Leita í fréttum mbl.is

Hættulegir einangrunarsinnar

Maður veit varla hvort maður á að hlæja eða gráta eftir að hafa lesið grein Bjarna Harðarsonar alþingismanns í 24 stundum rétt fyrir jólin. Það er langt síðan þvílíkt samansafn af fordómum, rangfærslum og afbökunum á staðreyndum hefur verið sett á blað í Evrópuumræðunni hér á landi. Líklegast þarf maður að fara alla leið aftur í umræðuna um EES samninginn á árunum 1992-93, þegar einangrunarsinnar reyndu í örvæntingu að koma í veg fyrir samþykkt samningsins á Alþingi, til að finna sambærilegan málflutning. Ef til vill eru svipaðir tímar að koma upp á Íslandi núna og það skýri öfgarnar í málflutningi alþingismannsins.

Kveikjan að þessari grein Bjarna virðast hafa verið ummæli Eiríks Bergmanns Einarssonar í Silfri Egils fyrir skömmu þar sem hann var fenginn til að gefa sína sýn á þróun mála í Evrópu. Bjarni titlar Eirík formann Evrópusamtakanna en það er hann ekki og hefur aldrei verið. Sá sem þessa grein skrifar er formaður Evrópusamtakanna og hefur verið um nokkurra ára skeið. Eiríkur er ekki heldur stjórnmálamaður heldur forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst og hefur rannsakað Evrópusamrunanna hér á landi um margra ára skeið. Þeir eru örugglega vanfundnir íslenskir fræðimenn sem þekkja þennan málaflokk betur en Eiríkur.

Bjarni skrifar eins og í gangi sé alsherjarsamsæri embættismanna í Brussel að troða vilja sínum á saklausa borgara Evrópu. Þeir sem eitthvað hafa kynnt sér þróun Evrópu undanfarna áratugi vita að Evrópusambandið er samband sjálfstæðra ríkja sem hefur vaxað og dafnað í skjóli aukins lýðræðis og alþjóðavæðingar undanfarna áratugi. Kjarni valdsins liggur hjá þjóðríkjum Evrópusambandsins í formi ráðherraráðsins. Þessi bábilja sem einangrunarsinnar klifa sífellt á um að Ísland muni tapa fullveldi og sjálfstæði ef það gengi í Evrópusambandið á ekki við rök að styðjast. Eru til dæmis Bretland, Danmörk, Svíþjóð og Holland ekki sjálfstæð ríki? Auðvitað eru þau það og Ísland yrði áfram frjálst og fullvalda ríki þótt það gengi í Evrópusambandið líkt og vinaþjóðir okkar á meginlandinu.

Stjórnarsáttmálinn sem kenndur er við Lissabon gengur fyrst og fremst út á að aðlaga Evrópusambandið að þeim veruleika sem blasir við með stækkun þess undanfarin misseri. Stjórnskipulag sambandsins var að mestu leyti sett upp með hliðsjón af 6 aðildarríkjum en þau eru nú orðin 27 og á eftir að fjölga á komandi árum. Bjarni virðist gleyma því að öll þessi ríki hafa af fúsum og frjálsum vilja gengið inn í þetta bandalag enda telja þau hagsmunum betur borgið í þessu samfloti en hvert og eitt að reyna að verja sína hagsmuni. Þvert á það sem Bjarni reynir að færa rök fyrir þá hlusta leiðtogar Evrópu á íbúa sína og hafa ákveðið að aðlaga sáttmálann að vilja meirihluta fólks í álfunni.

Það er undarlega árátta margra einangrunarsinna að blanda Stalín og Hitler í evrópuumræðuna líkt og Bjarni gerir í grein sinni. Það er vægast sagt mjög ósmekklegt enda vita þeir sem eitthvað hafa kynnt sér sögu Evrópu eftir seinna stríð að helsti hvatinn að samruna Evrópu er einmitt sá að koma í veg fyrir að þeir hildarleikir sem álfan gekk í gegnum árin 1914-18 og 1939-1945 endurtæki sig. Það hefur gengið eftir enda hefur aldrei áður í sögu Evrópu verið jafn langt friðarskeið og undanfarin 60 ár.

Bjarni hefði betur lesið ágæta grein Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins, sem var birt fyrir skömmu á heimasíðunni framsokn.is., áður en hann reið fram á ritvöllinn. Í greininni segir Jón meðal annars: ,,Í stofnunum Evrópusambandsins geta Íslendingar vænst skilnings úr ýmsum áttum. Vitað er um afstöðu smáþjóða til margra mála. Þarna eru mörg eyjasamfélög, landshlutar og minnihlutaþjóðir, auk Norðurlandamanna. Það er ekki skynsamlegt að útiloka hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu fyrirfram". Auk þess hefði Bjarni Harðarson gott af að kynna sér dæmin sem Jón nefnir um aðildarsamninga að ESB. Þar sýnir Jón að umræður manna hérlendis byggjast að miklu leyti á misskilningi.

Sem betur fer tókst einangrunarsinnum ekki að koma í veg fyrir samþykkt EES-samningsins fyrir rúmum áratug. Færa má sterk rök fyrir því að lífskjör Íslendinga væru ekki jafn góð og þau eru í dag ef Evrópusinnar í Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum og Alþýðuflokknum hefðu ekki sameinast um að koma samningnum í gegn. Það sama á við í núverandi ástandi. Staða íslensku krónunnar er byrði á efnahagslífinu og kemur í veg fyrir áframhaldandi jákvæða þróun atvinnumála hér á landi. Einnig hafa verið færð rök fyrir því að matvælaverð myndi lækka hér á landi við inngöngu í Evrópusambandið. Lækkun vaxta og lækkun matvælaverðs myndi þýða mikla kjarabót fyrir almenning hér á landi. Látum því ekki hættulega einangrunarsinnar koma í veg fyrir áframhaldandi þróun íslensk samfélags.

Andrés Pétursson er formaður Evrópusamtakanna

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband