Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

Jón Bjarnason í lið með höfuðandstæðingi VG!

Þann 18.12 sýndi Jón Bjarnson sitt rétta andlit, þegar hann hljóp undir pilsfald Framsóknar og Sjálfstæðisflokks og þeirra afla innan þessara flokka, sem eru á mót aðildarviðræðum Íslands og ESB.

Með því að ganga til liðs við þessa flokka og mynda nýjan meirihluta í utanríkismálanefnd Alþingis.

Hann gengur þar með í lið með höfuðandstæðingi VG í stjórnmálum og ekki nóg með það; samkvæmt fréttum Stöðvar tvö er þetta "útspil" Jóns brot á reglum flokksins. Jón hafði ekki samráð við einn eða neinn um þetta í flokknum.

Á Íslandi í dag eru gríðarsterk öfl sem vilja HINDRA og KOMA Í VEG FYRIR að þjóðin fái að greiða atkvæði um aðildarsamning, þegar hann liggur fyrir.

Gegn þessum öflum verður allt skynsamt fólk að berjast og krefjast þess að fá að greiða atkvæði um aðildarsamning, þegar hann liggur fyrir.

Hver er framtíð Jóns innan VG?


ESB-viðræður: Sex nýjir kaflar opnaðir, byggða og gjaldmiðilsmál þar á meðal

ESB-logo-auga2Á ríkjaráðstefnu Íslands og ESB sem haldin var í Brussel þann 18.12 kom fram að sex nýir kaflar voru opnaðir og einum kafla lokað. Alls hafa 27 kaflar verið opnaðir og að 11 köflum hefur verið lokað, að minnsta kosti til bráðabirgða.

Meðal þeirra kafla sem voru opnaðir núna eru kaflar um umhverfismál, peninga og gjaldmiðilsmál og byggðamál. Mjög stórir og mikilvægir kaflar.

Fram kom á fréttamannafundi að samningaviðræður Íslands og ESB ganga mjög vel og ánægja hjá báðum aðilum um gang ferlisins.


Vísitala neysluverðs 17.12 2012 - áhugaverð mynd!

Verðlag er í fréttum þessa dagana, enda hátt hér á landi. Hér er áhugavert skjáskot af www.m5.is

Visitala


Naglinn hittur á höfuðið!

Jónas Kristjánsson kemst oft mjög vel að orði og í færslu frá 17.12 segir: "Við búum í samfélagi, sem vill ekki nota alvöru gjaldmiðil, bara krónu."

Segir eiginlega allt sem segja þarf um gjaldmiðilsmálin! 


IPA umsóknir í faglegt mat

Á vef Utanríkisráðuneytisins segir í frétt:

"Umsóknarfrestur um IPA styrki til verkefna á sviði atvinnuþróunar og byggðamála og velferðar- og vinnumarkaðsmála, rann út 30. nóvember sl. Alls bárust 67 verkefnistillögur með umsókn um styrki en gert er ráð fyrir að styrkt verði allt að 20 verkefni um land allt. Til ráðstöfunar eru u.þ.b. 8.3 milljónir evra eða sem nemur 1,3 milljörðum ÍKR árinu 2013.

Verkefni sem styrkt verða skulu taka mið af "Ísland 2020" stefnumörkuninni og vera unnin í samstarfi a.m.k. þriggja aðila. Lágmarksstyrkur til hvers verkefnis er 200 þús. evrur, um 33 milljónir ÍKR, og að hámarki ein milljón evra, eða um 165 milljónir ÍKR.

Umsóknirnar skiptast nokkuð jafnt á milli landshluta sem og forgangssviðanna tveggja. Umsóknirnar fara nú í faglegt mat íslenskra og erlendra sérfræðinga og niðurstöðu er að vænta í apríl nk."


Ríkjaráðstefna Íslands og ESB á morgun, 18.12. 2012

Á Fésbókarsíðu Stefáns Hauks Jóhannessonar, stendur: "Er mættur til minnar gömlu heimaborgar Brussel þar sem ríkjaráðstefna Íslands og ESB fer fram í fyrramálið. Staða viðræðna lítur svona út í dag, en á morgun birti ég nokkuð breytta mynd."

stadan1712

Við hlökkum til að sjá nýja mynd :)

RÚV var með umfjöllun.


Þorsteinn Pálsson um ESB og friðarverðlaunin

Þorsteinn PálssonHelgarhugleiðing Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu þann 15.desember, fjallaði um friðarverðlaun Nóbels og þá staðreynd að ESB, fékk þau í ár. Þorsteinn skrifar til að byrja með:

"Friðarverðlaun Nobels hafa oft orðið kveikja að deilum. Ekki þurfti að koma á óvart að svo yrði einnig þegar tilkynnt var að Evrópusambandið hefði hlotið þau í ár. Hér heima hefur þessi ákvörðun gefið andstæðingum hugsanlegrar Evrópusambandsaðildar efni í örlítið hnútukast.

Þetta vekur tvær spurningar. Sú fyrri er: Verðskuldar Evrópusambandið þessa sæmd? Sú síðari er: Hefur Ísland hag af því að taka þátt í alþjóðasamstarfi sem stuðlar að friði?

Óumdeilt er að friðarhugsjónin er rótin að stofnun Evrópusambandsins. Það voru hugsjónamenn sem trúðu því að frjáls viðskipti og jöfn samkeppnisstaða ríkja væri ein af forsendum sátta og samlyndis. Þetta var hins vegar ekki unnt að sanna fyrir fram með útreikningum. Eftir á sýnir reynslan lengsta friðartíma í Evrópu.

Þá segja gagnrýnendurnir að friðurinn sé Atlantshafsbandalaginu að þakka. Sannarlega má ekki vanmeta mikilvægt hlutverk þess. Og viðurkenna verður að herstyrkur Bandaríkjanna hefur ráðið meir um árangur bandalagsins en varnarviðbúnaður Evrópuríkjanna sjálfra. En það breytir ekki hinu að sameiginlegar leikreglur um sameiginlega viðskiptahagsmuni hafa átt sinn ríka þátt í að varðveita friðinn; og þær vega þyngra nú en í byrjun.

Stundum er því haldið fram að friðarhugsjón Evrópusamvinnunnar skipti ekki máli lengur með því að sú tíð sé liðin að menn hafi áhyggjur af stríði. Víst er að sá ótti ristir ekki jafn djúpt og fyrrum. En eftir sem áður þarf að beita þeim ráðum sem menn kunna best til þess að sá ótti haldi áfram að fjarlægjast. Góð reynsla af meðulunum gerir þau einfaldlega ekki óþörf."


Boll Héðinsson, taka tvö!

Bolli Héðinsson, hagfræðingur, er í ritstuði þessa dagana og þann 14.desember birtist önnur grein hans um ESB-málið, á skömmum tíma. Þessi er með sniðugan "vinkil" og hefst á þessum orðum:

"Benedikt Gröndal rithöfundur leyfði sér stundum að hafna viðteknum skoðunum samferðamanna sinna. Hann kvartaði yfir skorti á víðsýni og framfaravilja og fyrirleit þá þjóðrembu sem viðgekkst á hans dögum. Enginn þarf þó að brigsla skáldinu um skort á ættjarðarást.

Um þetta skrifaði hann greinar í blöð og nú, rúmum 140 árum síðar, er fróðlegt að bera saman hvað hefur breyst í íslenskri umræðu frá þeim tíma. Hér er tilvitnun í grein eftir skáldið frá 1870. Ef við setjum Evrópusambandið (ESB) í staðinn fyrir þar sem áður stóð „Dani" eða „danskur" fáum við eftirfarandi út:

„Menn eru sí og æ að hreyta í kringum sig sömu orðtækjunum, svo sem að þjóðerni vort sé í veði fyrir árásum [ESB] og stjórnarinnar – meiningin er náttúrulega þessi: Íslendingar, hæstvirtu og elskuðu landar! Þér eruð makalausir og eigið ekki yðar líka nokkurs staðar í heiminum, þér eruð saklausir englar og sannleikans píslarvottar, klipnir og kúgaðir af [ESB] án allrar verðskuldunar, niðurníddir, krossfestir, kvaldir og deyddir af þessum grimmdarlegu og samviskulausu böðlum og blóðhöndum, sem hafa tekið allar eignir yðar og vilja nú taka af yður lífið, því þér eigið ekkert annað eftir. Allir þeir […] eru [ESB-] sinnaðir djöflar og „[ESB-] Íslendingar" keyptir og haldnir af stjórninni til þess að hamla framförum vorum og halda oss í eymdinni."


Urmas Paet, utanríkisráðherra Eistlands:Reynsla Eistlands af upptöku evru og aðild að Evrópusambandinu

Urmas PaetUtanríkisráðuneytið og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands bjóða til opins fundar með Urmas Paet, utanríkisráðherra Eistlands, miðvikudaginn 19. desember frá kl. 12:05 til 13:30 í Þjóðmenningarhúsinu.

Fundurinn er haldinn í samstarfi við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, opnar fundinn. Urmas Paet, utanríkisráðherra Eistlands, fjallar um reynslu Eistlands af Evrópusambandsaðild og þátttöku í myntsamstarfinu. Að erindi loknu fara fram pallborðsumræður.  

Urmas Paet hefur verið utanríkisráðherra Eistlands síðan árið 2005. Hann er stjórnmálafræðingur að mennt með meistaragráðu í alþjóðasamskiptum frá Oslóarháskóla.

Léttar veitingar eru í boði fyrir fundargesti. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Fundurinn fer fram á ensku.


Enn húmoristar á Morgunblaðinu!

Það eru enn húmoristar á Morgunblaðinu! Laugardaginn 15.12 birtist nokkuð (óvenjulega) langt viðtal við Birnu Þórarinsdóttur, sem stýrir Evrópustofu í pappírsútgáfu MBL. Þar var verið að ræða við hana um starfsemi næsta árs, sem samkvæmt þessu ágæta viðtali verður umtalsverð.

Síðan kom þessi frétt á MBL.is, sem er svona "skop-útgáfa" af viðtalinu, svona létt helgargrín. Vegna þess að það lesa fleiri MBL.is en pappírinn?

Fréttin ber öll þess merki að hæðast skuli að ESB og sem myndskreyting er notuð (að sögn blaðsins) pólsk saumakona að sauma fána ESB.

Skyldi Morgunblaðið eiga myndir af saumakonum frá öllum aðildarríkjum ESB, sem eru að sauma fána?

Áhugaverð spurning!!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband