Leita í fréttum mbl.is

Styrmir, Serbarnir og framtíðarsýnin

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson og Andrés Pétursson, stjórnarmenn í Evrópusamtökunum, skrifa grein um framtíðarsýn fyrrum Moggaritstjórans í Fréttablaðið í morgun. Greinin er hér í heild sinni:

Kosovo Polje 1389Umsáturskenning Styrmis Gunnarssonar, fyrrum Moggaritstjóra og Nei-sinna, sem hann setur fram í nýrri bók sinni, UMSÁTRIÐ, hefur vakið töluverða athygli. Tekið skal fram að Styrmir er einnig í stjórn samtaka Nei-sinna hér á landi. En kenning Styrmis er þessi, eins og hann orðar "vel" í viðtali við sitt gamla blað þann 30.nóvember s.l.: 

...,,á árinu 2008 upplifði ég það þannig að þessi þjóð hefði verið umsetin án þess að vita af því nema tiltölulega fámennur hópur og það sem fyrir okkur kom hafi raunverulega verið eins konar umsátursástand. Seðlabankar Bandaríkjanna, Bretlands, Hollands, Evrópu, Lúxemborgar og Norðurlandanna hafi tekið höndum saman um að loka okkur inni og á sama tíma hafi breska fjármálaeftirlitið hafið tangarsókn á Landsbankann til að stoppa hann af í sambandi við innlánasöfnun á Bretlandi. Með þessum hætti vorum við rekin í fangið á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum."

Það eru s.s. hinir vondu útlendingar sem að þetta er allt að kenna og þeir ráku okkur í fangið á AGS! Í þessu felst mikil fórnarlambshugsun, eða eins og Jón Baldvin Hannibalsson sagði; þetta væri svona álíka fórnarlambshugsunarháttur og einkennt hefur fjölmarga Serba í árhundruð, einskonar serbneskt heilkenni!  

Margir Serbar hafa nefnilega litið á sig sem fórnarlömb, síðan bardaginn mikli milli þeirra og Tyrkja átti sér stað við Kosovo Polje (Svartþrastarvöllum) árið 1389. Og vitna óspart til hans, þá helst miklir serbneskir þjóðernissinnar.

 

Í lok viðtalsins afhjúpar Styrmir síðan sína framtíðarsýn fyrir Ísland 21.aldarinnar. Blaðamaðurinn, Karl Blöndal, spyr Styrmi hvernig þjóðin eigi að bregðast við þessum aðstæðum. Styrmir svarar:

 

,,Ég held að hún eigi að horfast í augu við veruleikann og gera sér grein fyrir að hún skiptir engu máli í samfélagi þjóðanna. Við erum ekki nema 300 þúsund manns hér uppi á Íslandi og við eigum bara að reyna að byggja hér upp farsælt og gott samfélag, en reyna ekki að vera eitthvað annað en við erum. Hætta þessum leikaraskap, að halda að við höfum einhverju hlutverki að gegna á alþjóðavettvangi, hætta þessum hégómaskap í sambandi við samskipti við aðrar þjóðir, að vera með þjóðhöfðingja, sem ferðast um allan heim af því að hann telur sig hafa einhverju hlutverki að gegna þar. Við eigum bara að sníða okkur stakk eftir vexti, lifa hér því góða lífi, sem hægt er að lifa í þessu fallega landi, nýta auðlindir okkar og byggja á þeim, en hætta að gera okkur einhverjar hugmyndir um að við séum eitthvað annað en við erum. Við erum fámenn þjóð, sem lifir á fiski hér í Norður-Atlantshafi. Það er gott hlutskipti og við eigum að vera sátt við það.“

Skilaboði Styrmirs eru því þessi: Við lifum í landi, sem skiptir engu máli! Fyrir komandi kynslóðir hlýtur þetta að vera mest niðurdrepandi framtíðarsýn sem hægt er að hugsa sér! Þó vissulega sé hægt að taka undir orð Styrmis um nýtingu auðlindanna. En eigum við ekki bara að leggjast á hjarnið og bíða þess að tíminn stöðvist? Hagfræðingar eru flestir sammála að Íslendingar gætu framfleytt sér á fiski ef við værum ekki fleiri en um 80 þúsund miðað við þau lífsskilyrði sem við teljum ásættanleg. Ekki eru miklir möguleikar að auka sókn í núverandi stofna þannig að ekki er víst hvað Styrmir vill að hinir 230 þúsund Íslendingarnir eigi að gera! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband