Eftifarandi grein er að finna á www.starkaraisland.is
Hjálparsveit staðreyndavaktarinnar þykir stundum erfitt að skilja andstæðinga aðilda að ESB en mun ekki láta það stoppa sig við að reyna sitt besta til að koma þeim til aðstoðar þegar þeir renna út af staðreyndasporinu.
Heimssýn og Staksteinar Morgunblaðsins sameinast í því að gagnrýna það að ný könnun sem Capacent gerði fyrir Sterkara Ísland skuli vera borin saman við könnun sem gerð var í upphafi sumars af MMR fyrir Andríki.is. En þeirri könnun var einmitt hampað mikið af bæði Morgunblaðinu, Heimssýn og öðrum andstæðingum enda sýndi hún að mikill meirihluti vildi hætta við umsókn Íslands að ESB í byrjun júní.
Nýja könnunin sem birtist í gær og var gerð í lok ágúst, sýnir hins vegar að núna hefur fjölgað mikið í hópi þeirra sem eru hlynntir samningsferlinu við ESB sem er nýhafið og fækkað í hópi þeirra sem eru andvígir samningaferlinu.
Það er rétt að spurningarnar voru ólíkar, en það stafar af því að þegar fyrri könnunin var gerð var samningaferlinu við ESB einfaldlega ekki hafið og við enn umsóknarríki og því var fólk spurt hvort það væri hlynnt eða andvígt því að láta draga umsóknina til baka. Núna var einfaldlega spurt hvort fólk væri hlynnt eða andvíg aðildaviðræðum, þar sem viðræðurnar eru nú formlega hafnar.
Eins og alltaf er gert þegar nýjar kannanir eru kynntar eru þær bornar saman við þá síðustu sem gerð var um sama mál til að rýna í hvaða breytingar eru að verða í áliti almennings. Við vitum að fyrir ári síðan voru fleiri hlynntir því að sótt væri um aðild að ESB en nú eru fylgjandi aðildaviðræðum.
En við vitum einnig að núna er þessi þróun að snúast aftur við því á þrem mánuðum eru fjöldi þeirra sem eru hlynnt aðildaviðræðum 39% en voru 24% í byrjun sumars, andvígir eru enn 45,5% en voru tæp 60% í byrjun sumars þetta er mikil breyting milli mánaða. Þrátt fyrir að á sama tíma og nýja könnunin var gerð hafi andstæðingar haldið því ranglega fram m.a. á forsíðu Morgunblaðsins að hér væri eitthvað allsherjar ,,aðlögunarferli í gangi en ekki hefðbundið samningsferli eins og önnur ríki sem sótt hafa um ESB hafa gengið í gegnum. Það hefur þegar verið leiðrétt hér hjá okkur hjá Staðreyndavaktinni.
Það er eðlilegt að andstæðingar ESB aðildar mótmæli því að fleiri vilji skoða aðild að ESB af fullri alvöru og skiljanlegt að þeim líki ekki niðurstaðan. Gagnrýni þeirra er hins vegar ekki réttmæt, breytingin á viðhorfi almennings til samningaviðræðanna er augljós.
Niðurstaða nýju könnunarinnar staðfestir að flestum er orðið það ljóst að þjóðin á rétt á því að velja sjálf hvort hún vilji ganga í ESB eða ekki, þegar samningurinn liggur fyrir.
Við hjá Sterkara Ísland treystum þjóðinni fyllilega til að taka réttu ákvörðun á endanum fyrir land og þjóð.
Góða helgi!