Leita í fréttum mbl.is

Hvað tökum við yfir margir reglugerðir ESB?

Enn og aftur hefur umræðan blossað upp um hve mikið Íslendingar taka upp af reglugerðum ESB. Árni Snævarr fréttamaður svarar Sigurði Kára Kristjánssyni í Morgunblaðinu í dag, eftir að Sigurður Kári var enn og aftur að halda á lofti 6.5% tölunni. Olli Rehn, stækkunastjóri ESB sem sér um aðildarsamninga við nýjar aðildarþjóðir, segir að Ísland hafi tekið yfir 3/4 af regluverki sambandsins. Eiríkur Bergmann, forstöðumaður Evrópufræðsetursins á Bifröst, skrifaði ágæta grein um þetta árið 2005. Þar segir meðal annars:

,,Evrópusambandið setur lög með ýmsum hætti sem hafa mismunandi vægi. Tilskipanir (e. directives) eru rammalöggjöf og yfirleitt viðamestar en reglugerðir (e. regulations) og ákvarðanir (e. decisions) eru margfalt fleiri. (Eiríkur Bergmann Einarsson: 2003, kafli 3.8). Samkvæmt svari utanríkisráðherra, þar sem fram kemur að byggt er á upplýsingum frá EFTA-skrifstofunni í Brussel, hefur Evrópusambandið sett eftirfarandi fjölda reglna frá því EES-samningurinn gekk í gildi árið 1994 og fram til ársins 2004: Samtals 1.047 tilskipanir, 27.320 reglugerðir og 10.569 ákvarðanir. (sjá viðauka). Evrópusambandið greinir mjög skýrt á milli þessara ólíku gerða en í svari utanríkisráðherra er þeim öllum grautað saman og látið duga að nefna að á sama tíma hafi Íslendingar tekið upp alls 2.527 gerðir í gegnum EES-samninginn, (sjá viðauka). Með þessari aðferð fékk utanríkisráðherrann út að Ísland taki 6.5% af reglugerðaverki ESB í innlend lög.

Þessi framsetning gefur ekki rétta mynd af stöðu og þátttöku Íslands í Evrópusamrunanum. Fyrst skal nefna að ótækt er að leggja tilskipanir, reglugerðir og ákvarðanir Evrópusambandsins að jöfnu enda greinir ESB ávalt vel þar á milli. Sem dæmi þarf oft sérstaka lagalega ákvörðun þegar ákveðið er að niðurgreiða einstaka búvörur til einstakra bænda í einstökum aðildarríkjum. Ákvarðanir eru því ekki bindandi fyrir aðildarríkin heldur aðeins fyrir þann sem hún snertir. Einstaka lagaákvarðanir ESB rata því ekki endilega inn í reglusafn aðildarríkjanna. Þegar meta á hvaða hlutfall af reglugerðaverki ESB ratar inn í íslensk lög verður því að draga slíkar ákvarðanir frá. Eins er vægi þessara gerða afar ólíkt. Hlutfall og umfang tilskipana skipta mestu og ekki síður til hvaða sviða þær ná. EES-samningurinn nær fyrst og fremst til innri markaðarins, sem er innsti kjarninn í evrópsku samstarfi, en þar hefur verið meiri tilhneiging en annarstaðar að notast við tilskipanir. Reglugerðir eru hins vegar mjög notaðar í landbúnaði sem hefur sérstakann sess innan stofnana ESB en getur vart talist til mikilvægustu sviða í starfsemi ríkja þess. Sú aðferð að slá saman þessum tegundum lagaákvarðana gefur því villandi mynd."

Hægt er að lesa greinina í heild sinni á eftirfarandi slóð: http://www.bifrost.is/default.asp?sid_id=22905&tId=1


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband