Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

ESB gerir breytingar á ákvarðanatöku í fiskveiðum: Jákvætt fyrir Ísland að mati utanríkisráðherra

Össur SkarðhéðinssonÍ Fréttablaðinu í dag og á www.visir.is stendur: "Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segir að nýleg reglugerðarbreyting á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins (ESB) þar sem aðildarríkjum er gert að stýra staðbundnum stofnum innan eigin lögsögu, styrki röksemdir Íslands í aðildarviðræðunum við sambandið.

Eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær, kveður nýtt ákvæði í sjöttu grein reglugerðarinnar, frá janúar síðastliðnum, á um að aðildarríki geti ákvarðað einhliða hámarksafla úr tilteknum stofnum sem eru alfarið nýttir af viðkomandi ríki, í stað þess að tekin sé sameiginleg ákvörðun í ráðherraráðinu eins og átt hefur við hingað til.
„Það er ljóst að þetta er sterkt fordæmi,“ segir Össur í samtali við Fréttablaðið. „Hins vegar vil ég ekki vekja upp of miklar væntingar vegna þessa eins, því að það eru önnur sterk rök fyrir því að rétt væri af ESB að fallast á hugmyndir okkar, sem hafa verið mjög eðlisskyldar þessari nýju reglugerð.“

Össur bætir því við að þessi breyting sé í samræmi við nýja hugsun innan ESB um að umsjón með staðbundnum stofnum sé flutt nær upprunanum. „Samkvæmt því er valdið flutt til sérfræðinga á staðnum þar sem fiskurinn er og til fyrirtækjanna sem afla úr stofnunum og vinna úr þeim. Þetta er í anda þess sem við höfum haldið fram, að þeir sem hafi alla sína afkomu af auðlind séu best til þess fallnir að sjá um og stýra nytjum á henni.“

Öll fréttin 


Pirringur meðal Nei-sinna

Þeir eru strax orðnir pirraðir, Nei-sinnarnir, yfir því að þeim sjálfum fækkar og þeim sem aðhyllast aðild að ESB fjölgar, en þetta kemur fram í nýrri könnun Capacent fyrir Samtök Iðnaðarins.

Einn hinna pirruðu er "ráðuneytismublan" Bjarni Harðarson, eins og hann kallar sjálfan sig á bloggi sínu.

Hann segist hafa lagt stjórnmálabloggið mikið til á hilluna eftir að hann var ráðinn i ráðuneytið, enda orðinn virðulegur starfsmaður innan stjórnsýslunnar!. En Bjarni segir jafnframt að hann geti ekki haldið aftur af sér þegar ESB er annars vegar.

Já, ESB vekur tilfinningar! En tölur Capacent tala sínu máli, hvað sem pirraðir Nei-sinnar segja.


Aukinn stuðningur við aðild að ESB

island-esb-dv.jpgÁ Eyjunni stendur: "50,5% Íslendinga eru andvíg aðild Íslands að Evrópusambandinu en 31,4% hlynnt. 18,1% er hvorki hlynnt né andvígt.

Þetta er meðal niðurstaðna könnun sem Capacent gerði fyrir Samtök iðnaðarins og kynnt var á Iðnþingi í morgun.

Könnunin var gerð í fyrri hluta febrúar, en fyrir ári voru 60% andvíg aðild í sambærilegri könnun og hlynnt voru 24,5%."

Þeim sem er á móti hefur því fækkað um tíu prósent, en jákvæðum hefur fjölgað um rúmlega sex prósent.

Frétt Eyjunnar


Um línur bænda

Bændaþingi lauk í gær. Að sjálfsögðu fjölluðu bændur heilmikið um ESB, en eins og kunnugt er eru bændur og bændaforystan mikið á móti ESB.

Og Bændasamtökin hugsa ESB-málið línulega - nánar tiltekið varnarlínulega séð! Bændasamtökin setja fram kröfur og draga upp áðurnefndar varnarlínur, en vilja svo nánast ekki vita af aðildarviðræðunum og þeirri vinnu sem fer fram í því máli!

Í tilkynningu frá samtökunum segir: "Til þess að gæta hagsmuna íslensks landbúnaðar er það afdráttarlaus krafa Bændasamtaka Íslands að stjórnvöld leiti aðstoðar óháðra sérfræðinga utan stofnana Evrópusambandsins. Í varnarlínum samtakanna kemur fram krafa um varanlegar undanþágur frá landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins."

Þá segir einnig þetta: "- Að Bændasamtökin taki ekki þátt í undirbúningi eða aðlögunarstarfi sem leiðir beint eða óbeint af yfirstandandi samningaferli s.s. vinnu við að útfæra sameiginlegu landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins fyrir íslenskar aðstæður."

Heitir þetta ekki að á mannamáli: LÁTIÐ OKKUR VERA! 

Og svo stendur þetta: "- Að stjórnvöld kanni nú þegar afstöðu Evrópusambandsins til varnarlína Bændasamtakanna sé það ætlun þeirra að standa vörð um íslenskan landbúnað."

En af hverju gera Bændasamtökin það bara ekki sjálf? Eiga samtökin þá kröfu á stjórnvöld að þau geri þetta? 

 

 

 


Björgvin G. um landbúnað og ESB

Björgvin G. SigurðssonBjörgvin G. Sigurðsson, fyrrum ráðherra, skrifar pistil á Pressuna og ESB og landbúnaðarmál. Hann segir: "Markmið stjórnvalda í landbúnaðarmálum í samningsferlinu er einsog fram kemur í áliti meirihluta utanríkismálanefndar að raska umhverfi landbúnaðarins sem allra minnst og semja okkur frá breytingum til hins verra fyrir greinina. Þetta er meginmarkmiðið; að vernda stöðu landbúnaðarins og sækja fram á öllum þeim sviðum hans sem mögulegt er.
 
Því ber bændastéttinni skylda til að taka af fullu afli þátt í samningsferlinu til þess að ná sem allra bestum samningi fyrir sveitir landsins. Án atbeina þeirra tekst trauðla að landa besta samningi sem hugast í lanbúnaði.

Vissulega gætu sumir þættir landbúnaðar orðið fyrir ágjöf þó það sé ekki sjálfgefið hve mikilli. Til að mynda hafa margir gefið sér að framleiðsla á svínakjöti yrði fyrir miklu áfalli en staðreyndin er mögulega allt önnur. Nefnilega sú að ESB styrkir kornrækt til kjarnfóðurframleiðslu mjög myndarlega þannig að framleiðsluverð á kjötinu lækkar gagngert og samkeppnisstaða þess við innflutt yrði sterk. Því skiptir samningsferlið mjög miklu máli. Þar náum við slíkum þáttum fram.

Staðan er sú að aðild að ESB myndi vissulega breyta skilyrðum fyrir framleiðslu á kjöti með auknum innflutningi og samkeppni. Sérstaklega þó hvítu kjöti þar sem framleiðslan á því er einungis vernduð með tollum en ekki studd beingreiðslu í greiðslumarki eins og dilka- og nautakjöt. Við niðurfellingu tolla breytist því aðstaðan til framleiðslu þess og samkeppni við innflutt kjöt eykst. Á móti kemur að það opnast fyrir útflutning á landbúnaðarvöru á Evrópumarkað með margvíslegum tækifærum og einsog áður sagði; stuðningur við kornrækt til fóðurframleiðslu dýranna getur skipt sköpum og skotið nýjum stoðum undir greinina.

Tækifærin við inngöngu í ESB almennt fyrir mannlíf og atvinnulíf á landsbyggðinni á Íslandi eru bæði mörg og stór, ekki síst vegna þess að stuðningur ESB við dreifðar byggðir er fyrst og fremst búsetutengdur, en ekki tengdur tiltekinni framleiðslu."
 

Gunnar Hólmsteinn: ESB-ræða,semja,kjósa (MBL)

Gunnar Hólmsteinn ÁrsælssonStjórnarmaður í Evrópusamtökunum, Gunnar Hólmsteinn Ársælsson, ritar grein í Morgunblaðið í dag um ESB-málið og fjallar þar meðal annars um komandi samningaferli, sem að öllum líkindum hefst í sumar. En Gunnar segir einnig:

"En ESB-málið er annað og miklu meira en bara fiskur. Það snýst einnig að stórum hluta um það hvar landið ætlar að skipa sér í flokk í alþjóðakerfinu. Eða hvort Ísland ætlar að standa eitt og sér með einhverja illa skilgreinda utanríkisstefnu með óljósum markmiðum. Eða enga alls kannski?

ESB-málið er líka hagsmunamál fjölskyldna landsins og hins almenna neytanda. Að ná til dæmis niður vöxtum og verðbólgu, að halda þessu tvennu niðri og komast þannig hjá verðtryggingu, er talið spara íslensku samfélagi um 70-80 milljarða á ári. Komist þetta á til framtíðar er til dæmis talið að margur Íslendingurinn sleppi við að borga mun meira en fólk í nágrannaþjóðunum fyrir það að koma sér upp þaki yfir höfuðið, svo dæmi sé tekið.

Hið sama á einnig við um atvinnulífið sem áratugum saman hefur borgað okurvexti og starfað í umhverfi óðaverðbólgu sem gerir alla skipulagningu og áætlanagerð ómarktæka. Eiginlega má líkja íslensku efnahagskerfi að mörgu leyti við jó-jó sem fer upp og niður í sífellu."

Alla grein Gunnars má lesa hér


Gylfi og Illugi á góðum fundi um gjaldmiðilsmál

Sjálfstæðir Evrópumenn héldu vel heppnaðan fund (og skemmtilegan!) um gjaldmiðilsmál í HR í gær. Þar töluðu Dr. Gylfi Zoega og Illugi Gunnarsson, þingmaður og hagfræðingur. Morgunblaðið birti ágæta frétt um málið og þar segir meðal annars: 

"Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, segir að ef Íslendingar ætli að halda í krónuna og reka hér sjálfstæða peningamálastefnu þá verði þeir að taka upp breytilega vexti á húsnæðislánum. Nauðsynlegt sé að vextir Seðlabankans bíti, en það hafi þeir ekki gert fyrir hrun.

Gylfi sagði þetta á fundi sem Sjálfstæðir Evrópumenn stóðu fyrir um gjaldmiðils- og peningamál í Háskólanum í Reykjavík. Yfirskrift fundarins var Krónan, bjargvættur eða bölvaldur?

Gylfi sagði vissulega rétt að einstaklingar hefðu fyrir hrun tekið áhættu og hagað sér með ábyrgðarlausum hætti, en kerfið hefði hins vegar verið brothætt. Bankakerfið hefði farið á hliðina og því augljóst að stjórn peningamála hefði brugðist.

Gylfi sagði að menn gætu verið hér áfram með krónu, en það kostaði fjármuni. Menn þyrftu að skoða hvað kostnaðurinn væri mikill og hversu háan kostnað menn sættu sig við af sjálfstæðri mynt."

Fundurinn var af því tagi sem ESB-umræðan þarf á að halda; laus við öfga, upphrópanir, en á sama tíma einkenndist fundurinn af yfirvegun og góðri röksemdafærslu í málflutningi fyrirlesara,sem og fundarmanna. Til fyrirmyndar! 


Öll frétt Morgunblaðsins 


Tveir sterkir leiðarar í FRBL: Bændur og Össur

Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins hefur í gær og í dag skrifað tvo áhugaverða leiðara. Sá í gær var um mál bænda, ESB og hreint makalausar yfirlýsingar landbúnaðarráðherra um ESB. Ólafur skrifar um framlag ráðherra til Búnaðarþings, sem lýkur á morgun:

"Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra var við sama heygarðshorn og sagði að standa yrði fast gegn „fémútum Evrópusambandsins á þessum viðsjárverðu tímum" og „verjast öllum tilhneigingum hins erlenda stórveldis til að taka hér stjórnartauma af réttkjörnum og lýðræðislegum stjórnvöldum landsins". Ráðherrann er sömuleiðis á þeirri skoðun að „fái ESB og talsmenn þess meðal Íslendinga að ráða ferðinni verður Ísland að miklu leyti orðið aðili að ESB með margháttuðum aðlögunum íslenskra samfélagshátta áður en þjóðinni stendur til boða að ganga til kosninga um málið".

Þetta er kostulegur málflutningur. Ráðherrann reynir að mála upp mynd af Evrópusambandinu sem „erlendu stórveldi" sem ásælist yfirráð á Íslandi, í stað þess að tala um sambandið sem samtök ríkja sem þar taka höndum saman af fúsum og frjálsum vilja. Ráðherrann lætur eins og styrkirnir, sem standa nú Íslandi til boða til að laga stjórnsýsluna að því sem gerist í Evrópusambandinu, muni valda einhverri byltingu í samfélagsháttum. Staðreyndin er sú að þar er um hreina smámuni að ræða miðað við þær samfélagsbreytingar sem orðið hafa á Íslandi undanfarin sextán ár með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu. Þar hefur stórtæk aðlögun að löggjöf og háttum ESB átt sér stað – og að flestu leyti gefizt ágætlega, þótt Íslendingar hafi lítil áhrif haft á þróunina.

Styrkir frá Evrópusambandinu eru hreint ekki nýir af nálinni. Ýmis rannsókna- og þróunarverkefni tengd íslenzkum landbúnaði hafa notið ríkulegra styrkja ESB eftir að EES-samningurinn tók gildi. Sem dæmi má nefna að við Háskólann á Hólum hafa yfir 20 rannsóknarverkefni hlotið ESB-styrki á undanförnum árum. Mörg þeirra hófust þegar Jón Bjarnason var þar skólastjóri. „Múturnar" frá ESB breyttu að minnsta kosti ekki afstöðu hans til sambandsins!

Ef menn vilja taka upplýstar ákvarðanir er gott að þeir kynni sér ýmsar hliðar mála, kosti og galla. Fátt bendir til að slík umræða fari fram á Búnaðarþingi hvað Evrópumálin varðar."

Allur leiðarinn 

Í leiðara dagsins fjallar Ólafur um þá ákvörðun fyrirtækisins Össurar að kveðja íslensku kauphöllina og færa sig um set, til Danmerkur. Í leiðaranum er vitnað til orða Niels Jacobsen, stjórnarformanns Össurar: "Um íslenzku krónuna segir hann: "Við getum ekki verið skráð á hlutabréfamarkað sem notar gjaldmiðil sem er ekki nothæfur."

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri tölvuleikjafyrirtækisins CCP, tók í svipaðan streng í fréttum Stöðvar 2 á laugardagskvöld og sagði stefnuleysi stjórnvalda stórt vandamál fyrir atvinnurekstur í landinu. "Í gjaldeyrismálum finnst mér stefnan bara ekki liggja fyrir ... Það er vissulega verið að sækja um í Evrópusambandinu og ef það verður reyndin er það eitthvað sem hægt er að reiða sig á," sagði Hilmar.

Það er ástæða til að hlusta á talsmenn þessara fyrirtækja. Afskráning Össurar úr kauphöllinni er áfall fyrir hlutabréfamarkaðinn hér á landi og sömuleiðis fyrir orðspor landsins í alþjóðlegu viðskiptalífi - ekki sízt þegar stjórnarformaðurinn talar eins og hann gerir. Niels Jacobsen er þekktur í viðskiptalífi Danmerkur og víðar og eftir orðum hans er tekið.

Það er reyndar erfitt að vorkenna stjórnendum Össurar að þurfa að finna aðra konu til viðbótar þeirri einu, sem situr í fimm manna stjórn fyrirtækisins, en aðra gagnrýni Jacobsens hljóta stjórnvöld að taka til sín. Eftir það áfall sem íslenzkt efnahagslíf varð fyrir við bankahrunið ættu stjórnvöld að kappkosta að bjóða fyrirtækjum upp á sem stöðugast viðskiptaumhverfi, í stað þess að hringla til og frá með skatta, gjöld og reglur.

Gjaldmiðilsmálin eru svo sérkapítuli. Öllum er ljóst að krónan getur ekki orðið framtíðargjaldmiðill Íslands. Um það eru stjórnendur fyrirtækja og almenningur í landinu sammála. Umsóknin um aðild að ESB ætti að vera sterk yfirlýsing um að hér sé stefnt að upptöku evru og þeim aga í hagstjórn sem henni fylgir, en vegna þess að ríkisstjórnin er sjálfri sér sundurþykk í Evrópumálunum er sú yfirlýsing mun veikari en ella og fyrirtækin telja áfram að óvissa ríki um framtíðina."


Allur leiðarinn 


Uffe Elleman Jensen um ESB,Ísland og fleira í Silfrinu

uffe.pngBirtum hér beina krækju inn á viðtalið við fyrrum utanríkisráðherra Dana, Uffe Elleman Jensen, um Evrópumál og fleira úr Silfri Egils í dag. Það eru áhugavert að bera innihald þess saman við orð JB, úr fréttinni hér á undan! (Mynd: RÚV)

Jón Bjarnason flutti "réttu ræðuna" !

Jón BjarnasonJón Bjarnason, landbúnaðarráðherra, flutti "réttu ræðuna" fyrir bændur á Búnaðarþingi Íslands í dag og jós þar úr skálum sínum vegna Evrópusambandsins, sem Jón finnur jú allt til foráttu.

Í frétt á Eyjunni segir: "Aðferðafræði stækkunarstjóra ESB er í reynd innlimunar- og aðlögunarferli. Fái ESB og talsmenn þess meðal Íslendinga að ráða ferðinni verður Ísland að miklu leyti orðið aðili að ESB með margháttuðum aðlögunum íslenskra samfélagshátta áður en þjóðinni stendur til boða að ganga til kosninga um málið. Þær kosningar geta þá hæglega snúist upp í að verða kosningar um afarkosti."

Jón heldur greinilega að ESB muni hér stýra og stjórna, verði af aðild: "„Um leið verðum við að verjast öllum tilhneigingum hins erlenda stórveldis til að taka hér stjórnartauma af réttkjörnum og lýðræðislegum stjórnvöldum landsins með innleiðingu breytinga sem gerðar eru til þess eins að flækja Ísland í net innlimunar og missi fullveldis.“

Ræða þessi hefði allt eins geta verið á aðalfundi Nei-sinna, með öllu því innlimunarbulli sem þeir tönnlast sífellt á, sem sem og öðru tuði um ,,stórveldi," ,,aðlögun" og svo framvegis.

Bændaleiðtoginn Haraldur Benediktsson sagði einnig í dag að um 90% bænda, séu á móti aðild að ESB. Þetta samkvæmt könnun þar sem hringt var í 10% þeirra bænda sem eru í Bændasamtökunum!!

Andstaða bænda er vissulega mikil og að öllum líkindum mun forysta Bændasamtakanna gera ALLT sem í hennar valdi stendur til þess að andstaða bænda muni ekki minnka!

Þá er gott að hafa ráðherra með rétta orðaforðann! 

Svo geta bændur snúið glaðir heim í hérað!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband