Leita í fréttum mbl.is

Ólafur um Sigmund í FRBL í dag

Leiðari Fréttablaðsins í dag fjallar um ESB-málið og hann byrjar Ólafur Þ. Stephensen með þessum orðum:

"Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur farið fram á skyndifund í utanríkismálanefnd Alþingis til að ræða ummæli Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra við upphaf formlegra aðildarviðræðna við Evrópusambandið í Brussel. Össur sagðist þar ekki telja að Ísland þyrfti undanþágur frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Þetta telur Sigmundur Davíð ekki samrýmast samningsviðmiðum um sjávarútvegsmál í áliti meirihluta utanríkismálanefndar um aðildarumsókn Íslands.

Þarna er formaður Framsóknarflokksins kominn í mótsögn við sjálfan sig, vegna þess að í eigin minnihlutaáliti um aðildarumsóknina gagnrýndi hann harðlega að engin skýr samningsskilyrði væru í meirihlutaálitinu og engar ófrávíkjanlegar kröfur.

Enda er í áliti meirihlutans ekkert talað um undanþágur frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, heldur um þau markmið í sjávarútvegsmálum sem þurfi að leitast við að uppfylla með aðildarsamningi, þar á meðal forræði Íslendinga á stjórn veiða og skiptingu aflaheimilda innan íslenskrar efnahagslögsögu sem byggð sé á ráðgjöf íslenskra vísindamanna."

Allur leiðarinn


Bændur kvarta!

Það stendur ekki á leiðtogum bændum að kvarta!

kvarta þeir yfir stjórnvöldum, að þau stuðli ekki nægilega opinni umræðu um landbúnaðarmál og ESB!

En hvað með t.d. umræðuna í Bændablaðinu? Ok, hún er opin, en hún er næstum algerlega með neikvæðum formerkjum! Hvernig væri að Bændasamtökin t.a.m. birtu greinar um það sem vel hefur verið gert í landbúnaðarmálum í ríkjum ESB!

Síðast fór jú blaðið til Orkneyja (íb.20.000) til að finna eitthvað neikvætt um ESB og landbúnað!

Hvernig væri að Bændasamtökin færu að tala um MÖGULEIKA á Íslandi fyrir íslenska bændur, í stað þess að vera sífellt að tönnlast á "varnarlínum" og að hræða fólk með hinu útjaskaða orði "fæðuöryggi"?

Fæðuöryggi er ekki í hættu á Íslandi nema að flug og skipasamgöngur við Ísland leggist af!

OG ÞAÐ ER BARA EKKI AÐ GERAST!

 

 


Hallur um sjávarútvegsmál á Eyjunni

Hallur Magnússon, liðsmaður EVA, bloggar um sjávarútvegsmál á Eyjunni og segir:

"Ef gengið er frá því í aðildarsamningi að regla Evrópusambandsins um hlutfallslegan stöðugleika í sjávarútvegi muni gilda um Ísland þótt breytingar verði á þeirri meginreglu annars staðar í Evrópu þá er það rétt hjá Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra að Ísland þurfi ekki sérstakar undanþágur í sjávarútvegi.

En ef reglan um hlutfallslegan stöðugleika sem tryggir Íslendingum einum rétt til veiða á staðbundnum stofnum innan íslenskrar efnahagslögsögu er ekki hluti aðildarsamnings þá er mögulega unnt að breyta þeirri reglu síðar án samþykkis Íslendinga.

Því mæli ég með því við Össur að hann leggi áherslu á að reglan verði hluti aðildarsamings að Evrópusambandinu."

Öll færslan

 


Áhugaverður Benedikt

Benedikt JóhannessonViljum vekja athygli á áhugaverðri grein eftir Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóra og formann Sjálfstæðra Evrópumanna um efnahagsmál. Greinin er á ensku og er hér.

Hér svínvirkar Evran!

EvraRitstjórn ES-bloggsins barst lína frá Evrópusinna, sem staddur er á Spáni: ,,Hér er hitinn um 30 stig og  sól frá morgni til kvölds. Sjórinn tær og heitur, góður að svamla í.

Verðlag er hagstætt og mun lægra en á Íslandi, dæmi; 0.5 líter af bjór á krana um 2.50 Evrur (412 kr) ! Subway máltíð á 4.80 Evrur (800 kr, kostar yfir 1000 á Íslandi).Verð á leigubílum c.a. 30-40% lægra en á Íslandi. Verð á kaffi er svipað, enda kaffi dýrt á heimsvísu.

Evran svínvirkar hér og enginn að tala um Grikkland, sennilega er meira talað um Grikkland á Íslandi en í mörgum ríkjum ESB!"


Andrés og Páll á Bylgjunni

Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, mætti Páli Vihjálmssyni, stjórnarmanni Nei-samtakanna á Bylgjunni í morgun. Þar voru Evrópumálin að sjálfsögðu rædd.

Hlusta má á viðtalið hér


Doktorsritgerð Magnúsar Bjarnasonar á netinu

Dr. Magnús Bjarnason sendi frá sér (og varði) doktorsritgerð um Ísland og ESB í Hollandi í fyrra. Vakti hún mikla athygli.

Ritgerðina er nú hægt að lesa á netinu og er slóðin þessi: http://dare.uva.nl/en/record/349694

Hvetjum við alla áhugamenn um Evrópumál að kynna sér hana.


ESB stuðlar að lægri farsímakostnaði

gsm-símiÁ SkyNews er sagt frá að þann 1.júlí tóku gildi nýjar reglur frá ESB sem lækka farsímakostnað í Evrópu. Um er að ræða mjög vinsælar breytingar og stefnir ESB að því að enginn munur verði á milli landa varðandi farsímakostnað frá árinu 2015.

Frétt SkyNews: http://m.skynews.com/article/business/16022153?version=enhanced


Tvær greinar í Fréttablaðinu: Þorsteinn og Árni Þór

FréttablaðiðVert er að benda á tvær greinar í Fréttablaðinu um helgina; eftir Þorstein Pálsson og Árna Þór Sigurðsson.

Grein Þorsteins, en hann byrjar hana svona: "Lítið jafnvægi er í Evrópusambandsumræðunni. Aðildarandstaðan hefur skýrt markmið og lýtur sterkri pólitískri forystu sem hefur verið miklu fyrirferðarmeiri en ríkisstjórnin. Aðild er á hinn bóginn ekki markmið ríkisstjórnarinnar. Hún ber aðeins embættislega ábyrgð á að framkvæma ákvörðun Alþingis um aðildarviðræður sem samþykkt var án sameiginlegs skilnings um markmið.

Innan ríkisstjórnarinnar er aukheldur alvarlegur ágreiningur um hvernig staðið skuli að viðræðunum. Fyrir þá sök er enginn í stöðu til að taka pólitíska forystu í málinu á breiðum grundvelli. Þörfin fyrir hana er þó augljós. Þrátt fyrir þetta vill Alþingi og nærri helmingur þjóðarinnar halda viðræðunum áfram og meirihluti nei-hliðarinnar í skoðanakönnunum hefur heldur minnkað."

Grein Árna , en þar segir hann meðal annars: "ESB-aðild er umdeild hér á landi. Skoðanakannanir undanfarin ár hafa m.a. endurspeglað hversu umdeilt málið er en jafnframt leitt í ljós að afstaða þjóðarinnar breytist frá einum tíma til annars. Engu að síður hefur núverandi stefna, að ljúka aðildarviðræðum og bera niðurstöðuna undir þjóðina, átt miklu fylgi að fagna skv. könnunum. Ætti það að vera kappsmál bæði þeirra sem fyrirfram eru andsnúnir aðild að sambandinu og eins hinna sem eru aðild hliðhollir. Fyrir hinn stóra hóp þjóðarinnar sem hefur ekki gert upp hug sinn er brýnt að viðræðum verði lokið og niðurstaðan um kosti og galla liggi fyrir með óyggjandi hætti og á grunni hennar verði unnt að taka málefnalega afstöðu til málsins.

Ísland mætir til þessara viðræðna vel undirbúið og byggir þar á vandaðri vinnu fjölmargra, bæði fulltrúa ráðuneyta og stofnana en einnig og ekki síður ýmissa hagsmunaaðila sem leggja mikilvægan skerf til góðrar undirstöðu. Einnig skiptir hér máli að Ísland hefur verið þátttakandi í evrópsku samstarfi innan EES um langt árabil, notið þess ávinnings sem það býður upp á en um leið kostað því til sem samstarfinu fylgir. Aðalsamninganefnd Íslands og einstakir samningahópar eru vel skipaðir færu og samviskusömu starfsfólki sem hefur það eitt að leiðarljósi að skila góðu verki og ná sem bestri samningsniðurstöðu út frá íslenskum hagsmunum. Viðræður Íslands við ESB byggja þannig á sterkum grunni."

(Leturbreyting: ES-blogg)

Bendum einnig á frétt Eyjunnar sem tengist Þorsteini.


Ný ESB-rödd á DV-bloggi

dv-logoFleiri og fleiri láta ESB-málið til sín taka. Einn þeirra er Eyþór Jóvinsson, ungur sjómaður að vestan sem bloggar á DV undir fyrirsögninni, Þau sendu mig í ESB og hann segir þar meðal annars:

"Það er skemmtilegt til þess að hugsa að mér sýnist öll þau samtök og stofnanir sem berjast hvað harðast á móti inngöngu Íslands inn í ESB, hafa með framferði sínu seinustu vikur og mánuði tekist að snúa afstöðu minni og sannfært mig um að okkur sé einmitt best borgið innan ESB."

Allur pistill Eyþórs er hér, en það er virkilega gaman þegar nýjir aðilar láta í sér heyra um Evrópumálin!

Við í Evrópusamtökunum erum hrifin af því!


Ógnar ESB landbúnaði á Orkneyjum og þar með fæðuöryggi í öllu Skotlandi?

bændablaðiðNýtt eintak af Bændablaðinu kom út fyrir nokkrum dögum. Þar er stórkostleg frétt á forsíðu:

Óvissa um CAP og styrkjakerfi ESB: Orkneyjingar hafa áhyggjur framtíð landbúnaðar.

Fréttin hefst svona: "Á Orkneyjum eru nú uppi veruleg óvissa varðandi framtíð landbúnaðar á eyjunum og áhyggjur af skertu fæðuöryggi í Skotlandi." Blaðið splæsir svo næstum opnu í greinina, en síðan kemur fram í henni að erfitt er að bera saman reynslu bænda á Orkneyjum og væntanleg áhrif landbúnaðarstefnu ESB á íslenskan landbúnað! Hvert er þá markmiðið?Vá!

Okkur er spurn: Hvaða eyjar ætlar Bændablaðið að finna næst til þess að geta skrifað eitthvað neikvætt um ESB?

Á Orkneyjum búa um 20.000 manns, eða álíka margir og á Akureyri og nágrenni.

 


Grikkir samþykktu aðgerðapakka - Egill Helgason: Mótmælaþreytu orðið vart

Gríska þingið samþykkti í dag aðgerðapakka í efnahagsmálum landsins, en mikill hiti er í mönnum vegna þessa og óeirðir á götum Aþenu. Aðgerðirnar sem samþykktar voru eru nauðsýnlegar til að koma í veg fyrir frekari vandræði í stjórnmálum og efnahag Grikkja.

Forsætisráðherra landsins, Papandreou, segir samþykkt "pakkans" einu leiðina til að koma landinu á skrið aftur.

Þar með er ljóst að verulegri hindrun er rutt úr vegi fyrir næstu útborgun á láni ESB og AGS til handa Grikkjum. BBC er með frétt um þetta.

Egill HelgasonEgill Helgason (Silfur Egils) er staddur í Grikklandi um þessar mundir og hefur verið að blogga um þetta. Hann segir í nýjasta pistli sínum um þetta að mótmælaþreytu sé farið að gæta og að það séu mest svokallaðir stjórnleysingjar sem hafi sig mest frammi.


Tvær góðar greinar í Fréttablaðinu: Ávinningur af menntasamstarfi og aðildarsamningurinn

Á Eyjunni stendur: "Íslenskir aðilar hafa með mennta- og vísindasamstarfi sínu við Evrópusambandið síðastliðin fimmtán ár fengið sem nemur tíu milljörðum króna hærri framlög en greitt hefur verið í þáttökugjöld. Eru þá ótalin mikil verðmæti sem felast í aðgengi að upplýsingum og samstarfi hvers konar við evrópska vísindasamfélagið.

Skrifar Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannsóknarþjónustu Háskóla Íslands, um þetta í Fréttablaðið í dag þar sem hann áréttar mikilvægi slíks samstarfs fyrir íslenska aðila burtséð frá því fjármagni sem hingað skilar sér frá ESB."

Dr. Baldur Þórhallsson skrifar einnig grein í FRBL í dag um mikilvægi góðs aðildarsamnings við ESB og segir:

"Íslenskum stjórnvöldum hefur gengið misvel að semja við nágrannaþjóðir okkar. Samningar um útfærslu landhelginnar voru flestir vel heppnaðir en Icesave-samningarnir voru óásættanlegir að mati meirihluta þjóðarinnar. Þegar horft er til samningaviðræðna um bættan aðgang að mörkuðum Evrópu er stórmerkilegt hversu vel hefur tekist til.

Þetta á við um alla þrjá helstu samningana, þ.e. inngönguna í EFTA árið 1972, fríverslunarsamninginn við ESB tveimur árum síðar og aðildina að EES árið 1994. Það sama má segja um Schengen-samninginn. Íslendingar náðu nær öllum kröfum sínum fram í þessum viðræðum um bættan markaðsaðgang og verndun sjávarútvegs og landbúnaðar."

Öll grein Baldurs


Enginn grískur flokkur vill yfirgefa Evruna!

EvraGrikkland er á allra vörum, spennan mikil og mótmæli í Aþenu. Fyrir liggur að Grikkir þurfa að grípa til umfangsmikilla aðgerða í efnahagsmálum.

Menn um víðan völl fylgjast með og þar eru Svíar ekki undanskildir. Stefan Fölster, aðalhagfræðingur samtaka sænskra atvinnurekenda er einni þeirra. Hann er jafnframt einn af virtari hagfræðingum Svíþjóðar.

Í samtali við Sænska dagblaðið ræðir hann málefni Grikklands og bendir á að nú þegar hafi Grikkland framkvæmt margar aðgerðir, þó kannski tilfinning manna sé önnur. Til dæmis hafa bæði laun í opinbera geiranum verið lækkuð og þar hefur starfsfólki einnig verið fækkað. Skattar á áfengi og tóbak hafa verið hækkaðir. Fölster telur að það sé hægt að leysa vandamál Grikkja með skipulegum hætti.

Sumir hafa sagt að Grikkland verði að fara út úr Evru-samstarfinu. Það telur Stefan Fölster afar ólíklegt og bendir á þá áhugaverðu staðreynd að ENGINN grískur stjórnmálaflokkur talar fyrir því að Grikkland fari út úr Evrunni!

En hér uppi á Íslandi, í N-Atlantshafi, eru öfl sem segja að það sé eina lausn Grikkja!

Vita þau betur?


ESB-málið í FRBL

Jón Steindór ValdimarssonJón Steindór Valdimarsson, einn af forvígismönnum Já-Ísland, skrifaði grein í fréttablaðið 28.júní um ESB-málið og segir þar m.a.: "Að mínu mati leikur enginn vafi á því að aðild Íslands getur orðið til góðs. Þess þarf að gæta að aðildin tryggi framtíðarhagsmuni okkar sem fullvalda og sjálfstæðrar þjóðar. Lífskjör og starfsskilyrði atvinnuveganna í víðu samhengi vega þar þyngst. Nefna má þætti á borð við efnahagslegan stöðugleika sem skapar festu í rekstri ríkis, sveitarfélaga, fyrir-tækja og heimila, samkeppnishæfa vexti, afnám verðtryggingar, lægra verð landbúnaðarafurða og aðgang að mörkuðum en ekki síst það að geta tekið þátt í mótun og setningu þeirra reglna er varða eigin örlög.

Stöndum saman
Til þess að ná þessum markmiðum þarf að halda á íslenskum hagsmunum af festu og samheldni. Veita þarf ríkisstjórn og samninganefndinni í senn virkan stuðning og aðhald í þessu mikilvæga verkefni. Samninganefndin er vel skipuð þrautreyndum samningamönnum. Engin ástæða er til að ætla annað en að hún nái góðum árangri.

Öll grein Jóns

Ólafur StephensenLeiðari FRBL fjallaði líka um málið og í honum segir Ólafur Þ. Stephensen: "Nýtt skeið í aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins hófst í gær. Þá lauk formlega rýnivinnunni þar sem löggjöf Íslands og ESB var borin saman og hinar eiginlegu samningaviðræður hófust.

Rýnivinnan tók óvenjulega stuttan tíma, um átta mánuði. Það sýnir annars vegar að viðræðuferlið er skilvirkt og hins vegar að Ísland er vel undir aðild að Evrópusambandinu búið. Fram hefur komið að 21 kafla af 33 í regluverki Evrópusambandsins hafi Ísland þegar leitt að mestu eða öllu leyti í íslenzk lög. Það er til vitnis um þá aðlögun Íslands að regluverki Evrópusambandsins sem átt hefur sér stað á þeim sautján árum sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur verið í gildi.

Ísland er einfaldlega miklu lengra komið í aðlögun sinni að sambandinu en önnur ríki sem sótt hafa um aðild. Hægt var að ljúka samdægurs viðræðum um tvo kafla af fjórum, sem byrjað var að ræða í gær."

Síðar skrifar Ólafur: "Algengt viðkvæði hjá hagsmunaaðilum bæði í landbúnaði og sjávarútvegi er hins vegar að ómögulegt sé að byggja á fordæmum innan ESB og til lítils að reyna að hagnýta breytt viðhorf til stjórnunar fiskveiða. Þessi öfl tala fyrir ýtrustu kröfum; í raun óbreyttu ástandi. Það eru auðvitað óraunhæfar kröfur og eingöngu til þess fallnar að veikja samningsstöðu Íslands, enda eiga þeir sem setja þær fram það sameiginlegt að vilja alls engan samning.

Kannanir hafa ítrekað sýnt að mikill meirihluti Íslendinga vill ljúka aðildarviðræðunum við ESB og fá að greiða atkvæði um niðurstöðuna. Skylda samningamannanna er að leitast við að ná sem beztum samningi.

Viðræðurnar geta siglt í strand en sagan sýnir að þær klárast alltaf á endanum. Í fyrri viðræðum ESB við umsóknarríki hefur oft ekki verið höggvið á hnútinn í erfiðustu málunum fyrr en á lokametrum viðræðnanna, þegar lýðræðislega kjörnir ráðamenn aðildarríkjanna taka við verkefninu af embættismönnum."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband