Leita í fréttum mbl.is

Steingrímur J. Sigfússon um ESB - krónuna í DV-viðtali

Steingrímur J. SigfússonSteingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra Íslands er í ítarlegu viðtali í DV í dag. Margt ber þar á góma og m.a. ræðir hann ESB-málið.

Jóhann Hauksson
, blaðamaður, spyr Steingrím: "Þú nefndir steinvölur sem bagalegt væri að hrasa um á vegferð ykkar inn í nýjan pólitískan veruleika. Er ekki ESB-málið augljóslega ein af þessum steinvölum sem viðbúið er að þið hrasið um í stjórnarsamstarfinu? Ýmsir, meðal annars Eva Joly, hafa bent á að græningjar víða um Evrópu telji málstað sínum best borgið innan Evrópusambandsins. Annað er uppi á teningnum hjá VG.

Svar Steingríms:„Grænir flokkar og flokkar til vinstri eru skrautleg flóra í Evrópu. Ég þekki þá marga og þeir eru afar mismunandi og hafa mismunandi afstöðu til Evrópusamvinnunnar. Sumir grænir flokkar eru mjög fylgjandi henni, aðrir gagnrýnir eins og gengur.

En við tökum afstöðu á okkar forsendum og út frá okkar stöðu. Ég myndi ekki kalla ESB-málið steinvölu. Það er nú frekar stór steinn. Það er eitt af erfiðu málunum sem við höfum þurft að glíma við. Ég átti nú frekar við það ef einhver minni háttar ágreiningsmál yrðu okkur til vandræða eins og lokaafgreiðsla fjárlaganna sem ég tel að hafi verið óheppileg.

Búið var að leggja mikla vinnu í að skapa grundvöll samstöðu um afgreiðslu þeirra. Mér fannst það vera orðið ágreiningsmál af minna tagi, það er að segja um það hvort nægjanlega langt hafi verið gengið. En önnur mál eru vitanlega miklu stærri, eins og hvernig ESB-málið spilast og hvernig okkur vegnar í sambandi við atvinnu- og efnahagsmálin.

Eitt af því sem mér finnst vera spennandi og er að teiknast upp nú um þessi áramót þegar ýmis mál eru leyst og að baki er að við eigum nú að geta gefið okkur tíma til að móta framtíðarstefnu á ýmsum sviðum. Hér þarf að leggja grunn að atvinnumálum og fara yfir það hvernig við getum stuðlað að raunverulega sjálfbærum hagvexti í stað þenslu- og bóluhagvaxtar sem tekinn er að láni.

Hvernig við ætlum að umbreyta okkar orkubúskap yfir í umhverfisvæna orkugjafa. Hvernig við ætlum að haga okkar peninga- og gjaldeyrismálum. Og það tengist að sjálfsögðu Evrópumálunum. En þar sýnist mér að öll nauðhyggja sé stórhættuleg.“

Um krónuna segir Steingrímur:  „Við hljótum að gera ráð fyrir þeim möguleikum að við verðum hér áfram með sjálfstætt myntkerfi með eigin gjaldmiðil. Annað væri ábyrgðarlaust. Mér blöskrar tal þeirra manna sem telja að unnt sé að stilla dæminu þannig upp að það sé útilokað. Hvað ætla þeir menn að segja ef þjóðin hafnar ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu? Þar með væri úti um þann möguleika að taka upp evru, að minnsta kosti eftir þeirri leið. Ætla þeir þá að segja að okkar bíði þar með engin framtíð?

Við þurfum að kortleggja vandlega alla þessa valkosti og hafa stefnu sem getur gert ráð fyrir fleiri en einum möguleika í þessu efni. Það er enginn vandi því samfara að minni hyggju. Það kallar að vísu á vandaða og agaða hagstjórn og ábyrga framgöngu í efnahags- og ríkisfjármálum sem við eigum hvort eð er að temja okkur. Ég vil einnig nefna stefnu varðandi menntun og rannsóknir. Við þurfum að breyta ýmsu þar. Okkur skortir fagfólk á ýmsum sviðum í atvinnulífi framtíðarinnar. Við þurfum að endurskoða margt sem snýr að innviðum samfélagsins. Við gætum til dæmis hugað að því hvernig unnt sé að virkja landið allt í heils árs ferðamennsku. Það kallar á áherslubreytingar. Það væri mjög gott að geta snúið sér að svona hlutum þegar björgunarstarfið er að baki.“

Jóphann Hauksson spyr: "Þannig að afstaða þín til krónunnar hefur ekkert breyst?"

Steingrímur J: „Nei. Satt best að segja hef ég verið iðinn við að benda á að krónan hefur nú gagnast okkur vel á ýmsa lund. Augljóst er að veikara gengi krónunnar skapar útflutningsgreinunum betri samkeppnisskilyrði. Það er vissulega fórn á hina hliðina gagnvart innfluttri vöru, skuldunum og svo framvegis. En það er vonlaust að neita því að þetta skapar okkur skilyrði fyrir myndarlegum afgangi í viðskiptum við útlönd sem hjálpar okkur að greiða niður skuldir. Erfiðleikarnir á evrusvæðinu leiða í ljós að það fylgja því einnig vandamál að reyra mismunandi svæði og lönd undir eina mynt nema menn séu með umfangsmikið millifærslukerfi til þess að mæta vandanum hjá þeim sem eiga undir högg að sækja hverju sinni.“

JH/DV: "Stöðugleiki hefur verið æðsta ósk allra hér á landi frá ómunatíð. Er ekki óstöðugleikinn eitthvað tengdur krónunni?" 

SJS: „Við höfum innleitt stöðugleika. Verðbólga er lág og vextir einnig. Það er tvímælalaust eitt af því mikilvægasta sem hefur gerst. Ég held að forsendur til að halda þessum stöðugleika séu góðar ef okkur verða ekki á mistök. Ég held jafnframt að þetta sé spurning um árina og ræðarann. Er það ekki óábyrg efnahagsstjórn og kæruleysi í skattamálum og stjórn ríkisfjármála sem hefur fyrst og fremst verið orsök óstöðugleika fremur en í sjálfu sér sú staðreynd að við séum með eigin gjaldmiðil."

Í lokaorðum sínum segist Steingrímur vera í góðu skapi og að 2011 leggist vel í sig.

 Sem er gott, fjármálaráðherra í fúlu skapi...er það góður fjármálaráðherra? (útlegging ES-bloggs, til að forðast allan misskilning!!)

Eyjan er einnig með frétt um viðtalið við Steingrím. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Er hann "í fúlu skapi" af því að hann setur ekki trú sína á evruna?!

En Jóhann Hauksson trúir bæði á ESB og evruna, að ekki sé nú talað um Icesave (gerði mjög lítið úr andstæðingum ólaganna frá 30. des. 2009 og þeim sem studdu forsetann til að hrinda af okkur okinu).

Vesalings Jóhann heldur áfram í þessu langa viðtali að klifa í sífellu á evrunni, nýjasta Kínalífselexír trúgjarnra, en þetta er hin merkilegasta trú, þegar ekki er einu sinni vitað, hvort evran verði lífs eða liðin eftir 2–3 ár!

Jón Valur Jensson, 29.12.2010 kl. 15:42

2 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Jón Valur, Evran verður til eftir tvö eða þrjú ár. Þessi fullyrðing hjá þér er nefnilega ekkert annað en fyndin. Sérstaklega í ljósi þess að árið 2008 töldu andstæðingar ESB á Íslandi að evran yrði ekki til eftir tvö til þrjú ár (það er 2009 - 2011). Eins og dæmin sanna þá höfðu andstæðignar ESB á Íslandi rangt fyrir sér og halda áfram að hafa rangt fyrir sér. Enda ekki í neinu sambandi við raunveruleikann.

Þetta gildir alveg eins um Steingrím J, þegar hann trúir og heldur því fram að stöðugleiki fáist með íslensku krónunni. Ekkert gæti verið fjær sannleikanum. Það mun ekki neinn stöðugleiki fást með íslensku krónunni. Hvorki á næstunni eða til lengri tíma litið.

Jón Frímann Jónsson, 29.12.2010 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband