Leita í fréttum mbl.is

Evrópustofa opnaði á Akureyri

EvrópustofaEvrópustofa, sem sér um miðlun upplýsinga um ESB, opnaði í dag útibú á Akureyri við hátíðlega athöfn. Opnunin er liður í Evrópuviku, sem nú stendur yfir. Þar er dagskráin fjölbreytt og á morgun, þriðjudag, er m.a. opinn borgarafundur með sendiherra ESB á Íslandi, Timo Summa. Fundurinn er í Iðnó.


Spegillinn um einhliða upptöku gjaldmiðils

RÚVÍ Speglinum var fjallað um einhliða upptöku gjaldmiðils þann 3.5 og má hlusta á pistil Sigrúnar Davíðsdóttur hér.

Magnús Árni um Ísland, Breta og ESB í FRBL

Magnús Árni Magnússon skrifaði grein í FRBL þann 4.5 og fjallar þar um Breta og Evrópusambandið. Grein Magnúsar hefst svona:

"Þó vissulega séu vináttutengslin og bræðraböndin sterk, þá má segja að frá lýðveldisstofnun hafi Bretar verið helstu andstæðingar okkar Íslendinga á alþjóðavettvangi. Bresk saga er glæsileg, en því miður í aðra röndina saga valdbeitingar og Bretar hafa sjaldan hikað við að beita hörku, telji þeir það þjóna breskum hagsmunum. Við sem næstu nágrannar þeirra í norðri höfum ekki farið varhluta af því. Við öttum kappi við þá í þorskastríðunum og höfðum sigur þá. Ekki vegna þess að herskipin okkar væru öflugri, heldur vegna þess að þróun á alþjóðavettvangi var hagsmunum okkar hliðholl og fleiri þjóðir lögðust á sveif með okkar málstað.

Síðan við háðum við þá þorskastríðin hefur Bretum hins vegar bæst nýtt vopn í vopnabúrið til að berja á okkur Íslendingum: Aðild þeirra að Evrópusambandinu. Nú er svo komið að í hvert sinn sem við lendum í deilum við þessa góðu granna okkar í suðri, beita þeir því vopni fyrir sig með því að safna öllum okkar helstu frænd- og vinaþjóðum að baki sér í krafti þess að Evrópusambandið beitir sér fyrir hagsmunum aðildarríkja sinna, en ekki þeirra ríkja sem standa utan sambandsins. Við sjáum þetta í Icesave-málinu, við sjáum þetta í makríldeilunni og við munum halda áfram að sjá þá nota þetta vopn gegn okkur svo lengi sem þeir eru innanborðs en við utangarðs."


Minkasteik til Kína?

MinkurMatarvenjur milli landa eru mismunandi. Fram hefur komið í fjölmiðlum að kínverskir aðilar sýni áhuga á að kaupa minkakjöt héðan frá Íslandi, til matargerðar. Í RÚV var rætt við bónda nokkurn í Skagafirði og honum leist vel á hugmyndina. Hingað til hafa minkarnir verið urðaðir eftir fláningu.

En eins og kunnugt er hafa bændur barist hatrammlega gegn því að hingað til lands sé flutt hrátt kjöt frá Evrópu og telja það hina verstu hugmynd.

Það verður áhugavert að fylgjast með þróun þessa máls.


UNGIR EVRÓPUSINNAR MEÐ FRÁBÆR MYNDBÖND

UNGIRUngir Evrópusinnar hafa gert frábær stuttmyndbönd ("sketsa") um ESB og ýmislegt sem tengist því, m.a. hræðsluáróður andstæðinganna.

Við segjum ekki meira EN SJÓN ER SÖGU RÍKARI!

UNGIR-ESB2


Bændablaðið á jákvæðu nótunum: Sagt frá Norðurslóðaverkefni ESB!

bændablaðiðÞað er ekki á hverjum degi sem jákvæðar fréttir um ESB birtast í Bændablaðinu, en svo bregðast krosstré sem önnur tré!

Í nýjasta eintaki Bændablaðsins (sem kom með Mogganum fimmtudaginn 3.maí, eða var það öfugt?) er sagt frá þátttöku Sjúkrahússins á Akureyri í viðamiklu Norðurslóðaverkefni á vegum ESB. Í frétt BBL segir:

"Sjúkrahúsið á Akureyri er þátttakandi í stóru samstarfsverkefni á vegum Norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins, sem heitir "Recruitment and Retention of Health Care Providers and Public Service Sector Workers in Remote Rural Areas". Slík verkefni bjóða upp á möguleika á því að finna nýjar leiðir til að fást við sameiginleg viðfangsefni og uppgötva ný tækifæri.

Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar og bráða-, fræðslu- og gæðasviðs Sjúkrahússins á Akureyri, segir að megininntak verkefnisins felist fyrst og fremst í því að finna lausnir á viðvarandi vandamálum sem tengist því að ráða og halda í heilbrigðisstarfsfólk á strjálbýlum svæðum í Norður-Evrópu. Samstarfsaðilar koma frá Noregi, Svíþjóð, Kanada, Írlandi, Grænlandi og Skotlandi, en Skotar leiða verkefnið. Auk Sjúkrahússins á Akureyri taka þátt í verkefninu fyrir Íslands hönd Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga."

Ennfremur segir í fréttinni: ,,Við munum m.a. leita svara við því af hverju heilbrigðisstarfsfólk er hikandi við þá tilhugsun að vinna í strjálbýli og hvað þarf til þess að það haldi áfram að vinna í strjálbýli. Einnig verður horft á hvaða þættir það eru sem veita heilbrigðisstarfsfólki ánægju af því að vinna í strjálbýli og þá með tilliti til fjölskyldu, skóla, afþreyingarmöguleika og fleira,"segir Hildigunnur."

Er um stefnubreytingu að ræða hjá Bændablaðinu eða er þetta undantekningin frá reglunni?


Athyglisvert samevrópskt eldfjallaverkefni - umsókn inni hjá ESB um styrk

FréttablaðiðÍ athyglisverðri frétt í Fréttablaðinu segir þann 4.maí: "Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands mun í samvinnu við Veðurstofu Íslands leiða samevrópskt verkefni 26 rannsóknastofnana og fyrirtækja sem góðar líkur eru á að verði fjármagnað með styrk frá Evrópusambandinu. Verkefnið nefnist Evrópsk ofurstöð í eldfjallafræði á Íslandi (FutureVolc).

Um er að ræða mjög stórt Evrópuverkefni með íslenskri verkefnastjórn ef af verður og nemur styrkupphæðin um sex milljónum evra eða tæpum milljarði íslenskra króna. Þriðjungur styrkupphæðarinnar nýtist íslenskum stofnunum og fyrirtækjum beint. Rannsóknirnar, hvar sem þær verða unnar, tengjast allar Íslandi, íslenskum eldstöðvum og tækjabúnaði sem hér er þegar.

Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ, segir styrkinn ekki í hendi en umsókninni hafi verið afar vel tekið enda fékk hún hæstu mögulegu einkunn í matsferlinu. Verkefnið nær til tíu Evrópulanda og er hugsað til þriggja og hálfs árs.

Meginmarkmið verkefnisins er að hanna samhæft vöktunarkerfi fyrir eldfjöll og samstarfsnet fyrir eldfjallarannsóknir. Þetta verður gert með því að samþætta niðurstöður frá mismunandi mæliaðferðum og tækjum; jarðskjálftamælum, mælingum á jarðskorpuhreyfingum og gasstreymi. "Þegar eldgos verða á að samþætta gögn til að meta betur magn gosefna sem kemur frá eldstöðinni og hvað gosmökkurinn er efnismikill," segir Freysteinn."


Evrópuvika dagana 7.-13.maí

EvrópustofaÍ tilkynningu á vef Evrópustofu stendur: "Í tilefni af Evrópudeginum 9. maí stendur Evrópustofa – upplýsingamiðstöð ESB á Íslandi – fyrir Evrópuviku dagana 7.–13. maí.

,,Markmið okkar er að gera Evrópu hátt undir höfði þessa viku og vekja athygli fólks á því hvað Evrópusamstarfið er og fyrir hvað það stendur,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastýra Evrópustofu, en árlega halda íbúar Evrópuríkjanna 27 sem mynda Evrópusambandið upp á Evrópudaginn.

Evrópustofa opnar á Akureyri
,,Fyrst skal telja opnun Evrópustofu í Norrænu upplýsingaskrifstofunni á Akureyri, mánudaginn 7. maí, og plakatasýningu á Glerártorgi sem útskýrir uppbyggingu og helstu stefnumál Evrópusambandsins,“ segir Birna.

,,Þá verður opinn borgarafundur í Iðnó með sendiherra ESB, Timo Summa, á þriðjudeginum auk annarra funda og kynninga í vikunni.”


Til hamingju með daginn!

1.maíEvrópusamtökin óska launafólki Íslands til hamingju með 1.maí - alþjóðlegan baráttudag verkafólks.

Hagsmunir launamanna felast meðal annars í stöðugum gjaldmiðli, sem heldur kaupmætti sínum, lágum vöxtum og lágri verðbólgu. Nú, ekki væri verra að losna við verðtrygginguna.

Þetta fæst með aðild að Evrópusambandinu og upptöku Evru sem lögeyris. 

T.a.m. er talið að helmings lækkun verðbólgu og vaxta muni spara Íslendingum tugi milljarða á ári, en við eigum Evrópumet í verðbólgu um þessar mundir.

(Mynd: Gaflari.is)


Lilja vill NISK

EvraUmræðan um gjaldmiðilsmálin er sjóðheit! En, eins og kannski er engar fréttir á Íslandi, þá sýnist sitt hverjum. Sigmundur Davíð er veikur fyrir Kanadadal, Bjarni Benediktsson vill engu breyta og halda í haftakrónuna, SUS (ungliðar Bjarna) líst ekki á krónuna og vilja einhliða upptöku á einhverjum öðrum gjaldmiðli og þar er allt meira og minna galopið.

Nýjasta útspilið er svo frá Lilju Mósesdóttur, sem vill búa til Nýkrónu til að bjarga málunum. Að sjálfsögðu mun sú króna verða kölluð NISK, ef af verður.

Gjaldmiðilsmálin skapa titring og menn tala um snjóhengju í því samhengi, um 1000 milljarða krónueign ýmissa aðila, sem bíða eftir að komast úr gjörgæslunni sem gjaldmiðilmál landins eru í - bíða eftir því að geta flúið!

Nú svo hefur Já-Ísland bent á Evruna, sem raunverulegan valkost, en Evran er annar stærsti gjaldmiðill heims og fjölmörg íslensk fyrirtæki gera nú þegar upp í Evrum. Með Evrum ganga viðskipti sinn vanagang úti í Evrópu og um allan heim. Öll viðskipta, greiðslu og bankakerfi starfa eðlilega í Evrópu.

Á meðan eru Íslendingar læstir inni í höftum!


Þórarinn G. Pétursson: Hefur miklar efasemdir um einhliða upptöku gjaldmiðils

EyjanÁ Eyjunni stendur: "Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, hefur miklar efasemdir um einhliða upptöku myntar. Ef Ísland ætlar sér að taka upp aðra mynt, þá er evran besti kosturinn að hans mati.

Þórarinn hélt erindi á opnum fundi VÍB í Hörpunni í dag, þar sem einhliða upptaka gjaldmiðils var rædd.

Þórarinn sagðist ekki telja að einhliða upptaka erlends gjaldmiðils væri rétt leið fyrir Ísland og vísaði hann í reynslu ríkja í Suður- og Mið-Ameríku. Nefndi hann sem dæmi Panama, sem hefur lengstu söguna um dollaravæðingu, en ekkert annað ríki í heiminum fyrir utan Pakistan hefur þurft að leita á náðir AGS vegna bankakrísa.

Enn fremur benti Þórarinn á að þau lönd sem hafa tekið upp dollara, hafi þegar verið mjög dollaravædd áður en upptakan fór fram. Aldrei áður hafi einhliða upptaka verið reynd í landi sem þegar var ekki orðið dollaravætt og áhættan fyrir Ísland, verði þessi leið fyrir valinu, er því meiri."


Andstæðingum aðildar fækkar í nýrri könnun

ESB-ISL2Félagsvísindastofnun birti í vikunni niðurstöður könnunar, sem segir að 53,8% þeirra sem svöruðu, séu á móti aðild að ESB og 27,5% vildu ganga í ESB. Óákveðnir eru tæp 19% og hefur einnig fjölgað miðað við kannanir Capacent.

Sé könnun Capacent frá því í febrúar um sömu spurningu (aðild) skoðuð kemur í ljós að andstæðingum aðildar hefur fækkað um 2,4% en þeim sem vilja aðild hefur heldur fjölgað.

Og miðað við aðra könnum Capacent (sama spurning) frá því í ágúst 2011, hefur þeim sem hafna aðild fækkað um heil 10,7%.

Þetta án þess að aðildarsamningur liggi fyrir. Þá mun málið endanlega skýrast og þá fær þjóðin að kjósa um samninginn.


Össur á Alþingi: Losun hafta mikilvægt verkefni

Össur SkarphéðinssonÁ RÚV segir: "Eitt mikilvægasta viðfangsefnið í samningaviðræðunum við Evrópusambandið er að semja við sambandið um afnám gjaldeyrishafta. Þetta sagði utanríkisráðherra á Alþingi í dag. Hann sagði að ólögmætum refsiaðgerðum Evrópusambandsins yrði harðlega mótmælt.

Össur flutti Alþingi skýrslu sína um utanríkismál í morgun. Hæst bar umfjöllun um stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið en ráðherrann sagði að í lok júní yrði samningsafstaða Íslands tilbúin í 29 samningaköflum af 33.

„Staðan er þannig, eins og við vitum, að yfir okkur hangir snjóhengja í formi ríflega 1000 milljarða strokgjarnra króna í eigu útlendinga. Eitt mikilvægasta viðfangsefni samninganna verður að ná samningi við Evrópu um afnám gjaldeyrishaftanna og bræða snjóhengjuna án þess að hún breytist í efnahagslegt hamfarahlaup sem flæðir yfir okkar efnahagskerfi,“ sagði Össur."

Menn sjá betur og betur eyðingarmátt haftanna og gjaldmiðilsvandans.


Mun ESB styðja við krónuna?

EyjanÁ Eyjunni segir í frétt: "Unnið er að stofnun vinnuhóps sérfræðinga íslenskra stjórnvalda og framkvæmdastjórnar ESB sem fara mun yfir lausnir á vanda Íslands í peningamálum og hvernig hægt er að koma til móts við þær í aðildarviðræðum um ESB.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, lagði í gær fram á Alþingi skýrslu um utanríkismál þar sem farið er yfir helstu viðburði á sviði utanríkismála á síðasta ári.

Þar er ítarlega fjallað um aðildarumsókn Íslands að ESB og ítrekar Össur í inngangi skýrslunnar að ekki sé hyggilegt að flýta viðræðunum eða stilla lok viðræðnanna á tiltekna dagsetningu. Slíkt kunni að skaða samningsstöðu Íslands."


SUS: Ólíklegt að krónan gagnist sem gjaldmiðill - mikilvægt að finna landinu nothæfan lögeyri

EvraÍ sama Viðskiptablaði, nánast á sama stað og fréttin hér á undan, var svo önnur frétt, nú um SUS og hugmyndir þeirra um gjaldmiðilsmál. SUS er nefnilega komið á þá skoðun að ..."Ólíklegt er að krónan muni gagnast Íslandi sem gjaldmiðill til framtíðar."

Þar með eru ungliðarnir komnir á öndverða skoðun við leiðtoga sinn, Bjarna Benediktsson. Í grein sem formaður SUS ritaði í Fréttablaðið fyrir skömmu segir einnig:

"Krónan gagnast ekki þeim sem spara því hún heldur mjög illa verðgildi sínu, jafnvel þótt hún sé í hinum hlýja en kæfandi faðmi gjaldeyrishafta. Hún gagnast heldur ekki þeim sem skulda vegna hás vaxtastigs og verðtryggingar. Ekki þarf heldur að fjölyrða um það gríðarlega tjón sem gjaldeyrishöftin hafa valdið atvinnulífinu. Það er eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna að finna landinu nothæfan lögeyri sem fyrst."

Um þetta getum við verið sammála, en okkur greinir á um lausnir. SUS vilja nefnilega gefa frá Íslandi allt fullveldi með því að taka upp Kanadadollar. Við viljum hinsvegar taka þátt, á fullveldisgrunni, í Evru-samstarfinu, þar sem sameiginleg stefna Evruríkjanna er mótuð með lýðræðislegum hætti.

Gangi ekki upptaka Kanadadollars í samstarfi við Kanada, vilja "SUS-arar" taka einhliða upp Kanadadollar, Bandaríkjadollar eða Evru.

Ps. Íslenska krónan hefur tapað 99,5% af verðgildi sínu gagnvart dönsku krónunni, frá árinu 1921!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband