Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Upplýsingaöflun gengur vel

UTNEf dæma má af frétt RÚV gengur vinna við upplýsingaöflun ESB um Ísland vel. Orðrétt er frétt RÚV svona: ,,Svör fagráðuneyta við 2500 spurningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins berast utanríkisráðuneytinu um þessar mundir. Einhver ráðuneyti eiga eftir að svara hluta spurninganna sem þeim var ætlað. Sumstaðar í stjórnsýslunni hefur verið unnið fram á nótt við að svara listunum.

Farið er yfir svörin í utanríkisráðuneytinu og stefnt er að því að senda þau til Brussel um mánaðamótin. Ráðuneytið hefur engu að síður frest til 16. nóvember til að svara spurningunum. Framkvæmdastjórnin notar svörin og fleiri heimildir til að skrifa skýrslu um Ísland, sem utanríkisráðherra vonast til að verði lögð fyrir fund leiðtogaráðs Evrópusambandsins í desember. Í Brussel þykir bjartsýni að það náist. Það gæti skýrt áhersluna sem lögð er á það í utanríkisráðuneytinu, að skila listunum einum og hálfum mánuði áður en að fresturinn rennur út."

Heimild: http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item300131/


Góður Grímur!

Grímur AtlasonGrímur Atlason sveitarstjóri í Dalabyggð heldur úti skemmtilegu bloggi á eyjan.is Nýjasta færslan hans fjallar um þau sérkennilegu rök sem oft eru notuð í Evrópuumræðunni. Grímur segir meðal annars;

,,Það er alveg merkilegt í þessari Evrópusambandsumræðu hvað er hægt að snúa öllu á hvolf og grípa til undarlegustu raka. Hvernig í ósköpunum getur það verið betra eða verra að skulda 20 milljarða í banka í Lúx innan eða utan ESB? Þessi kvótavitleysa og auðlindaumræða er út í móa. Það er ekki hægt að grípa til eignarréttarhugtaksins þegar það hentar vinunum í LÍÚ og síðan til sameignar þjóðarinnar rakanna þegar greifinn er frá Lúxemborg."

Hægt er að lesa bloggið í heild sinni á þessari slóð:


Morgunfundur um reynsluna af EES

Á fimmtudagsmorgun mun einn helsti sérfræðingur Noregs í Evrópumálum, dr. Fredrik Sejersted, formaður Evrópuréttarstofnunar Oslóarháskóla, ræða stöðu Noregs í Evrópusamstarfi undir heitinu Framtíð Noregs innan eða utan ESB – reynslan af 15 ára sambúð með EES. Um er að ræða s.k. morgunverðarfund, sem hefst kl. 8.15 í Norræna húsinu og stendur til 10.00. Aðgangseyrir er 1000 kr. (morgunverður).

 bifrost


Afar athyglisvert viðtal í MBL

Baldur PéturssonBaldur Pétursson,aðstoðarframkvæmdastjóri Endurreisnar og þróunarbanka Evrópu (ERBD), sem hefur aðsetur í London, tjáir sig í afar athyglisverðu viðtali í Morgunblaðinu í gær. Miðað við þróun mála í Hádegismóum fer kannski hver að verða síðastur að sjá greinar sem þessar í blaðinu, hver veit? Í viðtalinu ber orðin ESB og evra nefnilega á góma. Hvað um það, grípum aðeins niður í viðtalið, en feitletranir eru bloggara:

Baldur um gjaldmiðilsvandann: ,,Eini möguleikinn við lausn þessa risavaxna gjaldmiðilsvanda er að auka trúverðugleika krónunnar og styrkja hana að jafnvægisgengi með samstarfi og samningum við Seðlabanka Evrópu og ESB um fjármála- og gjaldmiðilsstöðugleika, sem fyrst, á grunni EES-samningsins og umsóknar um aðild að ESB, eins og stefnt er að, vegna þeirra neyðarstöðu sem hér er. Eftir það mætti minnka eða afnema gjaldeyrishöftin. Í þessu sambandi skiptir afar miklu að Ísland hefur þegar sótt um aðild að ESB. Takist að styrkja krónuna í jafnvægisgengi og koma á gengisstöðugleika, sem er forsenda allra annarra aðgerða, myndu erlendar skuldir einnig lækka um 1.000 milljarða. Í þessari erfiðu stöðu eru því einnig hugsanlega mikil tækifæri til lausnar vandanum – sem mikilvægt er að athuga afar vel. Takist þetta er bjart framundan á Íslandi.“

Baldur um skuldavandann: „Meginorsök þessa skuldavanda sem við er að stríða má rekja til kerfisvanda vegna allt of lítils og stórlega áhættumikils gjaldmiðils í mörg ár...Hann er hruninn langt umfram eðlilegt langtímajafnvægi og er ekki lengur nothæfur á alþjóðamörkuðum þar sem hann hefur misst allt traust. Svo mikið gengishrun hefur margfalt skaðlegri áhrif nú, sökum þess hversu erlendar skuldir eru miklu hærra hlutfall af heildarskuldum en áður var. Þess vegna veldur mikið gengisfall miklu meira tjóni en ávinningi fyrir íslenska hagkerfið og magnar í raun allan vanda og um leið niðursveifluna. Hluta af gengisfallinu og vandanum undanfarið má einnig rekja til þess að gjaldeyri vegna útflutnings hefur ekki verið skipt yfir í íslenskar krónur á innlendum markaði.“

Í greininni, sem rituð er af Grétari Júníussyni, segir ennfremur:,,Baldur segir að þó að tjón af falli bankanna sé mikið sé það líklega einungis um 20-30% af heildartjóninu hér á landi en tjónið vegna hruns krónunnar sé um 70-80% af heildartjóninu. Þetta stafi af því að hrun krónunnar komi fram í verðbólgu, hækkandi verðlagi, verðtryggðum lánum (sem sé einstakt og magni vandann) og miklum hækkunum á erlendum skuldum fyrirtækja, ríkis, sveitarfélaga og einstaklinga, vöxtum innanlands sem erlendis, mikilli greiðslubyrði og erfiðleikum íslenskra fyrirtækja erlendis, auknu atvinnuleysi og fleiru.

„Gengisfallið ógnar hratt stórframkvæmdum og undirstöðufyrirtækjum þar sem þau eru sum hver ekki lengur bankahæf hjá erlendum bönkum þar sem eigið fé hrundi niður fyrir viðmiðunarmörk – vegna hruns krónunnar þar sem erlendar skuldir hækkuðu mikið. Gengisfallið veldur einnig mun meiri samdrætti og minni tekjum og því að skera þarf meira niður í útgjöldum ríkis og sveitarfélaga en ella sem um leið magnar niðursveifluna og gerir hana enn erfiðari. Þrátt fyrir að einstaka útflutningsgreinar njóti ávinnings lágs gengis í meiri tekjum hækka erlendar skuldir þeirra meira og heildartjón þjóðarinnar verður mun meira af gengisfallinu en ávinningurinn..."

Baldur um reynslu annarra landa: ,,Hefði verið evra hér á landi á umliðnum árum, hefði þetta gengis- og verðbólgutjón ekki átt sér stað, enda ekkert slíkt gengistjón gerst almennt hjá fyrirtækjum og einstaklingum í þeim löndum sem búa við stóra og trausta gjaldmiðla eins og evrunasvo sem í Finnlandi, Lúxemborg eða Írlandi.“ Þetta á einnig við Danmörku, Færeyjar og Grænland sem eru einnig með evru í raun þar sem danska krónan er tengd evru innan ERM, sem Ísland ætti að athuga sem allra fyrst í komandi samningum við ESB, þar til evra verður tekin upp.“

Baldur segir að með tillögum sínum sé hægt að lækka erlendar skuldir um 1000 milljarða, eina billjón íslenskra króna! Það er rekstur menntakerfisins í 20 ár!

Þarf frekari orða við?

Aðeins um Endurreisnar og þróunarbanka Evrópu, ERBD: Bankinn styður fjárfestingarverkefni í yfir 30 löndum í Evrópu og Asíu. Árið 2008 veitti bankinn um 5 milljörðum evra í yfir 300 verkefni.

Sturla: Punktar úr Pressupistli

Sturla BöðvarssonSturla Böðvarsson, fyrrum forseti Alþingis og liðsmaður Sjálfstæðisflokksins skrifar pistil um Evrópumál á www.pressan.is Hér eru nokkrar ,,klippur” úr pistlinum. Dæmi hver fyrir sig:

 

,,Það blasir við að fulltrúar Evrópusambandsins eru á höttunum eftir aðgangi að auðlindum okkar með alla vasa úttroðna af evrum. Tilbúnir til þess að kaupa upp flotann og félögin sem hafa aflaheimildir og nýtingarréttinn á auðlindum.”

 

Andsvar: Í fyrsta lagi skal bent á að eru það ekki Kínverjar sem vilja komast hingað í álframleiðsluna um þessar mundir? Þeir eru með vasana fulla af dollurum. Chinalco heitir fyrirtækið og hefur verið í fréttum að undanförnu. Kína er ekki í ESB.

 

ESB hefur ekki sett fram neinar kröfur eða slíkt sem gæti túlkast sem að sambandið væri að ásælast auðæfi Íslands. Íslendingar gætu hinsvegar miðlað ESB-þjóðum stórlega af þekkingu á sviði orkunýtingar og nýtingu sjávarauðlinda. Hér væri t.d. hægt að setja upp alþjóðlegar rannsóknastofnanir á þessum sviðum!

 

Í aðildarviðræðum þyrftum við Íslendingar að tryggja yfirráð yfir auðlindunum. Sturla fellur hér ofan í gryfjuna um hrægamminn, þ.e.a.s. að ESB sé hrægammurinn sem bíði þess eins að hrifsa til sín auðlindir Íslands. Það hefur ESB hvergi gert. Þetta veit Sturla örugglega. Í þessu sambandi er vert að benda á ummæli utanríkisráðherra Spánar á www.mbl.is í síðustu viku:

 ,,Moratinos sagði Íslendinga ekki þurfa að óttast fiskveiðimálin þegar að Spánverjar tækju við formennskunni af Svíum. Evrópusambandið ætti rætur í kola- og stáliðnaðinum sem áður hefði sundrað álfunni og því væri engin ástæða fyrir því að ekki tækist að ná hagstæðri lendingu í málinu fyrir alla aðila.” 

Meira frá Sturlu:

 

,,Svo fámenn þjóð sem Ísland er getur ekki verið sjálfstæð innan Evrópusambandsins eins og kaupin gerast þar á eyrinni...Við getum ekki hlaupið yfir landamærin þegar á bjátar eins og Danir, Svíar eða Finnar geta gert.”

 

Andsvar: Er Malta ekki sjálfstætt ríki, eftir að landið gekk í ESB fyrir aðeins örfáum árum? Íbúar Möltu eru bara um 100.000 fleiri en við Íslendingar??? Missti Malta sitt sjálfstæði? Nei! Norðurlöndin þrjú er líka s.k. smáríki og að öllu leyti frjáls. Og hvað er Sturla eiginlega að gefa í skyn með orðum sínum?

 

,,Og  við eigum að leggja áherslu á vottaða vistvæna matvælaframleiðslu sem skapar okkur sérstöðu í stað þess að láta draga okkur inn í regluverk ESB sem leggur landbúnaðarframleiðslu okkar í rúst og ógnar stöðu sjávarútvegsins...”

 

Andsvar: Innan ESB hefði íslenskur landbúnaður langtum meiri og fleiri tækifæri til þess að afla sér fjármagns til þess að gera einmitt það sem Sturla er að tala um. Í samvinnu við evrópska bændur. Mikil áhersla er á vistvænan landbúnað innan ESB og þar er framtíð landbúnaðar til umræðu í víðu samhengi, m.a. með tilliti til loftslagsáhrifa landbúnaðar. Hvergi í ESB-landi hefur landbúnaður lagst í rúst, það ætti Sturlu að ver kunnugt. Landbúnaður hefur, allt frá iðnbyltingu (og lengra aftur í tímann) tekið stöðugum breytingum, í takti við samfélagslegar breytingar. Fækkun bænda byrjaði því löngu fyrir daga ESB!

 

,,Með viðræðum við Bandaríkin, Kanada, Rússland,  Kína, Noreg og Evrópusambandsríkin ætti að leggja upp spurningar um það á hvaða sviðum við gætum átt samstarf á nýjum forsendum í breyttri heimsmynd sem kallar á ný vinnubrögð í samstarfi okkar við aðrar þjóðir.”

 

Andsvar: ...samstarf á nýjum forsendum...,,ný vinnubrögð í samstarfi...”  Hér er Sturla óskýr. Er hann að tala um aukna áherslu á tvíhliða viðskiptasamninga? Hvernig ætlar Sturla að eiga samvinnu við þessi ríki sem hann nefnir, án þess að aðilar frá þessum löndum fjárfesti t.d. í fyrirtækjum og öðru hér á landi, í því sem að milliríkjasamskiptum kemur?

 

,, Við megum ekki leggja árar í bát og bíða þess að Evrópusambandið „bjargi“ okkur.” 

 

Andsvar: Það hefur enginn sagt að það sé ESB sem muni alfarið bjarga Íslandi. Litið hefur verið á það sem hluti lausnarinnar. Það þarf miklu meira til, m.a. umbætur hér innanlands. Einnig má líta á ESB-málið útfrá öryggissjónarmiðum, sérstaklega eftir brotthvarf  bandaríska hersins árið 2006.


Stefna Ungra Evrópusinna

ÍSLAND-ESBEins og fram hefur komið hér á blogginu, stofnuðu ungir Evrópusinnar samtök í vikunni. Á fundinum var samþykktur hugmyndafræðilegur grunnur hreyfingarinnar, sem er svona:

Ungir Evrópusinnar er þverpólitísk ungliðahreyfing sem telur að hagsmunum Íslands geti verið best borgið með aðild að Evrópusambandinu, og að nauðsynlegt sé fyrir Ísland að taka virkan þátt í samstarfi Evrópuþjóða á efnahagslegum, menningarlegum, félagslegum og stjórnmálalegum grundvelli.

Ungir Evrópusinnar vilja stuðla að opinni og upplýsandi umræðu um samstarf Evrópuríkja og dreifa upplýsingum og þekkingu um Evrópusambandið.Ungir Evrópusinnar vinna því með aðild Íslands að ESB sem helsta markmið. Þá er hreyfingin opin öllum ungliðum frá 16 ára afmælisdegi þeirra þar til þeir verða 36 ára, fari þeir að lögum hreyfingarinnar.

Hlutverk Ungra Evrópusinna er að stuðla að opinni og upplýsandi umræðu um Evrópusambandið, að dreifa upplýsingum og þekkingu um sambandið og að koma hugsjónum og hugmyndafræði sambandsins á framfæri við unga fólkið og leiðrétta rangfærslur um Evrópusambandið. Þá mun hreyfingin reyna að fá alla unga evrópusinna undir sama hatt.

Ungir Evrópusinnar munu vinna náið með öðrum íslenskum sem og erlendum hreyfingum sem vinna með sömu eða svipuð markmið og hreyfingin, eins og til dæmis Evrópusamtökin, Europeisk Ungdom í Noregi og JEF.

Í stjórn voru kjörin: Andrés Ingi Jónsson, Einar Leif Nielsen, Helga Finnsdóttir, Ingvar Sigurjónsson, Sema Erla Serdar og Stefán Vignir Skarphéðinsson.

 

 


Til hamingju Ungir Evrópusinnar!

Aðalsteinn LeifssonUngir Evrópusinnar héldu stofnfund sinn í kvöld á Kafé Sólon í Reykjavík. Sérstakir gestir á fundinum voru Aðalsteinn Leifsson, lektor í HR og Erlend Sand, leiðtogi Ungra Evrópusinna í Noregi.

Kosin var sex manna stjórn og voru lög hreyfingarinnar samþykkt. Ungir Evrópusinnar eru óbundin stjornmálaflokkum. Á næstunni verður opnuð heimasíða á vegum samtakanna.

Evrópusamtökin óska Ungum Evrópusinnum til hamingju með daginn!


2.5 milljarðar í umhverfis og orkurannsóknir

greencarESB hefur ákveðið að verja um sem samsvarar 2.5 milljörðum íslenskra króna til rannsókna á umhverfis og orkumálum á næstu fjórum árum. Þetta kemur fram á vef norsku Evrópusamtakanna. Þar kemur einnig fram að norsk fyrirtæki og samtök geti sótt um framlag. Markmið rannsókanna er að minnka orkunotkun. Einblínt er á þrjú megin svið: Verksmiðjur framtíðarinnar, orkusparandi byggingar og vistvænir bílar (verkefnið ber heitið "European Green Cars")

Fyrir áhugasama er fréttin í heild sinni hér í Teknisk Ukeblad

"Grænir bílar": http://www.thegreencarwebsite.co.uk/


Barroso endurkjörinn

Jose M BarrosoJose Manuel Barroso hefur verið endurkjörinn forseti framkvæmdastjórnar ESB til næstu fimm ára. Mesta andstaðan gegn honum kom frá vinstri-væng Evrópuþingsins. Hægt er að lesa um þetta á frétt EuObserver.


Stofnfundur Ungra Evrópusinna

ESBStofnfundur Ungra Evrópusinna verður haldinn fimmtudaginn 17. september 2009, á efri hæðinni á Kaffi Sólon, klukkan 20.00.Á stofnfundinum mun meðal annars eiga sér stað nánari kynning á hreyfingunni og stjórn hennar vera kjörin.

Sérstakir gestir fundarins verða stjórnarmeðlimir frá Europeisk Ungdom, ungliðahreyfingu Evrópusamtakanna í Noregi ásamt Aðalsteini Leifssyni. Munu gestirnir flytja erindi á fundinum.Fundarstjóri verður Hlini Melsteð Jóngeirsson.          

Ungir Evrópusinnar er þverpólitísk ungliðahreyfing sem telur að hagsmunum Íslands geti verið best borgið með aðild að Evrópusambandinu, og að nauðsynlegt sé fyrir Ísland að taka virkan þátt í samstarfi Evrópuþjóða á efnahagslegum, menningarlegum, félagslegum og stjórnmálalegum grundvelli. Ungir Evrópusinnar vilja stuðla að opinni og upplýsandi umræðu um samstarf Evrópuríkja og dreifa upplýsingum og þekkingu um Evrópusambandið.

Nánari upplýsingar veitir Sema Erla Serdar í síma 8228904.

Evrópusamtökin fagna þessu frumkvæði unga fólksins. Allir ungir Evrópusinnar hvattir til að mæta annað kvöld!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband