Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Árni Páll Árnason í FRBL: Framfarastoð eða skálkaskjól?

Árni Páll ÁrnasonÍ langri grein í Fréttablaðinu í dag skrifar Árni Páll Árnason, efnahags og viðskiptaráðherra um gjalmiðilsmál og segir m.a.:

" Þótt sveigjanleiki sjálfstæðs gjaldmiðils hafi verið mikilvægur við lausn á efnahagsvanda í fortíðinni, er hann ein helsta ástæða þeirra erfiðleika sem þjóðin hefur nú ratað í. Jákvæð áhrif gengislækkunar krónunnar er reglulega ofmetin í almennri umræðu hér á landi og helgisagan um mikilvægi krónunnar fyrir sveigjanleika í efnahagslífinu hefur fengið á sig einhvers konar frumspekilega áru. Allir sannir Íslendingar eiga að taka undir með hinum háværa margradda kór um ágæti sveigjanleika krónunnar. Staðreyndirnar tala hins vegar sínu máli. Gengisfellingar gátu vissulega leyst tiltekin vandamál á fyrri tíð: Þær rýrðu kjör almennings og lækkuðu skuldir útflutningsgreina í lokuðu hagkerfi. Krónan var hins vegar lykilástæða fyrir vanda okkar í aðdraganda hrunsins og gengislækkun hennar í hruninu hefur búið til alvarlegasta efnahagsvanda þjóðarinnar, nú um stundir: Skuldavandann. Úrlausn á ofskuldsetningu atvinnulífs og heimila er stærsta vandamálið og stafar af því að þorri skulda er annað tveggja tengdur verðbólgu eða gengi. Þessar staðreyndir benda til að gjaldmiðillinn sé fremur hluti af vandanum en forsenda lausnarinnar. Þar við bætist sú staðreynd að traust á íslensku efnahagslífi og gjaldmiðlinum er nú í algeru lágmarki. Engar líkur eru á að fjárfestar vilji efna til áhættu í íslenskum krónum í fyrirsjáanlegri framtíð og engir munu ótilneyddir vilja lána í íslenskum krónum. Við vitum hvernig hörmunarsaga krónunnar hefur verið hingað til. Er eitthvað sem bendir til að eftirhrunskrónan verði betri og veikleikarnir minni?"

Öll grein Árna 

 

 


Nýr "miðju-hægri"-flokkur,í burðarliðnum - áhersla á Evrópumálin

esbis.jpgÍ fréttum er greint frá stofnun nýs stjórnmálaflokks á hægri vængnum, sem er að sögn hófsamur hægri-flokkur sem er m.a. með áherslu á að klára aðildarviðræðurnar við ESB. Í DV segir: " Guðbjörn Guðbjörnsson er einn þeirra sem nú vinnur að stofnun nýs hægri flokks á Íslandi. Er um að ræða hægrisinnaðan miðjuflokk sem vill að Ísland gangi í Evrópusambandið. Staðfesti Guðbjörn við vefritið Eyjuna að hann ynni að stofnun nýs flokks ásamt tugi annarra einstaklinga.

Guðbjörn sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum í haust eftir að samþykkt var á landsfundi að Sjálfstæðisflokkurinn vildi draga til baka ESB umsókn Íslands. Hann hafði um árabil gegnt ýmsum störfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjanesbæ og Suðurkjördæmi."

Eyjan er einnig með frétt um þetta mál.


Stefán Haukur snýr sér alfarið að ESB-málinu

Stefán Haukur JóhannessonFRBL greinir frá: "Utanríkisráðherra hefur tekið ákvörðun um breytingar á starfsstöðvum sendiherra í utanríkisþjónustunni. Stefán Haukur Jóhannesson, sem hefur verið sendiherra í Brussel frá árinu 2005, flyst heim til starfa í ráðuneytinu 15. janúar næstkomandi og heldur áfram að gegna starfi aðalsamningamanns Íslands í aðildarviðræðum við ESB."

Þetta er hið besta mál. Enginn efast um hæfni Stefáns Hauks til að vinna málið, og gæta hagsmuna Íslands. Hann er úr Vestmannaeyjum og þekkir því vel til mikilvægis sjávarútvegs. Réttur maður á réttum stað! 


Veruleg tekjuaukning hjá bændum í ESB

KúEurostat birtir áhugaverðar tölur um tekjur bænda inna ESB, en samkvæmt þeim hafa tekjur þeirra sem starfa í landbúnaði aukist um rúm 12% á milli ára.

Helsta orsökin er rauntekjuaukning innan landbúnaðarins um tæp 10%, sem svo aftur á sínar helstu rætur í aukinni verðmætasköpun innan geirans.

Frá 2005 til 2010 hafa tekjur starfsmanna í landbúnaði innan ESB aukist um 10%.

Spá gerir ráð fyrir að í 21 af 27 ríkjum ESB muni tekjur starfsmanna í landbúnaði aukast á árinu, mest í Danmörku, eða tæp 55%, Eistlandi um tæp 50% og tæp 40% á Írlandi.

Tilkynning Eurostat


Hvass Guðmundur Gunnarsson!

Guðmundur GunnarssonÍ nýjum pistli fjallar Guðmundur Gunnarsson um það sem hann kallar "efnahagslegar þrælabúðir krónunnar" og skrifar: " Vextir hér eru hærri vegna krónunnar. Vextir leiða til hærra verðlags. Óstöðugur gjaldmiðill leiðir til enn hærra verðlags. Það eru aðstæður og skilyrði sem ákvarða hvort fyrirtæki vaxa og dafna. 25% af launum íslendinga fara í aukakostnað vegna krónunnar. Til þess að hafa svipuð laun og annarsstaðar á norðurlöndunum þurfum við að skila 25% lengri vinnuviku.

Vextir hér á landi eru töluvert hærri en annarsstaðar og vaxtamunur verður alltaf a.m.k. 5% hærri á Íslandi en innan Evrusvæðisins, það er vegna krónunnar. Ef fjölskylda sem kaupir sér eitt hús á Íslandi og önnur kaupir sér hús t.d. í Danmörku. Þá er staðan sú eftir 20 ár að þá hefur íslenska fjölskyldan greitt sem svarar andvirðis rúmlega tveggja húsa, séu greiðslur bornar saman við endurgjald dönsku fjölskyldunnar.

Krónan heldur íslendingum í efnahagslegum þrælabúðum. Við viljum losna undan þeim viðjum sem þessi valdaklíka heldur okkur í og fá efnahagslegt frelsi takk fyrir.

Forsvarsmenn CCP, Össur, Marel og allra hátæknifyrirtækjanna hafa marglýst því yfir að þeir verði að færa sig yfir í Evrusvæðið ef fyrirtækin eigi að lifa. Þau eru þegar farinn að greiða hluta launa í Evrum. Stjórnendur þessara fyrirtækja telja að innganga Íslands inn í ESB muni leiða til þess að umhverfið sem þeir hafi starfað í síðustu ár róist og verði líkara því sem er í öðrum löndum, þar sem þau geta gengið að flestu vísu, svo vitnað sé í þeirra eigin orð.

Þótt margt hafi breyst til batnaðar í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja erum við enn að burðast með íslensku krónuna, hina örsmáu og óstöðugu mynt. Íslenskt atvinnulíf starfar í alþjóðlegu umhverfi og við verðum að víkja frá einangrunarstefnunni. Vandamálið var ekki síst að það var nánast ómögulegt að fá krónur að láni til þess að fara út í framkvæmdir. Eitt af helstu vandamálum Íslendinga er krónan. Hún er alltof dýr og hreinlega ónothæf þegar kemur að fjármögnun stórra framkvæmda."

Allur pistill Guðmundar


Verðbólgumarkmiði náð - skref í áttina að nothæfum gjaldmiðli

PrósentÞorláksmessu 2010 verður hægt að minnast fyrir það að um þær mundir náðist verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands, eftir sjö ára vinnu! Menn gera þetta að umtalsefni, því það þykir merkilegt að þetta markmið skuli nást.

En þau eru athyglisverð orðin í leiðara MBL í dag um þetta; "Verðbólga er vond ef hún fer úr böndum. En það skiptir máli af hverju hún dregst saman. Hún lækkar því miður ekki vegna ákvarðana um vexti um þessar mundir. Ákvarðanir SÍ síðasta árið hafa ekkert haft með hana að gera. Vonandi vita menn það á þeim bæ, ella gæti illa farið. Verðbólgumæling nú er einkum mæling um samdrátt á flestum sviðum, hún er táknmynd um að enginn fæst til fjárfestinga í landinu sem neinu nemur vegna fjandsamlegs umhverfis, niðurdrepandi afstöðu stjórnvaldanna í landinu, sívaxandi skattahækkana og stjórnmálalegrar upplausnar. Og þær atvinnugreinar sem fyrir eru í landinu búa við samfelldar hótanir um upplausn og skemmdarverk og skattahækkun eftir skattahækkun."

Við leikum okkur aðeins með textann: "Verðbólga er vond ef hún fer úr böndum (heyr heyr!). En það skiptir máli af hverju hún dregst saman. Hún lækkar því miður ekki vegna ákvarðana um vexti um þessar mundir. (Þetta er ekki Seðlabankanum að þakka!) Ákvarðanir SÍ síðasta árið hafa ekkert haft með hana að gera. (Seðlabankinn hefði alveg getað sleppt þessu!)  Vonandi vita menn það á þeim bæ, ella gæti illa farið. (Aðvörunarorð!) Verðbólgumæling nú er einkum mæling um samdrátt á flestum sviðum, hún er táknmynd um að enginn fæst til fjárfestinga í landinu sem neinu nemur vegna fjandsamlegs umhverfis, niðurdrepandi afstöðu stjórnvaldanna í landinu, sívaxandi skattahækkana og stjórnmálalegrar upplausnar. Og þær atvinnugreinar sem fyrir eru í landinu búa við samfelldar hótanir um upplausn og skemmdarverk og skattahækkun eftir skattahækkun. (En af hverju er þetta svona, af hverju gerðist það sem gerðist, hvaða mannanna verk urðu þess valdandi að hér varð HRUN 2008, sem landinn glímir nú við?)

Sú staðreynd að það sé loksins búið að ná verðbólgumarkmiðinu, er kannski (og vonandi) upphafspunktur. Það væri mjög æskilegt að ná því að halda verðbólgunni í skefjum, því verðbólga er eins og önnur bólga, slæm, sérstaklega sé hún í risaskömmtum eins og "hefðin" er fyrir á Íslandi. Á lýðveldistímanum hefur verðbólga verið um 20% á ársvísu. Geri aðrir betur!

Með lágri verðbólgu nálgumst við Evrópuðþjóðir í þessu tilliti. Einnig með lágum vöxtum. Þar með nálgumst við þau markmið sem gera okkur kleift að fara hugsa um það fyrir alvöru að fá hér nothæfan gjaldmiðil. 


Tekur ESB af okkur skötuna?

SkataÍ dag er messa heilags Þorláks. Forsíða Fréttablaðsins skartar skötu og í Fréttatímanum er umfjöllun um kæsingu og skötu. Ritari er alinn upp við skötuát, enda að vestan; góð skata, með soðnum kartöflum, hamsatólg, smjöri og nýju rúgbrauði er herramannsmatur og vart hægt að hugsa sér jól án skötu. 

Skötuát er hluti af arfleifð Íslendinga og þjóðleg hefð. Í umræðunni um ESB birtast allskyns goðsagnir og ein þeirra er að ESB (ef að aðild verður) muni taka frá okkur hitt og þetta; fiskinn, orkuna, fullveldið, hlutir leggist af, landbúnaðurinn rústist og hvaðeina. Ekkert af þessu á hinsvegar við rök að styðjast.

Enn hefur engum dottið í hug að "ESB taki af okkur skötuna", en það hlýtur að koma að því. Að "illir" skriffinnar í Brussel setji reglugerð sem banni skötuát!

Þetta var bara svona stutt hugleiðing um þann fáránleika sem stundum heyrist í ESB-umræðunni.

Og fyrir þá sem snæða skötu í dag: Verði ykkur að góðu! 

Ps. ESB mun EKKI taka af okkur skötuna, bara til að hafa það á hreinu! 

(Mynd: Jón Bragi Hlíðberg) 


Enn eitt fórnarlamb gleymskunnar! Nú Ásmundur Einar!

Ásmundur Einar DaðasonUm daginn gleymdi Vigdís Hauksdóttir því að ákveðinn tími, þrír mánuðir, verða að líða fram að þjóðaratkvæðagreiðslu. Vigdís (og fleiri) ætlaði nefnilega snarlega að stoppa umsókn Íslands að ESB og vildi greiða atkvæði um málið samhliða stjórnlagaþingskosningunni. 

Þótti þetta ekki rós í hnappagat Vigdísar eða þeirra sem fluttu þessa tillögu. Einn þeirra er foringi Nei-sinna, Ásmundur Einar Daðason.

Hann virðist vera í bullandi bissness með netverslunina www.isbu.is. Fyrirtækið flytur inn allskyns landbúnaðarvörur, en Ásmundur er jú bóndi.

Og þegar maður er líka alþingismaður á maður að gera grein fyrir öllum svona "aukabúgreinum" ef svo mætti kalla.

En því GLEYMDI Ásmundur Einar!Hann  er því líkt og Vigdís, fórnarlamb gleymskunnar!

Stöð tvö greindi frá þessu í kvöld í sambandi við "hjásetumálið" sem hrjáir nú VG.

Hér á vef alþingis má sjá að ekkert er skráð á Ásmund Einar, sem hefur nú þegar sent Alþingi tölvupóst um málið.  

Á vef Ísbú.is segir: "Vöruúrvalið er alltaf að aukast en markmiðið er að geta boðið breytt úrval af búrekstrarvörum á sambærilegum eða betri verðum heldur en gengur og gerist hér á landi. Við erum ávallt að prófa nýjar vörur og sumar af þessum vörum fara í almenna sölu. Til að geta boðið hagstæð verð leggjum við ríka áherslu á að komast í samband beint við verksmiðjur erlendis og leitum leiða til að forðast óþarfa milliliði. Í dag bjóðum við vörur frá framleiðendum í Ástralíu, Bandaríkjunum, Bretlandi, Pakistan, Kína, Bandaríkjunum, Belgíu, Frakklandi og Nýja Sjálandi."

Þetta virðist því vera svona "beint-úr-verksmiðju-beint-í-bú" fyrirtæki og hefur mjög alþjóðlegt yfirbragð. Þrjú þeirra landa sem flutt er inn frá eru í ESB. 

Nýlega byrjaði fyrirtækið að selja höggvarða Samsung-farsíma


Enn um makríl...

MakríllEnn um "mackerel" (makríl), en á RÚV stendur: " Framkvæmdastjóri sjávarútvegsmála hjá Evrópusambandinu hyggst beita sér fyrir lausn makríldeilu Íslands og sambandsins. Þetta segir sendiherra Íslands í Brussel sem átti fund með framkvæmdastjóranum í dag. Viðhorf hans gefi skýra vísbendingu um aukinn skilning Evrópusambandsins á sjónarmiðum Íslendinga í deilunni.

Sjávarútvegsráðuneytið hefur ákveðið einhliða að makrílkvóti næsta árs verði 147 þúsund tonn, eftir að upp úr samningaviðræðum við Evrópusambandið slitnað"

Síðar í fréttinni segir: "Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Brussel, óskaði eftir fundi með framkvæmdastjóranum í kjölfarið til að kynna sjónarmið Íslands, og fór sá fundur fram í dag. Stefán segir fundinn hafa verið afar jákvæðan og framkvæmdastjórinn ætli að beita sér fyrir lausn deilunnar. Hann segist telja að þetta gefi skýra vísbendingu um að Evrópusambandið sé fyrir sitt leyti tilbúið að skoða breyttar kringumstæður sem Íslendingar hafi mjög haldið á lofti, þ.e.a.s. að göngumynstur makríls hafi breyst verulega. Þá skipti miklu máli hversu mjög makríllinn í íslensku lögsögunni sé þyngri en sá sem hafi verið þar áður. Ekki sé hægt að horfa framhjá því í þeirri stöðu sem nú sé uppi og það verði að taka tillit til þessara sjónarmiða í framhaldi þessara viðræðna."

Öll frétt RÚV  (Mynd: www.beita.is) 


Við viljum makríl - mackril to the people!

Stór fiskurMakríll er á manna vörum um þessar mundir, þó ekki vegna þess að menn sú að eta hann, heldur vegna makrílkvótans sem Jón Bjarnason ákvað til handa Íslendingum, sem er upp á tæp 150.000 tonn (af um 600.000 tonna heildarkvóta).

Þetta var náttúrlega upplagt tækifæri fyrir Jón Bjarnason að pirra ESB, en maðurinn er jú á móti öllu sem ESB tengist.

Það er vissulega leitt að menn geti ekki komið sér saman um makrílinn, en það er gömul saga að þar sem eru einhver verðmæti, þá reyna allir að skara eld að sinni köku. Mannlegu eðli verður ekki breytt! Og þar sem makríllinn er s.k. flökkustofn, þá verður málið snúnara.

En af hverju tók Jón Bjarnason ekki bara allan kvótann? Vera bara alvöru töffari og sýna ESB í tvo heimana, sem og Norðmönnum! Sýna hver ræður!

Af hverju þessi hógværð!? 

Viðbrögð við "makrílnum":

Eyjan MBL FRBL RÚV 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband