Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Fyrirlitningin

MBLHatur ritstjóra Morgunblaðsins (sem einu sinni var forsætis og utanríkisráðherra og Seðlabankastjóri) á ESB og öllu sem því viðkemur, er næsta takmarkalaust.

Þetta birtist vel í skrifum blaðsins um brotthvarf sendiherra ESB á Íslandi, Finnans Timo Summa, héðan af landi, vegna þess að hann er að fara á eftirlaun.

Hatrið og fyrirlitningin sem grær í Hádegismóum nær einnig til hans eins og sést á Stakesteinum MBL þann 8.3, þar sem skrifað er:

"Svo sem kunnugt er þykir Summa sendiherra hafa þverbrotið reglur um að erlendar sendiskrifstofur skuli alls ekki blanda sér í deilumál gistiríkis, né vera með áróðursstarfsemi. Það hefur hann gert með óboðlegum hætti og með því sýnt gistiríkinu fyrirlitningu."

Enginn hefur kvartað undan störfum Timo Summa hér á landi, sem fyrst og fremst hefur falist í því að veita upplýsingar og svara fyrirspurnum, mæta á fundi og slíkt. Summa hefur talað við alla, bæði fylgjendur og andstæðinga ESB!

Skrif MBL dæma sig sjálf og sýna fyrst og fremst hve djúpt blaðið er sokkið í fúlan pytt fyrirlitningar og haturs.


Katrín Jakobs í Klinkinu

Katrín JakobsdóttirKatrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra og nýr formaður VG, var gestur Klinksins hjá Þorbirni Þórðarsyni, fréttamanni Stöðvar tvö fyrir skömmu. Þar var spjallað vítt og breitt um málin.

Þar nefndi Katrín (sem að mörgu leyti er mjög jarðbundinn og raunsær stjórnmálamaður) aftur þá hugmynd um viðræður við Norðmenn um samtarf á sviði gjaldmiðilsmála.

Þetta er ekki ný hugmynd (þ.e. upptaka norskrar krónu), en henni var á sínum tíma hafnað af Norðmönnum og þótti ekki raunsær. Viðskipti landanna eru í raun einnig lítil, aðeins um 27 milljarðar árið 2011.

Það er spurning hver næstu skref Katrínar verða í þessu máli?


Um 75% Ítala vilja halda Evrunni

Í frétt á Visir.is segir: "Niðurstöður nýrrar skoðanakönnunnar um afstöðu Ítala til evrunnar og Evrópusambandsins ganga þvert á úrslitin í þingkosningunum í síðasta mánuði.

Könnun sem blaðið Corriere della Sera lét gera sýnir að mikill meirihluti Ítala vill halda evrunni áfram og þeir hafa engann áhuga á að kjósa um hvort landið eigi áfram að vera í Evrópusambandinu eða ekki.

Um 74% Ítala vill halda evrunni og um 69% segjast vera andvíg því að kjósa um veruna í Evrópusambandinu. "

Áður en Ítalir fengu Evruna voru þeir með Líru, sem var oft gengisfelld og henni fylgdu mikil verðbólguskeið, t.d. var verðbólga á Ítaliu um 25% árið 1973. Frá 2003 hefur verðbólga á Ítalíu verið á bilinu 1-3 %, á síðasta árið var hún um 2.5% (sem er verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands, en það markmið hefur aðeins náðst á örstuttu tímabili árið 2003, ef ritara misminnir ekki.)

Fyrsta setningin í sambandi við verðbólgumarkmiðið er þessi: "Markmið stefnunnar í peningamálum er stöðugt verðlag."

Meðalverðbólga á Íslandi á lýðveldistímanum hefur hinsvegar verið um 20% á ári.


45% minni hagvöxtur á milli ára - hvar eru kraftaverk krónuhagkerfisins?

Á RÚV segir: "Hagvöxtur á síðasta ári var langt innan við það sem spáð hafði verið. Hagvöxtur síðasta árs nam 1,6 prósenti samkvæmt riti Hagstofunnar um Landsframleiðsluna 2012 sem gefið var út í morgun.

Það er mikill samdráttur frá árinu 2011 þegar hagvöxtur var 2,9 prósent og var það fyrsta hagvaxtarárið eftir tvö samdráttarár.

Hagvöxturinn í fyrra er mun minni en spár gerðu ráð fyrir, þó spárnar hafi verið lagfærðar síðustu misseri og spár um hagvöxt lækkað. Þannig var spáð 3,4 prósenta hagvexti á síðasta ári í þjóðhagsspá Hagstofunnar 2010. Síðasta vor og sumar gerðu flestar spár ráð fyrir tveggja og hálfs til 3,3 prósenta hagvexti. Lægstu hagvaxtarspárnar voru frá Alþýðusambandi Íslands og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum sem bæði spáðu liðlega tveggja prósenta hagvexti. Raunin var 1,6 prósenta hækkun."

Þetta er að sjálfsögðu mun minni hagvöxtur en þarf til að skapa ný störf, standa undir greiðslum af lánum ríkisins (svo viðunandi sé) og svo framvegis. Hvar eru kraftaverkin sem krónuhagkerfið átti að framkvæma?


Jörðin er flöt!

flat-earthNú er "ritskoðunarsinninn" Vigdís Hauksdóttir alveg að missa sig yfir ESB-málinu og hatur hennar á ESB og öllu sem því tengist virðist næsta takmarkalaust.

Vigdís er ein af þeim sem í alvöru talar um að láta loka Evrópustofu. Vinnubrögð sem þessi tíðkast helst í ríkjum sem einkennast af einhverju allt öðru en lýðræði og opinni umræðu.

Í fyrirspurnartíma á Alþingi gekk Vigdís svo skrefinu lengra og sagði að starfsmenn Evrópustofu færu um landið og reyndu að heilaþvo landsmenn! Um þetta var fjallað í hádegisfréttum RÚV þann 8.3.

Í viðtali á Útvarpi sögu um daginn sagði Vigdís einnig að einn helst hvatinn að ESB-málinu væri embættismannakerfið og þar hefðu menn vonir um að fá feitar stöður í Brussel. Í sama viðtali sagði hún að einkavæðing íslensku bankanna hefði fariðí gangn vegna krafna sem kæmu frá EES-samningum. Sem er að sjálfsögðu kolrangt, hvort tveggja.

Þegar fólk fer um ljósvakann með jafn mikið bull og þetta, veit maður ekki hvort maður á að hlæja eða gráta!

Og það versta er kannski að í kjölfar kosninganna er alvöru hætta á því að umræddur þingmaður verði ráðherra!

Guð blessi Ísland!


Tvær góðar greinar í FRBL

FRBLVert að vekja athygli á tveimur góðum greinum í FRBL í dag. Sú fyrri er eftir Helga Magnússon, fyrrum formann Samtaka iðnaðarins en hann er m.a að velta fyrir sér eftirköstunum eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins. Helgi skrifar m.a. annars um þá ákvörðun landsfundarins að hætta beri aðildarviðræðum við ESB:

"Ekki er unnt að draga aðra ályktun af þessu en þá að flokkurinn treysti þjóðinni ekki til að taka þessa mikilvægu ákvörðun. Ef menn trúa því að kjósendur fari sér að voða í þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB þá er það ekkert annað en grímulaus forsjárhyggja og hún er Sjálfstæðisflokknum ekki samboðin og fellur ekki að grunnstefnu hans.

En hvers vegna verður þá einangrunarstefna ofan á þegar landsfundur ályktar? Á því kunna að vera ýmsar skýringar. Ein er sú að nokkrir fyrrum ráðamenn í flokknum hafa lengi farið mikinn í öfgakenndri andstöðu sinni við Evrópusambandið og mælt eindregið gegn samningaviðræðum, hvað þá samningum, og einskis svifist í málflutningi sínum. Þeir voru fyrirferðarmiklir á fundinum og höfðu sitt fram ekki síst vegna þess að núverandi forysta flokksins er veik og ráðvillt og hefur ekki burði til að leiða stefnumótun flokksins inn á farsælar brautir. Fyrir það mun flokkurinn gjalda í komandi kosningum.

Ég hef þá trú á sjálfstæðisfólki almennt að því líki ekki við eingangrunartilburði og gamladags hræðsluáróður. Réttkjörnir forystumenn flokksins hljóta að sjá þetta en þá virðist skorta kjark og þor til að standa gegn háværum öfgaöflum."

Í þeirri síðari skrifar Magnús Þorlákur Lúðvíksson um gjaldmiðilsmál í grein sem ber yfirskriftina Sir Alex Ferguson bjargar krónunni, þar sem hann segir m.a.: "Krónan er ekkert vandamál í sjálfu sér. Vandinn er sá að hagstjórnin á Íslandi hefur ekki verið nægilega vönduð. Með agaðri hagstjórn verður krónan ekkert vandamál." Þetta er algengt viðkvæði þessa dagana þegar gjaldmiðilsmálin ber á góma og auðvitað er í þessu sannleikskorn. Það þarf ekki mikla þekkingu á efnahagsmálum til að átta sig á því að léleg hagstjórn mun meðal annars valda vandamálum sem gera vart við sig í gegnum gengi krónunnar.

Það er þó ekki þar með sagt að krónan valdi engum vandræðum jafnvel þótt hagstjórnin verði í heimsklassa. Góð hagstjórn mun ekki breyta því að gjaldeyrismarkaður með krónur og skuldabréfamarkaður í krónum munu áfram verða litlir. Og vextir fyrir vikið háir. Þá mun gengisleki áfram verða mikill, sem þýðir það að gengissveiflur krónunnar hafa meiri áhrif á verðlag á Íslandi en til dæmis gengissveiflur í dölum hafa á verðlag í Bandaríkjunum. Verðbólga verður sem sagt áfram hærri hér. Þá má að lokum nefna rannsóknir Seðlabankans sem benda til þess að krónan hafi fremur verið sjálfstæð uppspretta sveiflna í íslensku hagkerfi en dempari á þær. Loftlaus fótbolti mun hægja á spili á fótboltaliðsins jafnvel þótt Sir Alex Ferguson sé fenginn til að stýra því."


Formaður SA: Ber að klára viðræður við ESB - eina leiðin til að komast að niðurstöðu!

RÚVÁ RÚV segir: "Björgólfur Jóhannsson, nýkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins, vill ljúka aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Heildarhagsmunir eigi að ráða en viðunandi niðurstaða verði að fást fyrir sjávarútveginn. Það sé þó þjóðin sem eigi lokaorðið.

Björgólfur segir að málið sé í ákveðinni vegferð núna samkvæmt ákvörðun Alþingis. Það séu misjafnar skoðanir á því í samfélaginu og innan Samtaka atvinnulífsins."

Síðan segir í fréttinni að Björgólfur telji að að það verði að fá niðurstöðu í þetta mál og að hann..."sjái ekki aðra leið hvernig komast megi að þeirri niðurstöðu en að ljúka þeirri vegferð sem við séum í."

Þetta er mjög skynsamleg afstaða hjá formanni SA!


Stöðugur gjaldmiðill - raunhæf fyrstu skref - fundur á Sólon 8.mars kl. 12.00

Félag frjálslyndra jafnaðarmanna og Sjálfstæðir evrópumenn boða til hádegisfundar um leiðina út úr núverandi stöðu í peningamálum og að stöðugum framtíðargjaldmiðli.

Stöðugur gjaldmiðill er eitt brýnasta hagsmunamál fyrirtækja og heimila enda forsenda lægri verðbólgu og vaxtakostnaðar. Upptaka evru með aðild að Evrópusambandinu og aðlögun í gegnum ERM II myntsamstarfið er raunhæfasta leiðin til að tryggja þetta markmið til frambúðar. En hvaða skref þarf að stíga nú til að komast út úr núverandi stöðu íslensks hagkerfis og inn í fordyri evrunnar? Er stuðnings að vænta við verkefnið?

Georg Brynjarsson, hagfræðingur hjá Utanríkisráðuneytinu, mun flytja inngangserindi sem lýsir leiðinni og helstu hindrunum á vegferð okkar að stöðugum framtíðargjaldmiðli. Georg er starfsmaður svokallaðs AdHoc starfshóps íslenskra stjórnvalda, evrópska seðlabankans, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og hefur rannsakað sérstaklega leið ríkja að inngöngu í ERM II og þau skilyrði sem þarf að uppfylla.

Þorsteinn Víglundsson, fulltrúi Sjálfstæðra Evrópumanna og Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir, fulltrúi Félags frjálslyndra jafnaðarmanna bregðast við erindi Georgs og taka svo þátt í pallborði ásamt frummælanda og svara spurningum fundargesta.

Fundurinn, sem er öllum opinn, verður haldinn föstudaginn 8. mars á 2. hæð Kaffi Sólon, Bankastræti og stendur frá kl. 12 til 13:15.
 

Gestir eru hvattir til að mæta tímanlega. Hægt er að kaupa léttan hádegisverð á staðnum.
 

Kaupmáttur og slæm hagstjórn - getur þetta farið saman?

Hagstjórnarhugtakið, agi í sambandi við það og annað þessu tengt er nú mikið rætt í aðdraganda kosningabaráttunnar. Meira að segja sumir örgustu andstæðingar alls sem kemur frá Evrópu hafa sagt að við Íslendingar þyrftum og ættum að stefna að því að uppfylla Maastricht-skilyrðin.

Okkur hér á blogginu var bent á áhugaverða grein eftir Hálfdán Örlygsson, hagfræðing og framhaldsskólakennara, sem var rituð eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins árið 2007 (þegar allt lék í lyndi). Hálfdán segir í byrjun greinar:

"Er hægt að tala um slæma hagstjórn þegar kaupmáttur þjóðarinnar eykst um 60% á 10 árum? Þessari spurningu varpaði Geir Haarde fram á landsfundi Sjálfstæðisflokksins nýverið. Mér finnst með öllu ótækt að forsætisráðherra sé ekki ansað þegar hann varpar fram jafn mikilvægri spurningu og vil því leggja mitt að mörkum. Svar mitt við spurningu Geirs er já, því miður og fyrir því eru í meginatriðum þrjár ástæður.

1. Kaupmáttur sem á rót að rekja til gífurlegrar útlánaþenslu og skuldasöfnunar heimila er falskur og í raun ekkert annað en tilflutningur á kaupmætti frá framtíð til nútíðar. Stjórnvöld sem stuðla að slíku með losarabrag í peningamálastjórn geta hælt sér af veislugleði en ekki góðri hagstjórn.

2. Kaupmáttur sem á rót að rekja til skattalækkana í uppsveiflu er ágætur þangað til í ljós kemur í næstu niðursveiflu að grafið hefur verið undan tekjustoðum velferðarkerfisins. Ríkisstjórn sem ekki skilur samhengið á milli hagvaxtar og afkomu ríkissjóðs fær ekki háa einkunn fyrir hagstjórn. Nema auðvitað hjá þeim hópi frjálshyggjumanna sem enn halda á lofti hugmyndum Ronalds Reagan um ríkisfjármál. Hugmyndum sem Georg Bush eldri kallaði vúdúhagfræði eins og frægt er orðið.

3. Kaupmáttur sem byggist á ofmati á styrk íslensku krónunnar er rammfalskur og hefur í tilfelli okkar Íslendinga leitt til hrikalegs viðskiptahalla og erlendrar skuldasöfnunar. Íslenska krónan er leikfang spákaupmanna sem þessa dagana þóknast að halda henni í fáránlegum hæðum en geta án fyrirvara fleygt henni fyrir björg.

Hverju ætla stjórnvöld, sem horft hafa á þetta ástand skapast án þess að lyfta fingri, að kenna um ef svo illa fer að gengi krónunnar hrapar um tugi prósenta? Hver mun axla ábyrgðina af verðbólgugusu og kaupmáttarskerðingu sem af sliku leiðir? Framsóknarmenn? Svar mitt við spurningu Geirs er í stuttu máli að aukinn kaupmáttur og slæm hagstjórn geti hæglega farið saman og hafi svo sannarlega gert það í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Hinn aukni kaupmáttur stafar því miður að litlu leyti af eflingu atvinnulífs. Hér hefur hins vegar verið haldin mikil og stjórnlaus veisla út á krít að hætti Sjálfstæðisflokksins. Reikningar munu berast og eru reyndar farnir að berast íslenskum heimilum í formi ört vaxandi greiðslubyrði af lánum." 


ESB styrkir Háskólann í Reykjvík, sem fær 230 milljónir

RÚVRÚV segir frá: "Rannsóknamiðstöð í nýsköpun og frumkvöðlafræðum við Háskólann í Reykjavík hlaut nýverið styrk að jafnvirði tvö hundruð og þrjátíu milljónir króna. Styrkurinn er frá Evrópusambandinu, hluti áætlunar sem styður samstarf háskóla og atvinnulífs.

Styrkurinn telst gríðarhár á íslenskan mælikvarða, meðalhár kannski á mælikvarða Evrópusambandsins. Styrknum á að verja næstu fjögur árin til rannsókna á því hvernig lítil og meðalstór fyrirtæki í skapandi atvinnugreinum geta endurbætt viðskiptalíkön sín til að bæta árangurinn í breyttu umhverfi."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband