Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Dr. Jón Ormur Halldórsson um Breta og ESB

Jón Ormur HalldórssonÞað er alltaf athyglisvert þegar Dr. Jón Ormur Halldórsson stingur niður penna, að þessu sinni í grein í Fréttablaðinu um Breta, ESB og fleira. Grein Jóns hefst með þessum orðum:

"Það gekk illa hjá Bretum að komast inn í Evrópusambandið. Frakkar, undir forustu de Gaulle, beittu tvívegis neitunarvaldi gegn aðild Bretlands. Hann sagði Breta skorta pólitískan vilja til að vera hluti af Evrópu. Nú vill stór meirihluti Englendinga og kannski helmingur Skota að Bretland segi sig úr ESB.

Veik staða

Síðustu misseri hefur staða Breta innan ESB verulega veikst. Bretar hafa í áratugi beitt hótunum til að knýja fram sérkjör fyrir sig og til að stöðva aukna samvinnu innan ESB. Hótanirnar virka hins vegar ekki lengur. Þetta er einfaldlega vegna þess að margir sjá núorðið brottför Breta sem lausn á þrálátu vandamáli ESB frekar en ógn við sambandið. Bretar eiga orðið fáa vini innan ESB og enga aðdáendur. Kenning de Gaulle var rétt fyrir hálfri öld og er það kannski enn.

Þýðingarlaus landafræði

Það er ekki lengra frá Englandi til Hollands og Belgíu en frá Reykjavík til Vestmannaeyja. Engu að síður geta menn lesið bresku dagblöðin mánuðum saman án þess að sjá mikið bitastætt um Holland eða Belgíu. Með lestri þessara blaða geta menn hins vegar fylgst nokkuð vel með þróun mála á Nýja-Sjálandi að ekki sé minnst á Ástralíu og Kanada. Saga, skyldleiki og tunga ræður þessu. Landafræðin er þögul um afstæðar fjarlægðir."

(Mynd: Fréttablaðið)


Krónan veldur verðhækkunum - heldur líklega áfram á næstu mánuðum!

Viðskiptablaðið skrifar: "Sú verðhækkun sem fram kom í verðbólgutölum Hagstofunnar í morgun einkennist af því að gengisveiking krónunnar eftir sumarið er að koma inn af nokkrum krafti. Greiningardeild Arion banka segir áhrifin koma skýrast fram í hærra verði á innfluttri vöru á borð við mat og drykkjarvörum, bílum, húsgögnum og lyfjum.

Verðbólga jókst á milli mánaða, fór úr 4,2% í 4,5%, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar."

Samkvæmt frétt blaðsins, sem byggir á greiningu Arion-banka, mun þessi neikvæða þróun halda áfram.

Gjaldeyrismálin eru að fara með þjóðina!


Össur á EES-fundi: Æ fleiri stjórnarskrárbundin vandamál - valdaframsal umfram heimildir

Á Eyjunni segir:"Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sótti í gær fund EES-ráðsins í Brussel með öðrum utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna og fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB.

Meginefni fundarins var yfirferð um stöðu og framkvæmd EES-samningsins. Af Íslands hálfu lýsti utanríkisráðherra þeirri afstöðu, að æ fleiri mál sem taka þyrfti upp í samninginn sköpuðu stjórnarskrárbundin vandamál fyrir Ísland, þar sem í þeim fælist framsal valds umfram það sem stjórnarskráin heimilaði. Gæti þeitta leitt til vandkvæða varðandi fulla þátttöku Íslands í samningnum í framtíðinni að óbreyttri stjórnarskrá."


Göran Persson: Evran lifir ekki bara af - heldur eflist hún!

Göran PerssonGöran Persson, fyrrum forsætisráðherra Svía var staddur á Íslandi þann 27.11 og hélt fjölmennan fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands. Sama dag birtist viðtal við hann í Morgunblaðinu og þar barst talið meðal annars að Evrunni. Grípum aðeins niður í viðtalið, þar sem blaðamaður spyr:

"- Svíar felldu fyrir áratug í þjóðaratkvæðagreiðslu að taka upp evru, þvert gegn þínum ráðum. Lifir evran hremmingar sínar af?
»Ekki nóg með það heldur á hún eftir að eflast enn. Það er ástæðulaust að halda að áætlunin stöðvist vegna þess að þótt sum evruríkin eigi við vanda að stríða hafa önnur hagnast á samstarfinu. Af hverju ætti Þýskaland að binda enda á það? Það hefur reynst Þjóðverjum ákaflega vel.
Evran mun eflast. Lettar hafa nú sótt um aðild og þá bætist Svíum annar granni sem ætlar að nota þennan gjaldmiðil. Danir hafa lengi fest gengi krónunnar við evruna og í fyrra festu Svisslendingar gengi frankans við evru, ekki vegna þess að frankinn væri of lágur, gengi hans var of hátt! Kannski horfa fleiri lítil ríki með opið efnahagskerfi fram á sams konar vanda, sömu áhættu og þeir.«
- Hvað með Ísland?
»Krónan varð á sínum tíma of sterk og það olli ykkur erfiðleikum. Gjaldmiðill getur orðið vandamál í sjálfu sér og þá verðið þið að gera eitthvað."

Svona rétt til að minna á: Ísland er með minnsta sjálfstæða gjaldmiðil í heimi í gjaldeyrishöftum.


Árni Páll í Silfri Egils

Árni Páll ÁrnasonÁrni Páll Árnason, þingmaður kom í viðtal í Silfri Egils þann 25.11 og ræddi þar stjórnmálaástandið á breiðum grunni. Hann talaði meðal annars mikið um gjaldmiðilsmál. Fram koma í viðtalinu að þrátt fyrir fall krónunnar 2008 hefur útflutningur nánast ekkert aukist að magninu til. Þvert á það sem aðdáendur krónunnar hafa haldið fram. Horfa má á viðtalið hér.

Góð þáttaka á námskeiði Endurmenntunar um ESB

Á vef Evrópustofu sagði þann 22. nóvember:

 " Í gær hófst námskeið um ESB í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands, þar sem farið er yfir Evrópumálin á aðgengilegan og áhugaverðan hátt út frá sjónarhóli Íslands.

64 einstaklingar skráðu sig á námskeiðið sem skiptist í þrjá hluta en áhugasamir geta enn skráð þátttöku sína.

Í fyrsta hlutanum var fjallað um Evrópusambandið sjálft, sögu þess og helstu stofnanir og hvernig ákvarðanir eru teknar innan sambandsins. Þá var staða smáríkja innan sambandsins sérstaklega skoðuð og hvernig aðkoma Íslands yrði að stofnunum og ákvarðanaferlinu innan sambandsins. 



Í næstu viku verður fjallað um aðildarumsókn Íslands og samningaviðræðurnar og hvernig það ferli gengur fyrir sig. Þá er farið yfir samninga annarra ríkja og farið yfir hvernig það ferli hefur gengið fyrir sig."

Fjölmargir Íslendingar vilja fræðast um ESB, það er alveg á hreinu!


Já Ísland: Jólagleði á fimmtudaginn

Kæru félagar, vinir og velunnarar Já Ísland.

Þann 29. nóvember n.k. verður árleg jólagleði okkar haldin á Kaffi Reykjavík, Vesturgötu 2, 101 Reykjavík. Gleðin hefst klukkan 19.00 og mun standa fram eftir kvöldi. Dagskráin er hin glæsilegasta og veitingarnar ekki síðri. Boðið verður upp á jólalegt smurbrauð og jólalegt öl.

Dagskrá jólagleðinnar:
19.00 Mæting á Kaffi Reykjavík
19.30 Matur borinn fram
20.00 JólaPubQuiz með Semu Erlu
21.00 ESB uppistand með Berg Ebba
21.30 Bestu Jólalögin í flutningi Svavars Knúts
22.00 Evrópugleði fram eftir kvöldi

Veislustjóri er Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir, leikkona

Aðgangseyrir eru 2000 kr. sem greiðast við innganginn. Við biðjum ykkur að skrá ykkur hið fyrsta með því að senda póst á jaisland@jaisland.is eða í síðasta lagi fyrir 27. nóvember.


Hrafn Jökulsson í Viðskiptablaðinu:Þjóðin á það skilið

Hrafn Jökulsson"Í sextán ár hafa Íslendingar þrefað um Evrópusambandið, þar af fóru nokkur ár í að ræða sérstaklega hvort málið væri „á dagskrá“.

Nú eru sextán ár síðan Alþýðuflokkurinn gerði aðildarumsókn að ESB að kosningamáli. Þetta var 1995 og Alþýðuflokkurinn var ekki beinlínis í aðstöðu til að marka stefnu í einu eða neinu – lúskraður og lemstraður eftir að heilög Jóhanna hoppaði frá borði og stofnaði Þjóðvaka sáluga. Þar að auki tók Alþýðuflokkurinn út óvinsældir fyrstu ríkisstjórnar Davíðs (hlutskipti Framsóknar síðar) og hafði ofan í allt saman komist ítrekað í fréttir fyrir spillingarmál. Enda galt Alþýðuflokkurinn afhroð í kosningunum ´95 og var senn úr sögunni."

Þannig byrjar pistill efti Hrafn Jökulsson, sem hann ritar í Viðskiptablaðið, (www.vb.is) og heldur svo áfram:

"Í sextán ár hafa Íslendingar þrefað um Evrópusambandið, þar af fóru nokkur ár í að ræða sérstaklega hvort málið væri „á dagskrá“ eða ekki. Davíð gaf eftirminnilega yfirlýsingu um að aldrei skyldi Ísland inn í þann arma klúbb, gott ef hann lagði ekki geðheilsu sína að veði.

Mánudagurinn 27. júní 2011 var því sögulegur dagur: Formlegar viðræður hafnar við Evrópusambandið og stefnt að niðurstöðu sem fyrst. Það hillir undir að Íslendingar geti loksins, loksins afgreitt rifrildi sem staðið hefur í sextán ár, rifrildi sem hefur einkennst af því að fæstir vita hvað verið er að tala um. Jafnvel harðsvíruðustu andstæðingar ESB ættu að fagna."

Lokaorð Hrafns eru meðal annars þess:

"Þjóðin á það skilið að þetta mál verði til lykta leitt, svo við þurfum ekki að þrasa í önnur sextán ár um hver niðurstaðan af aðildarumræðum hefði orðið. Þjóðin á líka skilið að allir – sama hvað þeim finnst um ESB – standi saman til að sem best niðurstaða fáist. Þá, en ekki fyrr, getum við öll tekið upplýsta ákvörðun um já eða nei."

(Mynd: Eyjafréttir)


Göran Persson: Heimur á krossgötum, evrópskar áskoranir og tækifæri Íslands

Göran Persson"Heimur á krossgötum, evrópskar áskoranir og tækifæri Íslands," er yfirskriftin á fyrirlestri sem einn farsælasti forsætisráðherra Svíþjóðar, Göran Persson, mun flytja í hátíðarsal H.Í næstkomandi þriðjudag, 27.11, kl. milli 12-12.

Göran Persson var bæði menntamálaráðherra og fjármálaráðherra áður en hann varð forsætsráðherra árið 1996, sem hann var til 2006. Þá töpuðu jafnaðarmenn völdum í hendur borgaralegrar stjórnar, sem enn situr við völd.

Allir velkomnir.


Að gefnu tilefni....

...taka stjórnendur þessa bloggs sér það leyfi að hylja athugasemdir sem fara yfir almenn velsæmismörk.

Í guðana bænum; reynum að halda okkur Á MOTTUNNI Wink


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband