Leita í fréttum mbl.is

Mikið af greinum.....nóg að lesa!

Sema Erla SerdarSema Erla Serdar, verkefnastjóri hjá Já-Ísland, skrifar góða hugleiðingu á DV-bloggið um Evrópumálin og segir þar meðal annars: "Umræðan um Evrópusambandið og mögulega aðild Íslands að ESB getur oft á tíðum verið ansi áhugaverð og skemmtileg. Að sama skapi getur hún stundum verið á villigötum, fullyrðingum er haldið fram sem heilögum sannleika, fullyrðingum sem eiga ekki við nein rök að styðjast.

Umræðan um sérlausnir og undanþágur í samningaviðræðum við Evrópusambandið er dæmi um það síðarnefnda. Það eru ansi margir sem halda því fram að það sé ekkert um að semja, að engar sérlausnir séu í boði, og því vitum við alveg „hvað við erum að kalla yfir okkur." Lesið bara lögin, segja aðrir.Allir, sem hins vegar gefa sér tíma til þess að kynna sér málið, munu vera fljótir að komast að annarri niðurstöðu.

Það virðist vera nokkuð almennt að í aðildarsamningum sé samið um tímabundnar undanþágur, eða aðlögunarfresti, til dæmis frest til þess að innleiða tiltekna löggjöf ESB eða til þess að afnema reglur sem eru ekki í samræmi við stofnsáttmála eða löggjöf ESB. Sem dæmi má nefna að í samningaviðræðunum fyrir stækkun ESB árið 2004, þegar tíu ríki Mið- og Austur-Evrópu gengu í sambandið, var samið um tímabundin aðlögunartímabil í fjöldamörgum tilvikum. Oftast var þar um að ræða 3-7 ára aðlögunartímabil, en einnig voru dæmi um allt upp í 10-13 ára aðlögunartímabil.

Það er nauðsynlegt að skilja að af hálfu ESB er lögð áhersla á að engar varanlegar undanþágur séu veittar í aðildarsamningum enda er markmiðið að sem mest lagalegt samræmi ríki innan ESB, annars væri erfitt fyrir sambandið að ganga upp í þeirri mynd sem það starfar, en ESB byggir á sameiginlegri löggjöf aðildarríkjanna.

Hins vegar er líka nauðsynlegt að skilja að ef upp koma vandamál vegna ákveðinnar sérstöðu eða sérstakra aðstæðna í umsóknarríki er reynt að leysa málið með því að semja um tilteknar afmarkaðar sérlausnir, frekar en varanlegar undanþágur, en sem dæmi um varanlega undanþágu má nefna að Svíar eru undanþegnir almennu banni í regluverki ESB við viðskiptum með munntóbak (sæ. snus). Undanþágan kemur fram í viðauka við aðildarsamninginn þar sem vísað er í viðkomandi tilskipun (viðauki XV). Erfitt myndi reynast að finna dæmi um að ríki hafi óskað eftir ákveðinni sérlausn er varðar sérstakar aðstæður eða mikla þjóðarhagsmuni, og ekki fengið."

Í Fréttablaðinu í dag, 26.mars, er einnig að finna þrjár greinar, sem allar koma inn á Evrópumálin, en það eru Össur Skarphéðinsson, Bolli Héðinsson og Sighvatur Björgvinsson sem skrifa. Hinn síðastnefndi segir m.a.:

"Í síðustu tuttugu ár hafa þjarkarar þjarkað um ESB. Skipst á fullyrðingum, sem stöðugt verða groddalegri. Viðhaft stóryrðin – „þjóðníðingar og landráðamenn" – og kjaftbrúk. Orðið svo heitt í hamsi að megna ekki að koma frá sér á blogginu heilli setningu á óbrjálaðri íslensku. Sem sé: Náð toppnum.

Svo stóð til að láta veruleikann mæta á staðinn. Það ákvað Alþingi. Láta veruleikann skera úr um, hvort ESB-aðild myndi neyða æsku landsins inn í evrópskan her (sem raunar er ekki til) og annað álíka. En það nær auðvitað engri átt. Þá gæti þjóðin tapað þjarkinu sínu. Misst af því að geta haldið áfram að þjarka í a.m.k. önnur tuttugu ár til viðbótar. Góðir menn sjá að það má ekki gerast. Það má ekki hafa þjarkið af þjóðinni!
Mikið er það nú ánægjulegt að flokkar hafa tekið ákvörðun um að leyfa þjóðinni að halda áfram að þjarka um ESB. Koma í veg fyrir að veruleikinn sé kvaddur á vettvang. Mikið held ég að mörgum sé létt. Loksins þjóð með trygga framtíð. Meira að segja bannað að miðla upplýsingum um ESB. Loka skal Evrópustofu. Skella barasta í lás. Reka fólkið heim. Þjóðinni verður fært þjarkið sitt aftur. Hvílík unun! Hvílíkt öryggi! Hvílík framtíðarsýn! Forystuflokkurinn, sem kennir sig við þjóðarsjálfstæðið, hefur talað."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það var enginn að tala um að "banna að miðla upplýsingum um ESB", heldur að loka 230 millj. króna áróðursbatteríi Evrópusambandsins á Íslandi, í þessu tveimur skrifstofuhúsum, á Akureyri og í Reykjavík. Sendiherrann Summa hefur ennfremur brotið hér Vínarsamninginn um skyldur sendiherra, eins og Tómas Ingi Olrich hefur bent á. Meðan Alþingi úthlutar 70 millj. á nokkrum árum JAFNT til NEI- og já-hreyfinga gagnvart inntöku Íslands í Esb., þá er yfirmáta ósvífið, að Evrópusambandið bæti við 230 milljónum hér í eigin þágu, auk allra boðsferðanna í lúxusdvöl í Brussel og allra IPA-styrkjanna!

Sighvatur Björgvinsson er greinilega smeykur við, að svo margt hafi vitnazt slæmt um hans heittelskaða yfirþjóðríkjasamband á síðustu árum, að ekki dugi, að Esb-undirróðursmenn hérlendis njóti jafnræðis á við fullveldissinna, heldur þurfi þeir fyrrnefndu á risastórum björgunarhring að halda frá Brussel.

Eitthvað hefði hann nú sagt við því, ef Bandaríkjamenn hefðu eytt hér sama fé til að agitera fyrir því, að Ísland yrði 51. ríki þeirra. (Þar hefðum við þó fengið viðbótarstjörnu í fánann, en engan í Brusselbandalaginu!)

Ég mæli ekki með innlimun í neitt stórveldi, en í NAFTA-viðskiptabandalaginu fengjum við þó að halda fullu löggjafarvaldi, ólíkt Evrópusambandsfyrirkomulaginu, sem gefur Brusselvaldinu æðstu völd og myndi láta okkar lög víkja, í hvert sinn sem þau rækjust á Esb-lög!

Og Sighvatur ætti ekki að skrifa sig upp í svona æsing um þessi mál.

Jón Valur Jensson, 27.3.2013 kl. 03:11

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Bendi líka á grein mína í Mogganum í gær: Frambjóðendur fái umboð til að afturkalla umsókn um innlimun í ESB, þar fjalla ég sérstaklega um hið ömurlega litla, einskis nýta atkvæðavægi sem við fengjum (við Esb-inntöku) innan löggjafarstofnana Evrópusambandsins og ber það saman við þá hliðstæðu, sem Íslendingum var boðin á efri árum Jóns forseta Sigurðssonar og hann hafnaði algerlega og það með dagljósum rökum; ennfremur svara ég þar Gunnari Hólmsteini.

Jón Valur Jensson, 27.3.2013 kl. 03:15

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Bjarni Harðarson á fína grein í Mbl. í dag um hina rangnefndu "Evrópustofu" og styrkjaglásina sem Evrópusambandið er að bera hér á borð, meðan það vanrækir hjálp við að koma atvinnulífi í gang í kreppuþjáðum löndum Suður-Evrópu. Þessum styrkjum má líkja við, að verið sé að bera fé á menn, og nota bene, þeir eru aðeins boðnir, meðan við erum EKKI komin inn í Esb., rétt eins og sælgætið utan á skógarhúsinu í ævintýri Hans og Grétu (góð samlíking þar hjá hinum ritfæra Bjarna.)

Jón Valur Jensson, 27.3.2013 kl. 10:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband