Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

Lilja vill NISK

EvraUmræðan um gjaldmiðilsmálin er sjóðheit! En, eins og kannski er engar fréttir á Íslandi, þá sýnist sitt hverjum. Sigmundur Davíð er veikur fyrir Kanadadal, Bjarni Benediktsson vill engu breyta og halda í haftakrónuna, SUS (ungliðar Bjarna) líst ekki á krónuna og vilja einhliða upptöku á einhverjum öðrum gjaldmiðli og þar er allt meira og minna galopið.

Nýjasta útspilið er svo frá Lilju Mósesdóttur, sem vill búa til Nýkrónu til að bjarga málunum. Að sjálfsögðu mun sú króna verða kölluð NISK, ef af verður.

Gjaldmiðilsmálin skapa titring og menn tala um snjóhengju í því samhengi, um 1000 milljarða krónueign ýmissa aðila, sem bíða eftir að komast úr gjörgæslunni sem gjaldmiðilmál landins eru í - bíða eftir því að geta flúið!

Nú svo hefur Já-Ísland bent á Evruna, sem raunverulegan valkost, en Evran er annar stærsti gjaldmiðill heims og fjölmörg íslensk fyrirtæki gera nú þegar upp í Evrum. Með Evrum ganga viðskipti sinn vanagang úti í Evrópu og um allan heim. Öll viðskipta, greiðslu og bankakerfi starfa eðlilega í Evrópu.

Á meðan eru Íslendingar læstir inni í höftum!


Þórarinn G. Pétursson: Hefur miklar efasemdir um einhliða upptöku gjaldmiðils

EyjanÁ Eyjunni stendur: "Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, hefur miklar efasemdir um einhliða upptöku myntar. Ef Ísland ætlar sér að taka upp aðra mynt, þá er evran besti kosturinn að hans mati.

Þórarinn hélt erindi á opnum fundi VÍB í Hörpunni í dag, þar sem einhliða upptaka gjaldmiðils var rædd.

Þórarinn sagðist ekki telja að einhliða upptaka erlends gjaldmiðils væri rétt leið fyrir Ísland og vísaði hann í reynslu ríkja í Suður- og Mið-Ameríku. Nefndi hann sem dæmi Panama, sem hefur lengstu söguna um dollaravæðingu, en ekkert annað ríki í heiminum fyrir utan Pakistan hefur þurft að leita á náðir AGS vegna bankakrísa.

Enn fremur benti Þórarinn á að þau lönd sem hafa tekið upp dollara, hafi þegar verið mjög dollaravædd áður en upptakan fór fram. Aldrei áður hafi einhliða upptaka verið reynd í landi sem þegar var ekki orðið dollaravætt og áhættan fyrir Ísland, verði þessi leið fyrir valinu, er því meiri."


Andstæðingum aðildar fækkar í nýrri könnun

ESB-ISL2Félagsvísindastofnun birti í vikunni niðurstöður könnunar, sem segir að 53,8% þeirra sem svöruðu, séu á móti aðild að ESB og 27,5% vildu ganga í ESB. Óákveðnir eru tæp 19% og hefur einnig fjölgað miðað við kannanir Capacent.

Sé könnun Capacent frá því í febrúar um sömu spurningu (aðild) skoðuð kemur í ljós að andstæðingum aðildar hefur fækkað um 2,4% en þeim sem vilja aðild hefur heldur fjölgað.

Og miðað við aðra könnum Capacent (sama spurning) frá því í ágúst 2011, hefur þeim sem hafna aðild fækkað um heil 10,7%.

Þetta án þess að aðildarsamningur liggi fyrir. Þá mun málið endanlega skýrast og þá fær þjóðin að kjósa um samninginn.


Össur á Alþingi: Losun hafta mikilvægt verkefni

Össur SkarphéðinssonÁ RÚV segir: "Eitt mikilvægasta viðfangsefnið í samningaviðræðunum við Evrópusambandið er að semja við sambandið um afnám gjaldeyrishafta. Þetta sagði utanríkisráðherra á Alþingi í dag. Hann sagði að ólögmætum refsiaðgerðum Evrópusambandsins yrði harðlega mótmælt.

Össur flutti Alþingi skýrslu sína um utanríkismál í morgun. Hæst bar umfjöllun um stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið en ráðherrann sagði að í lok júní yrði samningsafstaða Íslands tilbúin í 29 samningaköflum af 33.

„Staðan er þannig, eins og við vitum, að yfir okkur hangir snjóhengja í formi ríflega 1000 milljarða strokgjarnra króna í eigu útlendinga. Eitt mikilvægasta viðfangsefni samninganna verður að ná samningi við Evrópu um afnám gjaldeyrishaftanna og bræða snjóhengjuna án þess að hún breytist í efnahagslegt hamfarahlaup sem flæðir yfir okkar efnahagskerfi,“ sagði Össur."

Menn sjá betur og betur eyðingarmátt haftanna og gjaldmiðilsvandans.


Mun ESB styðja við krónuna?

EyjanÁ Eyjunni segir í frétt: "Unnið er að stofnun vinnuhóps sérfræðinga íslenskra stjórnvalda og framkvæmdastjórnar ESB sem fara mun yfir lausnir á vanda Íslands í peningamálum og hvernig hægt er að koma til móts við þær í aðildarviðræðum um ESB.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, lagði í gær fram á Alþingi skýrslu um utanríkismál þar sem farið er yfir helstu viðburði á sviði utanríkismála á síðasta ári.

Þar er ítarlega fjallað um aðildarumsókn Íslands að ESB og ítrekar Össur í inngangi skýrslunnar að ekki sé hyggilegt að flýta viðræðunum eða stilla lok viðræðnanna á tiltekna dagsetningu. Slíkt kunni að skaða samningsstöðu Íslands."


SUS: Ólíklegt að krónan gagnist sem gjaldmiðill - mikilvægt að finna landinu nothæfan lögeyri

EvraÍ sama Viðskiptablaði, nánast á sama stað og fréttin hér á undan, var svo önnur frétt, nú um SUS og hugmyndir þeirra um gjaldmiðilsmál. SUS er nefnilega komið á þá skoðun að ..."Ólíklegt er að krónan muni gagnast Íslandi sem gjaldmiðill til framtíðar."

Þar með eru ungliðarnir komnir á öndverða skoðun við leiðtoga sinn, Bjarna Benediktsson. Í grein sem formaður SUS ritaði í Fréttablaðið fyrir skömmu segir einnig:

"Krónan gagnast ekki þeim sem spara því hún heldur mjög illa verðgildi sínu, jafnvel þótt hún sé í hinum hlýja en kæfandi faðmi gjaldeyrishafta. Hún gagnast heldur ekki þeim sem skulda vegna hás vaxtastigs og verðtryggingar. Ekki þarf heldur að fjölyrða um það gríðarlega tjón sem gjaldeyrishöftin hafa valdið atvinnulífinu. Það er eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna að finna landinu nothæfan lögeyri sem fyrst."

Um þetta getum við verið sammála, en okkur greinir á um lausnir. SUS vilja nefnilega gefa frá Íslandi allt fullveldi með því að taka upp Kanadadollar. Við viljum hinsvegar taka þátt, á fullveldisgrunni, í Evru-samstarfinu, þar sem sameiginleg stefna Evruríkjanna er mótuð með lýðræðislegum hætti.

Gangi ekki upptaka Kanadadollars í samstarfi við Kanada, vilja "SUS-arar" taka einhliða upp Kanadadollar, Bandaríkjadollar eða Evru.

Ps. Íslenska krónan hefur tapað 99,5% af verðgildi sínu gagnvart dönsku krónunni, frá árinu 1921!


Engar aflandsevrur eða haftaevrur - BARA ALVÖRU EVRUR

EvrurRitari sat á kaffihúsi, sötraði kaffi og rakst á frétt í Viðskiptablaðinu, frá 16.apríl s.l., sem byrjar svona:

"Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, var með 187 þúsund evra árslaun á síðasta ári. Það jafngildir um 31,1 milljón krónum á núverandi gengi, eða um 2,6 milljónir króna á mánuði.

Þetta kemur fram í ársskýrslu félagsins. Aðalfundur HB Granda var haldinn síðastliðinn föstudag."

Hér er ekki um að ræða aflandsevrur, haftaevrur, verðtryggðar evrur, óverðtryggðar evrur eða eitthvað annað. BARA EVRUR - ALVÖRU GJALDMIÐIL!

Hvenær fá íslenskir launamenn og almenningur slíkt?

Ps. Mörg stærstu fyrirtæki landsins gera upp reikninga sína í Evrum.


Þorsteinn Pálsson um uppboð í dans í FRBL

Á www.visir.is segir: "Forseti Íslands, Framsóknarflokkurinn, Hreyfingin, vinstri vængur VG og minnihluti þingflokks sjálfstæðismanna höfðu forystu um að samkomulag um Icesave var fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú ákvörðun opnaði fyrir aðkomu ESB að málarekstri fyrir EFTA-dómstólnum. „Þeir sem beittu sér fyrir þeim málalokum geta ekki hneykslast nú á þeirri stöðu sem málið er í. Þetta er sá dans sem þeir buðu upp í," segir Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra og ritstjóri.

Þorsteinn fer yfir ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að stefna sér inn í málarekstur ESA gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum í vikulegum pistli sínum í helgarblaði Fréttablaðsins."

Fréttin á Visir.is.


Metið okkar :)

Á MBL.is segir: "Verðbólgan var hvergi meiri á evrópska efnahagssvæðinu og hér á landi í mars á sama tíma og dregið hefur úr verðbólgu í flestum löndum Evrópu. Er þetta sjöundi mánuðurinn í röð sem verðbólgan er mest hér á landi.

Verðbólga mældist 2,7% á evrusvæðinu í mars sl. miðað við samræmda vísitölu neysluverðs. Er tólf mánaða taktur vísitölunnar þar með hinn sami og hann var í febrúar, sem og sá sami og fyrir ári síðan.

Verðbólgan mældist aðeins meiri sé tekið mið af öllum ríkjum evrópska efnahagssvæðisins (EES) en þó er sagan svipuð. Þannig mældist árstaktur samræmdu vísitölunnar 2,9% í mars, sem er óbreytt frá síðustu tveimur mánuðum, en þó hefur aðeins dregið úr verðbólgunni frá því í mars í fyrra en þá mældist hún 3,1% á svæðinu, segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka."

Íslenskir neytendur eru lukkunnar pamfílar!

 


Gleðilegt sumar!

Sóley_normalEvrópusamtökin óska landsmönnum gleðilegs sumars!

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband