Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Evra án Evrópusambands

Helgi Hjörvar alþingismaður skrifaði ágæta grein í Blaðið um ráðstefnu RSE um gjaldeyrismál í síðustu viku undir yfirskriftiinni ,,Evra án Evrópusambands". Einnig er vert að benda á umfjöllun um ráðstefnuna í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins í gær, og einnig var fjallað um þessi mál í Viðskiptablaðinu síðastliðna daga. Greinin fylgir hér með góðfúslegu leyfi höfundar;

Í fyrradag hélt Rannsóknamiðstöð um samfélags- og efnahagsmál eftirtektarverða ráðstefnu. Umfjöllunarefnið var „dollaravæðing“, þ.e. einhliða upptaka landa á myntum eins og evru og dollar. Það hefur auðvitað ekki þótt fínt heldur til marks um ósjálfstæð og veikburða ríki að geta ekki haldið úti eigin gjaldmiðli. Enda hefur það einkum verið neyðarráðstöfun þeirra sem ekki gátu ráðið málum sínum sjálf. En það er engu að síður sjálfsagt að spyrja hvort peningaleg þjóðernisstefna og metnaður um þjóðarmynt eigi nokkuð erindi í alþjóðavæddum heimi ársins 2007.

Týnd?

Það er líka eðlilegt að við eyjaskeggjarnir veltum því fyrir okkur hvort við getum ekki tekið upp meginlandsmyntina án þess þó að verða hluti að þinginu og framkvæmdavaldinu í Brussel. Afstaða okkar til Evrópusamvinnunnar er jú einmitt sígild afstaða eyjarinnar til meginlandsins. Við viljum hafa allskyns hagnýta hluti af meginlandinu svo sem greiðar samgöngur, aðgang að mörkuðum o.s.frv. en samt halda okkar eigin Þjóðhátíð. Þannig viljum við taka þátt í öllu samstarfi Evrópusambandsins nema þinginu og ráðherraráðinu því þá getum við haldið áfram að neita því að við séum hluti af ESB þó við tökum þátt í öllu samstarfi Evrópuríkjanna. Minnir svolítið á yngri dætur mínar þegar þær setja lítið blað fyrir andlitið og segja „týnd“.

Það er einhvern veginn eins og við höldum að við höfum glatað sjálfstæði okkar með fullri þátttöku og þó finnast okkur lítil lönd sem taka fullan þátt eins og Írland, Finnland og Danmörk ekki vera ósjálfstæð ríki. Miklu frekar finnast okkur ósjálfstæð ríki eins og El Salvador og Ecuador sem neyðast til að nota gjaldmiðil annarra þjóða án nokkurra áhrifa á hann. En ef okkur líður betur með að ganga inn í áföngum þá er auðvitað ekkert að því. Hitt vita allir að við munum bæði taka upp evru og ganga í ESB, spurning er bara hvenær og í hvaða röð!

Ekki hvort heldur hvenær

Ánægjulegt er að sjá áhugasama um þessa umræðu ýmsa af helstu stuðningsmönnum fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og myndu sumir segja að þá væri fokið í flest skjól fyrir íslensku krónuna. En það er auðvitað til marks um þá breytingu að margir þeir sem telja krónuna hafa gagnast okkur vel fram að þessu telja þó mjög vafasamt að hún sé nógu stór til að valda auknum umsvifum okkar eða nógu sterk fyrir öldurót alþjóðavæðingar gjaldeyrismarkaða. Þeirra sjónarmið er því ekki eins og til dæmis okkur sem telju að krónan hafi einfaldlega reynst almenningi of dýr í verðlagi verðbólgu og vöxtum, heldur að hún henti ekki lengur. Órói á alþjóðamörkuðum, skráning íslenskra fyrirtækja í evrum, vaxandi spákaupmennska og sveiflur á gengi krónunnar gera æ ljósara hve erfitt er að halda úti smámynt.

Það er óskandi að sú viðhorfsbreyting sem er að verða til evrunnar í ákveðnum hópum leiði til pólitískra aðgerða í peningamálum. Það er sjálfsagt að skoða hvort unnt er að ná ávinningum evrunnar án aðildar að ESB ef það er það sem þarf til að skapa pólitíska samstöðu um málið. Þá verður þó auðvitað öllum að vera ljóst að verði niðurstaðan úr þeim leiðangri sú að aðild sé nauðsynleg verða menn að vera tilbúnir til þess að taka það skref.

Mikilvægast er að á vettvangi stjórnmálanna tökum við sem fyrst á við upptöku evrunnar því sá tími er liðinn að stjórnmálaöflin hafi áratugi til að breyta um stefnu. Hraði í nútímaviðskiptum og alþjóðavæðingin gerir aðrar kröfur. Það sjáum við á því að fyrirtæki og einstaklingar eru farin að fara bakdyramegin inn í evruna í lántökum sínum með tilheyrandi áhættu. Það er lykilatriði um farsæld í efnahagsmálum að nota góðu tímana til að taka erfiðu ákvarðanirnar því þegar vel árar eigum við fleiri kosta völ. Til að halda raunverulegu sjálfstæði er líka best að ráða ferðinni en hrekjast ekki í hallæri undan gangi sögunnar.


Fyrirlestur um heilsurannsóknir í Evrópu og stuðning Evrópusambandsins

Í dag kl 16.30 mun yfirmaður heilsurannsóknasviðs Evrópusambandins, Dr Octavi Quintana Trias flytja opinn fyrirlestur um evrópskar heilsurannsóknir í fyrirlestrasal Íslenskrar erfðagreiningar, Sturlugötu 8. Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku og kallast; "Health Research in Europe and European Community funding."

Dr Octavi Quintana Trias er læknir að mennt. Auk læknisstarfa í heimalandi sínu, Spáni, hefur hann gegnt fjölda opinberra trúnaðarstarfa, bæði heima fyrir og á vettvangi Evrópusamstarfs, þ.á.m sem yfirmaður alþjóðaskrifstofu spánska heilbrigðisráðuneytisins og forseti nefndar Evrópuráðsins um siðfræði lífvísinda. Síðan árið 2002 hefur Dr Octavi Quintana Trias stjórnað þeirri skrifstofu Evrópusambandsins, sem hefur umsjón með rammaáætlunum sambandsins á sviði heilsurannsókna, en á árunum 2007 – 2013 er áformað að verja um 6 milljörðum evra í því skyni.

Enn um evru

RSE, eða rannsóknamiðstöð um samfélags- og efnahagsmál, hélt ráðstefnu nú um helgina þar sem var mikið rætt um kosti þess að taka upp evru sem gjaldmiðil á Íslandi. Um þetta skrifar Eiríkur Bergmann á bloggsíðu sinni; "Ávinningurinn er augljós. Við upptöku evru verður hagkerfið stöðugra, vextir lægri og viðskiptakostnaður minni. Þá má gera ráð fyrir að viðskipti aukist þegar gengisáhætta minnkar. Helsti ókosturinn er á móti sá að Seðlabanki Íslands missir úr eigin hendi ákvörðun um innlenda stýrivexti. En semsé, reynslan sýnir að stýrivextir eru orðnir ansi bitlitlir og verðbólgudraugurinn, sá landsins forni fjandi, hlær bara að bankastjórn Seðlabankans og fer um landið og miðin eins og honum sjálfum sýnist."

Björn Rúnar Guðmundsson, forstöðumaður greiningardeildar Landsbanka Íslands, sagði í samtali við Visi.is að; "Mín persónulega skoðun er sú að það kerfi sem við byggðum upp árið 2001 þegar við tókum upp verðbólgumarkmið hefur ekki skilað þeim árangri sem menn vonuðust eftir. Mjög nauðsynlegt er því að skoða með opnum huga hvort ástæða er til að reyna aðra leið til að ná markmiðum um efnahagslegan stöðugleika þar sem viðhaldið er sæmilega eðlilegum rekstrarskilyrðum fyrir atvinnulífið og lágmarks verðbólgu", og bætti svo við "Rökin fyrir því að taka upp fastgengi eru mun sterkari nú en þau voru fyrir sex árum."

Umræðan um upptöku evru er því enn og aftur komin af stað, og því ekki alveg útséð með það hvort við Íslendingar munu þurfa að borga tveggja stafa tölur í vexti næstu árin eins og við höfum verið að gera síðastliðin ár. Viðskiptaráðherra blæs samt enn og aftur á hugmyndir um einhliða upptöku evru í sömu fréttaskýringu Visi.is þar sem hann segir, "Líklega yrði sá kostur mun dýrari en full aðild að Evrópusambandinu nokkru sinni", en eins og hefur áður komið fram á þessu bloggi þá fer hann ekki leynt með skoðun sína að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna. Ræðu Viðskiptaráðherra má lesa í heild sinni hér.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband