Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

,,Tími umsóknar kominn" segir Jón Sigurðsson

Ágæta áhugafólk um Evrópumál, Jón Sigurðsson, fyrrverandi Seðlabankastjóri og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, skrifar merkilega grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann hvetur til þess að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Jón segir meðal annars;

,,Úrslit í Evrópumálum verða aðeins ráðin við samningaborð og í þjóðaratkvæðagreiðslu. Íslendingar eiga ekki að bíða lengur með framtíðarákvarðanir um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Tími umsóknar er kominn."

Þetta hljóta að teljast stórtíðindi því Jón hefur hingað til viljað stíga varlega til jarðar í þessum efnum og ekki talið rétt að ganga til viðræðna við ESB að svo komnu máli. En hann hefur greinilega skipt um skoðun í ljósi mikilla sviptinga í íslensku efnahagslífi undanfarin misseri.

Í ljósi þessara ummæla og yfirlýsinga Valgerðar Sverrisdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins, að undanförnu má búast við fjörugum umræðum á fundum Framsóknarmanna á næstunni!


Breytt ESB án Íslands?

Morgunverðarfundur á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Samtaka iðnaðarins - Fimmtudaginn 17. apríl milli 8:30 og 9:30 í Odda 101

Fimmtudaginn 17. apríl heldur Diana Wallis, þingmaður og varaforseti Evrópuþingsins, opinn fyrirlestur um tengsl Íslands og Evrópusambandsins á morgunfyrirlestri. Þar mun hún ræða hvaða áhrif það hefur á Ísland að standa utan ESB í ljósi nýgerðs sáttmála sambandsins og stefnu þess á sviði Norðurskautsmála. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Samtök iðnaðarins standa að fyrirlestrinum.

Diana Wallis hefur setið á Evrópuþinginu frá því árið 1999 og verið varaforseti þingsins frá því í desember 2006. Hún hefur lengi haft mikinn áhuga á málefnum Norðurlandanna og var kosin forseti fastanefndar Evrópuþingsins gagnvart Íslandi, Noregi og Sviss í september 2004. Þá var hún einnig kosin forseti sameiginlegu EES þingnefndarinnar í september 2004 og þeirri stöðu gegndi hún í þrjú ár. Wallis hefur verið fulltrúi Evrópuþingsins á fundum Norðurlandaráðsins, þingmannaráðs landa við Eystrasalt (the Baltic Sea Parliamentarians Conference) og fastanefnd þingmanna í Norðurskautslöndum.

Wallis skrifaði bókina ,,Forgotten Enlargement: Future EU Relations with Iceland, Switzerland and Norway” ásamt Stewart Arnold and Ben Idris Jones. Bókin seldist mjög vel og var endurútgefin í október 2004.

Fyrirlesturinn fer fram á ensku og er opinn öllum. Aðgangur ókeypis. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti áður en fundurinn hefst.

Sjá einnig á http://www.hi.is/ams og nánar um Diana Wallis á http://www.dianawallismep.org.uk/.


"Aðild að ESB hefur verið til umræðu í 18 ár"

Sigurður Hólm Gunnarsson er með áhugaverða færslu á vefritinu skoðun.is, þar sem hann fer yfir þróun umræðunnar um evrópusambandsaðild hér á landi. Þar segir meðal annars;

Síðan eru liðin 18 ár og ekkert hefur gerst. Stjórnmálamenn hvetja til „umræðu“ um málið sem verður að teljast svolítið hlægilegt í ljósi þess að umræðan hefur ekkert breyst á þessum tíma. Niðurstaðan af frekari umræðu um ESB hlýtur alltaf að verða sú sama. Stjórnvöld verða að skilgreina samningsmarkmið, sækja um aðild og sjá hvaða samningum Íslendingar ná. Fyrr verður ekki hægt að taka ákvörðun um inngöngu.

Matvælaverð gæti lækkað um 25% með aðild að ESB

Neytendasamtökin birta á heimasíðu sinni skýrslu sem Evrópufræðasetrið á Háskólanum á Bifröst hefur unnið fyrir samtökin.

Í skýrsluni kemur fram að aðild að Evrópusambandinu myndu þeir tollar sem enn eru milli Íslands og ESB falla niður. Munar þar mestu um landbúnaðarvörur. Þetta myndi skila sér í lægra verði á þessum vörum. Tollar gagnvart ríkjum utan ESB gætu í sumum tilvikum hækkað.

Í skýrslunni sem kynnt var í dag eru skoðaðir kostir og gallar og þeir metnir út frá hagsmunum íslenskra neytenda. Með aðild að Evrópusambandinu fengi Ísland aðild að tollabandalagi Evrópu. Þannig yrðu netviðskipti við fyrirtæki innan ESB ódýrari og einfaldari. Slíkt myndi auka samkeppni gagnvart ýmsum innlendum fyrirtækjum.

Í skýrslunni kemur einnig fram að endurskipuleggja þyrfti íslenskan landbúnað líkt og Svíar og Finnar þurftu að gera áður en þau gengu í ESB. Þannig þyrfti meðal annars að draga úr stuðningi við íslenskan landbúnað en stuðningur við landbúnað á Íslandi er með því mesta sem gerist. Í skýrslunni segir einnig að miðað við þá samninga sem Finnar gerðu ættu Íslendingar góða möguleika að ná samningum varðandi stuðning við innlendan landbúnað.

Þá er einnig búist við að matvælaverð gæti lækkað um allt að 25 prósent með inngöngu Íslands í ESB. Þá ættu vextir á íbúðarlánum að lækka töluvert en erfitt er að segja hversu mikil lækkunin yrði. Þá ætti viðskiptakostnaður að lækka með aðild að ESB og myntbandalaginu en slíkt ætti að geta leitt til lægra vöruverðs. Íslendingar gætu einnig sótt í sjóði sem yrðu til styrktar landbúnaðar og byggðarmála. En einnig yrði samstarf við lönd ESB öflugra á sviðum mennta- og menningarmála.

Neytendasamtökin taka það fram að samtökin taki ekki afstöðu með skýrslunni eða hvort Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu.


mbl.is Telja líklegt að kjör almennings myndu batna með ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bakdyramegi í ESB

G. Valdimar Valdimarsson, framkvæmdastjóri, skrifar á bloggi sínu um nýja matvælalöggjöf Evrópusambandsins. Hann segir meðal annars:

Það hefur vakið undrun mína hvað lítið hefur verið rætt um þær hugmyndir landbúnaðarráðherra að innleiða matvælalöggjöf Evrópusambandsins á Íslandi. Hér á landi hafa verið í gildi strangar takmarkanir á innflutningi landbúnaðarvara og m.a. vísað til sóttvarna sem rök gegn auknu frelsi í innflutningi t.d. á hráu kjöti.

Nú bregður svo við að þessi rök virðast ekki eiga við lengur og þeim er öllum stungið undið stól. Ekki veit ég hvað gerðist í Evrópu sem réttlætir þessa stefnubreytingu, ekkert hefur allavega gerst hér á landi eða er það?"


Hægt er að lesa greinina alla á bloggi höfundar: http://gvald.blog.is/blog/gvald/entry/500778/


Allt nema evru!

Matador er spil sem flestir Íslendingar þekkja og margir hafa spilað sér til ánægju og gleði. Í Matador freista spilamenn gæfunnar í fjárfestingum og markmiðið er að setja mótspilara á hausinn. Og þrátt fyrir að spilurum geti oft hitnað í hamsi er um græskulausan leik að ræða. Einungis er spilað með Matadorspeninga, sem eru með öllu verðlausir fyrir utan hinn tilbúna heim spilsins, og spilarar standa upp frá borðum með bros á vör ýmist með „stórgróða“ eða „gjaldþrot“ sem sett var á svið í hita leiksins.

Undanfarin misseri hefur ríkt hálfgert „Matadorsástand“ á Íslandi. Munurinn er hins vegar sá að þegar staðið er upp frá spilaborði hins „íslenska Matadors“ þarf fólk að horfast í augu við ískaldan veruleika. Í hinu „íslenska Matadori“ er fólk og fjölskyldur – enginn sýndarveröld. Hið „íslenska Matador“ á það þó sameiginlegt með hinu eina sanna Matadori að spilapeningarnir – íslenskar krónur – eru algjörlega verðlausir. Í raun er verðgildi íslensku krónunnar mun minna en Matadorspeninganna. Matadorspenigarnir hafa í gegnum áratugina haldi verðgildi sínu og eru fullkomlega brúklegir í hinum tilbúna heimi spilsins. Nú er hins vegar svo komið fyrir íslensku krónunni að hún er algjörlega óbrúkleg og væri ekki einu sinni tekin gild í Matadori!

Ákall um annan gjaldmiðil

Ljóst er að íslenska krónan á í alvarlegum öndunarerfiðleikum og er í andarslitrum. Þorri almennings og nánast allir málsmetandi einstaklingar virðast vera á þessari skoðun og gera sér grein fyrir því að kveðjustund krónunnar nálgast – íslenska krónan á fáa vini. Augljós arftaki krónunnar er evra – hinn samevrópski gjaldmiðill. Um það eru flestir sammála. Samt sem áður heyrast raddir sem væna þá sem kalla á evru um óþjóðlega hugsun og hræsni – evra leysi ekki þann vanda sem íslenskt efnahagslíf glímir við þessi misserin. Undirritaður hefur ekki orðið var við að talsmenn evru líti á hana sem skyndilausn á yfirstandandi og yfirvofandi efnahagsþrengingum. Undantekningalaust er litið á upptöku evru sem langtíma lausn til að draga úr rússíbanareið íslensks efnahagslífs með tilheyrandi fórnarkostnaði sem fyrst og fremst er sóttur í vasa almennings. Til framtíðar litið yrði Evrópusambandsaðild, og upptaka evru í kjölfarið, mikil kjarabót fyrir íslenskan almenning og því fyrr sem við stígum skrefið til fulls og sækjum um fulla aðild að ESB því betra.

Ótrúverðugleiki sjálfstæðismanna

Þrátt fyrir að evra sé augljós kostur fyrir Íslendinga heyrast úrtöluraddir. Raddir sem þessa stundina berast hvað hæst úr börkum gallharðra ESB andstæðinga í hópi vinstri grænna og sjálfstæðismanna. Þessi hópur vinstri sósíalista og furðulegrar blöndu íhalds- og frjálshyggjuarms sjálfstæðisflokksins á ekkert sameiginlegt nema að vera á móti ESB aðild og evru og að málflutningur þeirra er ekki trúverðugur. Ótrúverðugleiki sjálfstæðismanna felst í því að í aðra röndina tala þeir um mikilvægi þess að halda í krónuna til að viðhalda sjálfstæðri peningastefnu. Í hina röndina gæla þeir við þá hugmynd að taka upp svissneska frankann, dollar eða pund í stað krónu. Þversögnin í þessum málflutningi er algjör því við myndum ekki einu sinni fá áheyrnarfulltrúa í seðlabönkum Sviss, Bretlands eða Bandaríkjanna. Fullkomið rökþrot en tilgangurinn helgar meðalið – allt nema evru!

Söguleg tímaskekkja vinstri grænna

Vinstri græn hafa til þessa talað á svipuðum nótum og íhalds- og frjálshyggjuarmur sjálfstæðisflokksins. Talað fyrir sjálfstæðri íslenskri krónu og mikilvægi þess að halda sjálfstæðri peningamálastefnu. Miðað við nýlegar hugmyndir forystufólks í flokknum um samnorræna mynt þá virðist trúin á sjálfstæða íslenska krónu eitthvað vera að dvína. Gallinn við þessa hugmynd vinstri grænna er í fyrsta lagi sú að hún kemur a.m.k. 150 árum of seint. Um miðja 19. öldina voru uppi hugmyndir um samnorrænt ríki og þá væntanlega samnorræna mynt. Sú göfuga hugmynd varð ekki að veruleika. Í öðru lagi er óhætt að fullyrða að samnorræn mynt á ekki upp á pallborðið hjá frændum okkar í Skandinavíu. Finnar eru með evru og verða með evru. Skipti Danir og Svíar um gjaldmiðil – en afar líklegt er að sú verði raunin fyrr en síðar – munu þeir örugglega ekki taka upp samnorræna krónu. Danir og Svíar munu taka upp evru. Norðmenn eru sér á báti með tiltölulega stöðuga krónu tryggða í olíugróða og vægast sagt afar ólíklegt að Norðmenn tækju þátt í samnorrænu myntsamstarfi með Íslendingum. Evra verður örugglega niðurstaðan skipti Norðmenn á annað borð um gjaldmiðil. Hugmynd forystu vinstri grænna er því söguleg tímaskekkja og markast af sömu örvæntingu og hjá ofangreindum hópi sjálfstæðismann – allt nema evru!

Íslenska krónan er íþyngjandi í vösum íslensks almennings og dragbítur á íslenskt atvinnulíf. Engum er greiði gerður með því að viðhalda ríkjandi „Matadorsástandi“ með ónothæfum krónupeningum. Efnahagsleg tenging íslensks hagkerfis við evrusvæðið er mikil og á örugglega eftir að aukast á komandi árum. Evra er því ekki einungis augljós kostur, heldur í raun eini kostur Íslendinga til framtíðar litið.

Úlfar Hauksson, greinin birtist áður í 24 Stundir síðastliðinn fimmtudag.

Höfundur er doktorsnemi og stundakennari í stjórnmálafræði við HÍ.


Skammtímalausnir og langtímalausnir

Það er að bera í bakkafullan lækinn að agnúast út í Seðlabanka og ráðamenn fyrir aðgerðaleysi. Við erum land skuldara og þrátt fyrir sterkar undirstöður þá hafa markaðir einhverra hluta vegna sýnt okkur gulaspjaldið, eins og Intrum orðar það og það gengur ekki að gera ekki neitt. Til skamms tíma þarf að standa enn þéttar við bakið á fjármálastofnunum og ríkisstjórn að koma einhuga og fumlaust fram til að styrkja trúverðugleika íslensks efnhagslífs. Til lengri tíma er skynsamlegt að huga að grundvallarþáttum sem snerta stöðugleika í viðskiptum við útlönd, krónuna og tiltrú erlendra viðskiptaaðila og fjárfesta. Evrópusambandsaðild getur verið mikilvægur þáttur í að ná öllum þessum markmiðum, að því gefnu að ásættanleg niðurstaða náist í aðildarviðræðum.

Engin skammtímalausn?

Bent hefur verið á að upptaka evrunnar sé ekki skamtímalauns vegna þess að það taki tíma að ganga í gegnum umsóknarferli, samningaviðræður, þjóðaratkvæðagreiðslu og ganga frá lögformlegum atriðum fyrir aðild að ESB. Eftir að til aðildar kemur þarf Ísland að uppfylla skilyrði fyrir upptöku evru og þar bætast við nokkur ár til viðbótar. Þetta er hárrétt. Ísland mun ekki taka upp evru á einni nóttu. Á sama hátt og kyrrsetumaður mun ekki komast í form við það eitt að kaupa sér kort í líkamsrækt og ráða einkaþjálfara mun Ísland ekki fá evru við umsókn um aðild að ESB. Hins vegar skiptir máli að taka ákvörðun – að taka fyrsta skrefið og senda skilaboð um ásetning. Að mæta í ræktina. Reynsla þeirra aðildarríkja ESB sem hafa tekið upp evruna er sú að áhrifa gætir þegar í stað eftir að ákvörðun um evruaðild hefur verið tekin. Áhrifin koma fram vegna væntinga markaðarins um stöðugleika, aðgerða í efnhagsmálum og ríkisfjármálum og samstarfs við Seðlabanka Evrópu sem eru hluti af aðlögun að upptöku evrunnar. Yfirlýsing um ásetning um Evrópusambandsaðild og upptöku evru gefur til kynna áform um að uppfylla skilyrði um verðbólgu, hallalaus fjárlög og takmörkun skulda við útlönd. Hún sendir skilaboð um að efnahagsumhverfi aðlagist í skrefum þeim viðmiðunum sem gilda á evrusvæðinu. Að viðskiptaumhverfi hér veri allt hið sama og í Evrópusambandinu.

Ekkert ríki er eyland

Ekkert ríki er eyland í alþjóðlegu efnhagslífi. Íslenskt hagkerfi er fremur opið og viðskipti eru að langstærstum hluta við Evrópu. Ríflega 70% viðskipta eru við rík Evrópska efnhagssvæðisins og um helmingur viðskipta er við evrusvæðið. Inngangan í EES var stórt, jákvætt skref fyrir Ísland. Sú einkavæðing og frelsi í fjármálaviðskiptum sem átti sér stað í kjölfarið hafa skapað hér mikinn hagvöxt, ný tækifæri og aukna þjóðarframleiðslu til langframa. Aðild að ESB og evrunni, með ásættanlegum aðildarsamningi, er rökrétt skref fram á við. Skref sem mun fjarlægja viðskiptakostnað við evrusvæðið og á sama tíma losa útflytjendur og innflytjendur undan þeim óþolandi sveiflum sem þau þurfa að búa við. Athuganir hafa sýnt að ESB-aðild og evran muni auka utanríkisviðskipti og þjóðarframleiðslu til langframa.

Trúverðugleiki

Minnsti gjaldmiðill í heimi og staða Íslands utan ESB vekur eðlilega spurningar erlendra aðila um viðskiptaumhverfi, framtíðarhorfur og sveiflur á íslenskum markaði. Aðild að Evrópusambandinu eyðir óvissu um aðstæður á íslenskum markaði. Allt viðskiptaumhverfi hér verður það sama og í ESB, þar sem helstu samstarfsfyrirtæki okkar og samkeppnisfyrirtæki okkar eru. Útskýringar á markaðsaðstæðum, peningamálastefnu og lagalegu umhverfi fyrir fjárfestum og viðskiptaaðilum verða einfaldar og skýrar. Aðstæður hér verða einfaldlega þær sömu og í Evrópu, því alþjóðlega umhverfi sem við erum þegar hluti af og getum kallað okkar heimamarkað. Lagaumhverfi verður það sama og samkeppnisskilyrði verða í stórum dráttum þau sömu. Að sjálfsögðu leysir Evrópusambandsaðild ekki öll vandamál. Það verða áfram sveiflur í hagkerfinu og það koma til nýjar áskoranir koma vegna sameiginlegrar peningamálstefnu á evrusvæðinu. Hins vegar verður stöðugleikinn meiri, trúverðugleikinn meiri og rekstarumhverfi fyrirtækja breytist þegar viðskiptakostnaður við evrur hverfur og breytingar á gengi gjaldmiðilsins gagnvart helstu viðskiptaaðilum sömuleiðis.

Aðalsteinn Leifson er lektor í viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu fimmtudaginn 3. apríl 2008


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband