slæm. Stöðugleikareglan er talin sjálfstætt vandamál, enda byggir hún á þeirri hugmyndafræði að lífríki í sjónum sé óbreytanlegt. Tekið er fram að fiskveiðiþjóðir innan Evrópusambandsins geti ekki gengið að því sem vísu að þau haldi sínum úthlutaða kvóta í krafti stöðugleikareglunnar til frambúðar. Sérstaklega er tekið fram að stöðugleikareglan er farin að bjaga raunverulega stöðu og útbreiðslu fiskistofna sem leiði til sífellt aukinnar óhagkvæmni í veiðum og vinnslu. Dæmi um þetta er að land fái úthlutaðan kvóta, byggðan á stöðugleikaákvæðinu frá 1983, en nái ekki að veiða nema brot af úthlutuninni á meðan annað land sem er með mun minni kvóta veiðir mun meira en kvótinn segi til um og verði því að kasta fiskinum aftur í hafið eða koma með hann að landi og fá refsingu að launum. Skýrasta dæmið sem snýr að Íslendingum er sú breyting sem hefur orðið á hegðum makríls frá  2008 en þá hóf makrílinn fæðugöngur í stórum stíl inn í Íslenska efnahagslögsögu. Viðbrögðin létu ekki á sér standa en þjóðir sem töldu sig „eiga“ makrílinn, vegna stöðugleikareglunnar, hótuðu Íslendingum viðskiptahindrunum á Íslenska hagsmuni í krafti Evrópusambandsins ef við létu þeim ekki í té lífmassann okkar möglunarlaust. Á sama tíma og Evrópuþjóðir hóta Íslandi eldi og brennisteini ef þeir láti ekki af veiðum á makríl þá fagna þeir komu Hafgöltsins sem sækir nú inn í Írskan sjó í miklu magni vegna breytinga á fæðugöngum, sannkallaður happafengur það fyrir Íra.

Vert er að geta þess að fiskveiðiauðlindir eru einu auðlindirnar sem verða að sameign sambandsins við það að þjóð gengur í Evrópusambandið, þetta ákvæði er mjög skýrt  í stjórnarskrá sambandsins(Lissabon-sáttmálinn). Tilurð þessa ákvæðis er að fyrir samninga við Norðmenn 1970 þá setti ráð Evrópusambandsins inn þessa reglu að fiskistofnar væru sameign bandalagsins, kölluðu það „frjálsan aðgang“. Þetta gerðu þeir fáum klukkustundum áður en formlegir samningar hæfust. Þessi tilraun til yfirtöku á auðlind Norðmanna er megin ástæðan fyrir að norska þjóðin hafnaði samningnum. Frá því samningum lauk 1972 með inngöngu Dana, Breta og Íra hefur engin alvöru fiskveiðiþjóð gengið í sambandið eða í rúm 40 ár. Spánverjar gengu að vísu í sambandið 1986 en þeirra fiskveiðar byggja að mestu á afráni frá öðrum þjóðum á öllum heimshöfum.

Sú hugmyndafræði að Ísland fái varanlega sérlausn sjávarútvegsmála út á ákvæðið um hlutfallslegan stöðugleika er tálsýn sem hefur ekki einu sinni traustan grundvöll í sáttmálum sambandsins. Stöðugleikareglan er sjálfstætt vandamál sem fyrir marga hluta sakir verður afnumin þegar tækifæri geftst. Þegar það gerist mun rödd Íslands sín einskis enda er ekkert neitunarvald á bak við þá rödd.

Eggert Sigurbergsson, 18.2.2013 kl. 09:50

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Sigurlaug Anna. Segð þú mér eða þið ESB sinnar. Hvað er að hér á Ísland sem réttlætir að gangast undir lög ESB. Þið gerið ykkur grein að gangast undir lög annars lands er að gefa sjálfstæði sitt. Það getur engin verið svo  heimsk eða heimskur að trúa því að mega sjálf stjórna sér  samkvæmt lögun annar ríkis sé sjálfstæði.  

Valdimar Samúelsson, 18.2.2013 kl. 19:10

3 Smámynd: Ólafur Ingi Brandsson

Það sem kemur oft upp í umræðum um ESB og þessar svokölluðu sértækar lausnir, það er því alveg vert að benda á að malta er með 25 sjómílna landhelgi, og eru lengdar-takmörk sett á báta, einnig er takmörkun á vélarstærð.

jafnframt eru aðrar takmarkanir eins og afmörkuð svæði fyrir troll og línuveiðar.

Og öll ósköpin sem er verið að bera Íslenskan sjávarútveg við er land með 25 sjómílna landhelgi sem veiðir minna en 2000 tonn á ári.

væntanlega opnast norður-leiðin á næstu árum og er ísland þá í gífulega góðri stöðu, jafnframt eru einhverjar líkur að það sé einhver olía á drekasvæðinu sem vonandi verður í vinnanlegu magni.

Ég er bara ekki að sjá kostina við að gefa sjálfstæði ísland til ESB á silfurfati, þegar framtíðin næstu ár og áratugi geti verið mesta hagsældartímabil fyrir ísland frá upphafi.

Og það bull sem er líka oft í umræðunni er að við séum svo lítil hérna úti í hafi að það væri voðinn vís ef ísland færi að "einangra sig".

Staðreyndin er bara sú að við erum með aðgang að innra markaðssvæði ESB í gegnum EES.  og ESB telur í kringum 500milljónir manna en heimurinn er með í kringum 7000milljónir.

Mér er alveg ómögulega fært að sjá "KOSTINA". 

Ólafur Ingi Brandsson, 19.2.2013 kl. 02:07

4 Smámynd: Ólafur Ingi Brandsson

Afli í Lettlandi 2010   -  164.819 tonn

Ólafur Ingi Brandsson, 19.2.2013 kl. 02:30

5 Smámynd: Ólafur Ingi Brandsson

og leyfilegur afli 2010/2011  eru 486.400 tonn hér heima.

Ólafur Ingi Brandsson, 19.2.2013 kl. 02:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband