Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Meira um gjaldmiðilsmál: Þórlindur Kjartanssona á www.Deiglan.com

Þórlindur KjartanssonÞórlindur Kjartansson, hagfræðingur, skrifar mjög beinskeytta grein um gjaldmiðilsmál á www.deiglan.com, í dag og er ekkert að skafa af því. Greinin hefst svona: 

"Hvað kallarðu 100 kall eftir 99,95% gengisfall?

Fimmaur.

Frá því íslenska krónan stóð jafnfætis þeirri dönsku, þegar gjaldmiðillinn var fyrst gerður sjálfstæður, árið 1920, hefur þetta einmitt gerst. Í dag kostar ein dönsk króna tæpar 22 íslenskar krónur en í millitíðinni voru sniðin tvö núll af gjaldmiðlinum okkar þannig að nafngildi íslensku og dönsku krónunnar stóð nokkurn veginn á pari. Þetta var árið 1981. Á fyrstu 61 árum sjálfstæðs lífs var gengisfallið því 99% gagnvart dönsku krónunni, og á þeim þrjátíu árum sem eru liðin síðan hefur þetta undratæki íslenskrar hagstjórnar misst ríflega 95% af verðgildi sínu gagnvart dönsku systur sinni. Það má því segja að danskur fimmaurabrandari kosti í dag hundraðkall.

Þrátt fyrir þetta virðist ríkjandi skoðun margra íslenskra stjórnmálamanna og hagfræðinga vera að krónan sé nú samt sem áður býsna góð, það þurfi bara aðeins að stjórna henni betur eða faglegar. Þetta er sérstakt afrek í sjálfsblekkingu.

Ekki nóg með það heldur virtust nokkrir þeirra hagfræðinga sem messuðu í Hörpu í síðustu viku vera ámóta skotnir í þessum krúttaralega, ósjálfbjarga gjaldmiðli okkar sem lengst af hefur verið verndaður gagnvart veðrum og vindum raunveruleikans með höftum, skömmtunum og stórkarlalegum pólitískum inngripum. Krónan, sem í krafti ofurvaxta sinna, hjálpaði til við að gera íslenska bankakerfið að risastórri peningaryksugu í hinni miklu lánsfjárbólu, er nú sögð vera björgunarhringur þjóðarinnar í ólgusjó heimskreppunnar. Enn og aftur þarf verulega sköpunargáfu til að komast að niðurstöðunni.

 Ef íslenska hagkerfið á aftur að geta orðið hluti af stærri markaði er ljóst að það verður ekki gert með notkun íslensku krónunnar. Sú tilraun er búin. Það eru því aðeins tveir kostir í stöðunni. Að halda krónunni, en setja landamæragirðingar í kringum íslenskt viðskiptalíf. Hinn kosturinn er að horfast í augu við að aðgangur íslenskra neytenda og fyrirtækja að frjálsri alþjóðlegri samkeppni verður ekki tryggður nema með því að hætta útgáfu sérstakrar myntar en leyfa fólki og fyrirtækjum að nota þá mynt sem þau treysta best og hafa mest not fyrir."

Í lokin segir: "Þrátt fyrir reynslu okkar af rekstri eigin gjaldmiðils er stöðugt reynt að troða því ofan í kokið á okkur að íslenska krónan hafi reynst "okkur" vel. Hún hefur kannski reynst stjórnmálamönnum vel á meðan þeir gátu beitt henni til þess að slá ryki í augu almennings með handvirkum gengisfellingum. En raunin er sú að hún hefur kennt íslensku þjóðinni þá dýrkeyptu vitleysu að sparnaður sé glapræði og að greidd skuld sé tapað fé, svo ekki sé minnst á höft, sérhagsmunagæslu og heimóttaskap.

 Íslenska krónan er því sennilega dýrasti fimmaurabrandari í heimi." 

Það sést á lestri greinarinnar að Þórlindur telur að dagar krónunnar séu taldir og hann stingur upp á einhliða upptöku á mynt sem myndi henta Íslandi.

Einnig hugmynd sem töluvert hefur verið rædd.

Það skal tekið fram að Evrópusamtökin styða upptöku Evru með aðild að ESB, en grein Þórlindar sýnir vel í hvaða ógöngur krónan leiddi íslensku þjóðina. 

Okkur langar líka að benda á mjög athyglisvert línurit sem Pawel Bartozek birtir um gengisfall íslensku krónunnar gagnvart þeirri dönsku á síðustu 30 árum:http://pabamapa.com/?p=150

Öll greinin


Þorvaldur Gylfason í DV um gjaldmiðilsmál

Þorvaldur-GylfasonDr. Þorvaldur Gylfason skrifaði grein í DV í dag um gjaldmiðilsmál, í framhald af ráðstefnu í Hörpunni í síðustu viku. Hann segir meðal annars að samhliða upptöku Evru þurfi að fara fram viðamiklar umbætur á efnahagssviðinu: 

"Það leysir engan vanda að taka upp evruna, ef gamla vitfirringin í efnahagsmálum heldur áfram að vaða uppi að öðru leyti líkt og gerðist í Grikklandi og víðar. Upptaka evrunnar getur hins vegar orðið til góðs, ef hún kallast á við gagngerar umbætur í hagstjórn."

Síðan segir: "Myndu gagngerar hagstjórnarbætur heima fyrir geta skilað sama árangri án evrunnar? Já, vissulega. En vandinn er sá, að án evrunnar er ólíklegra en ella, að nauðsynlegar umbætur nái fram að ganga. Upptaka evrunnar er hvati eins og efnafræðingar myndu segja: hún knýr á um nauðsynlegar umbætur í hagstjórn m.a. með aðhaldi að utan. Evran er hvort tveggja í senn: markmið og leið.  Þetta er ein þyngsta röksemdin fyrir upptöku evrunnar hér heima líkt og t.d. í Eystrasaltslöndunum og annars staðar í AusturEvrópu. Löndin þar eru nú loksins laus úr köldum hrammi Rússa og komin inn í hlýjan meginstraum evrópskrar menningar. Þeim tókst þetta hratt og örugglega m.a. vegna þess, að þau settu markið á ESB og evruna til að flýta fyrir sér. Fjarlægari lönd eins og t.d. Georgía eiga lengra í land, því að þau settu markið ekki á ESB og evruna. Þar heldur gamla vitleysan áfram í friði fyrir aðhaldi að utan. Þar vantar agann, sem fylgir væntanlegri inngöngu í ESB og upptöku evrunnar."

Undir lok greinarinnar segir Þorvaldur svo þetta: ..."þjóð, sem býr við ónýtan gjaldmiðil, sem enginn tekur lengur mark á, jafnvel ekki ríkisstjórnin sjálf, og enginn vill eiga, hún ætti kannski að gaumgæfa, hvort tímabært sé að skoða aðra kosti í gjaldeyrismálum. Þetta er ein ástæða þess, að ríkisstjórnin undanskildi ekki evruna, þegar hún lagði inn umsókn um aðild að ESB fyrir tveim árum."   


Stuðningur frá Dönum við aðildarumsókn Íslands

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, er staddur í Kaupmannahöfn vegna fundar Norðurlandaráðs, en þar ber einnig fleira á góma. Meðal annars ESB-málið. Í frétt á www.visir.is segir:

"Í tilkynningu segir að á fundunum hafi ráðherrarnir farið yfir stöðu mála í aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins en tveir kaflar í viðræðunum voru opnaðir og þeim lokað nú í október. Þá ræddu þeir fyrirhugaða formennsku Dana í Evrópusambandinu sem hefst um áramót en utanríkisráðherra hefur lýst því yfir að hann vilji opna alla útistandandi kafla í aðildarviðræðunum í formennskutíð Dana.

 „Á fundinum með Evrópuráðherra Dana staðfesti Nikolai Wammen eindreginn stuðning danskra stjórnvalda við mögulega aðild Íslands að ESB og vilja Dana til að viðhalda góðum gangi í viðræðunum."

Yfir þessu trompast svo menn á netinu, þ.e.a.s. þjóðernissinnarnir, sem vilja að Ísland búi við óstarfhæfan/ónothæfan gjaldmiðil og að almenningur og fyrirtæki á Íslandi, "njóti" (!) miklu hærri vaxtakjara en þekkjast á meginlandi Evrópu og enn hærri verðbólgu! 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband