Leita í fréttum mbl.is

Um sjávarútveginn og ESB úr skýrslu Evrópunefndar

Okkur í Evrópusamtökunum langar til að vekja athygli á þeim hluta af áliti fulltrúa Samfylkingarinnar í skýrslu Evrópunefndar sem fjallar um sjávarútvegsmál og Evrópusambandið. Þar kemur fram að við Íslendingar þurfum engar áhyggjur að hafa af sjávarútveginum við inngöngu í Evrópusambandið, og að engin undanþága sé nauðsynleg fyrir Ísland til að ganga þar inn. Eins og segir í álitinu; Ein mikilvæg niðurstaða þessarar skýrslu er að samkvæmt núverandi reglum ESB munu veiðiheimildir í íslenskri lögsögu falla í hlut íslendinga, með hliðsjón af reglunni um hlutfallslegan stöðugleika sem byggist á sögulegri veiðireynslu. Sú regla hefur verið og er enn sá grunnur sem sameiginlega sjávarútvegsstefnan byggir á. Við vinnu skýrslunnar kom ekkert í ljós sem bendir til að það breytist.

Ekki er síður mikilvægt úr rannsókn nefndarinnar að enga undanþágu þarf til að tryggja að ísland hefði forræði á úthlutun kvóta í íslenskri lögsögu. Söguleg veiðireynsla annarra þjóða miðast „við nýlegt tímabil sem gæfi eðlilega mynd af veiðum undanfarin ár.“ Þar sem ekkert ríkja Evrópusambandsins hefur veitt svo neinu nemur í íslenskri landhelgi undanfarna þrjá áratugi þarf enga undanþágu til að tryggja forræði okkar á veiðum í lögsögu landsins. Reglur Evrópusambandsins mæla skýrt fyrir um það. Ráðleggingar íslenskra vísindamanna um leyfilegt heildarmagn á íslandsmiðum yrðu sömuleiðis áfram grundvöllur á ákvörðun um heildarkvóta. Af hálfu íslands ætti því vel að vera hægt í aðildarviðræðum að staðfesta til frambúðar með sérstökum hætti að ísland hafi yfirráð yfir úthlutunum veiðiheimilda úr staðbundnum stofnum í íslenskri lögsögu. í þessu samhengi er rétt að undirstrika að aðildarsamningur hefur sömu réttarstöðu og sáttmálar ESB.

Samkvæmt reglum Evrópusambandsins getur sérhvert ríki tekið ákvörðun um hvernig þeim veiðiheimildum sem því falla í skaut er ráðstafað. Aðildarríkin sjálf annast eftirlit í sinni lögsögu og hægt er að gera kröfu um að sjávarútvegsfyrirtæki hafi raunveruleg og efnahagsleg tengsl við það landsvæði sem reiðir sig á veiðarnar. Margs konar leiðir eru því til staðar svo hægt megi koma í veg fyrir svokallað kvótahopp. Við aðild að Evrópusambandinu gætu veiðimöguleikar íslenskra útgerðarfyrirtækja jafnframt aukist í krafti tvíhliða samninga sem ESB gerir um veiðiheimildir við strendur fjölmargra ríkja.

Að öðru leyti má gera ráð fyrir að aðild íslands að ESB verði til að styrkja íslenskan sjávarútveg og auka samkeppnishæfni hans. á sama hátt og EES-samningurinn aflétti hömlum á erlendum fjárfestingum og starfsemi í öðrum atvinnugreinum, mun aðild að Evrópusambandinu þýða að hömlum á fjárfestingum og samstarfi erlendra aðila í sjávarútvegi verði aflétt. Sama má að sínu leyti segja um áhrif aðildar á íslenskan landbúnað, þar sem aðild myndi í senn auka á samkeppnishæfni greinarinnar, opna innlendri framleiðslu nýja markaði þar sem hún gæti keppt í krafti einstakra gæða, og jafnframt stuðlað að lægra verði landbúnaðarvöru á markaði fyrir neytendur. Engin þjóðhagsleg rök eru fyrir því að viðhalda höftum gagnvart nágrannaríkjum okkar í Evrópusambandinu í þessum atvinnugreinum.

Tekið úr Tengsl Íslands og Evrópusambandsins bls 119-120.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband