Leita í fréttum mbl.is

Martröð evrópska seðlabankastjórans

Ummæli Jean-Claude Trichet seðlabankastjóra Evrópu um að best væri fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið eru mjög skiljanleg. Hann lét þessi orð falla á blaðamannafundi í fyrradag í tengslum við spurningu um aðkomu EFTA ríkjanna að evrusvæðinu. Martröð bankastjórans væri sú að Ísland tæki einhliða upp evru án þess að uppfylla Maastricht skilyrðin og myndi síðan sækja um aðild að Evrópusambandinu nokkru síðar. Sú staða myndi setja Evrópusambandið í erfiða pólitíska klemmu. Ísland er nefnilega spennandi kostur sem nýtt aðildarland. Við erum vel stæð, kæmum meðal annars með góða þekkingu á sjávarútvegi og orkumálum inn í sambandið og við kunnum að starfa í fjölþjóðlegu samstarfi samanber EES og EFTA. Ef við uppfylltum hins vegar ekki þessi hagfræðilegu skilyrði evrusvæðisins en værum samt að nota evru sem gjaldmiðil, þá stæði ESB frammi fyrir þeirri erfiðu ákvörðun að hafna góðum kosti eða aðlaga aðildarskilyrðin að okkar stöðu. Það er því ekkert skrýtið að bankastjórinn vilji koma í veg fyrir slíkan hausverk og hvetur okkar því til að sækja um aðild að ESB fyrst.

Staðreyndin er nefnilega sú að Ísland getur alveg tekið upp evru einhliða án þess að fá til þess samþykki Evrópusambandsins eða bankastjórnar evrópska seðlabankans. Þetta benti Valgerður Sverrisdóttir, fyrrum utanríkisráðherra, réttilega á fyrir nokkrum misserum en hlaut bágt fyrir hjá ýmsum aðilum. Það er dálítið kómískt að nú eru margir þessara aðila í fararbroddi þeirra sem vilja alvarlega skoða þann möguleika að Ísland taki upp evru án þess að ganga í Evrópusambandið.

Mín skoðun er nú samt sú að Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu og byrji strax á því að aðlaga íslenskt efnahagslíf að Maastricht skilyrðinum um lága verðbólgu, lítinn fjárlagahalla og minnkandi skuldir in opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu. Það hefur margoft komið fram í máli nánast allra íslenskra hagfræðinga sem hafa skrifað um þessi mál á undanförnum misserum að það myndi bæta hag útflutningsfyrirtækjanna, ferðaþjónustuaðila og í raun alls almennings. Við ættum því að hlusta á Jean-Claude Trichet með okkar hag í huga en ekki evrópska seðlabankans!

Andrés Pétursson er formaður Evrópusamtakanna


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Ríkissjóður Íslands er í raun algjörlega gjaldþrota þar sem seðlabanki landsins er máttlaust skrípafyrirbæri sem er án gjaldeyrisforða sem er nauðsynlegur til að verja og regúlera gjaldmiðil landsins. Erlendar skammtímaskuldir þjóðarbúsins eru tífalt sinnum meiri en gjaldeyrisforði seðlabankans. Til að hindra umræðu um þessa alvarlegu stöðu hefur meðvitundarlausum jólasveinum verið plantað í seðlabankann og fjármálaráðuneytið. Þeir getasennilega losað hundinn þinn við orma og gefið honum smjörklípu í leiðinni en það er ekki mikið meira. 

Baldur Fjölnisson, 10.10.2007 kl. 21:44

2 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Auðvitað eiga Íslendingar að sækja um ESB og taka upp evru um leið og við uppfyllum skilyrðin.

Mér líkaði mjög svo hin frumlega athugasemd Erlings hér: "Við höfum ekkert að gera í Evrópusambandið. Hins vegar þarf að hafa vexti og verðlag samsvarandi og í öðrum löndum".

Ha ha. Hefur kannski einhverjar hugmyndir um hvernig sé hægt að blanda þessu tvennu saman, þ.e.a.s að geyma kökuna og borða hana í leiðinni.

Maður hefði nú haldið að tilraunir til að halda vöxtum og verðlagi lágu mætti nú kalla fullreyndar. Nú síðast með lækkun skatta á matvælum, ekki virtist það lækka matarverð mikið. Við þurfum erlendar matvörukeðjur hingað til lands til að lækka þetta verð og innganga í ESB gefur þeim greiðasta aðgang til landsins. 

Jón Gunnar Bjarkan, 16.10.2007 kl. 06:12

3 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Það er sama verðbólga hér á landi og á evrusvæðinu. Gallinn er bara að hér á landi er húsnæðisverð tekið inn í verðlagsvísitöluna en ekki á evrusvæðinu.

Það sem hugsanlega gæti laðað matvörukeðjur af evrusvæðinu til landsins væri sambærilegri sveiflur á milli hagkerfisins hér og þar. Ef vilji er til þess að hagsveiflur evrusvæðisins gildi hér á landi (sem væru að öllum líkindum í litlu eða engu sambandi við aðstæður hér á landi) er hægt að temgja gengi krónunnar við gengi evrunnar. Það þarf ekki að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru til þess.

Hjörtur J. Guðmundsson, 19.10.2007 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband