Leita í fréttum mbl.is

Tvær áhugaverðar greinar

FréttablaðiðVert er að vekja athygli á tveimur greinum í Fréttablaðinu í dag. Í þeirri fyrri spyr Ragnar Hall, lögmaður hvort eigi að "hjakka í sama farinu" og á þar við gjaldmiðilsmálin og þörfina á umræðum um þau á komandi landsfundi Sjálfstæðisflokksins:

"Vissulega hafa verið erfiðleikar í ýmsum ríkjum Evrópusambandsins, og ekki er búið að leysa þau mál öll. Halda stjórnmálamenn hér uppi á Íslandi að við getum leitt hjá okkur vandann á helstu markaðssvæðum okkar með því að halda dauðahaldi í krónuna og „verja" hana með gjaldeyrishöftum?

Eitt af gullkornum áranna fyrir hrun var staðhæfingin um að galdurinn á bak við íslenska efnahagsundrið væri sveigjanleiki gjaldmiðilsins. Við héldum uppi fáránlega „sterkri" krónu með því að bjóða hærri vexti en tíðkuðust nokkurs staðar annars staðar. Afleiðingar af þessu þekkja allir – skuldarar vísitölutryggðra húsnæðislána þó sennilega betur en margir aðrir. Í dag liggur „styrkur" krónunnar í því að löggjöf um gjaldeyrishöft kemur í veg fyrir rétta skráningu hennar.

Ástæða er til að hvetja landsfundarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins til þess að taka þessi mál til alvarlegri skoðunar en gert hefur verið innan flokksins til þessa. Þegar öllu er á botninn hvolft er ákvörðun um framtíðargjaldmiðil í landinu langmikilvægasta málið á dagskrá íslenskra stjórnmála nú um stundir."

Í þeirri seinni veltir hagfræðingurinn Þröstur Ólafsson meðal annars fyrir sér hlutverkum hjartans og heilans í Evrópumálunum: "Það mun hafa verið Matthías Johannessen sem svaraði spurningu um afstöðu sína til ESB á þann veg að hjartað segði nei en heilinn já. Þetta svar er kjarninn í viðhorfi margra Íslendinga í þessu máli. Hugsunin sér kostina og greinir gallana en hjartað hýsir óvissuna og óttann. Þessi tvíhyggja milli mannsandans og hjartans er það andskot sem mannskepnan verður að rogast með og velja á milli. Þessi átök leiða af sér viðvarandi óttatilfinningu. Við rekjum mörg stórátök mannkynssögunnar til þess að annar hvor helftin fór hamförum."

Síðan segir Þröstur: "Þessi átök milli heilans og hjartans, hugsunar og tilfinninga, geisa nú hér á landi. Tvær átakafylkingar skírskota til andstæðra hughrifa í baráttu um skoðanir landsmanna um aðildina að ESB. Annars vegar eru það þeir sem reyna að beita rökum skynseminnar fyrir því að aukin velferð okkar og velgengni í framtíð sé háð því að við verðum aðilar að ESB. Reynt er að leggja skynsemismat á kosti og vankanta. Nýta sér m.a. reynslu annarra þjóða. Hins vegar eru það þeir sem skírskota með málflutningi sínum til óttans, til hjartans. Í átökunum um uppkastið 1908 var sagt að aðferð andstæðinga þess væri að „vekja upp drauga, skapa grýlur, - þyrla upp ryki og reyna á allar lundir að vekja hræðslu og tortryggni … ásamt gömlu vopnunum: skrökinu, hártogunum og blekkingum." Í átökunum nú er búin til hrollvekja þar sem flest eftirsóknarverð gæði hérlendis verða færð útlendingum. Þjóðinni er sagt að niðurstaða úr samningaviðræðunum sé fyrir fram ákveðin og hún sé ekki glæsileg; íslenskur landbúnaður leggist af, fiskimiðin afhent útlendingum og þjóðin verði rænd fullveldinu, sjálfu fjöregginu. Slík framtíðarsýn vekur að sjálfsögðu ótta og geðshræringu, eins og að er stefnt. Gagnvart þessari nístandi ógnvekju á tilfinningasnautt skynsemistal undir högg að sækja."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þröstur kom að byggingu Hörpu mað þeim Björgólfum.Ríkiskapitalisti á jötu.Nei við ESB.

Sigurgeir Jónsson, 19.2.2013 kl. 21:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband