Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Mörður Árnason með samantekt um ESB-málið á Eyjunni

Mörður ÁrnasonMörður Árnason, alþingismaður, skrifar á Eyjunni, góða samantekt um nýjustu snúningana í ESB-málinu og hefst samantektin svona:

"Hvað merkir Evrópuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar? Ósigur Evrópusinna? Uppgjöf Samfylkingarinnar? – einsog ýmsir einlægir Evrópumenn spyrja nú í bloggi og á Snjáldru — ??

Hvorugt. Í yfirlýsingunni felst það eitt að þeir kaflar sem enn á eftir að opna – fyrst og fremst um sjávarútveg og tengd efni – verða ekki opnaðir fyrir kosningar. VG þurfti að hafa þetta á hreinu — sjálfsagt af innanflokksástæðum öðrum þræði — og við í Samfylkingunni vorum tilbúin að lýsa því yfir.

Var líklegt að þessir kaflar yrðu opnaðir fyrir kosningar? Það var auðvitað ekki fræðilega útilokað en þó harla ólíklegt. Annarsvegar vegna þess að það er ekki þægilegt fyrir samningamenn – hvorugumegin við borðið – að vinna undir þeirri pressu sem kosningarnar valda. Hinsvegar vegna þess að í ýmsum ríkjum sambandins er veruleg fýla út í okkur vegna makrílmálsins og ekki skynsamlegt að standa í samningum í því andrúmslofti.

Er komið hlé á viðræðurnar? Hefur þeim kannski verið frestað? Nei, hvorugt. Fulltrúi Stefáns Fuhle stækkunarstjóra í Brussel lýsir því þannig að ekki verði afhent fleiri samningsafstöðuskjöl fyrir kosningar, það er að segja ekki hafnar viðræður um nýja kafla. Vinna í þegar höfnum köflum heldur áfram, en reyndar var ekki von á neinum dramatískum tíðindum af þeim á næstunni – eftir síðustu ráðstefnu þar sem einir sex kaflar voru undir.

Þarf næsta ríkisstjórn að taka sérstaka ákvörðun um að taka aftur til við viðræðurnar? Nei, nema hún kjósi að breyta þeim með einhverjum hætti. Ef hún tekur ekki ákvörðun um að hætta eða fresta, þá halda viðræðurnar áfram. Á því er hinsvegar engin launung að forustumenn Evrópusambandsins fylgjast með tíðindum úr íslenskri pólitík og vita að framhald málsins ræðst af þeirri ríkisstjórn og þeim stjórnarmeirihluta sem við tekur eftir kosningar. Það hefur yfirmaður málsins þeirra megin beinlínis sagt í minni áheyrn, og voru kannski ekki miklar fréttir."


Jón Steindór Valdimarsson í FRBL: Skeinuhættir stjórnmálamenn

Jón Steindór ValdimarssonJón Steindór Valdimarsson, formaður samtakanna Já-Ísland, skrifaði góða grein í Fréttablaðið um ESB-málið þann 15.1. Greinin birtist hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

SKEINUHÆTTIR STJÓRNMÁLAMENN 

Langt er síðan ég gerði upp hug minn um að Íslandi væri best borgið með aðild að Evrópusambandinu. Þar gildir einu hvort litið er til lífskjara, starfsskilyrða atvinnulífsins, öryggis- og varnarmála eða menningarmála.

Ekki er byggt á skammtímasjónarmiðum um að ESB muni reynast einhvers konar bjargvættur á neyðarstundu. Þvert á móti er skoðunin byggð á því að aðildin muni fela í sér meiri farsæld fyrir okkur öll á næstu áratugum.

Brýnasta hagsmunamálið í bráð og lengd er að tryggja efnahagslegan stöðugleika og búa í haginn fyrir öflugan útflutning. Það er forsenda góðra lífskjara. Með haftakrónu, hárri verðbólgu, gengissveiflum og annarri óáran sem fylgir okkar sjálfstæðu peningamálastefnu tekst það ekki. Í þeim efnum er reynslan ólygnust.

Ég er eindreginn stuðningsmaður aðildar Íslands að ESB. Af aðild verður auðvitað ekki ef aðildarviðræðum verður slitið. Það er öldungis fráleitt að halda því fram að aðildarviðræðurnar séu bara hjal um ekki neitt – niðurstaðan liggi þegar fyrir. Það verður að halda viðræðum áfram af fullum þunga og ná hagstæðri niðurstöðu.

Ágæti aðildar að ESB er ekki háð víðtækum undanþágum frá hinu og þessu. Hagsmunir okkar og framtíð geta aldrei ráðist af þröngum sérhagsmunum eða ýtrustu kröfum háværra gæslumanna þeirra. Almenningur á ekki að súpa seyðið af þeim með lakari lífskjörum.

Ég er handviss um að þegar grannt verður skoðað mun heildarhagsmunum Íslands verða betur borgið innan ESB. Að fenginni niðurstöðu viðræðna mun auðvitað hver og einn vega og meta fyrir sig hvort skynsamlegra sé að segja já eða nei.

Stjórnmálamenn eiga margir hverjir erfitt með að hugsa til lengri tíma en enda hvers kjörtímabils. Eigið þingsæti og hagsmunir flokksins yfirskyggja því miður oftar en ekki langtímahagsmuni lands og lýðs. Slíkir stjórnmálamenn eru okkur skeinuhættir og þá eigum við að forðast eftir mætti. Því miður eru þeir margir á kreiki nú sem fyrr.

Sjálfur mun ég leggja þeim lið sem vilja halda dyrum opnum, leiða aðildarviðræður til farsælla lykta á næstu misserum og bera niðurstöðuna undir þjóðina. Hinir mega eiga sig.


Nokkurð orð um sögulegar staðreyndir

Gunnar Hólmsteinn ÁrsælssonGunnar Hólmsteinn Ársælsson, stjórnarmaður í Evrópusamtökunum, skrifaði grein um Evrópumálin í Fréttablaðið, þann 14.1 og birtist hún hér með leyfi höfundar.

Hallur Hallsson, fyrrum blaðamaður, skrifaði í byrjun janúar grein í Fréttablaðið um Evrópumál, í breiðum skilningi þess orðs (Af Einstein og spunarokkum). Grein hans fer um víðan völl, svo víðan að nokkuð erfitt er að átta sig á því um hvað þessi grein raunverulega er.

En Hallur var með henni að vekja athygli á endurskrifaðri útgáfu af bók sinni, Váfugl, sem að mér skilst varar sterklega við Evrópusambandinu. Hallur er á móti því, vegna þess að hann telur að ESB sé að breytast í „stórríki“ (eins og ég skil hann).

ESB á sér sína sögu, eins og margir aðrir hlutir og það verður til þegar seinni heimsstyrjöld hefur skilið Evrópu (og nánast heiminn allan) eftir sem rjúkandi rúst. Það hefur því verið áratugi í þróun og er enn í þróun – það stendur í raun aldrei í stað.

Þegar verið er að fjalla um sögu og sagnfræði er það grundvallarkrafa að menn hafi staðreyndir á hreinu. Í grein sinni segir Hallur til dæmis að Adolf Hitler hafi rænt völdum í Þýskalandi. Það er hinsvegar ekki rétt. Hitler reyndi árið 1923 að framkvæma ,,Bjórkjallarabyltinguna“ svokölluðu, en hún mistókst. Hann komst hinsvegar til valda í kjölfar lýðræðislegra kosninga í nóvember árið 1932, tæpum áratug síðar. Aðallega vegna þess að andstæðingar hans voru sundraðir. Þann 30.janúar árið 1933 skipaði hinn aldni þýski forseti, Paul von Hindenburg, Adolf Hitler í embætti kanslara. Á næst mánuðum bannaði Hitler svo smám saman starfsemi verkalýðshreyfinga og annarra stjórnmálaafla. Með þessum hætti náði Adolf Hitler algerum völdum og afnam þar með allt sem hét lýðræði í Þýskalandi.  Hér er því ekki um eiginlegt valdarán að ræða. Í framhaldi af því stóð hann svo fyrir versta glæp mannkynssögunnar, Helförinni og byrjaði reyndar strax árið 1933 að senda pólítíska andstæðinga og aðra ,,óæskilega“ í þrælkunarbúðir.

Friðsamleg samvinna

ESB hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir skömmu. Í kjölfar þeirra efnahagslegu hamfara sem dunið hafa á Evrópu og umheiminum síðan 2008, hlýtur það að teljast nokkuð afrek að ekki hafi komið til vopnaðra átaka milli landa Evrópu vegna þessa. Hvernig viðbrögðin hefðu verið ef ESB-samvinna 27 lýðræðisþjóða hefði ekki verið til staðar, er erfitt um að spá. En þó verður að teljast líklegt að menn hefðu gripið til hverskyns verndaraðgerða, tollamúra og þess háttar. Og þá er ekki ólíklegt að hitnað hefði í kolunum. En allar götur frá 2008 hafa viðskipti gengið fyrir sig með eðlilegum hætti í Evrópu. Smám saman hafa leiðtogar ESB-ríkjanna náð að vinna á vandanum og eru að því enn. Og formið er; friðsamleg samvinna, en ekki vopnaskak.

Hinsvegar er seinni heimsstyrjöldin gott dæmi um það hvernig menn (ekki bara Adolf Hitler) ætluðu sér að leysa efnahagsleg vandamál ( s.s. atvinnuleysi) og fá útrás fyrir persónulegan metnað, með styrjaldarrekstri. Gegn þessu er ESB meðal annars beint og sú friðarhugsjón sem er ein af grundvallarhugmyndum ESB, á sér skýrar sögulegar rætur.

Það er svo mikið umhugsunarefni hvernig á síðustu misserum andstæðingar ESB hér á landi reyna endurtekið að tengja ESB við nasisma og þriðjar ríki Adolfs Hitlers. Eða Sovétríki kommúnismans. Sem er alger fjarstæða og sýnir á hversu lágt plan umræða um Evrópumál getur farið hér á landi.

Höfundur er stjórnmálafræðingur.


Kastljós á RÚV: Steingrímur J Sigfússon um ESB

steingrímur-kastljosSteingrímur J. Sigfússon, ráðherra, ræddi m.a. ESB-málið í ítarlegu viðtali í Kastljósi þann 14.1 2013.

Össur: Í samræmi við það sem áður hefur verið reifað

Össur SkarphéðinssonÁ Eyjunni segir: "„Þetta er í samræmi við það sem áður hefur verið reifað að það verði hægt á ferlinu meðan á kosningabaráttunni stendur, og að engar meiriháttar pólitískar ákvarðanir verði teknar, svo sem um sjávarútveg og landbúnað, fyrr en sú ríkisstjórn sem verður til að kosningum loknum tekur sínar ákvarðanir. Hún hefur þá fullt lýðræðislegt svigrúm til að koma sínum áherslum á þessa mikilvægu málaflokka,” sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra að afloknum fundi ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin ákvað í morgun að hægja all verulega á samningaviðræðum við Evrópusambandið. Áfram verður unnið milli Íslands og ESB í þeim 16 köflum, sem búið er að opna. ESB heldur sömuleiðis áfram vinnu við að móta eigin viðbrögð við samningsafstöðu í tveimur köflum, sem Ísland hefur þegar afgreitt frá sér, en hafa ekki verið opnaðir til samninga. Vinna heldur því í raun áfram í 18 köflum, segir Össur.

Össur segir við Eyjuna að það sé bæði skynsamlegt og eðlilegt að hægja á ferlinu á þessum tímapunkti, þegar nýlokið sé miklum kúf í viðræðunum í ríkjaráðstefnunni í desember og fyrir liggi að töluvert sé í land að samningunum ljúki. Makríldeilan og endurskoðun á sjávarútvegsstefnu ESB hafi tafið viðræður í sjó, og heimatilbúin seinkun hafi orðið á landbúnaði."


Jón Bjarnason missir fleiri stóla

Jón BjarnasonEins og kunnugt er myndaði Jón Bjarnason úr VG nýjan meirihluta í Utanríkismálanefnd Alþingis með Sjálfstæðis og Framsóknarflokki varðandi ESB-málið.

Án þess að ráðfæra sig við sinn eigin flokk. Þetta var því algerlega "sólóverkefni" Jóns. Heitir þetta ekki á mannamáli að fara á bakvið sinn eigin fllokk?

Nú hefur Jón tapað sæti sínu í Utanríkismálanefnd og Efnahags og viðskiptanefnd. Svo virðist sem Jón sé búinn að brenna allar brýr að baki sér og hann hefur einnig lýst því yfir að hann ætli ekki að sækjast eftir endukjöri í kosningunum í lok apríl.

Morgunblaðið (þar sem Jón hefur verið tíður gestur að undanförnu, því skoðanir hans fara saman við skoðanir blaðsins á ESB-málinu, "óvinir óvina minna eru vinir mínir") fjallar um þetta í dag á netinu og þar er verið að velta því upp hvort Jón ætli að skipta um flokk undir fyrirsögninni Jón útilokar ekki að fara úr VG.

Kannski er Jón velkominn í Sjálfastæðisflokkinn?


Þortsteinn um (m.a.) höftin og krónuna

Þorsteinn PálssonÞorsteinn Pálsson, fyrrum ráðherra, skrifaði pistil í Fréttablaðið þann 12.1 og byrjaði hann með því að fjalla um gjaldeyrishöftin:

"Ísland er lokað í gildru gjaldeyrishafta. Þjóðarinnar bíður það hlutskipti að hlaupa hring eftir hring; ýmist við að hækka laun eða fella gengi. Hún mun mest nærast á froðu verðbólgunnar því að jarðvegur hennar er nú frjórri en hollari afurða.

Helst má líkja aðstæðum þjóðarinnar við dýr í búri sem bíta í skottið hvert á öðru. Draumur flestra er þó samlíking við fjallgöngumenn á leið á tindinn.

Hugur stjórnmálamanna er í ríkari mæli bundinn við skammtímalausnir en framtíðarsýn. Þar af leiðir að fyrirheitin í aðdraganda kosninganna minna fremur á misjafnlega stór búr en búnað til að ná á tindinn. Allar breytingar lúta síðan tveimur takmörkunum sem styðjast við réttlætiskennd."

Síðan tekur Þorsteinn gjaldmiðilsmálin fyrir: "Draumurinn um að ná á tindinn þýðir að ráðast verður á fjallið. En fjallganga er ekki fyrirhafnarlaus. Verkurinn er sá að í kosningum er ekki til vinsælda fallið að lofa nokkru því sem kostar fyrirhöfn eða erfiði. Meðan stjórnmálaflokkarnir koma sér hjá því að segja satt um fjallgönguna verður heldur engin trúverðug framtíðarsýn af tindinum.

Eigi að takast að tvöfalda útflutning að talsverðum hluta með annars konar starfsemi en auðlindanýtingu þarf margháttaðar kerfisbreytingar. Lækkun skatta dugar ekki alla leið. Hér þarf gjaldmiðil sem er stöðugur og hlutgengur í viðskiptum. Krónan uppfyllir hvorugt skilyrðið og enginn hefur sýnt fram á að unnt sé að breyta því. "


Andrés Pétursson um útspil stjórnarinnar

Andrés PéturssonÍ frétt á Visir.is segir: "„Auðvitað hefðum við viljað að ríkisstjórnin héldi áfram með þetta eins og lá fyrir í stjórnarsáttmálanum, en við skiljum ákvörðunina vel," segir Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, um samkomulag ríkisstjórnarinnar að hægja verulega á samningaviðræðum ríkisins um aðild að Evrópusambandinu.

Nú liggur fyrir að fjórir kaflar verða ekki opnaðir á þessu kjörtímabili, það eru að auki þeir mikilvægustu, þessir sem fjalla um landbúnað og sjávarútveg og fjárfestingum þeim tengdum.

En óttist þið að málið verði svæft í fórum nýrrar ríkisstjórnar?

„Við erum ekkert hræddir við það," svarar Andrés. „Dómsdagsspár hinna svartsýnustu um fall ESB og evrunnar hafa eki ræst, heldur þvert á móti hefur ESB verið að klóra sig út úr erfiðleikunum. Og þá sitjum við íslendingarnir eftir í gjaldeyrishöftum," segir Andrés sem telur að Ísland gæti orðið eftir í gjaldeyrishöftum á meðan ESB nær sér aftur á strik í efnahagsmálum."

Sérkennilegar hugmyndir

Andstæðingar aðildarviðræðna Íslands við ESB þykjast hafa himin höndum tekið í kjölfar þess að ríkisstjórn Íslands ákvað þann 14.1 2013 að setja ESB-málið í "kosningabúning" eða hæggír.

Í kjölfar þess byrja þær raddir aftur sinn söng að kjósa um aðild að ESB án þess að aðildarsamningur liggi fyrir.

Það verður að segjast ein og er að sú hugmynd er afskaplega heimskuleg, þó ekki sé meira sagt.

Hvernig í ósköpunum á fólk að mynda sér skoðun með ófullkomnum upplýsingum? Sérkennilegt að menn láti sér detta svona vitleysu í hug! 

Einnig eru þeir til sem halda því fram að málið klárist með því að hætta við það. Það er álíka gáfuleg hugmynd.

Málið er aðeins hægt að klára með því að fá samning á borðið og leyfa íslensku þjóðinni að kjósa um hann.

Sennilega eru þessar "raddir" svona lafhræddar við það!


Fjárfesting í lamasessi?

Á MBL.is segir: "Aðeins þrjú ríki á evrusvæðinu – Grikkland, Írland og Kýpur – voru með lægra fjárfestingastig en Ísland á árinu 2012.

Miðað við áætlaðar hagtölur fyrir síðasta ár þá verður heildarfjármunamyndun í íslenska hagkerfinu 14,9% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Það er tæpum fjórum prósentum lægra en að meðaltali hjá þeim 17 ríkjum sem eru í evrópska myntbandalaginu."

Hversvegna skyldi þetta vera? Höft vegna innilokaðs gjaldmiðils?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband