Leita í fréttum mbl.is

Malta tekur upp evru, en ekki við

Nú þegar hágengisstefna ríkistjórnarinnar er að valda útflutningsgreinunum hér á landi miklum erfileikum, þá er umræðan um upptöku evru orðin mjög hávær aftur - nú síðast þegar LÍÚ kallar eftir breytti gengisstefnu (sjá neðar). Það er því áhugavert að horfa til Möltu sem er að taka upp evruna nú um næstu áramót þar sem Malta varð aðili að Evrópusambandinu árið 2004 og varð þar með minnsta aðildarlandið með aðeins 400þúsund íbúa. Eitt það athugaverðasta við aðild Möltu að ESB, er að landið fékk vissa undanþágu undan sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins vegna efnahagslegs mikilvægis sjávarútvegsins fyrir ákveðin svæði á Möltu, en þar er sjávarútvegur aðeins lítill hluti af þjóðarframleiðslunni og veitir rétt rúmlega þúsund manns atvinnu.

Það væri því áhugavert að sjá hverskonar undanþágu við Íslendingar gætum náð fram, þar sem stór hluti þjóðarframleiðslu okkar er sjávarútvegur og hér eru yfir 3000 sjómenn og enn fleiri sem vinna í tengdum störfum. Malta náði fram undanþágu á hafsvæðinu sínu þar sem er nær aðeins um sameiginlega fiskstofna að ræða, en hér við Ísland er 80% af fiskstofnunum staðbundnir og heyra því aðeins undir okkar fiskveiðilögsögu. Það er því ljóst að ef við myndum láta reyna á aðildarviðræður að Evrópusambandinu, þá er líklegra en ekki að það fengist hagstæð niðurstaða fyrir Ísland í ljósi þess hversu mikilvægur þáttur sjávarútvegur er í efnahagslífi landsins.

Evran hefur oft verið talinn stærsti kosturinn við inngöngu í Evrópusambandið fyrir Ísland, en sjávarútvegsstefna þess verið talinn helsti löstur. Það mun því verða undarlegt að horfa á Möltu taka upp evru, með sína undanþágu undan sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, þegar við Íslendingar höfum aldrei látið reyna á það hvort sjávarútvegsstefnan sé hindrun í raun eða ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Það hafa margir bent á að það þurfi ekki einusinni undanþágu undan sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. T.d. talar Ágúst Ólafur varaformaður Samfylkingarinnar um það hér;

http://agustolafur.blog.is/blog/agustolafur/entry/145879/

en hann og Össur voru einmitt með sér álit í Evrópuskýrslunni svokallaðri, sem má finna hér;

http://www.mbl.is/media/61/661.pdf

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 11.7.2007 kl. 11:49

2 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Þetta er náttúrulega bara fyndið. Í þessari færslu er lögð áherzla á það hversu mikilvægur sjávarútvegur er fyrir okkur Íslendinga og þjóðarbúið en þess utan gera Evrópusambandssinnar vart annað en reyna að gera sem allra minnst úr mikilvægi sjávarútvegarins þar sem hann er einn stærsti ókosturinn við aðild að Evrópusambandinu, enda alveg ljóst að yfirstjórn sjávarútvegsmála hér við land og yfirráð yfir efnahagslögsögunni færðust til Brussel gengjum við í sambandið.

Hjörtur J. Guðmundsson, 11.7.2007 kl. 21:40

3 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Þess utan mæli ég með lestri Evrópuskýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra, en þá á allri skýrslunni en ekki bara áliti Össurar og Ágústar eins og Jónas Tryggvi virðist leggja til.

Hjörtur J. Guðmundsson, 11.7.2007 kl. 21:41

4 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Það er aldrei vanþörf á því að minna á að sjávarútvegurinn skipti ennþá máli, þrátt fyrir að t.d. bankastarfsemi sé farin að skipta meira máli í dag. Það er einmitt vegna mikilvægis sjávarútvegsins á Íslandi sem það er svona líklegt að Ísland geti fengið undanþágur undan sjávarútvegsstefnunni ef okkur finnst það nauðsynlegt - og því ekkert ljóst um hvort Brussel ákveði heildarkvóta eða ekki fyrr en aðildarsamningar eru reyndir.

.

Ég er hinsvegar sammála Ágústi og Össuri um að það skiptir í raun ekki höfuð máli hvort Brussel setji þak á hversu miklum kvóta við megum úthluta hér á landi eða hvort það þak sé ákveðið af sjávarútvegsráðherra Íslands - báðir aðilar fylgja að mestu ráðleggingum Hafró.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 11.7.2007 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband