Leita í fréttum mbl.is

Ólafur um ær, kýr og ESB í FRBL

Ólafur StephensenLeiðari Fréttablaðsins í dag snerist um landbúnaðarmálin og var skrifaður af Ólafi Þ. Stephensen, sem skrifar:

"Margt er athyglisvert og sumt óvænt í skýrslu Daða Más Kristjánssonar, dósents í hagfræði, og Ernu Bjarnadóttur, hagfræðings Bændasamtakanna, um hugsanleg áhrif aðildar að Evrópusambandinu á landbúnaðinn.

Athygli vekur til dæmis það mat skýrsluhöfunda að sauðfjárbændur virðist í fljótu bragði ekki hafa mikið að óttast þótt Ísland gangi í ESB og tollar á innfluttar búvörur falli niður. Verð á lambakjöti muni líklega ekki lækka, enda hafi sauðfjárbændur þá greiðan aðgang að mörkuðum í ESB fyrir kjöt sem ekki seljist á Íslandi. Þetta hefur komið fram áður í skýrslum sérfræðinga en Bændasamtökin hafa ekki haldið þessari hlið málsins mikið á lofti.

Hins vegar telja hagfræðingarnir að í ljósi þess að flestar aðrar búvörur séu mun ódýrari í ESB en á Íslandi muni verð á þeim þurfa að lækka, verði tollverndin afnumin. Mjólkurvörur geti til dæmis þurft að lækka um fjórðung að meðaltali og egg og svína- og kjúklingakjöt um hátt í helming til að innlend vara verði samkeppnishæf við innflutning.

Stundum gætir ákveðinna mótsagna í málflutningi talsmanna Bændasamtakanna um þennan verðmun. Þannig skrifaði Erna Bjarnadóttir grein í síðasta Bændablað um könnun sem var gerð á verði búvara á Norðurlöndunum eftir hrun krónunnar og leiddi í ljós að íslenzku vörurnar væru „samkeppnisfærar við vöruverð á hinum Norðurlöndunum“. Ef það ætti við um ESB almennt þyrfti enga tollvernd til að viðhalda samkeppnishæfni íslenzkra búvara. Tölurnar í skýrslunni sýna hins vegar skilmerkilega hver ávinningur neytenda af ESB-aðild væri."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband