Leita í fréttum mbl.is

Allt nema evru!

Matador er spil sem flestir Íslendingar þekkja og margir hafa spilað sér til ánægju og gleði. Í Matador freista spilamenn gæfunnar í fjárfestingum og markmiðið er að setja mótspilara á hausinn. Og þrátt fyrir að spilurum geti oft hitnað í hamsi er um græskulausan leik að ræða. Einungis er spilað með Matadorspeninga, sem eru með öllu verðlausir fyrir utan hinn tilbúna heim spilsins, og spilarar standa upp frá borðum með bros á vör ýmist með „stórgróða“ eða „gjaldþrot“ sem sett var á svið í hita leiksins.

Undanfarin misseri hefur ríkt hálfgert „Matadorsástand“ á Íslandi. Munurinn er hins vegar sá að þegar staðið er upp frá spilaborði hins „íslenska Matadors“ þarf fólk að horfast í augu við ískaldan veruleika. Í hinu „íslenska Matadori“ er fólk og fjölskyldur – enginn sýndarveröld. Hið „íslenska Matador“ á það þó sameiginlegt með hinu eina sanna Matadori að spilapeningarnir – íslenskar krónur – eru algjörlega verðlausir. Í raun er verðgildi íslensku krónunnar mun minna en Matadorspeninganna. Matadorspenigarnir hafa í gegnum áratugina haldi verðgildi sínu og eru fullkomlega brúklegir í hinum tilbúna heimi spilsins. Nú er hins vegar svo komið fyrir íslensku krónunni að hún er algjörlega óbrúkleg og væri ekki einu sinni tekin gild í Matadori!

Ákall um annan gjaldmiðil

Ljóst er að íslenska krónan á í alvarlegum öndunarerfiðleikum og er í andarslitrum. Þorri almennings og nánast allir málsmetandi einstaklingar virðast vera á þessari skoðun og gera sér grein fyrir því að kveðjustund krónunnar nálgast – íslenska krónan á fáa vini. Augljós arftaki krónunnar er evra – hinn samevrópski gjaldmiðill. Um það eru flestir sammála. Samt sem áður heyrast raddir sem væna þá sem kalla á evru um óþjóðlega hugsun og hræsni – evra leysi ekki þann vanda sem íslenskt efnahagslíf glímir við þessi misserin. Undirritaður hefur ekki orðið var við að talsmenn evru líti á hana sem skyndilausn á yfirstandandi og yfirvofandi efnahagsþrengingum. Undantekningalaust er litið á upptöku evru sem langtíma lausn til að draga úr rússíbanareið íslensks efnahagslífs með tilheyrandi fórnarkostnaði sem fyrst og fremst er sóttur í vasa almennings. Til framtíðar litið yrði Evrópusambandsaðild, og upptaka evru í kjölfarið, mikil kjarabót fyrir íslenskan almenning og því fyrr sem við stígum skrefið til fulls og sækjum um fulla aðild að ESB því betra.

Ótrúverðugleiki sjálfstæðismanna

Þrátt fyrir að evra sé augljós kostur fyrir Íslendinga heyrast úrtöluraddir. Raddir sem þessa stundina berast hvað hæst úr börkum gallharðra ESB andstæðinga í hópi vinstri grænna og sjálfstæðismanna. Þessi hópur vinstri sósíalista og furðulegrar blöndu íhalds- og frjálshyggjuarms sjálfstæðisflokksins á ekkert sameiginlegt nema að vera á móti ESB aðild og evru og að málflutningur þeirra er ekki trúverðugur. Ótrúverðugleiki sjálfstæðismanna felst í því að í aðra röndina tala þeir um mikilvægi þess að halda í krónuna til að viðhalda sjálfstæðri peningastefnu. Í hina röndina gæla þeir við þá hugmynd að taka upp svissneska frankann, dollar eða pund í stað krónu. Þversögnin í þessum málflutningi er algjör því við myndum ekki einu sinni fá áheyrnarfulltrúa í seðlabönkum Sviss, Bretlands eða Bandaríkjanna. Fullkomið rökþrot en tilgangurinn helgar meðalið – allt nema evru!

Söguleg tímaskekkja vinstri grænna

Vinstri græn hafa til þessa talað á svipuðum nótum og íhalds- og frjálshyggjuarmur sjálfstæðisflokksins. Talað fyrir sjálfstæðri íslenskri krónu og mikilvægi þess að halda sjálfstæðri peningamálastefnu. Miðað við nýlegar hugmyndir forystufólks í flokknum um samnorræna mynt þá virðist trúin á sjálfstæða íslenska krónu eitthvað vera að dvína. Gallinn við þessa hugmynd vinstri grænna er í fyrsta lagi sú að hún kemur a.m.k. 150 árum of seint. Um miðja 19. öldina voru uppi hugmyndir um samnorrænt ríki og þá væntanlega samnorræna mynt. Sú göfuga hugmynd varð ekki að veruleika. Í öðru lagi er óhætt að fullyrða að samnorræn mynt á ekki upp á pallborðið hjá frændum okkar í Skandinavíu. Finnar eru með evru og verða með evru. Skipti Danir og Svíar um gjaldmiðil – en afar líklegt er að sú verði raunin fyrr en síðar – munu þeir örugglega ekki taka upp samnorræna krónu. Danir og Svíar munu taka upp evru. Norðmenn eru sér á báti með tiltölulega stöðuga krónu tryggða í olíugróða og vægast sagt afar ólíklegt að Norðmenn tækju þátt í samnorrænu myntsamstarfi með Íslendingum. Evra verður örugglega niðurstaðan skipti Norðmenn á annað borð um gjaldmiðil. Hugmynd forystu vinstri grænna er því söguleg tímaskekkja og markast af sömu örvæntingu og hjá ofangreindum hópi sjálfstæðismann – allt nema evru!

Íslenska krónan er íþyngjandi í vösum íslensks almennings og dragbítur á íslenskt atvinnulíf. Engum er greiði gerður með því að viðhalda ríkjandi „Matadorsástandi“ með ónothæfum krónupeningum. Efnahagsleg tenging íslensks hagkerfis við evrusvæðið er mikil og á örugglega eftir að aukast á komandi árum. Evra er því ekki einungis augljós kostur, heldur í raun eini kostur Íslendinga til framtíðar litið.

Úlfar Hauksson, greinin birtist áður í 24 Stundir síðastliðinn fimmtudag.

Höfundur er doktorsnemi og stundakennari í stjórnmálafræði við HÍ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband