Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

Kjaraskerðing í Speglinum

PrósentÍ Speglinum á RÚV, þann 14.des var rætt um kjaraskerðingu undanfarinna ára við Dr. Stefán Ólafsson. Þetta er í framhaldi af pistli hans á Eyjunni um þetta mál og sem sagt var frá hér á blogginu.

Samkomulag um bankabandalag í höfn

Fjármálaráðherrar ESB-ríkjanna hafa náð samkomulagi um að mynda bankabandalag og auka þar með eftirlit með bankakerfum aðildarríkjanna. Það á að hefja starfsemi 2014.

Meira að segja Svíar styðja samkomulagið, þó þeir verði ekki með um sinn, en þeir notast við sænsku krónuna. Anders Borg, fjármálaráðherra landsins, sagði við fjölmiðla eftir fundinn að þeir hefðu sett fram stífar kröfur, sem fallist hefði verið á. Hann var ánægður með samkomulagið.

Hér heima hafa andstæðingar ESB gargað hástöfum yfir því (af gleði!) að Svíar hefðu ekki ætlað að vera með!

Þá er einnig gargað yfir því að ekkert tillit sé tekið til smáríkja innan ESB. Þetta afsannar það rugl!

Séu lönd með sanngjarnar skýrar og vel framsettar kröfur, þá er hlustað á það.


Cameron: Vill ekki að Bretlandi verði stjórnað með faxtæki

Faxvél"Við verðum eins og Noregur ef við göngum úr Evrópusambandinu," hefur The Daily Mail eftir David Cameron, vegna sífellds nöldurs einhverra breskra þingmanna um að Bretland eigi að segja sig úr ESB. Það er hætt við að landinu verði stjórnað með faxtæki:

"Britain faces being ‘governed by fax’ from Brussels and reduced to the standing of Norway if it leaves the European Union but stays in the single market, the Prime Minister said yesterday. At a lunch in Westminster David Cameron insisted he did not want Britain to leave the EU."

Hugsmiðjan OpenEurope hefur líka gert samantekt sem sýnir fram á að það myndi ekki þjóna hagsmunum Breta að yfirgefa ESB, enda Evrópa mikilvægasti markaður landsins.

Og brotthvarf Breta úr ESB myndi sennilega ekki þjóna hagsmunum þeirra bresku fjölmiðla sem eyða spaltmetrum í þúsundavís í að agnúast og pirrast yfir ESB. Hvað í ósköpunum á maður að tala um, ef "bogna gúrkan" er ekki á svæðinu?

Líklega þyrftu sum "gulu blöðin" að grípa til þess ráðs að finna enn fleiri "bikini-stelpur" í staðinn :)

Ps. Svo er verið að draga hingað heiðvirðar þingkonur til að tala um þetta. Út í mitt Atlantshaf!

 


Stefán Ólafsson á Eyjunni: Krónan - Evrópumet í kjaraskerðingu

Dr. Stefán Ólafsson birti þann 12.12.12, mjög áhugaverðan pistil um krónuna, með yfirskriftinni: Krónan - Evrópumet í kjaraskerðingu. Kíkjum á nokkur brot úr pistlinum:

"Hrunið á Íslandi var einstakt. Mörg met voru slegin. Stærsta bóluhagkerfi sögunnar brast og við tók stærsta fjármálahrun sögunnar, með nokkrum stærstu gjaldþrotum sögunnar (sjá um það hjá Þorvaldi Gylfasyni).

Eitt metið sem Íslendingar settu hefur þó ekki farið hátt á metorðalistum þjóðanna. Hér varð meiri kjaraskerðing fyrir heimilin en sést hefur annars staðar í kreppunni, raunar fyrr og síðar. Við getum þakkað íslensku krónunni fyrir það."

"Þegar við berum okkur saman við tölur ársins 2007, sem voru líklega ósjálfbærar, verður hrunið afar mikið (um 41%), mælt í erlendum gjaldmiðli (Evrum). Mælt í krónum eða með kaupmáttarsamræmingu gjaldmiðla er það minna (um 20% að jafnaði), en mikið samt."

"Af myndinni (nokkrar mjög athyglisverðar töflur fylgja pistli Stefáns, innskot, ES-bloggið) má sjá að hvergi í Evrópu var kjaraskerðingin meiri en hér á landi. Við hrundum úr efsta sæti niður í tólfta sæti. Flestar ESB þjóðirnar hafa haldið ráðstöfunartekjum sínum að mestu leyti og margar hafa aukið þær. Atvinnuleysið er stærsti vandi evrópskra heimila. Aðrar þjóðir sem eru með umtalsverða lækkun tekna heimilanna eru Bretland, Írland, Spánn og Lettland. Eftir 2010 hefur staðan versnað á Írlandi, Spáni,Portúgal og í Grikklandi. Ef miðað er við kaupmáttarleiðrétt gengi er það einungis Lettland sem er á svipuðu róli og Ísland í umfangi kjaraskerðingar.

Við getum þakkað krónunni þetta met, sem virðist án fordæma í yfirstandandi kreppu. Það var gengisfall íslensku krónunnar sem gat af sér stærstu kjaraskerðingu kreppunnar. Gengisfelling krónunnar færir umtalsverðan hluta þjóðarteknanna frá heimilunum til atvinnulífsins.

Ríkisstjórnin gat mildað kjaraskerðinguna fyrir lægri og milli tekjuhópa. Hún varð samt mikil fyrir flesta. Skuldir heimilanna eru nú að jafnaði svipaðar og var fyrir hrun (2006-7) og mikil hækkun vaxtabóta léttir skuldabyrðina. Hins vegar eru ráðstöfunartekjurnar enn miklu lægri en var fyrir hrun. Þess vegna er þetta enn svona erfitt fyrir heimilin.

Íslensk heimili eru leiksoppar þeirra afla sem hafa hag af viðhaldi krónunnar. Gengisfellingarkrónunnar."

(Leturbreyting, ES-bloggið)


Fullveldissinnar framkvæmdastjóra fátækari

þúfaOft veltir lítil þúfa þungu hlassi, segir máltækið.

Eftir "skjálftahrinu" sem varð um síðustu helgi, þegar einn framámanna í Nei-samtökum Íslands, sagði á bloggi samtakanna, að koma þyrfti VG af þingi, vegna (að hans mati) meintra svika flokksins í ESB-málinu, þá var eins og minki hefði verið sleppt í hænsnabúi. Fjaðrafokið varð þvílíkt.

Nú hefur sá sami (sem er reyndar einn af stofnaðilum Nei-samtakanna), ákveðið að taka pokann sinn og halda á önnur mið. Hvað fiskast þar skal ósagt látið. Það var Smugan sem sagði frá.

Eftir sitja löskuð samtök fullveldissinna, sem eru nú framkvæmdastjóra fátækari.

Kannski má líta á þetta sem "Evru-krísu" Nei-samtakanna.

Evran er enn ekki dauð, við sjáum hvað setur með Nei-samtökin.


Egill Almar Ágústsson í Viðskiptablaðinu: Fjárfestum í hagsæld

Á vef JáÍsland stendur: "Egill Almar Ágústsson, meistaranemi í hagfræði og fjármálum við Brandeis háskóla í Bandaríkjunum, ritaði grein sem birtist í Viðskiptablaðinu þann 29. nóvember, en í greininni fjallar hann um viðskiptaumhverfið á Íslandi, vankanta þess og nauðsyn þess að byggja grunn fyrir meiri fjárfestingu og þar með aukna framleiðni hér á landi. Greinina má lesa hér að neðan.

Nýlega gaf McKinsey og Company út skýrslu um íslenskan efnahag. Ein af þeirra niðurstöðum var sú að Ísland er með 20% lægri framleiðni en löndin sem við viljum bera okkur saman við. Við vinnum lengur en nágrannaþjóðir okkar og fáum lægri laun. Skýrslan fjallar enn fremur um að viðskiptaumhverfið sé lélegt á Íslandi, að fjármögnun sé erfið og að fjárfesting sé allt of lítil. Í raun er skýrslan að segja að það verði að laga grunnviðskiptaumhverfið á Íslandi til þess að byggja upp grunn fyrir meiri fjárfestingu og þar með aukinni framleiðni og þar með hagvöxt og hagsæld. Menntun er annað lykilatriði en ég ætla ekki að fjalla um hana hérna. Förum aðeins yfir þá hluti sem þarf að laga.

Það þarf að laga viðskiptaumhverfið

Fyrirtæki fjármagna sig í dag á lélegum kjörum. Vextir eru breytilegir eða lánin verðtryggð. Fastir vextir eru varla í boði til langs tíma og jafnframt eru vextir mikið hærri en í nágrannalöndum. Lánakerfið á Íslandi gerir það að verkum að fyrirtæki geta orðið fyrir miklum skakkaföllum. Þetta kemur í veg fyrir að fyrirtæki geti fjárfest sem er alger grundvöllur þess að framleiðni fyrirtækjanna aukist. Enn fremur gera háir vextir og léleg kjör það að verkum að fyrirtæki ákveða ekki að fjárfesta þrátt fyrir að tækifærin séu fyrir hendi. Jafnframt gera skakkaföll tengd fjármögnun það að verkum að fjárfesting sem hefur átt sér stað getur tapast. Þetta gerðist í hruninu. Fyrirtæki sem höfðu verið í góðum rekstri voru eyðilögð vegna þess að lánin hækkuðu. Þetta leiddi til gífurlegs taps fyrir Ísland og lækkaði getu atvinnulífsins til að greiða há laun.

Hvernig aukum við framleiðni?

Í hagfræði er fjallað um að einn aðalgrundvöllurinn fyrir hagvexti og hagsæld sé að land sé með mikla fastafjármuni. Fastafjármunir eru hlutir í hagkerfinu sem við höfum fjárfest í og eru notaðir til að búa til þá framleiðslu sem hagkerfið byggist upp á. Með fastafjármunum er átt við hótelin sem gera okkur kleift að bjóða ferðamönnum til Íslands, skipin sem gera okkur kleift að veiða fisk, tölvurnar sem gera okkur kleift að skrifa hugbúnað og allt annað sem við notum til að búa til þá framleiðslu sem er þjóðarframleiðsla Íslands. Ef land býr yfir miklum fastafjármunum er framleiðni há og þar með eru laun há.

Það þarf meiri fjárfestingu

Við þurfum að byggja upp umhverfi þar sem mikil innlend- og erlend fjárfesting á sér stað. Til að ná þessu markmiði þurfum við að vera með gott viðskiptaumhverfi. Við þurfum að losa okkur við gjaldeyrishöftin og auka framleiðni í efnahagnum.

Lykilatriði til að ná þessum markmiðum er að taka upp alþjóðlegan gjaldmiðil og eina leiðin til að gera það er að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Með því að taka upp evru lögum við fjármögnunarumhverfið á Íslandi. Vextir lækka mikið en það verður líka hægt að taka lán með föstum vöxtum til langs tíma. Þetta mun gera fyrirtækjum (og einstaklingum) kleift að búa til áætlanir og fjárfesta mun meira en áður. Þetta mun gera það að verkum að breyting í gengi gjaldmiðilsins mun ekki eyðileggja fyrir fjárfestingunum. Upptaka evru og meðfylgjandi afnám gjaldeyrishafta mun leiða til meiri erlendrar fjárfestingar. Erlendir fjárfestar vilja stöðugt viðskiptaumhverfi þar sem hægt er að byggja upp rekstur. Þeir hræðast gjaldeyrishöft og mikið flökt á genginu.

Við verðum að auka framleiðni hér á landi og leiðin til þess er að bæta viðskiptaumhverfið og þar með auka fjárfestingu í því sem eykur framleiðni. Með aukinni framleiðni getum við hækkað laun og lífskjör í landinu. Evra og Evrópusambandið er grundvallaratriði ef við ætlum að ná þessu góða markmiði.


Ítalía og Ísland: fjármálakreppa með og án evru

H.Í.Aðferðir ítalskra og íslenskra stjórnvalda til þess að takast á við afleiðingar hinnar alþjóðlegu efnahags- og fjármálakreppu eru meginviðfangsefni opins málþings sem Seðlabanki Íslands, Sendiráð Ítalíu á Íslandi og Háskóli Íslands standa saman að fimmtudaginn 13. desember kl. 15:00-17:00 í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Yfirskrift málþingsins er „Ítalía og Ísland: fjármálakreppa með og án evru“.

Markmið málþingsins að varpa skýrara ljósi á hvernig Ítalía, sem aðili að ESB og evrusvæðinu, og Ísland, sem aðili að EES-samningnum og með sinn eigin gjaldmiðil, tókust á við hina alþjóðlegu efnahags- og fjármálakreppun og að setja reynslu þeirra í alþjóðlegt og evrópskt samhengi. Á málþinginu munu fulltrúar beggja landa ásamt fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi fjalla um ólíka nálgun þjóðanna við lausn efnahagserfiðleika sinna.

Dagskrá


Setning:

15:00-15:05 Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands
15:05-15:10 Antonio Bandini, sendiherra Ítalíu á Íslandi

Inngangsávarp:

15:10-15:20 Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra

Erindi:

15:20-15:40 Giannandrea Falchi, framkvæmdastjóri skrifstofu bankastjóra Seðlabanka Ítalíu, ræðir um reynslu evruríkjanna í fjármálakreppunni með sérstakri áherslu á Ítalíu.
15:40-15:55 Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, fjallar um áhrif hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu á Íslandi í samanburði við önnur lönd innan og utan evrusamstarfsins.
15:55-16:10 Gylfi Zoëga, prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands og nefndarmaður í peningastefnunefnd, ræðir þær áskoranir sem fram undan eru í íslensku efnahagslífi.
16:10-16:25 Franek Rozwadowski, fastafulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, fjallar um aðlögunarferli Íslands í alþjóðlegu samhengi.

16:25-16:55 Pallborðsumræður

Samantekt:

16:55-17:00 Már Guðmundsson seðlabankastjóri

Málþingið er öllum opið meðan húsrúm leyfir en það fer fram á ensku. Sendiráð Ítalíu á Íslandi býður upp á léttar veitingar í lok málþings.


Um listina að skjóta sig í fótinn

Óhætt er að segja að Nei-samtök Íslands, hafi afhjúpað sig sem "karlstýrð" og jafnvel and-lýðræðisleg, í kjölfar yfirlýsingar eins áhrifamanns þar innanborðs um VG um síðustu helgi. Þess efnis að koma verði VG út af þingi.

Vinstri-miðillinn Smugan hreinlega logar og greinilegt að þetta hefur hleypt mjög illu blóði í liðsmenn VG, sem þegar eru byrjaðir að segja sig úr samtökunum. Virtir aðilar innan þeirra eru vægast sagt óhressir!

Innan þessara samtaka eru aðilar sem  vilja minnka lýðræðið á Íslandi, ekki bara á Alþingi Íslendinga, heldur vilja þau líka meina íslensku þjóðinni að greiða atkvæði um aðildarsamning að ESB, í kjölfar aðildarviðræðna.

Nei-samtökin innihalda einstaklinga í áhrifastöðum sem eru hreinlega að "drepast" út lýðræðisást!

Fyrir þá sem telja opna og fjölbreytta umræðu aðalsmerki lýðræðis er það alveg ljóst í hvaða samtökum þeir eiga ekki heima!


Árni Finnsson, Evrópumaður ársins: "Evrópusambandsríkin eru klárlega þau iðnríki sem mesta ábyrgð taka í loftslagsmálum"

Smugan_lógóSmugan segir frá: "Skuldbindingar Íslands og Evrópusambandsins á grundvelli Kyoto-bókunarinnar eru stórt framfaramál að mati Árna Finnssonar formanns Náttúruverndarsamtaka Íslands: ,,Að Ísland fengi aðild að loftslagsstefnu ESB lá fyrir á Kaupmannahafnarráðstefnunni 2009 en í Doha var hún loks innsigluð,” segir hann. ,,Evrópusambandsríkin eru klárlega þau iðnríki sem mesta ábyrgð taka í loftslagsmálum og frá og með Doha er Ísland hluti þess ríkjasambands hvað þann málaflokk varðar. Þessi nýja staða mun skerpa á skuldbindingum Íslands samkvæmt Kyoto-bókuninni og setja loftslagsstefnu Íslands mun skýrari ramma. Tímabil sérstöðupólitíkur og undanþága fyrir Ísland eru liðin tíð."

Hrikalegar verðhækkanir hér á landi - fimmfalt á við nágrannalöndin

RÚVRÚV birti þann 10. desember enn eina "hryllingsfréttina" um verðhækkanir hér á landi undanfarin misseri:

 "Vöruverð hefur hækkað tæplega fimmfalt meira hér á landi frá árinu 2005 en í Svíþjóð. Mestar verðhækkanir hafa hér verið á áfengi, tóbaki og samgöngnum.

Það fer væntanlega ekki framhjá neinum að verð á vöru og þjónustu hækkar stöðugt hér á landi. Í nýrri skýrslu - þar sem Norðurlöndin eru borin saman - kemur í ljós að verðið hækkar mun hraðar á Íslandi heldur en á hinum Norðurlöndunum.

Almennt er það þannig að á sama tíma og verð hækkar um ellefu til þrettán prósent í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi nemur hækkunin hér tæpum fimmtíu og fimm prósentum. Það þýðir að verð hefur hækkað fimmfalt meira hér en í Svíþjóð og um fjórfalt meira en í Finnlandi."

Hversvegna er þetta svona?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband