Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Stór dagur í Brussel - hörmungarspámenn rembast sem rjúpan við staurinn

EU-BrusselMikið er rætt og skrafað um útkomu dagsins í Brussel, sem er í stuttu máli þessi: Þau lönd sem eru með Evruna hafa bundist samkomulagi um að herða fjármálalegan aga og harðari viðkvæðum verður beitt gagnvart þeim ríkjum sem ekki halda sig innan þeirra ramma sem ákveðið var.

Sjálfsagt á eftir að útfæra þetta nokkuð og ekki útilokað að þetta taki einhverjum breytingum.

Mikið er rætt um Breta, sem sögðu nei við þessu samkomulagi og það er jafnvel rætt um að Bretland komi til með að einangrast innan ESB. Hverjir stjórna því? Eru það Bretar sjálfir eða er það ESB?

Fyrrum heimsveldið Bretland ákvað jú sjálft að vera ekki með í Evrunni, en á sama tíma hefur landið gríðarlega hagsmuni af því að Evrukerfið, fjármálakerfi Evrópu og þar með heimsins, haldi áfram að virka eins og best verður á kostið. Það eru ekki litlir hagsmunir og skiljanlegt að Bretar reyni að verja þá.

Málið allt sýnir hinsvegar hina góðu hlið á ESB, þar sem mál eru afgreidd með samráði og samræðum valdamanna aðildarríkjanna, en ekki t.d. með herforingjum eða með ungum vopnuðum mönnum á einhverjum vígvöllum í Evrópu!

Og öll kerfi virka; bankakerfi, viðskiptakerfi, almenningur er ekki að drepast úr áhyggjum yfir því að stríð sé á næsta leiti! "Life goes on" !!

Hér heima hamast svo andstæðingar og illindamenn gagnvart ESB, eins og rjúpan við staurinn að koma með heimsendaspár um dauða Evrunnar, klofning ESB og hvaðeina.

Þeir gleyma eðli ESB, sem er; hreyfanlegt og "dýnamískt" samband fullvalda þjóða, þar sem málin eru kannski rædd, samkvæmt frasanum,  "í reykfylltum bakherbergjum" í Brussel, þangað til niðurstaða fæst.

Sennilegast er þó líklegt að reykingar séu bannaðar í fundarherbergjum Brussel og að menn verði að fara út undir bert Brussel-loftið til að fá sér smók! Þeir sem reykja á annað borð!


Nýtt afl í stjórnmálum - vill leiða aðildarviðræður til lykta

Guðmundur SteingrímssonEins og fram hefur komið í fréttum hefur verið kynn til sögunnar nýtt stjórnmálaafl hér á landi. Guðmundur Steingrímsson, alþingismaður og Heiða Kristín Helgadóttir, kynntu þetta afl á blaðamannafundi.

Eitt af stefnumálum flokksins er t.d. að leiða aðildarviðræður Íslands og ESB til lykta. Þá er þetta framboð (sem á eftir að fá opinbert nafn) sagt grænt og fjálslynt. Morgunblaðið var með myndfrétt um málið, en á www.heimasidan.is má leggja inn tillögur um nafn.


Pústþjónustan fagnar ESB-merkingum á hjólbörðum

DekkjamerkingarAllir sem keyra bíl þurfa að vera með góð dekk undir drossíunum. Meðal annars ritari þessara orða, sem var að vafra um netið í leit að dekkjum á góðu verði (alltaf að spara, vextir eru svo háir hér á landi!) og rakst þá á þessa athyglisverðu frétt á vef Pústþjónustunnar í Hafnarfirði:

"Síðustu ár hefur mikið borið á ódýrum hjólbörðum á mörkuðum í Evrópu og á Íslandi. Þessir ódýru hjólbarðar koma flestir frá verksmiðjum í Kína sem gera litlar sem engar gæðakröfur varðandi grip og aðra þætti sem einkenna góða hjólbarða. En það getur verið snúið að vita hvað eru góðir hjólbarðar, því gæðin eru ekki bara fólgin í munstrinu.

Hjólbarðar eru flókin fyrirbæri sem eiga að vinna með fjöðrunarkerfi bílsins [ sjá hér ]. Þættir eins og gúmmíblanda, trefjalög og lega þeirra skipta höfuðmáli varðandi gæði. Hjólbarðar sem eru framleiddir án tillits til ofangreindra þátta geta verið ógn við umferðaöryggi því hjólbarðarnir eru eina snerting bílsins við veginn. Til að auðvelda fólki að velja góða hjólbarða er Evrópusambandið að innleiða staðlakerfi sem tekur gildi frá og með nóvember árið 2012.

Settar verða upp prófunarstöðvar fyrir hjólbarða í Hollandi og Þýskalandi. Þar verður hjólbörðunum gefin einkunn á skalanum  A – G fyrir snúningsviðnám (hefur áhrif á eldsneytiseyðslu), hávaða og grip. Allir framleiðendur sem ætla að selja dekk á Evrópumarkaði þurfa að uppfylla þennan staðal og verða allir hjólbarðar að vera merktir."

Starfsmenn fyrirtækisins fagna þessum merkingum, segir í fréttinni...,,því mun auðveldara verður fyrir viðskiptavini að greina gæði hjólbarða. Öryggi þitt veltur á snertiflötum hjólbarðanna við veginn sem eru aðeins fjórir lófastórir fletir. Við hjá BJB viljum að þessir fjórir fletir séu traustir og seljum einungis góða hjólbarða til að svo megi verða."Heimildin

Þetta er aðeins eitt lítið dæmi (og þó ekki svo!) um neytendavernd og neytendahyggju sem kemur frá ESB!


Jón forseti allur - ný bók!

Jón Sigurðsson - forsetiÞað hefur mikið farið fyrir sjálfstæðishetjunni Jóni Sigurðssyni á þessu ári, enda 200 ár liðin síðan hann fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Sagnfræðingurinn Páll Björnsson gefur þessa dagana út bókina Jón Sigurðsson allur? og heldur erindi um bókina núna á mánudaginn í Háskóla Íslands.

Jón Sigurðsson kemur iðulega upp þegar ESB-málið er rætt og í frétt á Smugunni stendur: "

"Páll Björnsson, ræðir þar hvernig opinberir aðilar, stjórnmálamenn, félagasamtök, fjölmiðlar, fyrirtæki og almenningur hafa notað  ímynd Jóns forseta, orð hans og hugmyndir til stuðnings eigin málstaðar, jafnvel þótt þeir hafi gerólíka afstöðu til mála. Þetta hefur verið áberandi í ESB-málinu. ,,Þetta byrjaði strax þegar farið var að ræða inngöngu í ESB sem var fyrir 1990,“ segir Páll.  ,,Þá fóru bæði stuðningsmenn og andstæðingar aðildar að vísa til Jóns. Andstæðingar aðildar sögðu að það þyrfti að lesa boðskap Jóns afturábak til að komast að því að hann væri sérstakur stuðningsmaður aðildar. En þeir sem voru fylgjandi bentu á að hann hefði talað fyrir viðskiptafrelsi: ,,Látum þá svelgja okkur,“  er haft eftir Jóni, í þeirri merkingu að allir eigi að geta átt við okkur viðskipti. Þá segja andstæðingarnir, já alla, en ekki bara eitt sambandsríki ESB landa.“

Fjölnota Jón

Jón er þannig fjölnota. Páll segir að þótt Jón Sigurðsson hafi verið dýrmætt vörumerki gervalla tuttugustu öldina, þá sé samt um langtímaþróun að ræða. ,,Það má segja að þetta hafi byrjað þegar menn deildu um hver staða Íslands ætti að vera gagnvart Danmörku. Jón hafði verið þjóðhetja í lifanda lífi og þegar menn vantaði sameiningartákn þá var gripið til hans.”"

 


Bergur Ebbi með grein í Fréttatímanum

Bergur EbbiÁ vef Já-Íslands segir: "Í Fréttatímanum í dag, þann 9. desember, birtist grein eftir Berg Ebba Benediktsson, lögfræðing, þar sem hann fjallar um tilgang ESB, að tryggja frið í Evrópu, sem og að tryggja efnahagslegt samræmæi og stöðugleika. Einnig fjallar Bergur Ebbi um valkosti Íslendinga í gjaldeyrismálum."

Bergur Ebbi segir meðal annars í grein sinni: "Valkostir Íslendinga hvað varðar gjaldeyrismál eru margskonar ef við göngum í Evróusambandið. Við getum hinsvegar ekki viðhaldið gjaldeyrishöftum og einangrað landið eins og nú er gert. Með tíð og tíma – og ég leyfi mér að gera langtímaspár því ég er ungur maður – tel ég hins vegar nokkuð víst að þrátt fyrir skakkaföll undanfarinna ára muni alþjóðleg viðskipti og efnahagsleg samvinna halda áfram að aukast. Samstarf á borð við myntbandalag Evrópu, sem felur í sér nokkurskonar samtryggingu fyrir stórt hagkerfi, er framtíðin og Íslendingar munu ekki halda krónunni sinni. Að því leyti segi ég að ef við göngum ekki í Evrópusambandið þá verður hrun krónunnar 2008 því miður ekki það síðasta sem við upplifum.

Ég þoli ekki skyndilausnir. Ég vil að við hugsum langt fram í tímann. Þeir sem vilja ganga í Evrópusambandið nú til að bæta fyrir það sem gerðist á Íslandi 2002-2008 eru á villigötum. Það sem gerðist er búið og gert. Nú þurfum við að leita leiða til að koma í veg fyrir að slíkir atburðir endurtaki sig. Núna er tíminn til þess en ekki eftir tíu eða tuttugu ár. Grundvallarmarkmið Evrópusambandsins eru í samræmi við þá framtíð sem við óskum okkur enda lúta þau að friði og efnahagslegum stöðugleika. Þetta eru ekki æsispennandi markmið og þess vegna eru þau góð."

Meira


Um 20% meira hér en í Evrópu

PrósentÍslendingar greiða um 20% meira fyrir húsnæðislán (í vexti) en húsnæðiskaupendur í Evrópu. Stöð tvö sagði frá og hér er fréttin. Krónan kostar.

Met í þýskum útflutningi - meira en trilljón Evrur

ÞýskalandÞrátt fyrir að kaldir vindar blási nú um efnahagskerfi Evrópu (og stóran hluta heimshagkerfisins) er einnig að finna áhugaverða hluti innan um allar hinar fréttrinar. T.d. var sagt frá því fyrir skömmu að útflutningur Þýskalands fór yfir "trilljón Evru-strikið" fyrir skömmu, þ.e. samanlagt verðmæti alls útflutnings á þessu ári í Þýskalandi, verður meira en trilljón Evrur (meira en þúsund milljarðar Evra).

Þetta hefur ekki gerst síðan árið 2008 (sem var metár) og á næsta ári er búist við enn meiri útflutningi, eða um 1.13 trilljónir Evra.

Prímus-mótorinn í evrópskum efnhagsmálum, Þýskaland, er sterkur, þrátt fyrir núverandi vandamál.


ESB heldur Gæslunni á floti!

Týr með ESB-merkingumAfleiðingar Hrunins eru margvíslegar. Það sést meðal annars á rekstri Landhelgisgæslunnar og á RÚV segir:

"Varðskipin Týr og Ægir voru leigð Evrópusambandinu í samtals 364 daga á þessu ári. Þetta er meira en tvöfaldur sá tími sem skipin voru á sjó við Ísland á vegum Landhelgisgæslunnar.
Landhelgisgæslan hefur þurft að leigja út varðskip sín og flugvél í ár og í fyrra vegna fjárskorts. Í fyrra var Ægir leigður út í rúma sex mánuði til verkefna á vegum Evrópusambandsins og flugvélin TF-SIF í rúma fjóra mánuði."

Óhætt er að segja að ESB haldi gæslunni á floti! Leiga ESB kemur meðal annars í veg fyrir áhafnir Gæslunnar missi ekki vinnuna og með því að vinna halda þær sér að sjálfsögðu í þjálfun.

 


Matís-styrkur átti að fara til nágrannakjördæmis Jóns Bjarnasonar - dreginn til baka - vegna Jóns Bjarnasonar!

Tíu íslenskar krónur (með loðnu)!Eins og fram hefur komið og vakið hefur töluverð athygli, dró Matís umsókn um 300 milljóna IPA-styrk tila baka fyrir skömmu. Þessir styrkir standa Íslendingum til boða vegna aðildarumsóknar að ESB.

Styrkurinn var dreginn til baka, meðal annars, vegna skoðana Jóns Bjarnasonar, sjávaútvegs og landbúnaðarmála, á ESB, en hann er eins og allir vita, mikill andstæðingur ESB.

Evrópubloggið hefur heyrt að hluti styrksins hafi átt að fara til Matís á Akureyri og að þar sé ekki mikil hrifning í gangi vegna afturköllunar umsóknarinnar.

Um er að ræða nágrannakjördæmi Jóns Bjarnasonar! Hann sá því sjálfur til að landsbyggðin varð af dágóðum slatta af rannsóknarfé!


Margar góðar greinar á Já-Ísland (www.jaisland.is)

Já-ÍslandRitstjórn ES-bloggsins vill benda á margar góðar greinar um Evrópumál á vefsíðu Já-Íslands, www.jaisland.is UMRÆÐAN 

Allskyns mál eru tekin þar fyrir og í einni grein tekur Sigurður M. Grétarsson fyrir verðtrygginguna og krónuna og segir: "

Þegar rætt hefur verið um kosti þess og galla þess að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru í stað krónu hefur það oft verið nefnt sem einn af kostunum við evruna að þannig verðum við loks laus við verðtryggingu lána hér á landi. Andstæðingar ESB hafa sagt á móti að við þurfum ekki að taka upp evru til að losna við verðtryggingu því við getum allt eins einfaldlega ákveðið að afnema verðtryggingu þó við notum áfram krónu. Skoðum þessa fullyrðingu nánar hvað langtímalán eins og húsnæðislán varðar.

Þeir aðilar sem lána langtímalán til húsnæðiskaupa þurfa að fjármagna þau lán með skuldabréfaútboði. Með sögu íslensku krónunnar og þeirrar verðbólgu sem oft hefur verið hér á landi verður að teljast mjög ólíklegt að eftirspurn verði eftir óverðtryggðum skuldabréfum í íslenskum krónum til langs tíma með föstum vöxtum. Verðbólgusaga Íslands með sína örmynt er einfaldlega víti sem fjárfestar munu hafa í huga varðandi kaup á slíkum bréfum og því munu þeir ekki kaupa þau nema þá með miklu áhættuálagi sem leiðir þá til mjög hárra vaxta. Það er ekkert sem bendir til þess að þetta breytist í fyrirsjáanlegri framtíð. Óverðtryggð langtímabréf í íslenskum krónum verða því varla í öðru formi en með breytilegum vöxtum."

Síðar segir Sigurður: "Til að losna við verðtryggingu þarf því að vera hægt að bjóða upp á óverðtryggð lán með föstum vöxtum út lánstímann. Til þess að það sé hægt þá þurfum við að nota mynt sem nýtur nægjanlegs traust til þess að fjárfestar séu tilbúnir til að kaupa verðbréf með slíkum skilmálum öðruvísi en með mjög háum vöxtum. Það er ekkert sem bendir til þess að íslenska krónan muni nokkurn tímann njóta slíks trausts. Evran er eina myntin sem okkur stendur til boða sem nýtur slíks trausts fjárfesta. Okkur stendur hún hins vegar einungis til boða ef við göngum í Evrópusambandið.

Málið er einfalt. Við munum þurfa að búa við verðtryggingu beina eða óbeina meðan við notum íslensku krónuna. Einnig er vert að hafa í huga að með notkun evru geta íslenskir lántakendur tekið lán á Evrusvæðinu með þeim vöxtum sem þar standa til boða án gengisáhættu og verða þá ekki ofurseldir íslenskum okurvöxtum eins og þeir verða meðan við notum íslensku krónuna."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband