Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

GLEÐILEGT ÁR!

EVRÓPUSAMTÖKIN ÓSKA LANDSMÖNNUM ÖLLUM GLEÐILEGS NÝS ÁRS!

MEÐ ÞÖKK FYRIR ÞAÐ SEM ER AÐ LÍÐA.

RVIk-flugeldar


Viðskiptamenn ársins, Hilmar og Jón sammála: Ísland þarf ESB-aðild og nýjan gjaldmiðil

Hilmar Veigar PéturssonJón SigurðssonMarkaðurinn, viðskiptablað Fréttablaðsins, valdi viðskiptamenn ársins í dag. Fyrir valinu urður Hilmar V. Pétursson, forstjóra töluleikjafyrirtækisins CCP og Jón Sigurðsson, forstjóra Össurar, sem framleiðir stoðtæki. Bæði þessi fyrirtæki eru leiðandi á heimsvísu. Þeir Hilmar og Jón ræða ýmis mál, þar á meðal Evrópumál og gjaldeyrismál. Orðrétt segir í viðtalinu:

,,Vilja aðild að esb

Þeir Jón og Hilmar, sem hlutu jafn mörg stig, voru ekki að hittast í fyrsta sinn þegar þeir settust niður með blaðamanni Markaðarins"Við höfum oft spjallað saman um rekstur fyrirtækja hér og framtíðarhorfur," segir Jón og rifjar upp þegar þeir, ásamt forráðamönnum Marels og samheitalyfjafyrirtækisins Actavis, funduðu með ráðherrum, þingmönnum og ýmsum öðrum í stjórnsýslunni á fyrstu fjórum mánuðum ársins um leiðir út úr kreppunni með langtímasjónarmið að leiðarljósi.

"Við vildum koma sjónarmiðum okkar áleiðis. Það er þetta klassíska, aðild að Evrópusambandinu (ESB) og upptaka evru," bætir Hilmar við. Önnur mál á dagskrá voru eðli bankastarfsemi hér í framtíðinni, afnám gjaldeyrishafta og samskipti við útlönd.

Þeir segja ráðamenn hafa tekið vel í aðild Íslands að ESB á fyrri hluta árs. Eftir því sem leið á árið hafi viðhorfið snúist við.

"Við reyndum að koma þessari umræðu upp úr þeim hjólförum sem hún var í. Undirtektirnar voru ótrúlega jákvæðar og í engu hlutfalli við það sem seinna varð," segir Jón. "Nú er engu líkara en við séum að fleka fjallkonuna."

Þeir eru sammála um að rekstrarhorfur alþjóðlegra fyrirtækja sem staðsett eru hér á landi séu mjög slæmar ef ekki verði mörkuð stefna til framtíðar.

Hilmar segir í raun aldrei hafa verið mögulegt að ræða um rekstrarhorfur fyrirtækja í því sveiflukennda ástandi sem hér hafi verið um áratuga skeið. "Ég hef oft líkt uppbyggingu í atvinnustarfsemi hér við það að búa í árfarvegi. Hann er frjósamur og góður. Þar er fullt af sprotum og mikil gróska. En svo fer að rigna. Þá kemur flóð og það ryður öllum sprotunum í burtu. Þegar grynnkar aftur í ánni er aftur talað um hvað farvegurinn er góður. Svona gerist þetta á um tíu ára fresti. Það er sama hvort krónan er fasttengd, undir höftum eða handstýrð. Það hafa verið reynd ýmis kerfi með krónur en ekkert virðist virka," segir hann og leggur áherslu á nauðsyn þess að finna varanlega lausn á gjaldmiðlamálum Íslendinga. Hann bendir sömuleiðis á að myntsvæði heimsins hafi stækkað síðustu ár og orðið einfaldari. Það haldist í hendur við alþjóðavæðinguna og aukinn hraða í samskiptum og viðskiptum.

Péturskrónan á Bíldudal

Hilmar bendir á að krónan hafi virkað vel í einangruðu samfélagi þar sem viðskipti við útlönd voru lítil sem engin.

Þeir Jón taka Péturskrónur sem dæmi. Sú króna var mynt sem athafna- og kaupmaðurinn Pétur Thorsteinsson á Bíldudal notaði í viðskiptum sínum við heimamenn í kringum síðustu aldamót. Þær hafi gegnt hlutverki sínu í samfélaginu sem þá var mjög einangrað. "Þetta hrundi auðvitað allt hjá honum þegar fólk gat farið yfir á Patreksfjörð," segir Jón og bendir á að sama máli gegni um íslensku krónuna. Hún sé óvirkur gjaldmiðill í alþjóðlegum viðskiptum.

"Krónan hefur nýst okkur jafn vel og svarthvíta sjónvarpið á sínum tíma. Það var gott en nú er bara komið litasjónvarp. Við getum haldið áfram og talað um hvað árfarvegurinn er frjór og góður og vonað að það fari ekki að rigna. Eða við gerum það sama og aðrar þjóðir í kringum okkur hafa komist að og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi."

Einkennileg andstaða

Þeir Jón og Hilmar furða sig á þeirri andstöðu sem orðin er gegn aðild Íslands að ESB. Framtíðarleið sem þeir telja farsæla til frambúðar. "Það er partur af samfélaginu sem virðist hafa stóra hagsmuni af því að beita sér gegn ESB og beitir öllum klækjum til að mála það sem vond útlendingasamtök sem vilji koma höndum yfir allt sem hér er. Það stenst enga skoðun," segir Hilmar og bendir á að þótt andstaðan kunni að þjóna sérhagsmunum þá gangi viðhorfið ekki upp. Íslensk fyrirtæki verði að tryggja sér fjármögnun sem að mestu leyti sé erlend. Það komi sér afar illa þegar gengi krónunnar sveiflist til og frá sem lauf í vindi.

Einu rökin fyrir krónunni telur hann vera þau hversu öflugt stjórntæki hún hafi reynst í gegnum tíðina. "Hún hefur verið tæki fyrir stjórnvöld til að stýra kaupmætti almennings án þess að hann upplifi það. En þetta er ekki svona lengur," segir hann og bendir á að almenningur sé að gera sér grein fyrir þessu. Skýrasta dæmið sé verð á appelsínusafa sem í erlendri mynt hefur lítið sem ekkert breyst milli ára. Öðru máli gegni um verð á appelsínusafa hér, sem sveiflist út um allar trissur.

Hættir að hugsa í krónum

Eftirtektarvert er að menn viðskiptalífsins að mati dómnefndar Markaðarins hugsa ekki í krónum. "Við hættum að nota krónur árið 2002 og hugsum alfarið í erlendri mynt," bendir Jón á en fyrirtækið gerir upp í Bandaríkjadölum. Sömu sögu er að segja af CCP, sem lagði krónuna niður sem starfsrækslumynt árið 2006 og hefur greitt starfsfólki laun í evrum frá því snemma á þessu ári. Starfsfólk Össurar fær laun sín enn greidd í krónum.

Þeir segja vandasamt að skipta út gjaldmiðli einhliða hjá fyrirtækjum hér enda sé krónan raunveruleiki starfsfólksins sem starfi hjá fyrirtækjunum hér.

"Við getum ekki ákveðið þetta fyrir starfsfólk okkar. Þótt færa megi rök fyrir því að skiptin séu skammtímaávinningur fyrir starfsfólkið þá er langtímaáhætta fólgin í því. Í raun vorum við að selja starfsfólkinu gengisáhættu. En við vildum bjóða upp á þetta og héldum námskeið fyrir fólkið. Þótt evran liti vel út þá varð starfsfólkið að breyta lífi sínu í samræmi við það," segir Hilmar.

Hér tala engir útrásarvíkingar!

(Feitletranir: ES-blogg)


Staðan hjá Varsjárbandalaginu?

Árni JohnsenSumir fylgjast vel með því sem er að gerast í kring um þá, aðrir síður. Þetta sést einnig á umræðunni um Evrópumálin, nú síðast í MBL. Hinn góðkunni brekkusöngvari og þingmaður frá Eyjum, Árni Johnsen, stingur þar niður penna og fer mikinn. En hann er alltaf að tala um eitthvað Evrópubandalag, EB! Kannski er ÁJ alveg sama, en það er fyrir löngu búið að breyta Evrópubandalaginu í Evrópusambandið, ESB. Það gerðist fyrir 16 árum síðan, með Maastricht-samningnum. Hvernig ætli þeir hafi það annars hjá Varsjárbandalaginu?

(Um gamla EB)

Mynd af ÁJ:DV


Opið bréf til stjórnar RÚV

RÚVEvrópusamtökin lýsa yfir áhyggjum vegna þeirrar ákvörðunar Ríkisútvarpsins að hafa ekki fréttaritara staðsettan í Brussel í komandi aðildarviðræðum Íslands og ESB. 

 Upplýsingar eru lykilatriði í íslensku samfélagi, sérstaklega á tímum sem þessum.  Evrópusamtökin telja það algerlega nauðsynlegt að íslenskum almenningi verði gert kleift að fylgjast með framvindu aðildarviðræðna Íslands og ESB.  Upplýsingar sem skipta máli fyrir þjóðina, mega og eiga ekki að vera "útvalin vara" fyrir fáa aðila.  Evrópusamtökin skora á Ríkisútvarpið að endurskoða þessa ákvörðun sína, þar sem það er rekið samkvæmt hugmyndinni um "útvarp í þágu almennings" (public service). Það hefur því mjög mikilvægu hlutverki að gegna í þágu lýðræðis og opinnar umræðu hér á landi.   Slíkt hefur ef til vill aldrei verið mikilvægara í íslensku samfélagi en einmitt nú.

Spánverjar taka við forystu í ESB

SpánarfániSpánverjar taka við formennsku í ESB í byrjun janúar og taka við keflinu af Svíum. Íslendingar og Spánverjar hafa átt góð samskipti í gegnum tíðina, Íslendingar hafa m.a flykkst til Spánar í sólarlandaferðir og Spánverjar hafa m.a keypt aragrúa af saltfiski (Bacalao)af okkur. Ritari þessara orða hefur m.a. unnið við pökkun á saltfiski til Spánar!

Óhætt er því að flokka Spánverja sem vinaþjóð okkar Íslendinga. Ekki veitir af á þessum síðustu og verstu, þegar uppi eru raddir þess eðlis að Ísland eigi enga vini, heldur sé umkringt vondum útlendingum! Evrópusamtökin taka þó ekki undir með þeim röddum.

Á vefsíðunni Euracitv er komin upp síða þar sem hægt verður að fylgjast með formennsku Spánverja.

Hér eru svo almennar upplýsingar um Spán á Wikipedia, en Spánverjar eru rúmlega 46 milljónir að tölu.


Guðmundur um gjaldmiðilinn

Guðmundur GunnarssonGuðmundur Gunnarsson, bloggari fer mikinn í nýjasta pistli sínum í dag á Eyjunni. Nú tekur hann gjaldmiðilinn fyrir undir fyrirsögninni "Ónýtur gjaldmiðill" en þar segir Guðmundur m.a.:

,,Verðbólga í nágrannalöndum okkar er og hefur verið umtalsvert lægri en hér og sveiflur eru margfalt minni. Það hefur leitt til þess að vextir þar eru margfalt lægri og ekki þörf á verðtryggingu eða greiðsludreifingu á vaxtagreiðslum. Verðlag þar er lægra og stöðugra. Vextir á húsnæðislánum og langtímalánum á bilinu frá 2,4% - 5%. Þar er fólk ekki að tapa eignum sínum vegna ónýts gjaldmiðils, ofurvaxta og verðtryggingar. Þar getur fólk selt eignir sínar og flutt þær, t.d. til annarra landa. Hér í krónuumhverfinu er hvorugt hægt. Hér verða ellilífeyrisþegar að éta það sem úti frýs undir lakri stjórn stjórnmálamanna."

Og síðar segir Guðmundur: ,,25% af launum íslendinga fara í aukakostnað vegna krónunnar. Til þess að hafa svipuð laun og annarsstaðar á Norðurlöndunum þurfum við að skila 25% lengri vinnuviku. Hvergi hefur eignatap einstaklinga orðið eins mikið og hér, það er vegna hruns krónunnar. Stór hluti af verðfalli eigna lífeyrissjóða og sjóða þar sem fólk geymir sparifé sitt er vegna þessa kerfisfalls krónunnar og þessi hluti stefnir í að verða langstærsti þátturinn í verðfallinu.

Krónan heldur íslendingum í efnahagslegum þrælabúðum."

Allur pistillinn

(Mynd DV)


Vigdís hittir naglann á höfuðið! Upplýsingar lykilatriði

Vigdís FinnbogadóttirVigdís Finnbogadóttir, hinn glæsilegi fyrrum forseti okkar, er í löngu og ítarlegu viðtali í jólablaði DV. Þar fer hún yfir ýmis mál, gömul og ný. Hún kemur m.a. að ESB-málinu og í því sambandi segir hún orðrétt:

,,Ákvarðanir í þessum málum, ekki síst í ESB-málinu, verður líklega afdrifaríkasta og tilfinningaþrungnasta ákvörðun Íslandssögunnar. Af þeim sökum er gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld, ríkisfjölmiðlar og menntastofnanir gangi fram fyrir skjöldu og leggi sitt af mörkum til að móta upplýsta og markvissa umfjöllun um allar helstu staðreyndir þessa veigamikla máls.

Þegar þessu er hreyft heyrist gjarnan úr horni að þetta sé ógerlegt því málið sé svo flókið. En það eru ýkjur og fyrirsláttur og í rauninni aðför að lýðræðinu.“

Og hún heldur áfram: ,,Ef yfirvöld stæðu sig í staðreyndasöfnun og upplýsingamiðlun af þessu tagi myndi það draga úr sundurþykkju með þjóðinni og auka líkurnar á skynsamlegri afstöðu hennar til málsins. Það er því til mikils að vinna,“ segir Vigdís Finnbogadóttir í DV.

Auðveldlega er hægt að taka undir þessi orð Vigdísar. Samkvæmt skilgreiningu er Ísland upplýsingasamfélag og er t.d. í efstu sætum á heimsvísu hvað varðar útbreiðslu internetsins. En það er ekki nóg. Stjórnvöld verða að sýna ákveðna forystu í þessum efnum og vera sá hvati sem Vigdís nefnir, til þess að upplýsa almenning og þjóðina í heild sinni. 

Þetta er kjarni málsins, sem Vigdís nefnir hér, óupplýst þjóð getur ekki tekið upplýsta ákvörðun! 


GLEÐILEG JÓL!

JólatréEvrópusamtökin óska öllum landsmönnum, nær og fjær, gleðilegra jóla, árs og friðar! Þökkum árið sem er að líða.

Vegur Svíþjóðar liggur í gegnum ESB - Meirihluti fyrir Evrunni

Anders Borg,,Um helmingur af þjóðarframleiðslu Svía kemur í gegnum útflutning og innflutning. Þjóð sem er jafn háð innflutningi og útflutningi, getur ekki staðið á hliðarlínunni hvað varðar umræður um alheimsviðskipti. Við getum einungir spilað með í gegnum Evrópu,“ segir fjármálaráðherra Svía og einn valdamesti maðurinn í sænska Hægriflokknum, Anders Borg, í viðtali við Sænska dagblaðið í gær.

Í viðtalinu kemur einnig fram að Borg haf sannfærst um að til þess að styrkja stöðu Svía innan ESB og í alheimsviðskiptum  verði samstarf landsins í Evrunni afgerandi þáttur.  Svíar höfnuðu Evrunni í þjóðaratkvæði árið 2003, en gengi sænsku krónunnar hefur sveiflast töluvert í hremmingum fjármálakreppunnar og vill meirihluti Svía taka nú upp Evruna sem gjaldmiðil (44% á móti 42% í nýrri könnun nú um miðjan desember).

Anders Borg segir að á komandi kjörtímabili (kosið verður næsta haust) þurfi aftur að taka upp þessa spurningu.Almennt er Borg ánægður með frammistöðu Svíþjóðar sem formennskuland og er það álit flestra fréttaskýrenda að þetta hafi verið gott tímabil fyrir Svía, Lissabonsáttmálinn gekk í gegn og mikilvægar ákvarðanir voru teknar til þess að bregðast við kreppunni.

Að sögn Borg miða þessar aðgerðir að því að stuðla að hagvexti, jafnvægi í ríkisfjármálum ESB-ríkjanna og tryggja stöðugleika.En allt gekk ekki upp og nefnir Borg dæmi skattamál í því samhengi. Ástæðan sé m.a. hve flókin málaflokkur það sé.

Svíar ljúka formennsku sinni í ESB um áramótin, en þá taka Spánverjar við.


Grein Carl Bildt og Olli Rehn úr MBL

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía og Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB rituðu sameiginlega grein í Morgunblaðið í gær. Evrópusamtökin fengu leyfi þeirra til þess að birta hana hér á blogginu:

Góð byrjun hjá Íslandi

FYRIR tuttugu árum, bauð framkvæmdastjórn ESB undir forystu Jacques Delors, Íslandi og öðrum EFTA-löndum að fara „þriðju leið“ milli ESB-aðildar og þess að standa alfarið fyrir utan. Það boð leiddi til myndunar Evrópska efnahagssvæðisins. Finnland og Svíþjóð, lönd djarfra rallýökumanna, skrensuðu fljótt á „þriðju leiðinni“, en tóku svo stefnuna beint í átt að ESB-aðild, fyrst með umsókn og loks aðild árið 1995. Ísland og Noregur ákváðu hins vegar að halda áfram á „þriðju leiðinni“.


Allar götur síðan hefur kastljós stækkunarmála ESB beinst að suðausturhorni Evrópu á meðan kyrrt hefur verið um að litast í norðurhluta álfunnar. Evrópusamband byggt á hugsjónum um frið, velmegun, frelsi og lýðræði, nær nú til 27 ríkja og tæplega 500 milljóna manna. Það er ekki síst á tímum sem nú, í skugga alþjóðlegra efnahagserfiðleika, að mikilvægi þess að vinna saman að lausn hnattrænna vandamála kemur í ljós. Fyrir vikið er ESB sterkari og áhrifameiri gerandi á alþjóðavettvangi, í loftslagsmálum og á sviði orkuöryggis og fjármálaregluverks, svo fátt eitt sé nefnt.


Eftir snarpar umræður ákvað Ísland að sækja um aðild að ESB í júlí á þessu ári. Einn helsti hvati þess var fjármálakreppan sem reið yfir landið. Það minnir nokkuð á aðstæður í Svíþjóð í byrjun 10. áratugarins þegar ákvörðun var tekin að sækja um aðild að ESB.


Þó svo að skuggi óvissu hafi svifið yfir ESB í tengslum við fullgildingu Lissabon-sáttmálans komust aðildarríkin fljótt að samkomulagi um að biðja framkvæmdastjórn ESB að hefja undirbúning álitsgerðar um umsókn Íslands. Hraðinn og einurðin sem einkenndi ákvarðanatöku aðildarríkjanna sýndi að þau töldu Ísland eiga heima í ESB, ef það svo kysi.


Í byrjun september lagði framkvæmdastjórn ESB spurningalista fyrir íslensk yfirvöld til að meta hversu vel landið væri í stakk búið fyrir aðild. Síðustu svör íslenskra stjórnvalda voru afhent 19. október, heilum mánuði á undan áætlun. Við óskum stjórnvöldum og stjórnsýslu landsins til hamingju með þann árangur. Mat framkvæmdastjórnarinar er að gæði svaranna séu góð. Það hversu hratt og örugglega spurningunum var svarað segir sína sögu um gæði íslenskrar stjórnsýslu. Það er gott veganesti inn í komandi aðildarviðræður.

Við vitum vel að það er ósk stjórnvalda að álitsgerðin um umsóknina verði samþykkt sem allra fyrst og að aðildarviðræður hefjist. Hins vegar verðum við að taka mið af aðstæðum sem hvorki við né Ísland höfum stjórn á. Vegna tafa við fullgildingu Lissabon-sáttmálans er réttur núverandi framkvæmdastjórnar til ákvarðanatöku takmarkaður við daglegri stjórnun. Hún hefur ekki ekki umboð til að taka mikilvægar ákvarðanir eins og að mæla með að hefja aðildarviðræður við nýtt umsóknarríki. Af þeim ástæðum hefur samþykkt álitsgerðarinnar verið frestað þangað til ný framkvæmdastjórn tekur við, líklega í byrjun febrúar.

Þó er ljóst að miklu hefur verið áorkað af hálfu allra aðila á undanförnum sex mánuðum. Aðildarríki ESB hafa sýnt vilja til að vinna hratt og náið með Íslandi. Innan framkvæmdastjórnar ESB vinna menn nú hörðum höndum við aðildarumsókn Íslands. Vinnan við spurningalistann í haust bar vott um skilvirkni og gæði í stjórnsýslu hins aldargamla lýðræðisríkis.

Aðildarríki ESB hafa brugðist jákvætt við umsókn Íslands að ESB. Ályktun ráðherraráðs utanríkismála í sumar, um umsókn Íslands, bar þess glöggt vitni. Í ályktuninni kom fram að Ísland byggir á langri lýðræðishefð, hefur í fjölda ára átt í nánu samstarfi við ESB og hefur alla möguleika á að leggja mikið af mörkum til samstarfsins. Einnig kom í ljós einhugur um að veita Íslandi aðgang að sérstökum aðlögunarsjóði sambandsins sem veitir umsóknarríkjum tæknilega aðstoð. Aðildarríkin eru reiðubúin að taka ákvörðun um að hefja aðildarviðræður um leið og framkvæmdastjórnin hefur skilað áliti sínu.

Ríkisstjórn og Alþingi Íslendinga hafa lagt fram sannfærandi rök fyrir umsókninni. Það er brýnt að vinnan haldi áfram og að rödd og rökstuðningur Íslendinga fyrir því hvers vegna þeir sækist eftir aðild haldi áfram að heyrast í Evrópu. Að sama skapi er mikilvægt að ESB sé sýnilegt á Íslandi. Það er nauðsynlegt að við aukum á næstu mánuðum gagnkvæm samskipti okkar og að við hlustum vel á þjóðfélagsumræðuna.

Stjórnmálamönnum í lýðræðisríkjum er skylt að starfa í umboði og með stuðningi ríkisborgaranna. Á sama tíma er nauðsynlegt að leiðtogar séu framsýnir og að þeir hafi dug og þor til að taka erfiðar pólítískar ákvarðanir. Ákvörðun um aðild er aldrei auðveld og hefur oft skipt þjóðum í tvo hópa, með eða á móti. Kosningabaráttan í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Svíþjóð um aðild að ESB var til að mynda átakamikil. Mjótt var á munum og þó að meirihluti kjósenda hafi í atkvæðagreiðslunni stutt inngöngu Svíþjóðar var stuðningur þeirra við ESB lengi á eftir í algjöru lágmarki. Stuðningurinn í Svíþjóð við ESB mælist hins vegar einn sá mesti í Evrópu í dag, samkvæmt skoðanakönnunum. Það er skoðun okkar að ESB-aðild hafi hjálpað Svíþjóð að komast upp úr þeirri sársaukafullu efnahagslægð sem landið gekk í gegnum í byrjun tíunda áratugarins. ESB-aðildin skapaði aðstæður sem stuðluðu að stöðugleika og trúverðugleika, og juku á bjartsýni.

Okkar reynsla er að Svíum hafi tekist vel að verja hagsmuni sína, einkum mikilvæga þjóðarhagsmuni. Fyrir okkur er það góð vísbending um möguleika smærri ríkja að hafa áhrif á ákvarðanatöku í Brussel.
Það er trú okkar að Íslendingar, á sama hátt og Svíar og fleiri þjóðir sem hafa tekið ákvörðun um að gerast aðilar að ESB, muni í auknum mæli koma auga á þá kosti sem fylgja því að vera aðili að ESB.

Olli Rehn er framkvæmdastjóri stækkunarmála ESB – Carl Bildt er utanríkisráðherra Svíþjóðar.

Upprunalega birt í MBL, 21.12.2009

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband