Leita í fréttum mbl.is

ESB skiptir lykilmáli í rannsóknum hér á landi!

Í frétt sem birtist á MBL.is þann 21.5 stendur um nýja skýrslu Menntamálaráðuneytis: 

"Þátttaka Íslands í 6. og 7. rammaáætlun Evrópusambandsins um rannsóknir og þróun árin 2003 til 2011, hefur valdið kaflaskiptum í rannsóknum og þróun á Íslandi. Þetta er niðurstaða hóps sem menntamálaráðuneytið fékk í fyrra til að geta úttekt á þátttökunni.

Fram kemur í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu, að það sé einróma álit einstaklinga innan háskólasamfélagsins, stjórnsýslunnar og atvinnulífsins, að þátttakan hafi leitt til stóraukins alþjóðlegs samstarfs, opnað íslenskum vísindamönnum aðgang að þekkingu og aðstöðu, sem ekki hafi verið fyrir hendi hér á landi, og skilað sér í auknum gæðum rannsókna, nýsköpun hjá fyrirtækjum og bættri samkeppnishæfni.

„Áhrifanna gætir einna mest á þeim sviðum þar sem Ísland er sterkt og hefur mikil áhrif á þann árangur, sem íslenskt vísindafólk hefur náð á alþjóðlegum vettvangi, sem má m.a. sjá í fjölda birtinga í samstarfi við alþjóðlega vísindahópa. Fyrirtækin sem taka þátt hafa ávinning af rannsóknasamstarfi við mótun framtíðarþróunar og bæta samkeppnisstöðu sína,“ segir í tilkynningunni. 

Þá kemur fram að umfang rannsókna á Íslandi sé umtalsvert meira vegna þátttöku í rannsóknaáætlununum. Á tímabilinu frá 2003 til fyrsta ársfjórðungs 2012 sé búið að semja um styrki að fjárhæð sem er tæplega 3,5 milljörðum kr.  hærri en greitt hafi verið fyrir þátttöku í áætluninni á sama tíma."

Og "vond" er hún AÐLÖGUNIN Smile


Milljónir í sparnað - með Evru-vöxtum: Reiknaðu dæmið!

EvraStöð tvö birti einkar áhugaverða frétt þann 21.5, sem byrjar svona:"Íslendingur sem tók húsnæðislán árið 2005 - væri fimmtán milljónum ríkari í dag ef honum hefðu boðist meðalvextir á slíkum lánum í Evruríkjunum. Þetta sýnir ný reiknivél Evrópusinna á www.jaisland.is. Ekki eru þó allir á einu máli um hvort reiknivélin gefur rétta mynd.

Evrópusinnar hafa haldið því fram að umtalsvert hagstæðara yrði fyrir Íslendinga að taka húsnæðislán ef þjóðin gengur í Evrópusambandið og tekur upp evru. Þeir halda því fram að þegar Íslendingur kaupir hús, borgi hann í raun til baka 2,5 hús. Sá sem búi í evruríki greiði hins vegar 1,5 hús til baka. Þá muni verðtryggingin gufa upp - enda hafi fáir í Evrópusambandinu heyrt um það fyrirbæri. Andstæðingar inngöngu telja málið ekki svo einfalt.

Regnhlífasamtökin sem halda úti heimasíðunni www.jaisland.is hafa sett í loftið reiknivél þar sem fólk getur slegið inn sitt eigið íslenska krónulán og fengið uppgefið hver staðan á því væri hefði viðkomandi tekið lánið á meðalvöxtum í evruríkjum.

Fréttastofa skoðaði 20,5 milljóna króna lán sem tekið var í mars 2005 á 4,15% vöxtum. Samkvæmt reiknivélinni voru meðalvextir í evruríkjunum þá 3,81%.

Munurinn er sláandi ef marka má þær forsendur sem samtökin gefa sér í reiknivélinni. Af íslenska láninu er búið að greiða um 10 milljónir króna - en í dag stendur skuldin í 31 milljón. Hefði lánið verið með meðal evruvöxtum, væri búið að greiða heldur minna í afborganir, eða 8,9 milljónir - og skuldin hefði lækkað niður í 16,8 milljónir.

Samanlagður munur á afborgunum og eftirstöðvum er því hvorki meira né minna en 15,3 milljónir króna. Miðað við þessar forsendur hefði því verið helmingi hagstæðara fyrir Íslendinginn að fá lán í evruríki."

Reikningana er hægt að framkvæma hér lan.jaisland.is

 


Sveitin komin út - landbúnaður/byggðamál mál málanna

SveitinSamtökin Já Ísland, sem berjast fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu, hafa gefið út nýtt blað, SVEITIN, en í því er fjallað um landbúnað og byggðamál. Í tilkynningu segir:

"Nýtt blað hefur litið dagsins ljós, blaðið ber nafnið Sveitin og fjallar um landbúnað og byggðarmál í tengslum við mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Blaðinu er dreift á öll lögbýli á landinu en má lesa í heild sinni á pdf skjali með því að smella hér. Greinar og viðtöl munu einnig birtast hér á vef Já Íslands á næstu dögum. Blaðinu er ritstýrt af Pétri Gunnarssyni, blaðamanni.

Í tengslum við umræðuna um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu skiptir máli að reynt sé að meta kosti og galla aðildar og að umræðan sé byggð á staðreyndum og mati þeirra sem gerst þekkja en ekki bábiljum og samsæriskenningum. Aðstandendum þessa blaðs hefur fundist að ekkert skorti á að rætt sé um þau vandamál og þær ógnir sem bíða landbúnaðarins innan Evrópusambandsins, bæði raunverulegar en ekki síður ímyndaðar."

Í frétt á Eyjunni sem snýr að efni blaðsins segir:

"Þau opnunarviðmið sem Evrópusambandið hefur látið Íslendingum í té vegna landbúnaðarmála kveða á um að taka eigi sérstakt tillit til aðstæðna í íslenskum landbúnaði í aðildarviðræðum Íslendinga við ESB, segir Stefán Haukur Jóhannesson, formaður samninganefndar Íslands.

Rætt er við Stefán Hauk í Sveitinni sem er rit um landbúnað og ESB og er gefið út af Já Ísland.

Stefán Haukur segir að í fyrri viðræðum hafi ESB sýnt að sambandið sé tilbúið til að útvíkka sínar reglur og semja um sérlausnir.

Finnar og Svíar eru gott dæmi en þetta á við um aðra, til dæmis Breta og Íra. Þegar Bretar og Írar gengu inn voru reglur sambandsins útvíkkaðar til þess að taka tillit til sérstakra aðstæðna. Sérstök svæði voru skilgreind sem harðbýl svæði og sérstakar reglur búnar til aum þau. Sama á við um Svía og ekki síst Finna."

Hér er SVEITIN 


Gjaldeyrisvandræði rædd á RÚV - Friðrik Már í Speglinum

RÚVGjaldeyrisvandræði Íslendinga voru rædd í Speglinum þann 16.5 og þar var rætt við Friðrik Má Baldursson, hagfræðiprófessor. Hlustið hér, en klippið byrjar í raun á 7.30 c.a.

Í viðtalinu kemur t.d. fram að allur gjaldeyrisforði Íslands er tekinn að láni.


Árni Páll: Aðild að ESB eina raunhæfa leiðin til að afnema höftin

Árni Páll ÁrnasonÍ annarri frétt á RÚV segir þetta: "Fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra kallar eftir þverpólitískri sátt um afnám gjaldeyrishafta og segir að til greina komi að kjósa um áframhaldandi aðildarviðræður við Evrópusambandið. Innganga í sambandið sé eina raunhæfa leiðin til að afnema höftin."

 


Verbólga/krónan ýta vöxtum upp!

VerðbólgudraugurinnSeðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti í dag um 0.50%. Í frétt á RÚV segir:

"Verðbólga hefur hins vegar verið meiri en spáð var í febrúar og verðbólguhorfur hafa versnað, að nokkru leyti vegna þess að gengi krónunnar hefur verið veikara. Að öðru óbreyttu eru horfur á að verðbólga verði lengur fyrir ofan verðbólgumarkmið en spáð var í febrúar, einkum haldist gengi krónunnar áfram lágt."

Í frétt á MBL.is segir: "Þetta sýnir hvaða ógöngum við erum með gjaldmiðilinn. Veiking krónunnar hefur verið að kynda undir verðbólgunni og Seðlabankinn bregst við með þeim hætti sem búist var við,“ segir Ólafur Darri Andrason hagfræðingur ASÍ um ákvörðun Seðlabankans að hækka stýrivexti um 0,5 prósentustig.

Ólafur Darri segir ákvörðun Seðlabankans að hækka vexti ekki óvænta. Þetta tengist því verðbólga hafi reynst meiri en búist var við og krónan veikari en menn voru að gera sér vonir um.

Í nýrri hagspá ASÍ, sem kynnt var í gær, er spáð að verðbólga á þessu ári verði 5,1% og 3,9% á næsta ári. Ólafur Darri segir margt benda til að það versta sé að baki, en lækkun verðbólgunnar gerist hægar en menn hafi vonast eftir."

Verbólgudraugurinn lifir góðu lífi á Íslandi, hann og haftakrónan eru að kosta íslensk heimili og atvinnulíf svakalegar summur!


Valborg Ösp um húsnæðismál og fleira í FRBL

Valborg ÖspValborg Ösp Á. Warén, stjórnmálafræðingur skrifar áhugaverða grein í Fréttablaðið, sem lýsir aðstæðum ungs fólks hér á landi (í samanburði við Evrópu) og þar eru húsnæðismál helsta umfjöllunarefnið: Valborg skrifar:

"Stundum velti ég því fyrir mér af hverju ég búi á Íslandi. Einhvern veginn tekst aldrei að gera búsetuskilyrði hér á landi sambærileg við önnur ríki í kringum okkur. Ég á til dæmis vinkonu sem býr í Evrópusambandsríki, en hún keypti sér íbúð þar fyrir nokkrum árum. Ekkert rosalega stóra en „kósí fyrsta íbúð" eins og hún orðaði það sjálf. Ég á líka íbúð sem var keypt fyrir tæpum sex árum og hún er líka svona „kósí fyrsta íbúð". Aðstæður okkar vinkvennanna eru hins vegar ekki svipaðar þegar kemur að eignarhlut í fasteignum okkar eða hvernig þróunin hefur verið á lánagreiðslum.

Þó að það sé styttra síðan vinkonan fjárfesti í sinni íbúð þá hafa mánaðargreiðslur hennar lækkað og eignarhlutur hennar hækkað, ekki mikið, en hún eignast allavega hlut í íbúðinni sinni. Staðan er hins vegar önnur hjá mér. Lánið hefur gert lítið annað en að hækka, en það hefur hækkað um tæpar sjö milljónir á sex árum og eignarhlutur minn er stjarnfræðilega lítill, ef hann er nokkur. Svo ofan á allt þetta, þá borgar vinkonan minna í mat og getur keypt sér meira af fötum heldur en ég!

En ein af aðalástæðunum fyrir því að húsnæðislán mitt hefur hækkað það mikið að lánið er núna hærra en verðmæti eignarinnar, er hægt að rekja til blessaðrar verðtryggingarinnar. Ég veit ekki með ykkur, en persónulega er ég alveg til í að kveðja verðtrygginguna fyrir fullt og allt og það mun gerast með upptöku evrunnar. Verðtrygging lána er nánast óþekkt fyrirbæri í Evrópu enda talin óþörf. Öðrum þjóðum hefur tekist það sem Íslendingar hafa þráð frá því að seðlar byrjuðu að skipta máli, en það er að búa til sanngjarnt lánakerfi sem býr ekki við sveiflur og hækkanir lána."


Glæsilegir tónleikar í lok Evrópuviku - lúaleg vinnubrögð Nei-sinna

EvrópustofaVel heppnaðri Evrópuviku lauk með glæsilegum tónleikum í Hörpunni sunnudagskvöldið 13.maí og á vef Evrópustofu er sagt frá þessu:

"Húsfyllir var á tónleikum European Jazz Orcherstra og Stórsveitar Reykjavíkur í Eldborg í gærkvöldi í boði Evrópustofu og góður rómur gerður að flutningi beggja hljómsveitanna. Fyrr um daginn stóð Evrópustofa fyrir Evrópuhátíð í Hörpu þar sem boðið var upp á kynningar tengdar ESB og Evrópusamstarfi, skemmtiatriði og Evrópuköku.

Tónleikarnir í Eldborg og hátíðin í Hörpu mörkuðu hápunkt Evrópuviku sem Evrópustofa hefur staðið fyrir í tilefni af Evrópudeginum 9. maí sl. með það að markmiði að vekja athygli fólks á Evrópusamstarfi og merkingu þess fyrir ríki álfunnar.

„Þetta hefur svo sannarlega verið áhugaverð og spennandi vika með opnun skrifstofu á Akureyri, kynningum á ESB á Glerártorgi, í Kringlunni og í Hörpu, fundum og síðast en ekki síst þessum stórkostlegu tónleikum í Eldborg,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastýra Evrópustofu - upplýsingamiðstöðvar ESB á Íslandi."

Þegar ritari kom í bílageymslu blasti svo við á bílrúðunni óhróður um Evrópustofu frá samtökum sem berjast gegn aðild Íslands að ESB og berjast fyrir því að Íslendingar fái að greiða atkvæði um aðild að ESB og aðildarsamning. Lúaleg og skammarleg vinnubrögð!


4 af 5 Grikkjum vilja halda Evrunni

Frá GrikklandiViðskiptablaðið segir frá: "Fjórir af hverjum fimm Grikkjum vill halda í evruna sem þjóðargjaldmiðil og meirihluti landsmanna vill halda áfram að njóta fjárhagsaðstoðar frá Evrópusambandinu (ESB) og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS). Þetta eru niðurstöður könnunar sem gríska viðskiptablaðið Naftemporiki gerði á dögunum.

Bent hefur verið á að varasamt geti verið fyrir Grikki að kasta evrunni og taka drökmuna upp á ný. Þótt Grikkir muni hafa meiri stjórn yfir efnahagsmálum sínum með drökmuna að vopni er óttast að grískt efnahagslíf geti hrunið við gjaldmiðlaskiptin."

Börsen segir einnig frá málinu og tekur saman mögulegar afleiðingar þess að Grikkir tækju aftur upp Drökmuna.

Börsen bendir m.a. á að allar skuldir Grikkja myndu hækka stórkostlega og að þjóðarframleiðsla myndi sennilega lækka um 40-50%. Þá er talið víst að aðgengi Grikklands að lánamörkuðum myndi skerðast verulega, jafnvel alveg.


Stórtónleikar í Hörpu í tengslum við Evrópuviku

saxMinnum á stórtónleika og dagskrá í Hörpunni um helgina, vegna Evrópuvikunnar, sem nú stendur yfir. Á stórtónleikum á sunnudagskvöld koma fram European Jazz Orchestra og Stórsveit Reykjavíkur, í Eldborg. Ókeypis er á tónleikana og allir velkomnir svo lengi sem húsrúm leyfir. Tónleikarnir hefjast kl. 20.00

Einnig er fjölbreytt dagskrá, uppistand og fleira í Hörpunni frá kl. 13-17 á sunnudag.


ESB og stjórnendur: Könnun Viðskiptablaðsins

Í könnun sem MMR gerði fyrir Viðskiptablaðið segir:

"Meirihluti stjórnenda í íslenskum fyrirtækjum er mótfallin aðild að Evrópusambandinu (ESB), samkvæmt niðurstöðum nýrrar stjórnendakönnunar MMR sem unnin er í samstarfi við Viðskiptablaðið.

Niðurstöður könnunarinnar eru þær að 63,9% stjórnenda í atvinnulífinu eru mótfallnir aðild að ESB en 36,1% hlynntir af þeim sem tóku afstöðu til málsins.  

Stjórnendur fyrirtækja á landsbyggðinni eru líklegri til að vera mótfallnir aðild að ESB en þeir á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru 65,1% karla andvígir aðildinni en 57,4% kvenna. Fram kemur í könnuninni að tæp 80% stjórnenda útgerðarfyrirtækja eru andsnúnir aðild að ESB og er andstaðan þar mest."

Vilja þeir s.s. áfram búa við háa vexti (tvöfalt hærri en í Evrópu), mjög háa verbólgu (eigum Evrópumetið!), óstöðugan og síflöktandi gjaldmiðil (sem hvergi er gjaldgengur í alþjóðlegum viðskiptum, plús að vera í höftum), sem og almennar sveiflur í efnahagslífinu?

Ps. Mörg af stærstu fyrirtækjum landsins gera upp ársreikninga sína í öðrum gjaldmiðli en ISK, flest í Evrum og Dollurum.

Frétt VB: http://www.vb.is/frettir/72074/

 


Spá umtalsverðri veikingu krónunnar

EyjanEyjan skrifar:"Gengi íslensku krónunnar mun lækka um 5 prósent á ári út árið 2014, samkvæmt nýrri hagspá greiningardeildar Arionbanka. Veikingin stafar fyrst og fremst af því að afborganir af erlendum lánum „éta upp“ viðskiptajöfnuð.

Davíð Stefánsson, sérfræðingur í greiningardeild Arionbanka, hélt erindi um gengisþróun krónunnar á morgunfundi bankans þar sem meginniðurstöður hagspánnar voru kynntar.

Í erindinu kom fram að viðskiptaafgangur hefur verið langtum minni en áður var gert ráð fyrir. Til að mynda munaði 500 milljörðum króna á spá Seðlabankans árið 2011 og í uppfærðri spá frá því fyrr í ár.
Það sem skiptir mestu máli varðandi þróun gengisins er að erlendar skuldir þjóðarbúsins eru mun hærri en erlendar eignir. Þar af leiðandi erum við að borga mun hærri vexti af þessum skuldum heldur en við erum að fá til baka og munar þar mestu um kostnað við gjaldeyrisvaraforðann sem í ár er 30 milljarðar. Sagði Davíð að þessi kostnaður væri að „éta upp“ viðskiptaafganginn."

Krónan er til vandræða.


Evrópudagurinn er í dag!

Evrópa-myndEvrópusamtökin óska vinum Evrópu, sem og öðrum, til hamingju með Evrópudaginn (Schumann-daginn), sem er í dag, 9. maí.

Hann er haldinn til þess að minnast Schuman-yfirlýsingarinnar, en hér er fróðlegt svar sem tengist þessu á Evrópuvefnum.


Vel heppnaður borgarafundur með Timo Summa í Iðnó

Timo Summa, sendiherra ESB á Íslandi, var aðalgestur borgarafundar sem Evrópustofa stóð fyrir í Iðnó í dag, þar sem boðið var upp á kaffi og íslenskar kleinur.  Fjöldi fyrirspurna komu fram um hinar ýmsu hliðar á ESB-málinu, á umsókn Íslands og aðildarviðræðunum.

Það kom fram í máli Timo að hann telur að vinnan við aðildarviðræðurnar gangi vel og um sé að ræða mikil gæði á þeirri vinnu sem unnin hefur verið.

Þá lagði Timo mikla áherslu að málið væri í höndum Íslendinga, þeir réðu hraðanum á því og svo framvegis.

Fundurinn var mjög málefnalegur og Evrópustofu til fyrirmyndar.

Á fimmtudag verður annar borgarafundur, en þá verða utanríkis og öryggismál rædd. Á þeim fundi verður Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands gagnvart ESB


Er ekki tími til kominn að fatta?

Margrét TryggvadóttirPistill Margrétar Tryggvadóttur um Alþingi og vinnubrögðin þar hefur farið eins og eldur í sinu um netið og ræddi hún innihald hans og fleira í Silfri Egils þann 6.maí síðastliðinn. 

Í pistlinum kemur Margrét inn á ESB-málið með "skemmtilegum hætti, þ.e. hvernig sumir viti bornir menn leyfa sér að bulla rakalausan þvætting og ósannindi um það mál. Margrét segir:

"Í gærkvöldi sótti ég góðan fund um kosningakerfið og stjórnarskrána á vegum stjórnarskrárfélagsins og að honum loknum fór ég heim og kveikti á alþingisrásinni til að fylgjast með umræðum. Þær voru í það heila yfirmáta heimskulegar. Því var t.d. haldið fram að „flýtirinn“ við að stofna umhverfis- og auðlindaráðuneyti væri vegna þess að ræðumaður hefði heyrt því fleygt að ESB ætlaði sér að verða olíuríki og til þess þyrfti það að komast yfir auðlindir Íslands. Þarna yfirsást ræðumanni algjörlega að á bls. 17 í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um stofnun ráðuneytisins þannig að umræddur „flýtir“ ætti frekar að kallast droll. Þá er stjórnarsáttmálinn skrifaður áður en sótt var um aðild að ESB þótt vissulega stæði það til og áður en nokkur olía fannst á Íslandsmiðum. Þá er þeirri spurningu auðvitað algjörlega ósvarað hvort það borgi sig að reyna að pumpa þessu upp af hafsbotni en sennilega pössuðu þessar staðreyndir ekki inn í samsæriskenninguna. Það sem mér fannst sorglegast var að sjá var hvernig þingmenn, sem ég VEIT að eru alls ekki svo vitlausir að þeir trúi þessu bulli fóru í andsvör, ekki til þess að mótmæla ruglinu heldur viðhalda klikkaðri umræðu og halda þinginu í gíslingu. Þannig taka þeir í raun undir vitleysuna af því að þeir eru „í liði“ með samsæriskenningasmiðnum, þótt það sé ekki ætlun þeirra." 

Það er í raun rannsóknarefni hvernig andstæðingar ESB-halda áfram að hamra á þessu bulli um að ESB ætli sér að taka yfir hér allar auðlindir, já og kannski bara norðurljósin líka! Ofsóknaræðið er nánast ótakmarkað!

Því þegar á þá gengið, þá geta þeir ekki bent á eitt einasta dæmi sér til stuðnings!

Engir nema Íslendingar geta afsalað sér náttúruauðlindum landsins. Það stendur hinsvegar ekki til í sambandi við ESB-málið.

Hvenær ætla Nei-sinnar að fatta þetta?

(Mynd: Skjáskot af RÚV og leturbreyting er ES-bloggins)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband