Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

Lýðhyggja svífur yfir vötnum

Lýðhyggja (populismi) og hentistefna er lausarorð dagsins hjá ýmsum andstæðingum ESB. Margir Nei-sinnar úr stjórnarandstöðunni rembast eins og rjúpan við staurinn í því að reka fleyga í raðir VG. Sem kunnugt er, eru ákveðnir aðilar þar innanborðs sem eru á þeirri skoðun að hætta beri við umsókn Íslands að ESB.

Bæði frá Nei-sinnum úr stjórnarandstöðunni og frá þeim sem tilheyra stjórnarflokkum koma þó engar raunhæfar tillögur um lausnir, t.d. á sviði gjaldmiðilsmála. Nema kannski að taka upp Kanadadollar og afsala þar með ÖLLU fullveldi Íslands á sviði gjaldmiðilsmála. Eða halda krónunni, sem keyrir með reglulegu millibili upp vexti og verðbólgu í landinu.


Þeir sem vilja hætta við ESB-málið

fingurÝmsum finnst það best að vera með fingurinn á lofti varðandi ESB og finna bæði sambandinu og aðildarumsókn Íslands allt til foráttu.

Nú síðast vegna Icesave-málsins og þáttöku ESB í því. En ESB er ekki að reka Icesave-málið, heldur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), þar sem Norðmenn eru fremstir í flokki.

Margt er hinsvegar sem bendir til þess að þátttaka ESB muni styrkja stöðu Íslands og var Íslandi ráðlegt af færustu sérfræðingum að mótmæla ekki þátttöku ESB í málinu.

Þau öfl í íslensku samfélagi sem vilja af öllum mætti koma ESB-málinu útaf borðinu eru hagsmunaöfl sem hafa hag af óbreyttu ástandi.

Almennir borgarar, venjulegt launafólk, fólk sem finnur fyrir þeim hníf kaupmáttarskerðingar sem hinn fársjúki haftagjaldmiðill hefur í för með sér, hefur hinsvegar mikla hagsmuni af því að málið haldi áfram.

Það sama má segja um atvinnulíf landsins, eða að minnsta kosti hluta þess. Þeir aðilar atvinnulífsins eru jú til, sem t.d. hagnast verulega nú um stundir á lágu gengi krónunnar.

Fyrir hinn almenna mann er umsóknin að ESB alvöru tilraun til þess að a) stuðla að afnámi verðtryggingar, b) stuðla að lægri vöxtum fyrir almenning og atvinnulíf, c) stuðla að lægri verðbólgu, sem hefur sennilega kostað almenning og fyrirtæki hundruði milljarða króna á lýðveldistímanum, d) stuðla að aukinni samkeppni og lægra matarverði.

En þeir sem vilja stöðva aðildarumsóknina, vilja koma í veg fyrir að látið verði reyna á þetta. Þeir vilja hefta framgang lýðræðisins með því að meina íslenskum almenningi að kjósa um aðildarsamning.

Þeir vilja tryggja sínum (sér)hagsmunum forgang á kostnað miklu mikilvægari hagsmuna almennings.

Það er frekjan og tilætlunarsemin í þeirra málflutningi. 


MBL: Forsíðan og síða tvö: Sama blaðið?

MBLFyndið að lesa Morgunblaðið í dag. Á forsíðu er fyrirsögnin "Ráðherra hélt málinu leyndu" og er þá að sjálfsögðu átt við aðkomu framkvæmdastjórnar ESB að Icesave-málinu.

Á næstu síðu (2) er svo frétt efst á síðunni með fyrirsögninni "Algerlega fyrirsjáanlegt" og þá er verið að tala um sama mál.

Það er svo greinilegt til hvers forsíðan er notuð.

Mætti alveg spyrja hvort um sé að ræða sama blaðið!


Hefur eitthvað breyst? Óli K. Ármannsson um Icesave í FRBL um upphrópanir og fleira

Óli Kr. ÁrmannssonÓli Kristján Ármansson, skrifar ágætan leiðara í Fréttablaðið í dag um snúningana í Iceseave og segir þar meðal annars:

"Sérfræðingar í Evrópurétti furða sig...ekkert á aðkomu framkvæmdastjórnar ESB að málarekstri ESA, sem er í fullu samræmi við stofnsamþykkt EFTA-dómstólsins. Í Fréttablaðinu í dag segir Stefán Már Stefánsson lagaprófessor að krafa framkvæmdastjórnarinnar um meðgöngu í málarekstrinum endurspegli mikilvægi málsins. „Það hefur klárlega þýðingu fyrir allan fjármálamarkað Evrópu," segir hann.

Og í fréttum Útvarps í gær tók Margrét Einarsdóttir, lektor í Evrópurétti við Háskólann í Reykjavík, í sama streng og kvað ekki koma á óvart að framkvæmdastjórnin beitti sér í málinu með formlegri hætti. „Ég sé ekki í fljótu bragði að það muni hafa nein úrslitaáhrif," bætti hún við."

Í lokin segir svo: "Í raun hefur ekkert breyst. Fulltrúar óttasleginna sérhagsmunahópa reyna nú sem fyrr að bregða fæti fyrir ferli sem á endanum á að skila sér í aðildarsamningi sem leggja á fyrir þjóðina. Sama gera andstæðingar fjölþjóðasamstarfs sem litla lýðræðisást bera í brjósti. Hvorugur hópurinn vill gefa þjóðinni færi á að meta sjálf hvernig hag hennar er best borgið."


Verðbólga sérstaklega hættuleg hér á landi - veldur áhyggjum

Formaður sendinefndar AGS, Julie Kozsack sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að verðbólgan væri komin á hættulegt stig hér á landi. Og að hún sé serstaklega skaðleg vegna vertryggingarinnar. Þetta eru s.s. engar nýjar fréttir, en staðfestir bara enn og aftur hvernig verðbólgudraugurinn fer með land og þjóð.

Margt er sem bendir til þess að gjaldmiðillinn og ýmsar aðstæður í kringum hann eigi þátt í mikill verðbólgu hér á landi um þessar mundir.

Því er nauðsynlegt að vinna í þessum málum og eðlilegasti kostur Íslands er Evra.


Þriðja grein Árna Páls um höftin

Í sinni þriðju og síðustu grein um gjaldeyrishöftin veltir Árni Páll Árnason fyrir mögulegum leiðum til að losna við höftin og segir þar m.a.:

"Áætlun stjórnvalda og Seðlabanka um afnám hafta er um margt góð og greinir vandann rétt. Þau tæki sem þar er unnið eftir duga samt ekki ein, eins og fyrr hefur verið lýst, og við þurfum fjölbreyttari leiðir.

Í haust leið lagði sérfræðingahópur á vegum Viðskiptaráðs fram ýmsa valkosti um afnám hafta. Þar var sett fram sú hugmynd að erlendum eigendum krónueigna yrði boðið að losna út, annaðhvort með því að lána ríkinu fyrir því til 30 ára eða með því að sæta því að einungis væri hægt að leysa fjárhæðir út í smáum skömmtum á löngu tímabili, svo sem 20 árum. Líklega eru þessar leiðir áhættumeiri nú en þegar þær voru settar fram, vegna þess að aflandskrónueignin hefur aukist svo mjög. En það er líka vert að muna að ein lausn hentar ekki öllum og aflandskrónueigendur eru nú fjölbreyttari hópur en fyrr.

Við getum til viðbótar líka hugsað að fara þá leið að semja við aflandskrónueigendur. Þeim getur ekki hugnast sú framtíðarsýn að íslenskt atvinnulíf haldi áfram að veikjast vegna haftanna, samkeppnishæf fyrirtæki yfirgefi landið og engin erlend fjárfesting verði hér. Hvenær eiga þeir þá að fá peningana sína út? Grikkir hafa nýlokið samningaviðræðum af áþekkum toga við skuldabréfaeigendur um afslátt á grískum ríkisskuldum, með ágætum árangri. Þótt þar hafi vissulega verið um ríkisskuldir að ræða, en hér sé um fjármögnunarvanda að ræða, er grundvallarviðfangsefnið ekki ósvipað. Hvaða umgjörð væri hægt að skapa í slíkum samningum um greiðslufresti og afslætti, fyrir ólíka hópa aflandskrónueigenda?"

Og síðar skrifar Árni: "Það þarf líka að útfæra í aðildarviðræðunum með hvaða hætti Evrópusambandið og evrópski Seðlabankinn gætu aðstoðað...Þátttaka í evrópska myntsamstarfinu er vissulega bundin við aðildarríkin ein og ekkert ríki getur orðið aðili að ESB með gjaldeyrishöft. Evrópusambandið hefur hins vegar ítrekað viðurkennt þá fordæmislausu aðstöðu sem Ísland lenti í 2008 og í samtölum mínum við Olli Rehn, framkvæmdastjóra gjaldmiðilsmála, í febrúar í fyrra hét hann stuðningi sambandsins við afnámsferlið sem slíkt. Þegar ég ræddi við Jean-Claude Trichet, þáverandi seðlabankastjóra, um stöðuna á sama tíma, hristi hann höfuðið yfir þeim vanda sem aflandskrónueign upp á tæp 30% af þjóðarframleiðslu skapaði og kallaði það fordæmislausan vanda. Hvað ætli Mario Draghi, eftirmaður hans, myndi segja við aflandskrónueign upp á um 60% af þjóðarframleiðslu, eins og nú er orðin raunin?"


Valda höftin "spekileka" ?

Í frétt Eyjunnar segir: "Áhrif gjaldeyrishafta felast í hægfæra hnignun frekar en skyndilegu áfalli. Vegna þeirra gæti sú staða hæglega komið upp að annað hvort flytur framtakssamasta fólkið af landi brott, eða stjórnmálamenn fá hugmyndir um að setja höft á fleira en bara gjaldeyrinn.

Þetta segir Hjálmar Gíslason, framkvæmdastjóri Data Market, í grein sem hann skrifar í tilefni greinarflokks Árna Páls Árnasonar um gjaldeyrishöft og birtir á heimasíðu sinni.

Hjálmar segir að gjaldeyrishöftin séu mikilvægasta mál íslensks samtíma, mun mikilvægara en flestir gera sér grein fyrir. Þótt meðalfólkið geti enn keypt sér bíla, farið í frí erlendis og keypt alla innflutta vöru, þá mun það hins vegar breytast smám saman, segir Hjálmar.

Það sem er „hrollvekjandi“ að hans mati er að á meðan aðrir þrír hlutar fjórfrelsisins eru óskertir, þá er hætt við því að fleira og fleira ungt fólk átti sig á því að möguleikar þeirra eru takmarkaðri en jafnaldra þeirra í nágrannalöndunum."


Bylur hæst í þeim sem kröfðust dómstólaleiðarinnar - Mörður um vælið á Eyjunni

GjallarhornNúna bylur hæst í þeim sem mest kröfðust þessa að Icesave-samningnum yrði hafnað. Samningaleiðinni var jú hafnað og nú fá menn dómstólaleiðina eins og hún leggur sig. Svæsnastir eru þjóðernissinnarnir í Framsókn.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar skrifar ágætan pistil um þetta á Eyjunni og segir þar:

"Ég held með íslenska landsliðinu í fótbolta, handbolta, skíðum, skák et cetera – en ég skil ekki þennan hávaða útaf ESB og Icesave.

Evrópusambandið heldur vel utan um hagsmuni þeirra ríkja sem það mynda. Eru það tíðindi? Það sýnist mér ekki – heldur einmitt ein af ástæðunum fyrir því að Íslendingar eiga að gerast aðilar.

Viðbrögð sem stungið er upp á núna – að hætta viðræðunum við Evrópusambandið eða fresta þeim af þessu tilefni – bíðum við: Voru það ekki einmitt okkar forystumenn, úr öllum flokkum, sem lýstu því yfir að Icesave-málið og aðildarumsóknin væru óskyld mál? Ætlum við núna að tengja þau saman? Kannski makrílinn líka til að allt fari í hnút alstaðar og endurreisnin stöðvist örugglega fyrir kosningar?

Reyndar sagði samningamaður Íslands, Tim Ward, fyrir um einmitt þessa atburðarás á fundi utanríkismálanefndar – og fagnaði henni að sumu leyti þar sem vörnin yrði auðveldari.

Aðalmálið hér er auðvitað það að þeir sem völdu dómstóla umfram samninga – meirihluti þjóðarinnar – verða að gjöra svo vel sætta sig við torfærurnar á þeirri leið.

Við skulum svo sameinast öll í vörn fyrir íslenska hagsmuni – en ekki vera að væla yfir sjálfsögðum hlutum."

Þá segir Hallur Magnússon þetta í stuttu innleggi á Eyjunni: "Af hverju fara andstæðingar aðildarviðræðna að Evrópusambandinu alltaf af límingunum þegar Evrópusambandið beitir sér í að verja hagsmuni aðildarríkja sinna gagnvart Íslandi af fullum krafti?

Þola þeir ekki að Íslendingar sjái það afl sem standa mun að baki hagsmunum Íslands gagnvart ríkjum utan Evrópusambandsins ef íslenska þjóðin tekur þá ákvörðun að gang í ESB?"


Árni Páll um afnám hafta: Upptaka Evru einfaldasta leiðin

Árni Páll ÁrnasonÁrni Páll Árnason, fyrrum efnahags og viðskiptaráðherra birti stórgóða grein númer tvö um höftin (og fleira) í Fréttablaðinu í dag og þar sem segir hann meðal annars:

"Það liggur fyrir að einfaldasta leiðin til afnáms hafta er með aðild að ESB og undirbúningi upptöku evru. Vandinn við þá leið er annars vegar sá að ekki hefur náðst að byggja nægilega góða samstöðu um hana og að afnámsferli á þeim grunni getur heldur ekki hafist fyrir en eftir að aðild að ESB hefur verið samþykkt í þjóðaratkvæði. Þjóðaratkvæðagreiðslan getur fyrst farið fram eftir tvö ár. Að óbreyttu verður því ekkert gert sem máli skiptir í afnámi hafta, fyrr en í fyrsta lagi seint á árinu 2014. Ef aðild verður hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu, höfum við engin svör.

Það er algerlega óásættanlegt að halda fleyinu stefnulausu svo lengi. Þetta er slæmt fyrir okkur sem viljum aðild að ESB, en enn verra fyrir áhugamenn um framtíð Íslands utan ESB. Þeir geta ekki verið þekktir að því að hafa enga trúverðuga stefnu um gengis- og peningamál til næstu ára, sem gerir afnám hafta mögulegt. Er okkur sama þótt við töpum samkeppnishæfum fyrirtækjum, íslenskt atvinnulíf molni og við fáum enga erlenda fjárfestingu."

(Mynd: Visir.is)


Guðmundur Gunnarsson á Eyjunni: Við erum með mestu verðbólgu í Evrópu

Guðmundur Gunnarsson skrifar góðan pistil á Eyjuna þann 9. apríl, þar sem hann segir meðal annars:

"Við erum með mestu verðbólgu í Evrópu, vextir hér eru þeir hæstu sem þekkjast. Enginn vill eiga sparifé varðveitt í íslenskri krónu. Þar af leiðandi er ekki hægt að fá langtímalán í krónum, einungis í verðtryggðum krónum. Það vill engin fjármagna lánakerfið án þess að fá tilbaka sömu verðmæti og lánuð eru. Menn settu niður hælana árið 1980 þegar búið var að brenna upp alla lífeyrissjóði og sparifé landsmanna

Íslenskum launamönnum hafði tekist það sem af var þessari öld, að ná um 13% kaupmáttaraukningu fram að Hruni, en töpuðu henni nær allri við Hrunið, auk þess að fjöldi heimila tapaði öllum sínum eignum.

Danir féllu ekkert í kaupmætti um við efnahagshrunið, en hafa bætt við sig 1% eftir 2008 og tæp 6% það sem af er þessari öld. Auk þess að halda þeir sínum eignum.

Svíar hafa gert betur, þeir hafa bætt við sig 2.3% í kaupmætti eftir efnahagshrunið og 7,3% það sem af er þessari öld, og halda sínum eignum.

Finnland
hefur bætt við sig 4,5% í kaupmætti frá efnahagshruninu og bætt við sig 10,8% það sem af er þessari öld.

Noregur er með mestu kaupmáttaraukninguna af Norðurlöndunum eða 10,8% það sem af er þessari öld, þar af 4,5% frá árinu 2007.

Meðaltal kaupmáttaraukningar í Evrópu það sem af er þessari öld er 12,7%, þar af 2,7% eftir efnahagshrunið. Heimild: Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) árið 2010.

Landsframleiðsla á mann á hinum Norðurlöndunum jókst að meðaltali um 55% á meðan hún minnkaði um 4% á Íslandi. Í þessu sambandi er rétt að halda því vel til haga að við erum í litlu hagkerfi sem er mjög háð innflutningi á nauðsynjavörum.

Við eru fámenn þjóð sem býr í stóru landi en gerum kröfu um sambærilegt velferðarkerfi og er á hinum Norðurlandanna. Hvernig ætlar Ísland að ná sambærilegri stöðu og hin Norðurlöndin og hversu langan tíma ætla menn að taka sér til þess?

Píslarsýkin er kominn hér á landi á það hátt stig að sérhagsmunasamtökum tekst bara með prýðilegum árangri að fá menn til þess að berjast af fullum þrótti til þess að viðhalda því sjálfskaparvíti sem við höfum búið okkur."

Í þessu samhengi má einnig benda á annan pistil á Eyjunni, eftir Elvar Örn Arason, sem fjallar um svipuð málefni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband