Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Gylfi Arnbjörnsson hvass um krónuna

Gylfi ArnbjörnssonGylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, skrifar öflugan pistil á www.pressan.is um íslensku krónuna undir fyrirsögninni, GETUM VIÐ TREYST BRENNUVARGINUM FYRIR KYNDLINUM?Gylfi er ekkert læðupokast í orðanotkun sinni og segir m.a.:

,,Blind þjóðernistrú

Það er afar mikilvægt að stjórnmálamenn þessa lands átti sig á því að það er ekki hægt að byggja framtíð okkar hagkerfis á sama sem engu. Blind þjóðernistrú á eigin gjaldmiðil, þann minnsta í heimi!, getur bara haft eitt í för með sér og það eru miklar sveiflur í okkar efnahags- og atvinnulífi – líkt og við höfum mátt búa við undanfarna áratugi.

Ef horft er íslenska hagkerfið síðustu 60 árin má sjá, að aðeins í einn af þessum sex áratugum hefur íslenskt launafólk búið við efnahagslegan stöðugleika og lága verðbólgu. Það var 1990-2000. Öll hin árin hefur verðbólga og óstöðugleiki leikið kaupmátt launafólks og elli- og örorkulífeyrisþega grátt og rýrt eignir þeirra." 

Og síðar segir Gylfi:

,,Krónan föst

Íslenska krónan hefur fallið um amk. 20% meira en samrýmist langtímajafnvægi hennar. Vandinn er bara sá að hún er föst þarna á meðan Alþingi heldur landinu einangruðu frá öllum eðlilegum samskiptum við fjármálamarkaðina. Að mínu mati er í gangi ákveðið kapphlaup við tímann hér á landi – annað hvort tekst að skila þessari styrkingu krónunnar til almennings með lækkuðu verði á erlendri vöru og þjónustu og lækkun á skuldum heimilanna með hjöðnun verðbólgunnar eða þetta mun brjótast út sem launaskrið og í kjölfar þess almennar launahækkanir.

Það færi vel að fjármálaráðherra landsins gerði sér grein fyrir þessu – næg er reynslan því í fimm af sex síðustu áratugum gerðist þetta þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir aðila vinnumarkaðarins að ná tökum á þessu ástandi. Á ársfundi ASÍ í október 2008 – og aftur á aukaársfundi í mars 2009 – var það okkar niðurstaða að eina færa leiðin út úr þessum ógöngum væri að sækja um aðild að ESB og taka upp evru eins fljótt og hægt er.

Aðeins þannig getum við fengið traustann grunn að okkar hagkerfi – grunn sem launafólk geti staðið á og byggt framtíð sína og barna sinna á til lengri tíma en 10 ára í senn!" 

Allur pistillinn

Uppfærsla: Kíkið einnig á http://silfuregils.eyjan.is/2010/03/09/kronan-sem-brennuvargur/ og lesið "kommentin" líka, þau eru mörg hver áhugaverð og sitt sýnist hverjum!


Fundur um Evrópumál, fimmtudag

Ágæta áhugafólk um Evrópumál, við vekjum athygli ykkar á þessum fundi á fimmtudaginn kl.11.40-12.20.


esb-merkiÍsafold - ungt fólk gegn ESB-aðild, í samstarfi við Orator, félag laganema við HÍ  boða til málfundar um ungt fólk og Evrópusambandið fimmtudaginn 11. mars næstkomandi í sal 101 á Háskólatorgi kl. 11.40-12.20


Yfirskrift fundarins er
,,Ungt fólk og ESB  - hvað græðum við á aðild?".
Ræðumenn verða þau Maria Elvira Mendez dósent í evrópurétti, Magnús Árni
Magnússon aðjúnkt í stjórnmálafræði og Tale Marte Dæhlen, formaður Ungdom mot EU í Noregi.

Hvert þeirra mun halda um 10 mínútna erindi. Erindin fjalla um áhrif
mögulegrar aðildar Íslands að ESB á ungt fólk með áherslu á menntun,
lýðræði, atvinnu/atvinnuleysi og fleiri málefni sem snúa að hagsmunum ungs
fólks. Ræðumenn, sem hafa mismunandi skoðanir á þessum málaflokki, munu í
erindum sínum leitast við að svara því hvers vegna eða hvers vegna ekki
ungt fólk ætti að vilja ganga í ESB. Í  lok erindanna verða fyrirspurnir
leyfðar úr sal.

Fundurinn verður á ensku


iCeSaVe rules!

Mjólk er góð!Það hefur ekki mikið verið fjallað um Icesave á Evrópublogginu, en nú verður ger undantekning og það vegna umræðunnar um þátttökuna í þessari blessaðri þjóðaratkvæðagreiðslu. Eins og réttilega hefur verið bent á er alvanalegt hér á landi að þátttaka í almennum þingkosningum sé um og yfir 90%. En í Icesave kosningunum var þátttakan um 60%. Svo deila menn um það hvort þetta sé mikið eða lítið.

Tökum dæmi: Þú ferð í búðina og kaupir líter af mjólk. Þegar þú kemur heim finnst þér fernan full létt og þú kemst að því að hún vegur aðeins 600 grömm. Ertu sáttur eða ferðu og skilar mjólkinni og færð fullan líter, sem þú borgaðir fyrir? Sennilega skilarðu ,,létt-mjólkinni" og færð alvöru fernu!

Hefði löggjafinn sett einhver skilyrði um þátttöku í kosningunum, er ekki ólíklegt að miðað hefði verið við 50% kosningabærra íbúa landsins. Ef svo hefði verið, hefðu þá rúm 60% þótt mikið?

Þetta eru bara svona vangaveltur, nú hefst hið pólitíska karp og eftirspil um þetta mál, hjá þjóð sem virðist elska að hata Icesave og allt sem því fylgir! IceSavE RuLEs!!


Gunnar Hólmsteinn: Í gin verðtryggingar

Gunnar Hólmsteinn ÁrsælssonStjórnmálafræðingurinn Gunnar Hólmsteinn Ársælsson sendi inn grein þar sem hann fjallar um verðtryggingu. Hann lýsi m.a. því hvernig er að flytjast úr óverðtryggðu efnahagskerfi, þar sem efnhagslegur stöðugleiki ríkir (lágir vextir og verðbólga) inn í hið íslenska verðtryggða kerfi, með háum vöxtum og verðbólgu. Greinin er hér í heild sinni:

Í GIN VERÐTRYGGINGAR

Allir þurfa þak yfir höfuðið, það eru jú altæk sannindi. Hér á Íslandi hefur sú hefð skapast að álitið er svo að íbúðarhúsnæði er talið vera lífssparnaður fólks. Menn taka lán, setja inn summu af eigin fé og svo er bara að borga af. Að eiga sína fasteign er talið eðlilegt.

Árið 1996 fluttum ég og konan mín til Svíþjóðar, til framhaldsnáms. Byrjuðum á að leigja, eins og við gerðum á Íslandi, en eftir eitt ár keyptum við svokallaðan búseturétt. Fjölskyldan stækkaði og eftir nokkur ár þurfti að selja og kaupa stærra. Búseturétturinn var seldur á fimmföldu verði vegna hækkandi fasteignaverðs í Svíþjóð og parhús keypt. Í fyrstu var það einnig búseturéttur, en fljótlega komst á samkomulag innan búsetafélagsins að breyta eignarforminu, þannig að hver fjölskylda myndi eignast sína fasteign.

Þau lán sem hvíldu á parhúsinu, voru með vöxtum á bilinu 1-2% og verðbólga var svipuð. Fyrir íbúðareigendur er þetta þægileg staða, við hver mánaðarmót minnkaði lánið og við eignuðumst meira í húsinu eftir því sem á leið. Það heitir ,,jákvæð eignamyndun“ á fagmáli. Við vissum einnig hvernig staða okkar var nákvæmlega við hver mánaðarmót og fram í tímann.

Í júní 2007 fluttum við fjögur svo heim. Parhúsið selt. Við högnuðumst bæði af sölu búseturéttarins í upphafi og parhússins. Þegar upp var staðið var hagnaðurinn c.a. 5 milljónir króna (sem þykir kannski ekki mikið á íslenskan mælikvarða). Þessa peninga og annað sparifé notuðum við til að kaupa fasteign á Íslandi. Að sjálfsögðu tókum við lán.

En hvað hefur gerst á þremur árum? Jú, lán okkar hefur hækkað um nákvæmlega fimm milljónir vegna vaxta og verðtryggingar! Það hefur því ekki tekið íslensku verðtrygginguna nema tæp þrjú ár að éta í sig allt það fé sem við fengum út úr sölu tveggja fasteigna í Svíþjóð! Þetta er svokölluð ,,neikvæð eignamyndun“ á fagmáli.  Í stað þess að eignast í fasteigninni, hefur lánveitandinn eignast sífellt meira í okkur og okkar ráðstöfunartekjum.

Það sér hver heilvita maður að þetta er klikkað kerfi. Þegar ég sá í hvað stefndi á greiðsluseðlunum þá hringdi ég í þáverandi Glitni í einfeldni minni. Ég spurði konuna sem svaraði hvort þetta væri eðlilegt. Hún svaraði: ,,Já, já, þetta er alveg eins og það á að vera,“ og spurði mig svo um vextina á láninu. Ég svaraði; ,,4.5%“ (nafnvextir, svo leggst verðbólga og vertrygging ofan á). ,,Þú ert bara með frábært lán!“ sagði starfsmaður bankans! Nú, er það, svaraði ég og þakkaði fyrir samtalið. Nú hlyti mér að líða miklu betur yfir þessu!

En er þetta fínt? Er það eitthvað fínt að nokkuð sem heitir verðtrygging hlaði auka-milljónum ofan á húsnæðislánin? Hversvegna varð verðtrygging til? Jú, vegna þess að stjórnmálamenn réðu ekki við verðbólgu og efahagsmálin. Hún átti að vera tímabundin aðgerð sem sett var á árið 1979 (s.k. ,,Ólafslög“, sem viðbrögð við óðaverðbólgu. Því má líta á verðtryggingu sem tryggingu stjórnmálamanna og yfirvalda sem ráða ekki við að stjórna efnahag landsins, eða eins og Gylfi Magnússon (þáverandi dósent við H.Í) segir í svari á vísindavef H.Í: ,, Í löndum þar sem gjaldmiðillinn hefur verið stöðugur um langan tíma og verðbólga hefur ekki farið úr böndunum er sjaldgæfara að samið sé um verðtryggingu en í löndum þar sem íbúar hafa reynslu af mikilli og óstöðugri verðbólgu.“

 


Jón Steindór: Næstu skref....

Jón Steindór ValdimarssonJón Steindór Valdimarsson, formaður Samtaka iðnaðarins skrifar góða grein á www.sterkaraisland.is um næstu skref í ESB-málinu. Greinin birtist hér í heild sinni.

Næstu skref í undirbúningi aðildar

Framkvæmdastjórn ESB hefur mælt með því að formlegar viðræður hefjist um aðild Íslands. Það er því ekki úr vegi að skoða hvaða skref eru framundan.

Ráðherraráðið þarf að samþykkja
Það er ráðherraráðið (European Council) sem tekur endanlega ákvörðun um hvort Íslandi verði formlega veitt staða umsóknarríkis og viðræður hafnar eða ekki. Um það verður að ríkja einhugur í ráðherraráðinu en þar sitja ráðherrar frá öllum 27 aðildarríkum ESB. Rætt hefur verið um að ráðherraráðið taki afstöðu í mars en það kann að dragast. Ástæðan er sú að þýska sambandsþingið verður að fjalla um og koma með formlegum hætti að því að móta afstöðu Þýskalands í ráðherraráðinu við ákvarðanir af þessu tagi. Þetta er í fyrsta sinn sem reynir á þessa málsmeðferð eftir að stjórnlagadómstóll í Þýskalandi kvað upp úrskurð í þessa veru. Á þessu stigi er óljóst hvort þýska þingið nær að afgreiða málið í þessum mánuði. Engin ástæða er til að ætla annað en að niðurstaða þingsins leiði til þess að Þýskaland samþykki að hefja aðildarviðræður við Ísland.

Greining
Að því gefnu að ráðherraráðið samþykki að hefja aðildarviðræður við Ísland byrja þær strax í kjölfarið á svokölluðu rýniferli (screening process). Í því felst að farið er í saumana á þeim lögum og reglum sem aðildarríkið verður að laga sig að. Segja má að þetta sé allt laga- og regluverk sem hefur orðið til frá upphafi ESB og er í gildi í samstarfi þeirra 27 ríkja sem fyrir eru. Oft er vísað til þessa með franska orðinu acquis eða orðunum acquis communautaire og mætti etv. útleggja það sem áunnist hefur eða það sem hefur verið ákveðið innan ESB. Í rýniferlinu skýrir ESB reglur sínar fyrir Íslandi og í sameiningu greina ESB og Ísland hvar gætu komið upp vandamál. Rýniferlið er mikilvægur þáttur í því að Ísland átti sig vel á regluverki ESB og fái skýringar á einstökum þáttum þess og þýðingu. Báðir aðilar fá þá skýrari mynd af því sem sameiginlegt er og hvar kann að vera mismunur sem þarf að greiða úr með einhverjum hætti. Í lok þessa ferlis er gefin út sérstök rýniskýrsla (screening-report) og er henni skipt niður í 35 kafla til samræmis við skipulag fyrirhugaðra samningaviðræðna. Rýniskýrslan er grundvallargagn þegar kemur að samningaviðræðum.

Viðfang samninga
Þegar rýniskýrslan liggur fyrir setur Ísland fram samningsmarkmið eða afstöðu sína til hvers og eins kafla í rýniskýrslunni. Framkvæmdastjórn ESB setur einnig fram sín viðhorf (draft common position) og leggur fyrir ráðherraráðið. Í kjölfarið skilgreinir ráðherraráðið sameiginlega afstöðu ESB og þar með er unnt að hefja eiginlegar samningaviðræður um hvern efniskafla.

Samningaviðræðurnar sjálfar eru í höndum aðalsamningamanns Íslands og samninganefndar Íslands annars vegar og fastafulltrúa aðildarríkjanna 27 hins vegar.

Allar efnislegar ákvarðanir eru teknar á svokölluðum ríkjaráðstefnum þar sem öll aðildarríkin 27 og Ísland taka þátt. Hverjum efniskafla er lokað eins og kallað er þegar samkomulag hefur náðst um efni hans. Hins vegar gildir sú regla að ekkert er frágengið og staðfest fyrr en heildarsamkomulag liggur fyrir.

Staðfesting
Náist samkomulag um alla kaflana 35 og þar með heildarsamkomulag eru gerð drög að aðildarsamningi þar sem fram kemur hvenær og hvernig Ísland getur orðið eitt að aðildarríkjum ESB. Þar koma fram öll þau atriði þar sem samkomulag er um aðlögun, tímafresti og sérlausnir. Framkvæmdastjórnin gefur út formlegt álit á aðild Íslands og leggur fyrir Evrópuþingið en það verður að fjalla um og samþykkja aðildina fyrir sitt leyti áður en unnt er að undirrita aðildarsamninginn og senda hann til aðildarríkjanna 27 til samþykktar eða synjunar. Á sama tíma þarf Ísland að taka aðildarsamninginn til afgreiðslu á sínum vettvangi. Þar liggur fyrir að efnt verður til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort staðfesta eigi eða hafna aðildarsamningnum.

Ómögulegt er að sjá fyrir hve langan tíma allt þetta ferli mun taka.


Guðfríður og Ásmundur: Leggja til ROSALEGA úttekt á gjaldmiðilsmálum!

Guðfríður Lilja GrétarsdóttirTveir þingmenn VG, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Ásmundur Einar Daðason, leiðtogi NEI-sinna á Íslandi mæltu fyrir þingsályktunartillögu um gjaldmiðilsmál á Alþingi í síðustu viku. Og það er enginn SMÁRÆÐIS úttekt sem þau eru að mæla fyrir. Þau vilja m.a. fá innlenda og erlenda sérfræðinga til að gera heildstætt mat á kostum og göllum krónunnar, láta rannsaka hvort krónan hafi gert okkur gagn eða ógagn við að vinna okkur út úr kreppunni (sem við erum náttúrlega alls ekki búi að) og þau vilja bera saman aðstæður á Íslandi við önnur myntsvæði sem hafa verið að glíma við kreppur, Evrusvæðið og þau vilja líka láta gera heildstætt mat á upptöku annarra gjaldmiðla og nefna í því samhengi Evru, dollar, norsk og sænska krónu! Vá, þetta var löng setning!

En það er líka ljóst af þessu að þetta yrði svakalega löööööööng úttekt, sem tæki eflaust mörg ár að vinna.

Er það kannski það sem vakir fyrir þeim, að svæfa gjaldmiðilsmálið í rannsóknt-úttekt, sem tæki langan tíma? Ásmundur Einar er jú formaður hreyfingar sem vill ekki heyra á annan gjaldmiðil en krónuna minnst!

Þar að auki myndi myndi kostnaður við þetta hlaupa á tugum ef ekki hundruðum milljóna.T.d. eru erlendir sérfræðingar ekki ókeypis, að því höfum komist í kreppunni. Það vita GL-ÁS!

Annað: Norðmenn hafa þegar sagt NEI og vilja ekki láta Íslendinga taka upp norska krónu. Þannig að þeim hluta er bara hægt að sleppa. Vita Guðfríður Lilja og Ásmundur ekki þetta, eða eru þau búin að spyrja einhverja aftur í Noregi?

Ólíklegt er að Svíar myndu leyfa okkur að taka upp sænsku krónuna og alls ekki er útilokað að þeir taki upp Evru á næstu árum, m.a. vill núverandi fjármálaráðherra (hægrimaðurinn Anders Borg) vinna að upptöku hennar.

Og svo þetta: Bloggari gerir ráð fyrir að bæði Guðfríður og Ásmundur séu sósíalistar, eða jafnvel kommúnistar, þau tilheyra jú VINSTRI-Grænum. Og að þau séu friðarsinnar. Spurningin er þá þessi: Vilja þau taka upp dollara, en fáir hlutir tákngera alheimskapítalismanna jafn mikið og dollarinn?

Fáir gjaldmiðlar hafa verið notaðir jafnmikið til þess að fjármagna stríð og aðra óáran í heiminum og er dollarinn enn í því hlutverki! Þetta gengur einhvernvegin ekki upp, það verður að segjast eins og er.

Evran er hinsvegar gefin út af sambandi og aðildarríkjum, sem standa fyrir frið, mannréttindi, jafnræði og mannvirðingu. Þau markmið sem uppfylla þarf til að taka upp Evru eru m.a. lágir vextir, lág verðbólga og stöðugleiki í efnahagsmálum. Allt þættir sem miða að velferð og öryggi ,,Jóns og Gunnu" og barna þeirra, s.s. almennings!

Er það ekki eitthvað sem við Íslendingar þurfum hvað mest þessa dagana? 

Þeir sem vilja hlusta á Guðfríði Lilju mæla fyrir tillögunni, geta gert það hér


Grikkland: Skuldabréfaútgáfa gekk vel

Gríski fáninnSkuldabréfaútgáfa sú sem gríska stjórnin hefur staðið fyrir á undaförnum dögum hefur gengið vel og hefur þetta styrkt tiltrú manna á Grikklandi og þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til vegna efnahagsvanda landsins. Þetta kemur m.a. fram í frétt Bloomberg um málið.

Þar er einnig sagt frá því að ESB sé með "aðgerðapakka" í undirbúningi ef á þarf að halda. Evrópski fjárfestingabankinn (EIB) hefur líka sagt að bankinn sé tilbúinn að flýta ýmsum fjármögnunaraðgerðum sem gætu komið Grikklandi til góða. Þessu segir Wall Street Journal frá.


"Sýn" Bændasamtakanna á gjaldeyrismálin

1000 krÞað var athyglisvert viðtal Gísla Einarssonar við Harald Benediktsson um sýn Bændasamtakanna á gjaldmiðilsmál okkar Íslendinga í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi.

Þar kom eiginlega fram að samtökin hafa enga sýn á gjaldmiðilsmálin, en samt talar formaðurinn um að það sé ,,fjöldi leiða í þeim efnum." Hvaða fjöldi leiða???

Fram hefur komið að um 20% mjólkurbúa á við gríðarlega skuldavanda að etja, m.a. vegna hruns íslensku krónunnar. Í MBL í dag kemur fram að staða svínabænda hefur aldrei verið verri og að greinin sé í raun gjaldþrota. Þetta hefur tekist án aðstoðar ESB!!

Landbúnaður er mjög háður; a) innflutningi tækja og búnaðar og b) innfluttum aðföngum. Á sama tíma er ekki um að ræða stórkostlegan útflutning á landbúnaðarvörum, enda framleiða bændur að langstærstum hluta fyrir innanlandsmarkað.

Hér er þetta merkilega viðtal, sem RÚV gaf yfirskriftina TAKA EKKI AFSTÖÐU TIL KRÓNUNNAR

 


Sérkennileg nálgun MBL um sjávarútvegsmál

Benedikt JóhannessonBenedikt Jóhannesson skrifar um sérkennilega nálgun blaðamanns Morgunblaðsins í frétt um sjávarútvegsmál, sem birtis í blaðinu um síðustu helgi. Benedikt skrifar á www.sterkaraisland.is og ES-bloggið fékk grein Benedikts til birtingar.

Hvað hljómar verst?

Í Morgunblaðinu þann 27. febrúar var grein eftir Kristján Jónsson blaðamann sem bar heitið „Yrðuð að hleypa ESB-skipum inn“. Greinin byggði á viðtali við skoska íhaldsþingmanninn Struan Stevenson. Miðað við fyrirsögnina bjóst ég við að Stevenson væri mjög andsnúinn Íslendingum, en í ljós kom við lestur á greininni að hann telur einmitt að nýleg afgreiðsla þingsins styrki stöðu Íslands. Grípum niður í greinina:

„EVRÓPUÞINGIÐ fjallaði í vikunni um skýrslu sjávarútvegsnefndar þingsins sem gerð var um svonefnda Grænbók frá framkvæmdastjórn ESB um breytingar á stefnu sambandsins í málaflokknum. Þingið hefur umsagnarrétt um hugmyndirnar sem fara nú á ný til stjórnarinnar í Brussel. Skýrslan var samþykkt með verulegum breytingum á fundi þingsins á fimmtudag.

Gert er ráð fyrir að nýjar reglur hljóti endanlega afgreiðslu í sambandinu á næsta ári. Skoski íhaldsþingmaðurinn Struan Stevenson hafði gagnrýnt hart ákvæði þar sem gefið var undir fótinn með að leyfðir yrðu framseljanlegir veiðikvótar. Stevenson sagði að breytingar í þeim anda gætu endað með því að spænskir stórútgerðarmenn myndu rústa skoskan sjávarútveg.

Almennt er viðurkennt að sjávarútvegsstefna sambandsins, sem var formlega tekin upp 1983, sé eitt allsherjarklúður og hefur Stevenson verið framarlega í flokki gagnrýnenda. Hann er ekki síður andvígur hugmyndum um að slakað verði á reglum sem kveða á um svonefnda hlutfallslega veiðireynslu. þ.e. að söguleg veiðireynsla ráði. Margir álíta að reglan gæti dugað Íslendingum til að halda ESB-skipum utan lögsögunnar.“

Hér er semsé sagt að margir telji að regla „gæti dugað“ Íslendingum til þess að halda útlendum skipum utan lögsögunnar. Það er umhugsunarefni að blaðamaðurinn noti þetta orðalag, því að reglan er býsna afdráttarlaus. Höldum áfram lestri:

„Ég er býsna ánægður með að við höfum náð fram mikilvægum tilslökunum í tveim grundvallarmálum sem ollu breskum sjómönnum áhyggjum: aðganginum að miðunum og framseljanlegu kvótunum,“ sagði Stevenson í samtali við blaðamann. „Okkur tókst að ná fram mikilvægum breytingum á textanum. Ég lagði fram breytingatillögu þar sem sagði að ef gerð yrði einhver tilraun til að breyta núverandi reglum um aðgang að miðum yrði ávallt tryggt að sjómenn á staðnum hefðu forgang þegar kæmi að veiðirétti.“

Stevenson virðist því hafa stuðlað að því að reglan um aðgengi að miðunum haldi áfram (hún segir að einungis þeir sem hafa veiðireynslu fái að veiða) Greinin heldur áfram:

„Aðspurður segir Stevenson að niðurstaðan á Evrópuþinginu hljóti að vera góð tíðindi fyrir Íslendinga sem vilja ekki að Spánverjar og fleiri ESB-þjóðir fái að veiða hér eins og heimamenn. Nú séu auknar líkur á að reglan um hlutfallslegan stöðugleika haldi, segir hann. Hins vegar sé að sjálfsögðu ekki hægt að útiloka neitt, alltaf sé hægt að breyta reglum af þessu tagi síðar. En gera breskir sjómenn sér vonir um aðgang að Íslandsmiðum?

„Þið getið ekki gengið í klúbbinn okkar með skuldirnar einar í eftirdragi, þið verðið að taka eignirnar ykkar með líka! Þið yrðuð að hleypa ESB-skipum inn, nokkrum skipum þótt megnið af veiðunum yrði á ykkar hendi. En íslensk skip fengju á móti aðgang að miðum í öðrum ESB-ríkjum.“

Sú spurning vaknar hvers vegna blaðamaðurinn lagði ekki áherslu á „ góð tíðindi fyrir Íslendinga sem vilja ekki að Spánverjar og fleiri ESB-þjóðir fái að veiða hér eins og heimamenn“. Kannski sá hann fréttapunkt í því að Íslendingar yrðu að hleypa nokkrum skipum inn þótt megnið af veiðunum yrði á okkar hendi. En úr þeim punkti er ekkert gert í fréttinni.

Ég taldi hins vegar að þarna gætu verið stórtíðindi og skrifaði þingmanninum Strue Stevenson og spurði hvaða regla gæfi skipum úr Evrópusambandslöndunum rétt til að veiða á Íslandsmiðum, hve mörg þau skip yrðu og hvernig íslensk skip yrðu valin til þess að veiða að miðum í Evrópusambandsríkjum. Svar hans var svona:

„ Dear Benedikt,
Thanks for your e-mail. I don’t think Iceland has anything to fear from joining the CFP [common fishing policy]. As you point out, you have 30 years of track records to demonstrate Icelandic rights of access under relative stability rules which we will fight to maintain.

Under the CFP, there will be an opportunity to negotiate with neighbouring member states on access rights, so that Icelandic vessels may get same access to EU fisheries and vice versa. We are moving towards recognition that micro-management from Brussels has been a failure, so any reform of the CFP will involve devolving fisheries management to the stakeholders. This again will allow Iceland to retain considerable autonomy over the management of their fishery.

I hope these points reassure you.“

Evrópuþingmaðurinn telur að Ísland þurfi ekkert að óttast vegna sameiginlegu fiskveiðistefnunnar. Menn geti ákveðið að skiptast á veiðiheimildum milli ríkja, en segir ekkert um að Evrópuríki hafi einhvern rétt til veiða hér. Hann telur að Ísland muni halda mikilli sjálfstjórn, enda hafi stjórnun frá Brussel brugðist.

Eftir stendur að fyrirsögn Morgunblaðsins var hvorki í samræmi við fréttina sjálfa né þær reglur sem gilda um fiskveiðiréttindi í Evrópusambandinu. Blaðamaðurinn hefur misskilið ákveðin ummæli þingmannsins og í stað þess að spyrja hann frekar út í þau velur hann þau sem fyrirsögn. Slík blaðamennska nýtist ekki í upplýstri umræðu og óvenjulegt að sjá hana í Morgunblaðinu sem ætíð hefur gætt þess að blanda ekki saman fréttaskrifum og skoðunum blaðsins eða einstakra blaðamanna."

Þessu til viðbótar er hægt að benda á greinar eftir ÚLFAR HAUKSSON, en hann er einn af okkar helstu sérfræðingum um sjávarútvegsstefnu ESB og höfundur bókarinnar GERT ÚT FRÁ BRUSSEL. Í greinaseríu sem hann birti fyrir nokkrum vikum Í Fréttablaðinu fjallaði hann ítarlega um þessi mál. Í einni greinanna segir Úlfar m.a.:

,,Í tengslum við EES-samninginn gerðu íslensk stjórnvöld samning við ESB um gagnkvæm fiskveiðiréttindi og hefur ESB rétt til að veiða allt að þrjú þúsund tonn af karfa á afmörkuðu svæði í íslenskri lögsögu innan ákveðins tímaramma. Á móti fá Íslendingar 30 þúsund tonn af loðnu sem ESB hefur fengið frá Grænlendingum. Um veiðar ESB gilda strangar reglur og hefur eftirtekjan verið frekar rýr. Hvað varðar aðrar veiðiheimildir ESB á Íslandsmiðum þá höfðu Belgar um tíma rétt til að veiða allt að fjögur þúsund tonn af botnfiski hér við land. Síðustu árin náðu þeir einungis að nýta rúm þúsund tonn. Sú veiðireynsla sem ESB hefur innan íslenskrar lögsögu, og byggt yrði á við úthlutun kvóta, er því sáralítil. Veiðireynsla fyrir útfærslu landhelginnar í 200 mílur yrði ekki tekin gild, ESB hefur gefið fordæmi fyrir því, og veiðireynsla Belga er einnig það gömul að hún er í raun fyrnd. Reglan um hlutfallslegan stöðugleika myndi því tryggja að lítil ef nokkur breyting yrði á úthlutun veiðiheimilda í íslenskri lögsögu.(Leturbreyting, ES-blogg).

Þetta er ótvírætt!! Nú veit MBL þetta, eða eins og Bono í U2 syngur á nýjustu plötu sveitarinnar; ...how can you stand next to the truth and not see it..."


Bændur: Vilja draga ESB-umsókn til baka, firra sig allri ábyrgð!

Á vef Bændablaðsins er nú að finna þetta:

Traktor,,Á Búnaðarþingi 2010 var samþykkt yfirlýsing vegna umsóknar stjórnvalda að Evrópusambandinu. Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Búnaðarþing 2010 ítrekar andstöðu sína við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þingið lýsir fullum stuðningi við áherslur Bændasamtakanna og felur stjórn BÍ að gæta áfram hagsmuna bænda í hvívetna, vera áfram leiðandi í umræðu um áhrif ESB-aðildar á landbúnað og byggja áfram á faglegri þekkingaröflun. Þingið brýnir jafnframt alla bændur og aðra velunnara íslensks landbúnaðar að taka þátt í umræðunni af fullum þunga.

Efnisleg rök Bændasamtakanna gegn aðild hafa ekki verið hrakin. Verði aðild að ESB að veruleika mun störfum í landbúnaði og tengdum greinum fækka stórlega en það leiðir til mikillar röskunar í byggðum þar sem landbúnaður er undirstaða atvinnu. Aðild mun einnig hafa verulega neikvæð áhrif á fæðu- og matvælaöryggi landsins. Þorri landsmanna er sammála bændum. Það endurspeglast í nýrri skoðanakönnun Capacent sem leiðir í ljós að rúm 84% þjóðarinnar telja að það skipti öllu eða miklu máli að vera ekki öðrum þjóðum háð um landbúnaðarafurðir. Aðildarumsókn Íslands að ESB skapar mikla óvissu í starfsumhverfi landbúnaðarins og dregur þróttinn úr nauðsynlegri endurnýjun og framþróun þann langa tíma sem umsóknarferlið mun standa. Í ljósi alls þessa er farsælast að stjórnvöld dragi aðildarumsóknina nú þegar til baka.

Ástæða er til þess að hafa miklar áhyggjur af hvernig stjórnvöld halda á hagsmunum þjóðarinnar í umsóknarferlinu. Íslensk stjórnsýsla er undirmönnuð og vanbúin til að takast á við þetta verkefni eins og m.a. er vikið að í nýrri skýrslu framkvæmdastjórnar ESB um aðildarumsókn Íslands. Athyglisvert er að í áðurnefndri skoðanakönnun Capacent treystir aðeins ríflega fjórðungur þjóðarinnar stjórnvöldum vel til þess að halda á hagsmunum Íslands í þessu máli. Eins telur Búnaðarþing ekki fullreynt að ná megi samkomulagi við ESB um samstarf í efnahags og peningamálum á grundvelli EES samningsins.

Búnaðarþing telur að fulltrúar samtakanna í samningahópum stjórnvalda þurfi að starfa þar áfram undir formerkjum þeirra varnarlína sem stjórn BÍ kynnti á formannafundi sl. haust. Áframhaldandi þátttaka í samningahópum felur ekki í sér ábyrgð á samningaferlinu."

Athugasemdir ES-bloggs

Spurningar sem vakna við lesturinn eru m.a. þessar:

-Til hvers að vera leiðandi í umræðu um mál sem búið er að ákveða að ræða ekki?

-Vilja bændur bara ræða ESB-málið á sínum forsendum?

-Störfum í landbúnaði hefur fækkað stórkostlega hér á landi undanfarna áratugi,
árið 2006 starfaði 3,8% vinnuafls í landinu í landbúnaði (var 38% árið 1940).

-Þetta án ESB-aðildar!

-Auðvitað vill enginn vera öðrum háður, en bændur láta hlutina líta þannig út að
ESB-aðild muni demba yfir þjóðina allsherjar óöryggi varðandi matvæli. Hættir mjólk að
verða til, kjöt, smjör ostar? Bara sí svona?

-Bændur tala mikið um óöryggi. Það er varla til sú stétt á Íslandi sem ekki býr við óöryggi í dag (nema kannski helst lögfræðingar!!)

-Hvað með t.d. fólk í heilsugeiranum, þar sem mikill niðurskurður hefur átt sér stað?

-Hvað með t.d. "sjúklingaöryggið", þ.e.a.s. fyrir notendur hjúkrunarþjónustu?

-Eiga bændur að vera algerlega stikkfrí gagnvart öllum samfélagslegum breytingum?

-Er landbúnaður "föst stærð" sem má ekki breyta?

-"Eins telur Búnaðarþing ekki fullreynt að ná megi samkomulagi við ESB um samstarf í efnahags og peningamálum á grundvelli EES samningsins."

-Hvað eiga bændur við með þessu? Vilja þeir taka upp Evru á grundvelli EES?? Það er ekki hægt!-Að lokum: Bændur vilja vera með í samningahópum stjórnvalda en passa sig á að firra sig allri ábyrgð! Við hvað eru bændur hræddir???

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband