Leita í fréttum mbl.is

Stórmerkileg grein Þorgerðar Katrínar varaformanns Sjálfstæðisflokksins

Ágæta áhugafólk um Evrópumál, mitt í þessum miklu efnahagslegu sviptivindum sem við erum að upplifa þessa dagana birtist stórmerkileg grein eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra og varaformann Sjálfstæðisflokksins í Fréttablaðinu á sunnudaginn. Þar stappar hún stálinu í landsmenn og minnir á hina miklu áherslu sem stjórnvöld hafa lagt á fjárfestingu í menntun og rannsóknum. En svo fjallar hún um peningamálastefnu Seðlabankans og framtíðarhagsmuni Íslendinga í Evrópu. Ekki er hægt að túlka þessi orð varaformanns Sjálfstæðisflokksins öðruvísi en hún telji að Íslendingar verði að kúvenda í stefnu sinni í þessum málum.

Þorgerður Katrín segir meðal annars;

Ýmis mistök hafa verið gerð á undanförnum árum. En við höfum líka sýnt fyrirhyggju til framtíðar á mörgum sviðum: Það hefur til dæmis verið fjárfest mikið í menntun og rannsóknum á síðustu árum. Það verður að tryggja að sú fjárfesting skili sér af fullum krafti inn í okkar samfélag á þessari ögurstundu. Við erum háþróað ríki með hörkuduglegt fólk. Í því felst okkar von, okkar áskorun.

Við verðum einnig á næstu mánuðum að nýta okkur þau sóknarfæri sem er að finna á sviði orkufreks iðnaðar og sjávarútvegs og auka þar fjölbreytni og sköpunarkarft. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar og munu hjálpa við að fleyta okkur í gegnum þá erfiðu tíma sem framundan eru.

Við blasir, að sú peningamálastefna sem við höfum treyst á undanfarin ár hefur ekki skilað þeim árangri sem til var ætlast, svo vægt sé til orða tekið. Háir stýrivextir Seðlabankans við þær aðstæður sem nú eru uppi í íslensku samfélagi eru eins og öfugmælavísa. Við verðum að endurheimta þann stöðugleika sem hér ríkti og grípa til þeirra ráða sem nauðsynleg kunna að reynast í því sambandi. Íslenskt samfélag og íslenskt efnahagslíf þolir ekki aðra rússíbanareið af því tagi sem við höfum nú upplifað. Í náinni framtíð er ljóst að við verðum að halda áfram að reyna að laða að erlendar fjárfestingar inn í okkar samfélag á hinum mismunandi sviðum. Það blasir við að núgildandi peningamálastefna og traust á gjaldmiðili okkar hefur beðið hnekki en það er ekki til þess fallið að vera sá segull sem til þarf fyrir fjárfesta.

Nýjar forsendur

Það er einnig ljóst að umræða um tengsl okkar við Evrópusambandið verður ekki lengur háð á sömu forsendum og verið hefur til þessa. Sum þeirra áfalla sem við urðum fyrir má að minnsta kosti óbeint rekja til aðildar okkar að Evrópusamstarfinu og vísa ég þar meðal annars til þeirrar heimildar sem íslenskir bankar höfðu til að byggja upp innlánsreikninga í öðrum ríkjum en með íslenskri baktryggingu. Á hinn bóginn má einnig færa rök fyrir því að hjá mörgu hefði mátt komast, ef við hefðum átt aðild að ESB.

Hvert sú umræða sem nú fer í hönd um Evrópumál mun leiða okkur er engin leið að spá fyrir um. Við verðum að velta fyrir okkur hver staða okkar er og sjá hvernig ríkjum á evrusvæðinu reiðir af í þeirri fjármálakreppu sem hugsanlega hefur ekki enn náð hámarki sínu. Hitt er ljóst að við Sjálfstæðismenn höfum ávallt sagt að stefna okkar eigi að ráðast af köldu mati á því hvar og hvernig hagsmunum Íslands er best borgið til lengri tíma. Umhverfið er nú breytt, forsendur hafa breyst. Breyttar forsendur kalla á endurnýjað hagsmunamat.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Ég hef alltaf sagt það að Þorgerður Katrín er lang færasti stjórnmálamaðurinn í Sjálfstæðisflokki og enn og aftur sannar hún mál mitt opinberlega. Það er eins og hún sé eina manneskjan í sjálfstæðisflokknum sem þori að taka upp umræðuna. Aðrir í flokknum reyna bara að berja umræðuna niður, ægilega vondir út í Samfylkinguna ef þeir taka málið upp. Og opinberlega tyfta sjálfstæðisflokkurinn menn frá lífeyrissjóðum, verkalýðshreyfingunni, samtökum iðnaðarins eða samtökum atvinnulífsins ef þeir dirfast til að lýsa skoðun sinni. Það bara má einfaldlega ekki tala um ESB í þessu landi.

Jón Gunnar Bjarkan, 14.10.2008 kl. 17:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband