"Það er pínlegt að sjá hvernig andstæðingar aðildar reyna að teygja og toga sannleikann til þess eins að reyna að koma í veg fyrir að Íslendingar fá að kjósa sjálfir hvort þeir vilji aðild að ESB eða ekki þegar samningurinn liggur fyrir.
Í margumræddu minnisblaði um stuðningsaðgerðir Evrópusambandsins við Ísland í umsóknarferlinu kemur nefnilega ýmislegt fram sem andstæðingar hafa alveg sleppt að nefna enda ákaflega óhentugt þeirri mýtu sem þeir eru að reyna að búa til að samningaviðræðurnar séu eitthvað séríslenskt ,,aðlögunarferli að ESB.
Í fyrsta lagi kemur fram í minnisblaðinu að ,,stuðningur ESB við umsóknarríki er án kvaða eða skuldbindinga þannig að þótt ekkert verði af aðild gerir ESB enga kröfu um endurgreiðslu á styrkjum eða kostnaðarþátttöku Jafnframt kemur fram að ,,..mikilvægt er að útfæra verkefni þannig að þau verði gagnleg, óháð því hvort Ísland gerist aðili að ESB eða ekki.
Í öðru lagi fær Ísland ekki eitt ríkja slíkan stuðning við samningaviðræðurnar eins og andstæðingar hefðu viljað að fólk tryði. Um er að ræða hefðbundið ferli í samningaviðræðum ríkis við ESB og ef andstæðingar hefðu haft fyrir því að kynna sér hvernig samningaferli ríkis við ESB er háttað hefði þetta ekki komið á óvart.
Í um áratug hafa umsóknar ríki fengið slíka stuðning og hefðu þótt heldur óeðlilegt ef Ísland hefði verið undanskilið stuðningnum. Ekki síst í ljósi þess að umsóknarferlið kallar á mikil vinnu fyrir m.a. íslenska stjórnsýslu og eins og þekkt er sætir hún miklum niðurskurði eins og annað hér á landi. Þrátt fyrir þetta kemur fram í minnisblaðinu að stuðningur til Íslands yrðu minni en til þeirra ríkja sem hafa fengið sambærilegan stuðning frá ESB: ,,Ljóst var í upphafi að umfang á stuðningi til Íslands yrði mjög takmarkaður miðað við aðstoð við önnur umsóknarríki, enda ólíkar þarfir hér og á Balkanskaganum.
Í þriðja lagi er galið að halda því fram að ESB sé í einhverri herferð að innlima Ísland bakdyramegin. Íslendingar hafa verið aukaaðilar að ESB í nær tvo áratugi og tekið upp löggjöf ESB að miklu leiti án þess að hafa neitt um þá löggjöf að segja. Sú ,,aðlögun hefur ekkert með aðildaviðræðurnar að gera nema það eitt að nú er möguleiki fyrir okkur Íslendinga að taka ákvörðun hvort við viljum verða fullgildur meðlimur í ESB eða ekki.
Andstæðingar aðildar að ESB treysta ekki þjóðinni til að segja nei við aðild þegar öll rök eru komin upp á borðið og leggja nú allt kapp á að taka lýðræðislegan rétt af Íslendingum að við fáum að kjósa já eða nei þegar samningurinn liggur fyrir.
Við sem erum hlynnt aðild ætlum að halda áfram að treysta því að lýðræðið sé sú leið til að fá úr því skorið hvernig Íslendingar vilja haga framtíð sinni."