Leita í fréttum mbl.is

Bull um sjávarútvegsstefnu ESB

Rannsóknamiðstöð um samfélags- og efnhagsmál (RSE) hélt fyrir skömmu metnaðargjarna ráðstefnu um smáríki og myntbandalög. Á RSE heiður skilið fyrir að standa að slíkri ráðstefnu enda viðfangsefnið einkar viðeigandi á þessum tíma mikilla sviptinga í alþjóðlegu fjármálaumhverfi. Á ráðstefnunni talaði meðal annars sænsk-enski hagfræðingurinn Gabriel Stein. Erindi hans var áhugavert en þó setti mann hljóðan þegar hann fór að fabúlera um Ísland og sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Á tæpitungulausri íslensku er hægt að segja að það sem hagfræðingurinn sagði um þau mál hafi verið hið mesta bull.

Gabriel Stein sagði að Ísland verði dregið fyrir Evrópudómstólinn vegna útilokunar annarra landa frá fiskimiðunum hér við land og dómstóllinn myndi að sjálfsögðu dæma Íslendingum í óhag. Þar með myndu íslensku fiskimiðin fyllast af spænskum og portúgölskum togurum. Þetta er gömul bábilja sem andstæðingar Evrópusambandsaðildar hafa lengi haldið á lofti þar til að þetta var endanlega hrakið í skýrslu Evrópunefndar Alþingis sem kom út í vor. Þar kemur skýrt fram að reglan um hinn svokallaða "hlutfallslega stöðugleika" er einn af hornsteinum sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Samkvæmt henni fengju aðeins íslensk fiskveiðiskip kvóta hér við land og þetta hefur verið staðfest bæði af fulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og fulltrúum Evrópudómstólsins.

Menn geta haft mismunandi skoðanir á því hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið. Það er þó grundvallaratriði að þau rök sem menn beita fyrir sér, hvort sem þau eru hagfræðileg eða pólitísk, standist skoðun. Því miður stóðst röksemdafærsla Gabriel Stein ekki og er það miður því margt af því sem hann sagði á ráðstefnunni var einkar áhugavert og einmitt fallið til þess að skapa umræðu um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna á þessum miklu umbrotatímum í efnhagsmálum í heiminum.

Áhugasömum er bent á þessa eldri færslu á þessu bloggi ef þeir vilja lesa meira um sjávarútvegsstefnu ESB og áhref hennar á Ísland við inngöngu í sambandið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband