Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

ESB skiptir sér ekki af íslenskum kleinubakstri!

Kleinur

Þessa dagana finnst ritsjórn ES-bloggsins allt snúast um kjöt, (hið sérkennilega) fæðuöryggi og fleira því tengt.

Fyrir skömmu blossaði upp umræða um kleinugerð og aðra matseld í heimahúsum, að hún væri bönnuð og að skátafélög, kvenfélög og önnur félög mættu nú ekki baka heima og selja í góðum tilgangi.

Og oft þegar svona vondar reglur sýna sig eru menn gjarnir á að skella skuldinni á ESB. En svo er EKKI í þessu tilfelli og eftirfarandi spurningu er að finna á Evrópuvefnum:

"Hvaða reglur gilda í ESB um bakstur og aðra matargerð í heimahúsum og sölu á afurðunum til góðgerðarstarfs eða annars?"

Og svarið er meðal annars þetta:

"Um bakstur og matargerð í heimahúsum og sölu á slíkum afurðum gilda engar sérstakar reglur í Evrópusambandinu, nema matvælafyrirtæki sé beinlínis rekið í heimahúsi. Þvert á móti er starfsemi sem hvorki er samfelld né skipulögð, og fer til dæmis fram í tengslum við viðburði eins og þorpshátíðir eða kökubasara kvenfélaga, undanþegin reglum evrópsku matvælalöggjafarinnar, sem gildir á Íslandi vegna EES-samstarfsins. Um bakstur og matargerð í heimahúsum gilda þar af leiðandi landslög í þeim aðildarríkjum sem hafa sett þess konar lög eða reglur."

ESB hefur því ekkert að gera með kleinu og jólakökubakstur í íslenskum eldhúsum, heldur eru alfarið íslensk lög sem gilda.

Guðni Ágústsson, fyrrum ráðherra blandaði sér meira að segja í málið og sagði í grein í Mogganum: "Ég held að þarna séu fyrst og fremst íslenskir offarar að verki, sem túlka lög og reglur út í ystu æsar. Þetta er ekki einu sinni komið frá Evrópusambandinu. (Leturbreyting, ES-blogg)

Heildarsvar: http://evropuvefur.is/svar.php?id=60406

(Mynd: Bloggsíða Guðmundar VE, flottar kleinur þar!)


FRBL-leiðari: Hvað er fæðuöryggi?

FRBLÍ leiðara Fréttablaðsins í dag spyr Ólafur Þ. Stephensen þeirrar spurningar; Hvað er fæðuöryggi?

Í umræðunni um ESB hefur verið reynt að stilla hlutunum þannig upp að gerist Ísland aðili að ESB sé fæðuöryggi þjóðarinnar stefnt í stórkostlega hættu! Þó er ekki vitað til þess að fæðuöryggi neinnar þjóðar, ekki einu sinni vanþróuðum A-Evrópuríkjum sem gerðust aðilar að ESB, hafi verið stefnt í hættu við aðild. Líklega jókst það stórkostlega með auknu framboði, aukinni samkeppni og aðgangi að frjálsum markaði.

En aftur að leiðaranum, en þar segir: 

"Sú stefna að hafa sem hörðust höft á innflutningi landbúnaðarafurða, leggja ofurtolla á erlenda búvöru og styrkja innlenda framleiðendur um háar fjárhæðir sem koma úr vösum skattgreiðenda er gjarnan réttlætt með því að verið sé að tryggja „fæðuöryggi“. Stefnan ber þessa dagana þann athyglisverða árangur að skortur er á ákveðnum kjöttegundum í búðum, af því að landbúnaðarráðherrann er svo harður á að tryggja fæðuöryggi!

Talsmenn „fæðuöryggis“ undir þessum formerkjum gefa í skyn að Ísland þurfi að vera og geti verið sjálfu sér nógt um mat. Hér sé hægt að framleiða búvörur til að fullnægja innanlandseftirspurn og engin þörf sé á að flytja þær inn.

Þegar betur er skoðað, er þessum rökum þó aðeins beitt þegar vörur sem framleiddar eru á Íslandi eiga í hlut; kjöt, mjólk, egg og nokkrar sortir af grænmeti. Þegar aðrar nauðsynjavörur eiga í hlut sem ekki eru framleiddar hér á landi, til dæmis korn, hrísgrjón og alls konar ávextir, á annað við, að ekki sé talað um þau ógrynni unninnar matvöru sem flutt er inn, til að mynda pasta, sultur, niðursuðumat og allt hitt. Innflutningur á þessum vörum er frjáls og oftast á lágum tollum. Samt eru þær jafnnauðsynlegar og hinar búvörurnar fyrir fjölbreytt og heilsusamlegt mataræði; með öðrum orðum þáttur í fæðuörygginu. Þetta sýnir í raun að hafta- og styrkjastefnan í landbúnaðinum er ekki fæðuöryggisstefna, heldur verndarstefna til að halda erlendri samkeppni frá einni atvinnugrein á Íslandi. Afleiðingin er að búvörur eru dýrari en þær þyrftu að vera. Er það fæðuöryggi?"

Allur leiðarinn


Tekjur bænda í ESB hækkuðu um tæp 13% árið 2010

KúÞað er kannski að bera í bakkafullan lækinn að ræða frekar landbúnaðarmál, en ritari rakst á áhugaverðar tölur á Eurostat sem snúa að landbúnaði í ESB.

Sem segja að tekjur bænda í hinum 27 aðildarríkjum sambandsins jukust um tæp 13% á árinu 2010.

Tekjurnar jukust mest í Danmörku, eða næstum 60% og Eistland fylgdi í kjölfarið. Í sex af 27 aðildarrikjum drógust tekjur saman, mest í Bretlandi, með 6.4%.

Góð uppskera og aukin kjötframleiðsla eru helstu þættirnir sem stuðluðu að auknum tekjum.

Svo er hér á Íslandi talað um að landbúnaður leggist af, rústist og hvaðeina, gangi Ísland í ESB. Bullinu eru engin takmörk sett!

Lesa má meira hér.

Bendum svo á áhugaverðar greinar eftir Dr. Þórólf Matthíasson um landbúnaðarmál, sem birst hafa í Fréttablaðinu, Samtökum ungra bænda til mikils ergelsis:

http://visir.is/hrutar-a-haug-og-adrir-heimsborgarar/article/2011708039987

http://visir.is/kjotverd,-beingreidslur,-utflutningur-og-matvaelaoryggi/article/2011708109993

http://visir.is/saudir-og-saudfjarraekt-i-sjalfheldu-styrkja/article/2011708139995

Hvernig er máltækið?: Sannleikanum er hver sárrreiðastur!

 


Björgvin G. Sigurðsson í Pressupistli: Harðlína frá hægri í Evrópumálum

Björgvin G. SigurðssonBjörgvin G. Sigurðsson, fyrrum ráðherra og núverandi þingmaður Samfylkingarinnar bregst við viðtalinu við Bjarna Benediktsson á Pressunni og segir þar í pistli:

"Ákvörðunin um aðild Íslands að Evrópusambandinu er líkast til sú mikilvægasta sem við höfum staðið frammi fyrir um árabil. Að minnsta kosti frá því að landið gerðist aukaaðili að sambandinu og hluti af innri markaði þess fyrir að verða sautján árum. Því ber að vanda umsóknarferlið til hins ítrasta og mynda breiða samstöðu um það til að ná sem bestum samningi. Í því felast miklir hagsmunir þjóðarinnar allrar líkt og blasir við. 

Harðlínuölf frá hægri og vinstri hafa farið harkalega gegn fullri aðild að ESB og fært um leið veikburða rök fyrir aukaaðildinni með sínum kostum og miklu göllum. Hófsamari hluti samfélagsins og stjórnmálanna hafa talað fyrir því að  aðildarspursmálið verði að leiða til lykta með skynsamlegum hætti. Enda hvíli raunveruleg endurreisn íslensks efhagslífs á þessu lykilmáli; aðild Íslands að ESB og upptöku á raunverulegri framtíðar mynt sem skýtur nýjum stoðum undir litla þjóð í fallvöltum heimi."
 
Síðar segir Björgvin: "Fáir ættu að vita betur en hann hvað við eigum sem þjóð mikið undir því að ná sem bestum samningi við ESB. Sérstaklega þegar kemur að fiskveiðum, landbúnaði og peningamálum. Því væri það heldur hyggilegra af formanninum að tala gætilegar um ferlið í stað þess að reyna að laska það með harkalegu tali um að hann og hans lið muni einskis láta ófreistað að stöðva ferlið. Ef svo færi að hann kæmist í aðstöðu til þess. Stöðva ferli sem endar með lýðræðislegum hætti og þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn.

Engin ein ákvörðun Alþingis um samskiptum Íslands við umheiminn hefur markað viðlíka spor og aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu. Þrátt fyrir áhrifaleysið, lýðræðishallann og varnarleysið gagnvart markaðsöflunum sem aukaaðildinni fylgdi komust þáverandi stjórnarflokkar upp með að sniðganga þjóðina og fullgilda samninginn án þjóðaratkvæðagreiðslu. Ákvörðun sem nú virkar fráleit eftir að viðhorf til beins lýðræðis hafa tekið stakkaskiptum. Ekkert slíkt hvarflar að nokkrum nú og þjóðin mun hafa síðasta orðið. Því vekur harðlína Bjarna enn undrun en ella.

Þrátt fyrir þetta fer foringi Sjálfstæðisflokksins af fullri hörku gegn lýðræðislegu umsóknarferli sem fjöldi stuðnings- og flokksmanna hans binda vonir við að geti af sér góðan samning og aðild að sambandinu. Í stað hinnar afar vafasömu aukaaðildar sem við megum sætta okkur við nú."
 
Pistill Björgvins  (Mynd: Pressan)

Fæðuöryggi a la Jón Bjarnason?

Um það er fjallað í blöðum helgarinnar að farið sé að bera á kjötskorti í landinu og segja fagaðilar að hann muni aukast á næstum vikum.

Jón Bjarnason er potturinn og pannan í sambandi við þessi mál og talar mikið um fæðuöryggi, hann vill t.d. leyfa bændum að flytja út lambakjöt (sem þeir og gera), en tekur það ekki í mál að leyfa innflutning á kjöti.

Meira að segja umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að gerðir Jóns Bjarnasonar í kjötmálum stangist á við stjórnarskrá. En það liggur við að það sé bara einhver maður úti í bæ sem hafi komist að þessari niðurstöðu, þetta virðist ekki skipta neinu máli í ráðuneyti landbúnaðar og sjávarútvegs! 

Verði skortur á kjöt mun verð á því hækka, eins og hér kemur fram.

Við neytendur þurfum ekki á því að halda!

Ritstjóri Fréttablaðsins bendir líka á þá athyglisverðu staðreynd að enginn stjórnmálamaður hafi tekið þessi mál fyrir.

Tengdar fréttir:

http://www.visir.is/aetla-ad-flytja-inn-kjot-i-naesta-manudi/article/2011707259969

 

 


Bjarni Benediktsson: Þurfum engar áhyggjur að hafa af Krónunni!

Bjarni BenediktssonBjarni Benediktsson var í viðtali í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun og tjáði sig þar um hin ýmsu málefni, þar á meðal gjaldmiðils og utanríkismál.

Hann sagði meðal annars að menn þyrftu ekkert að hafa áhyggjur af Krónunni. Og hann á þá væntanlega við þessa krónu sem enn er í höftum og er ekki treystandi til að vera á frjálsum markaði.

Flottur gjaldmiðill það! Hrun Krónunnar 2008 bara stórjók skuldir fjölskyldna og fyrirtækja. Er eitthvað sem segir að það gerist aldrei aftur? Er Krónan bara OK núna?

Svo vill Bjarni Benediktsson hætta aðildarviðræðum við ESB, telur það "rangt" að standa í þeim. Væntanlega telur hann þá það vera "rétt" að hætta þeim og gera þar með sömu mistök og Maltverjar, sem frystu viðræðurnar við ESB á sínum tíma. Það er samdóma álit manna á Möltu að það hafi verið herfileg mistök.

Bjarni vill "framleiða" okkur út úr kreppunni. Hvernig líst honum á þá hugmynd að vera með nothæfan gjaldmiðil (sem er ekki á gjörgæslu) og fullnýta samskipti okkar við Evrópu, sem í gegnum tíðina hefur verið lang-mikilvægasti viðskiptaaðili Íslendinga!

Reynsla annarra þjóða af aðild sýnir að verslun og viðskipti hafa aukist í kjölfar aðildar að ESB.

Þarf að setja þessi ummæli í það samhengi við það að landsfundur verður haldinn á vegum Sjálfstæðisflokks í haust?


Hálf öld frá upphafi Berlínarmúrsins-sem hrundi 1989

Conrad SchumanUm þessar mundir er þess minnst að 50 ár eru liðin frá því að Berlínarmúrinn var reistur, en það gerðist um miðjan ágúst 1961. Múrinn, sem skipti Berlín í tvennt, Austur og Vestur-Berlín, var tákn kúgunar og frelsisskerðingar.

Múrinn stóð fram til nóvember 1989, þegar hann hrundi, sem og Austur-Þýskaland, sem sameinaðist Vestur-Þýskalandi.

Það sama ár hófste einnig hrun kommúnismans og fjöldamörg ríki Austur-Evrópu urðu frjáls. Flest þessara ríkja hafa nú gerst aðildarríki ESB.

Alls létust um 140 manns við flóttatilraunir við Múrinn, en á myndinni má sjá austur-þýskan hermann, Conrad Schuman, hoppa yfir í frelsið þegar verið var að reisa múrinn.

Um er að ræða eina frægustu fréttamynd Evrópu.

Fróðleikur um Berlínarmúrinn:http://www.dailysoft.com/berlinwall/history/index.htm 


Fyrirlestur á vegum Já Ísland um fjármálahræringar

Já-ÍslandGylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands ræðir áhrif fjármálaóstöðugleikans í Evrópu á hagsmuni Íslands og áhrif á aðildaviðræður við ESB.

Jóna Sólveig Elínardóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur
​ ræðir áhrif á stjórnmálasamstarf ríkjanna innan ESB í tengslum við breyttar aðstæður.

Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 18. ágúst í fundasal Já Íslands í Skipholti 50a, 2 hæð og hefst kl 20. Góður tími verður fyrir fyrirspurnir og almenna umræðu fundamanna.

Allir eru velkomnir á fundinn!

Athygli kynnir ESB

Á Eyjunni stendur:"Almannatengslafyrirtækið Athygli hefur samið við Evrópusambandið um að taka að sér að reka kynningar- og upplýsingaskrifstofu sambandsins á Íslandi næstu tvö ár í samstarfi við þýska fyrirtækið Media Consulta.

Evrópusambandið greiðir fyrirtækjunum um 115 milljónir króna á ári eða um 700.000 evrur.

Kynningarskrifstofunni verður ætlað að auka við þekkingu og skilning Íslendinga á ESB og á umsóknarferlinu, og kynna hugsanleg áhrif af inngöngu Íslands í ESB."

http://eyjan.is/2011/08/11/esb-greidir-115-milljonir-a-ari-fyrir-kynningarstarf-a-islandi/


Andrés Pétursson í MBL: Ólöf og aðhaldsreglur ESB

Andrés PéturssonAndrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, birti grein í Morgunblaðinu í gær og í henni beindi orðum sínum meðal annars að Ólöfu Nordal, varaformanni Sjálfstæðisflokksins. Greinin birtist hér í heild sinni, með góðfúslegu leyfi höfundar.

Ólöf og aðhaldsreglur ESB

Það væri að æra óstöðugan að leiðrétta allar þær rangfærslur og misskilning sem á sér stað í Evrópuumræðunni á Íslandi þessa dagana. Ég var búinn að ákveða að elta ekki ólar við alla þá vitleysu sem ratar þar  á prent. Þegar málsmetandi þingmenn  eins og Ólöf Norðdal fara hins vegar með staðlausa stafi þá er manni nóg  boðið.  Erfiðleikar í efnahagskerfi umheimsins magna upp umræðuna og sumir virðast ekki víla fyrir sér að skrumskæla sannleikann með það að leiðarljósi að slá einhverjar pólitískar keilur.

Ólöf heldur því fram í grein í Morgunblaðinu nýlega að innan fárra ára þurfi aðildarríki Evrópusambandsins að bera  fjárlög sín upp í Brussel áður en þau  fái samþykki. Hún heldur því meira segja fram að líklegt verði að fjárlögin verði samin í Brussel. Þetta eru fullyrðingar sem ekki halda vatni. Maður hefði svo sem ekki sagt neitt ef þessu hefði verið haldið fram i leiðara Morgunblaðsins eða á Útvarpi Sögu. Það er hins vegar hægt að gera meiri kröfur til varaformanns Sjálfstæðisflokksins.

Ég get til dæmis haldið fram einhverri vitleysu eins og að  Evrópusambandið ætli sér að samykkja lög sem skikka alla Evrópubúa að ganga í rauðum sokkum á sunnudögum. Evrópusambandið gæti fræðilega gert þetta en allir vita að það gerist ekki. Á sama hátt vita allir þeir sem þekkja gangverk samstarfsferla Evrópusambandsríkja að svona hugmyndir eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.

Helstu kostnaðarliðir hvers ríkis fyrir sig eru heilbrigðismál, menntamál og útgjöld til varnarmála. Ekkert af þessu kemur inn á borð Evrópusambandsins eða er á forræði þess. Tekjur Evrópusambandsins koma að mestu leyti í formi framlaga frá aðildarlöndunum og mega þessi framlög aldrei fara yfir um 1,1 % af VLF hvers ríkis fyrir sig.

Auðvitað ræða fjármálaráðherrar Evrópusambandsríkjanna á reglubundnum fundum um efnahagsmál ýmsar leiðir til að mæta yfirstandandi vanda. En það er fjarri því að einhverjar hugmyndir líkt og Ólöf Norðdal varpar hér fram hafi komið fram á formlegan hátt eða hafi verið ræddar. Enda kemur ekki Ólöf með neinar sannanir fyrir þessum fullyrðingunum sínum.  Þetta eru bara fabúleringar varaformannsins út frá stöðunni í efnhagskerfum helstu OECD ríkja. Auðvitað ræða menn um leiðir út úr vandanum. Meðal annars að aðildarríkin verði að sýna aðhald og ábyrgð í ríkisrekstri en staðhæfingar að taka eigi fjárveitingarvaldið frá aðildarríkjum ESB er alveg út í hött. Enda eru engar lagaheimildir til fyrir því í sáttmálum Evrópusambandsins né neinar hugmyndir uppi að breyta því.

Evrópusinnar hafa sett sér nokkur leiðarstef í umræðunni, meðal annars að beita staðreyndum og rökræðu, forðast gífuryrði og þrætubókarlist og vera upplýsandi. Við skorum því á alla sem taka þátt í umræðunni, hvort sem þeir eru hlynntir eða á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu, að halda umræðunni á þeim nótum.

Andrés Pétursson er formaður Evrópusamtakanna og á sæti í stjórn Já Ísland


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband