Æðstu ráðmenn Slóvakíu hafa verið í heimsókn hér á landi og hefur heimsókn þeirra vakið athygli. Slóvakía gekk í ESB árið 2004 og hefur því aðeins verið í sambandinu í sex ár. Slóvakía tilheyrði einu sinni landinu Tékkóslóvakíu, sem var undir stjórn kommúnista og tilheyrði Austur-blokkinni.
Ívan Gasparovic sagði í frétt í FRBL í dag að ESB aðild hefði ,,átt stóran þátt í efnahagslegri uppbyggingu landsins undanfarin ár."
Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu í dag segir svo:
,,Reynsla Slóvaka af aðildarviðræðum og aðild að Evrópusambandinu voru meginefni hádegisverðarfundar sem Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra bauð forseta Slóvakíu, Ivan Gaparovic, og utanríkisráðherra landsins, Mikulá Dzurinda, til. Utanríkisráðherra SlóvaKíu sagði grunninn að góðri stöðu landsins í dag hafa verið lagðan áður en ríkið gekk í ESB. Slóvakar hefðu á sínum tíma viljað taka upp evru eins fljótt og völ var á til þess að auka stöðugleika í efnahagslífinu. Evran væri engin töfralausn heldur mikilvægur hlekkur í því að skapa stöðugleika. Bauð ráðherrann fram ráðgjöf og stuðning í aðildarviðræðunum sem nú fara í hönd.
Málefni Roma-fólks, einkum menntun barna, var rætt á fundinum. Sagði Gaparovic forseti mikilvægt að lausnin yrði að vera samevrópsk en ekki bundin við einstök ríki.
Opinberri heimsókn forseta og utanríkisráðherra Slóvakíu til Íslands lauk síðdegis í dag en í heimsókn sinni hittu þeir forseta Íslands, forsætisráðherra, forseta Alþingis og borgarstjórann í Reykjavík."
Reyndar má svo benda á í sambandi við Róma-umræðuna að á Amnesty-vefnum er að finna tilkynningu þess efnis að Slóvakía hafi skuldbundið sig til þess að binda enda á aðskilnað Róma-fólks. Amnesty fagnar þessu framtaki og er ekkert annað en gott um þetta að segja.
Aðstæður Róma-fólks, eða Sígauna, eins og þeir eru kallaðir, hafa verið mikið til umræðu að undanförnu, en hér má lesa meira um þennan hóp fólks.
Slóvakía tók upp Evruna í fyrra, hér má lesa up það.