Leita í fréttum mbl.is

Iver B. Neumann: ESB-umræðan hér lík þeirri norsku

IS-ESB-2RÚV birti þessa frétt í kvöld:

" Sérfræðingur frá Óslóarháskóla segir umræðuna um aðild að Evrópusambandinu hér á landi líkjast umræðunni í Noregi að mörgu leyti. Hún snúist um „okkur og hina“ þar sem litið er á útlönd sem ógn en ekki samstarfsaðila.

Iver B. Neumann, prófessor og yfirmaður hjá norsku alþjóðamálastofnuninni, er staddur á Íslandi til að fjalla um stöðu Evrópumála í Noregi. Það sem honum þykir hvað áhugaverðast er hversu lítil umræða sé um Evrópusambandsaðild þar í landi.

Neumann telur að útkoman yrði mjög jöfn hér á landi kæmi til þjóðaratkvæðagreiðslu. Norðmenn hafa tvisvar hafnað aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu, síðast árið 1994.

Neumann býst ekki við að Norðmenn eigi eftir að sækjast eftir aðild í nánustu framtíð þar sem þeir standi svo vel fjárhagslega. Staðan sé ekki sú sama á Íslandi."

Myndband um sama mál

 


Lífið er makríll??

Makríll á sundiHin harðnandi makríldeila Íslands, Færeyja og ESB, verður að öllum líkindum ekki leyst nema við samningaborðið.

LÍÚ hefur hinsvegar tekið þann pólinn í hæðina að þessi deila sé dæmi þess að borin von sé að ná samningum við ESB. Það má því kannski segja að makríllinn, þessi fíni, matfiskur, sé að verða pólitísku sprengiefni hér á landi!

Bendum svo á fróðlega grein um þetta mál í Fréttablaðinu i dag eftir Atla Hermanssson.


Guðmundur Gunnarsson: Vaxandi krafa um samninga í Evrum

Guðmundur GunnarssonGuðmundur Gunnarsson, Eyjubloggari og formaður Rafiðnaðarsambandsins skrifar í sínum nýjasta pistli um komandi launasamninga. Í pistli hans segir orðrétt:

"Íslensku stéttarfélögin hafa undanförnum áratugum samið um tæplega 4.000% launahækkanir, en stjórnmálamenn hafa jafnharðan alltaf eyðilagt þessa baráttu. Á sama tíma hafa t.d. danskir launamenn samið um liðlega 300% launahækkun. Þeirra kaupmáttur stendur og skuldastaða heimila þeirra stendur eðlilega. En hver er staðan á Íslandi?

Það kaupmáttarhrun sem hér varð er ekki stéttarfélögnum að kenna, þar er við slaka stjórnmálamenn að sakast.

Ljóst er að um þetta verður tekist í komandi kjarasamningum. Vaxandi kröfur eru um að samið verði um í Evrum til þess að losna undan ofurvaldi slakra stjórnmálamanna á launakjörum landsmanna.

Feitletrunin er ES-bloggins, en hún verður að teljast athyglisverð. Kannski er þessi krafa að koma fram m.a. vegna þess að mörg stærstu útgerðarfyrirtæki landsins eru farin að gera upp í Evrum!

Undan hverju eru þau að sleppa??


Mogginn og aðlögunin!

MBLMorgunblaðið er duglegt að reyna að koma því inn hjá lesendum sínum að ESB-ferlið, sé fyrst og fremst aðlögunarferli, en ekki samningaviðræður. Það er stjórnarmaðurinn í samtökum Nei-sinna og starfandi blaðamaður á Morgunblaðinu, Hjörtur J. Guðmundsson, sem skrifar "frétt" í dag með vitalið við Atla Gíslason, þingmann VG, þar sem hann ræðir þetta og sagt er að það sé "ólga í grasrót VG vegna aðlögunar."

Á síðastliðinn föstudag var svo formaður Hjartar, Ásmundur Einar Daðason, í viðtali um sama efni!

En okkur er spurn: Hvað er óeðlilegt að rýnt sé í og borin sé saman löggjöf Íslands og Evrópusambandsins? Það er jú ekkert nýtt, þar sem við höfum tekið upp stóran hluta þessarar löggjafar í gegnum EES?

Samningaviðræðurnar koma svo seinna, þegar þeirri vinnu er lokið Halló!

Hvernig væri nú að Morgunblaðið myndi aðeins AÐLAGA SIG og viðurkenna þá staðreynd að með þessu er blaðið að slá ryki í augu lesenda, þar sem hagsmunir hinna fáu ráða í umfjöllun blaðsins.

Morgunblaðið er t.d. ekkert að skrifa um það hvað íslenskur almenningur gæti "hagnast" á t.d. lægri vöxtum og verðbólgu hér á landi! 


Össur vill að ESB styðji við krónuna

Stöð tvö birti þessa frétt í kvöld eftir Heimi Má Pétursson:

Össur Skarphéðinsson"Utanríkisráðherra leggur áherslu á það í viðræðum Íslands við Evrópusambandið að krónan verði bökkuð upp af Seðlabanka Evrópu strax við aðild, áður en evran verði síðan tekin upp sem gjaldmiðill á Íslandi. Hann telur viðræðurnar taka lengri tíma en bjartsýnustu menn geri sér vonir um.

Utanríkisráðherra sagði í fréttum okkar í gær að hann reiknaði með að beinar samningaviðræður við Evrópusambandið um landbúnaðarmál gætu hafist fyrir páska og um sjávarútvegsmálin næsta haust. En þetta eru þeir tveir málaflokkar sem allir eru sammála um að verði erfiðast að ná niðurstöðu um. Bjartsýnustu menn hafa talað um að viðræðum gæti lokið á stuttum tíma, eða um 18 mánuðum, vegna þess að Ísland hafi nú þegar innleitt um 70 prósent af löggjöf Evrópusambandsins.

„Ég er nú bjartsýnismaður eins og þið vitið en ég held að þetta taki ekki svo stuttan tíma," segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Íslenska samninganefndin muni láta reyna til þrautar á ýmis erfið mál varðandi sjávarútveginn. „Og ég held að það geri það að verkum að samningarnir verði lengri og erfiðari en margir gera ráð fyrir."

Aðspurður segist hann þó frekar hafa reiknað með að samningum ljúki á kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar.

Og Össur leggur áherslu á að ef aðild verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, gangi Íslendingar einnig í myntbandalagið og taki upp evruna. Enda muni það spara þjóðinni á annað hundrað milljarða á ári. Hann segist hafa rætt það á ríkjaráðstefnu Íslands og Evrópusambandsins í júlí, að Evrópusambandið kæmi að því áður en mögulegt væri að taka evruna upp að styðja við krónuna.

„Þá reyndu menn að komast að niðurstöðu um með hvaða hætti Evrópusambandið og Seðlabanki Evrópu geti komið að því að dýpka íslenskan gjaldeyrismarkað. Það yrði strax partur að því að styrkja stöðuna hér heima og undirbúa upptöku evrunnar," segir utanríkisráðherra.

Hann er sannfærður um að stuðningur við evrópusambandsaðild aukist þegar ávinningur aðildarinnar liggi fyrir.

„Þegar fólk sér það mun þetta snúast í huga fólks, þegar menn fara raunverulega að sjá hvað þetta þýðir fyrir þeirra hagsmuni, líf og lífsgæði," segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra."

 


Góð krækja!

IS-ESB-2Hér er athyglisverð krækja á vef Sterkara Íslands!

Eistland: Fullveldið jókst við ESB-aðild - erlendar fjárfestingar jukust!

TallinNorsku Evrópusamtökin hleyptu nýlega endurnýjaðri heimasíðu af stokkunum, www.jasiden.no.

Þar er nú að finna athyglisverða grein um Eistland og ESB, undir fyrirsögninni FULLVELDIÐ JÓKST VIÐ ESB-AÐILD. Í greininni er rætt við utanríkisráðherra landsins, Urmas Paet.

Eistland tekur upp Evruna þann 1. janúar næstkomandi og strax og það var ljóst að Eistland uppfyllti Evru-skilyrðin, jukust erlendar fjárfestingar í landinu.

Eistland tilheyrði Sovétríkjunum fram til 1991, er þau hrundu og landið fékk sjálfstæði.

Lesið greinina hér


Ögmundur leiðréttur

Bjarni Már MagnússonGrein Ögmundar Jónassonar, "Virkisturn í norðri" vakti mikla athygli og umræður. Enn eru að birtast greinar í samnandi við þetta. Ein slík er grein sem Bjarni Már Magnússon (mynd) birti í fyrradag í Fréttablaðinu. Bjarni er doktorsnemi í Edinborg í hafrétti. Hann dregur í efa margt sem stendur í grein Ögmundar og sér sig tilneyddan til að leiðrétta ýmsa hluti. Bjarni segir m.a. í grein sinni:

"Fyrir nokkru birtist greinin „Virkisturn í norðri?" í Morgunblaðinu eftir Ögmund Jónasson alþingismann sem valdið hefur töluverðu fjaðrafoki. Í greininni heldur Ögmundur því fram að ef Ísland „sameinist" Evrópusambandinu (ESB) stækki yfirráðasvæði sambandsins um tæp 10 prósent og áhrifasvæði (eftirlits- og björgunarsvæði) um 20 prósent. Áhrifasvæðið færi úr u.þ.b. 10 milljónum ferkílómetra í 12 milljónir ferkílómetra. Þetta er ekki alls kostar rétt hjá Ögmundi. Hér að neðan verður bent á að fullveldisréttindi Íslands eru takmörkuð á því svæði sem hann nefnir yfirráðasvæði og að slík réttindi á svokölluðu áhrifasvæði eru engin og ólíklegt að nokkur ásælist þau.

YFIRRÁÐASVÆÐI

Með yfirráðasvæði á Ögmundur væntanlega við landsvæði Íslands, innsævi, 12 sjómílna landhelgi, 200 sjómílna efnahagslögsögu og óstaðfest landgrunnsréttindi fyrir utan 200 sjómílur. Ef einungis er tekið mið af þeim hafsvæðum sem Ísland hefur einhvers konar yfirráð yfir á þessari stundu eru þau um 750.000 ferkílómetrar. Þau verða þó líklega meiri í framtíðinni ef landgrunnsnefnd SÞ samþykkir landgrunnskröfur Íslands.

Rétt er að benda á að Ísland nýtur ekki fullveldisréttar í efnahagslögsögunni né á landgrunninu. Á þessu svæði nýtur Ísland takmarkaðra fullveldisréttinda. Í efnahagslögsögunni fara strandríki einkum með fullveldisréttindi yfir vernd, rannsóknum og nýtingu auðlinda hafsins og lögsögu að því er varðar gerð og afnot tilbúinna eyja, útbúnaðar og mannvirkja, hafrannsóknir og verndun og varðveislu hafrýmisins. Þar hafa hins vegar erlendir aðilar m.a. rétt til siglinga og yfirflugs og til lagningar neðansjávarstrengja og -leiðslna og önnur alþjóðlega lögmæt not hafsins sem snerta þessi réttindi, t.d. þau not er tengjast starfrækslu skipa, loftfara og neðansjávarstrengja og -leiðslna. Þar að auki er strandríkjum ekki talið heimilt að koma í veg fyrir heræfingar erlendra ríkja á þessu svæði."

Öll grein Bjarna

 


Sr. Þórir Stephensen um "þeirra eigin orð"

Sr. Þórir StephensenSr. Þórir Stephensen birti grein í Fréttablaðinu í gær undir fyrirsögninni Þeirra eigin orð, og er hún um margt athyglisverð. Greinin hefst svona:

"Andstæðingar aðildarviðræðna við ESB hafa að undanförnu farið mikinn í fjölmiðlum, ekki síst í dagblöðum og á vefsíðum. Þar er víða haldið uppi hræðsluáróðri, ekki síst því, að einu gildi. um hvað verði samið við ESB, ekkert af því muni standa nema tímabundið. Talað er um, að samningar við ESB yrðu nánast einskis virði.

Við, sem teljum að reyna eigi samninga, höfum hins vegar fullyrt, að það, sem kemst inn í aðildarsamning, haldi. Því sé óhætt að treysta.

Ég rak nýlega augun í skýrslu Evrópunefndar, sem Davíð Oddsson forsætisráðherra, skipaði 8. júlí 2004 og skilaði greinargerð sinni í mars 2007. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra var skipaður formaður nefndarinnar, en auk hans voru þar Einar K. Guðfinnsson, Hjálmar Árnason, Jónína Bjartmarz, Össur Skarphéðinsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Ragnar Arnalds, Katrín Jakobsdóttir og Brynjar Sindri Sigurðsson markaðsfræðingur. Bryndís Hlöðversdóttir hætti í nefndinni í desember 2006 og tók Ágúst Ólafur Ágústsson sæti hennar.

Þetta er mikið mannval og ég vek sérstaka athygli á þeim Birni Bjarnasyni, Einari K. Guðfinnssyni og Ragnari Arnalds sökum málflutnings þeirra að undanförnu. Greinargerð nefndarinnar heitir "Tengsl Íslands og Evrópusambandsins" Nefndin virðist hafa unnið ágætt verk og kallað til ráðuneytis marga hina færustu sérfræðinga. Þar er tvennt, sem mér finnst mikilvægt að benda á einmitt nú."

Öll grein Þóris

 


Stefan De Vylder: Hagfræðidoktor með söguna á ó-hreinu!

Gunnar Hólmsteinn ÁrsælssonGunnar Hólmsteinn Ársælsson sendi blogginu þessa grein í kjölfar fyrirlesturs hjá Stefan De Vylder, sem haldinn var s.l. föstudag. Hér er grein Gunnars í heild sinni:

Hagfræðidoktor með söguna á ó-hreinu!

Nei-sinnar fluttu inn sænskan hagfræðing, Stefan De Vylder, til þess að halda fyrirlestur um gjaldmiðiilsmál, út frá punktinum;  Evra vs. Króna.

Reyndar var þetta ekki fyrirlestur í eiginlegri merkingu, heldur virðist Stefan hafa fengið 10 spurningar frá...sennilega Heimssýn (veit það þó ekki 100%), til þess að svara.

Það sem sló mig mest var að í erindi sínu viðurkenndi Stefan nánast algera vanþekkingu á íslenskum efnahagsmálum. Og ekki heyrðist mér hann hafa haft fyrir því að kynna sér þau heldur! Þetta hlýtur að vera athyglisvert.

Hann byrjaði einnig á sögulegum rangfærslum varðandi Evru-umræðuna í Svíþjóð, en þar var gengið til atkvæða um Evruna árið 2003. Þá bjó ég í landinu og fylgdist grannt með þessari umræðu, m.a. sem fréttaritari RÚV í landinu (þó áður en ég gekk í Evrópusamtökin og settist í stjórn þeirrra,til að forðast allan misskilning!)

Stefan sagð að þá hefðu „allir verið með“ Evrunni. Það er hinsvegar ekki rétt. Að minnsta kosti tveir ráðherrar í ríkisstjórn Görans Perssons voru algerlega á mótið aðild að Evrunni. Þetta voru þau Margareta Winberg, sem var hvorki meira né minna en aðstoðar-forsætisráðherra landsins!

Hinn ráðherrann var Leif Pagrotsky, þáverandi viðskiptaráðherra landsins.  Dagblaðið Daily Telegraph nefnir í grein frá þessum tíma að fimm ráðherrar hafi verið á móti aðild, en mest bar á þessum tveimur sem ég nefni hér.

Í raun er það mjög merkilegt að Stefan hafi skautað yfir þetta í erindi sínu, því það gefur í raun alranga mynd af umræðunni sem átti sér stað.

Annað sem einnig gefur ranga mynd af umræðunni er sú staðhæfing Stefans að enginn sé að ræða Evruna í Svíþjóð í dag. Það er einfaldlega ekki rétt. Núverandi fjármálaráðherra landsins, Anders Borg, sagði í frétt í stærsta dagblaði Svíþjóðar, Dagens Nyheter, þann. 7.júni að það væri gott fyrir Svíþjóð að stefna að upptöku Evrunnar!

Þá er það spurnngin: Hvaða dagblöð hefur Stefan verið að lesa, eða ekki?

Til viðbótar vil ég einnig nefna að einn ríkisstjórnarflokkanna í borgaralegu blokkinni sem nú stjórnar Svíþjóð, Þjóðarflokkurinn (Folkpartiet), vill að Svíþjóð taki upp Evruna! Á næstunni  mun flokkurinn standa fyrir málþingi um Evruna í Stokkhólmi, Gautaborg og Malmö. Er þá ekkert verið að ræða Evruna í Svíþjóð?

Fylgist Stefan ekki betur með en þetta?

Þá fór Stefan einnig út í umræðuna um upptöku norsku krónunnar, en sló því þá mest upp í grín og sagði okkur (Íslendingum) að bíða með að taka hana upp þangað til við værum búin að finna olíu í kringum landið!

Stefan veit greinilega ekki að Norðmenn hafa algerlega afskrifað þann möguleika að Íslendingar taki upp norsku krónuna! Það gerði m.a. forsætisráðherra landsins, Jens Stoltenberg, í lok október 2008!

Stefan kom ekki með neinar lausnir á málum okkar Íslendinga, nema kannski það að gera ekki neitt. Enda, eins og áður kom frem þekkir hann nánast ekki neitt til íslenskra efnahagsmála.

Við þessi orð verða Nei-sinnar glaðir, þeir vilja nefnilega ríghalda í gjaldmiðil sem enginn reiknar með, er haldið í „öndurnarvél“ (gjaldeyrishöftum) og enginn veit hvernig reiðir af þegar „öndunarvélin“ verður tekin úr sambandi! Hvenær sem það nú verður! Engar breytingar, það er þeirra mottó!

En vandamálið er þetta(og er enn óleyst): Íslendingar búa við óviðunandi ástand í gjaldmiðilsmálum, sem enginn, ekki einu sinni Seðlabankastjóri, veit hvernær tekur enda. Það hlýtur að vera dapurlegt!

 


Bryndís Ísfold í MBL: Blindaður af hræðslu

 Bryndís Ísfold HlöðversdóttirBryndís Ísfold Hlöðversdóttir, framkvæmdastjóri Sterkara Íslands skrifar grein í MBL í dag. Greinin er hér í heild sinni:
 
BLINDAÐUR AF HRÆÐSLU
 
"Þekking um Evrópusambandið er því miður ekki alltaf forsenda þess að andstæðingar aðildar Íslands að ESB láti í sér heyra. Nýlega birtist í Morgunblaðinu grein eftir Karl Jónatansson undir fyrirsögninni „ESB-hættan“ sem er nær eingöngu byggð á mýtum, hræðsluáróðri og rangfærslum um hvað aðild að ESB felur í sér. Mikilvægt er að bæði andstæðingar og aðildarsinnar vandi sig og sýni þjóðinni þá virðingu að fara rétt með staðreyndir hvort sem talað er fyrir aðild eða gegn aðild að ESB.

Kannski er ekki að undra að Karl sé logandi hræddur við aðild Íslands að ESB ef hann trúir eigin skrifum, því nóg er af rangfærslum. Í grein sinni heldur hann því m.a. ranglega fram að með aðild Íslands að Evrópusambandinu muni milljónir atvinnulausra Evrópusambandsbúa flykkjast til Íslands í leit að vinnu.

Í fyrsta lagi er það rangt að með fullri aðild að ESB fái íbúar ESB-ríkjanna aukinn rétt til að sækja vinnu á Íslandi, sá réttur er nú þegar til staðar fyrir íbúa ESB-ríkjanna í gegnum aukaaðild okkar að ESB í gegnum EES-samninginn, líkt og íbúar Íslands geta nú sótt atvinnu í Evrópusambandsríkjunum hömlulaust. Engar breytingar verða á þessu með fullri aðild.

Í öðru lagi er það rangt að atvinnuleysi sé svo „smitandi“ að fólk flykkist í stórum stíl milli landa til að sækja sér vinnu. Ef sú kenning andstæðinga reyndist rétt þá væri í fyrsta lagi jafnt hlutfall atvinnulausra í öllum Evrópusambandslöndunum en svo er auðvitað ekki. Atvinnuleysi „smitast“ ekki frekar en hér á landi. Til dæmis er atvinnuleysi á Suðurnesjum tæp 12% en mun minna á Austfjörðum og hefur svo verið allt frá því efnahagskerfið hrundi hér á landi. Þó örfáir flytji sig um set vegna atvinnuleysis kjósa flestir að bíða þar til aðstæður í heimabyggð lagast.

Í þriðja lagi segir Karl í grein sinni að með aðild að ESB hyggist ESB „sjúga út úr Íslendingum... af okkar auðlindum s.s. fiski, vatni og hugsanlega jarðgasi og olíu“ í staðinn fyrir niðurfellingu tolla sem fylgir aðild. Þarna fer Karl með síendurtekna rangfærslu um ESB. Evrópusambandið hefur sameiginlega fiskveiðistjórnun og þjóðin getur áfram átt fiskinn í hafinu í kringum landið (sem nú er í eigu og nýtingu örfárra einstaklinga). Hins vegar hefur margoft verið bent á að reglan um hlutfallslegan stöðugleika myndi tryggja að íslenskar útgerðir fái nánast allan kvótann í íslenskri lögsögu en vissulega þyrfti að semja um deilistofna. Engum dylst að þessi þáttur verður einna mikilvægastur í samningaviðræðum við ESB næstu mánuði og tryggja þarf að góður samningur náist.

Hvað vatnið og orkuna varðar þá er engin sameiginleg nýtingarstefna innan ESB um vatn eða orku. Evrópusambandið getur, jú, sett sér reglur um ljósaperur en það er eins langt og það getur vasast í ákvörðunum um orkuauðlindir aðildarríkjanna.

Karl lýkur grein sinni með orðunum: „Flestir núverandi óvinir okkar eru samansafnaðir í ESB. Vinir okkar eru annars staðar.“ Ef greinarhöfundur hefur rétt fyrir sér að Danmörk, Þýskaland, Finnland, Malta, Holland og hin tuttugu og tvö ríki ESB sem við eigum í mestum viðskiptum við í dag, bæði í inn- og útflutningi, séu óvinir okkar – þá erum við svo sannarlega á flæðiskeri stödd. En sem betur fer er raunveruleikinn annar.

Nú leggur samninganefnd Íslands allt kapp á að ná fram góðum samning og þegar sá samningur liggur fyrir verður það þjóðin sjálf sem fær að kveða upp úr hvort við viljum fulla aðild að ESB eða ekki.

Óttinn er öflugasta vopn þeirra sem vilja ekki ræða staðreyndir – ef það væri svona mikið að óttast hefðu nánustu vinaríki okkar ekki gengið alla leið inn í ESB og væru þar síst enn."

.


Nei-sinnar flytja inn "gengisfellingarsinna"

Stefan de VylderNei-sinnar flytja inn "gengisfellingarsinnan" Stefan De Vylder til þess að tala um krónuna og Evruna á morgun. Stefan er doktor í hagfræði frá háskólanum í Stokkhólmi, en vinnur þar  ekki lengur.

Í viðtali við German Foreign Policy í maí sagði hann að það "væri gott fyrir Grikkland að landinu væri hent út úr Evru-samstarfinu." Og að gengishrun drökmunnar í kjölfarið væri líka gott fyrir landið! Þá segir hann að Spánn, Ítalía og Portúgal myndu lverða fyrir barðinu á þessu.

Þetta verður að teljast í hæsta máta óábyrgt. Gerir Stefan sér grein fyrir, í þessu samhengi, um hvaða lönd er að ræða? Vill hann tefla pólítískum stöðugleika landanna í hættu? Hann hlýtur jú að vita að Ítalía er fæðingarland fasismans, að Spáni var stjórnað af fasista (Fransisco Franco), frá 1939 - 1975. Og að það var einmitt útúr þessum fasisma sem Spánn braut sér leið úr og gerðist aðili að ESB. Svipað á við um Portúgal, sem einnig var stjórnað af herforingjastjórn.

Í viðtalinu segir Stefan að þjóðernishyggja, útlendingahatur og atvinnuleysi séu ógn við Evrópu.

Myndi það batna við enn meiri pólitískan óstöðugleika, sem hans "lausnir" myndu sennilegast valda?

Þá segir Stefan að það sem Þýskaland og Evru-svæðið þurfa sé aukin eftirspurn. 

Það er einmitt að gerast núna, Þýskaland, Bretland og Evrópa eru að rétta úr kútnum.

Stefan ætti að kynna sér bitra reynslu Íslendinga af gengisfellingum, með stórkostlegri kjaraskerðingu fyrir almenning og verra efnahagsumhverfi fyrir fyrirtæki.

Ísland þarf  stöðugleika; stöðugan (nothæfan) gjaldmiðil (án öndunarvélar), lága vexti og lága verðbólgu. T.d. svo að heimili og fyrirtæki geti gert áætlanir, en slíkt hefur verið takmarkaður "lúxus" í efnahagssögu okkar á lýðveldistímanum.

Þá er kannski hægt að fara að byggja upp alvöru fyrirtæki, sem framleiða alvöru vörur, en ekki einhver loftbólufyrirtæki, sem springa svo framan í fólk!

 


Ásmundur!

Ásmundur Einar Daðason

Nei-sinni Íslands nr.1, Ásmundur Einar Daðason (bóndi,þingmaður og stjórnarformaður rannsóknarsjóðsins AVS) ritar grein í Fréttablaðið í dag um ESB og fyrirvara, eða það sem oft er kallað sérlausnir á milli umsóknarríkja og ESB.

Ásmundur segir og vitnar í Stefan Fule, stækkunarstjóra ESB, að fyrirvararnir "haldi ekki". 

En það má hinsvegar benda Ásmundi Daða á að Svíar fengu tvær mjög mikilvægar sérlausnir sem halda enn þann dag í dag og er reyndar mjög ólíklegt að verði afnumdar.

Sú fyrri e einkasala ÁTVR Svía (Systembolaget) á sölu áfengis. Svíum er mjög í mun að þetta haldi og ekkert útlit fyrir annað.

Hitt er framleiðsla og sala á sérstöku munntóbaki, eða snusi. Það sama gildir hér.

Danir fengu einnig undanþágu varðandi kaup erlendra aðila á sumarhúsum í Danmörku, en þeir óttuðust að Þjóðverjar myndu kaupa upp öll sumarhús í landinu, sem að sjálfsögðu varð ekki.

Álendingar hafa einnig ákvæði um "hembygdsrätt", sem kveður á um að aðeins þeir með fasta búsetu á eyjunum megi kaupa þar eignir.

Í grein eftir Jón Sigurðsson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins segir orðrétt:

"Í 2. bókun með aðildarsamningi Finna að ESB eru ákvæði um sérréttindi heimamanna á Álandseyjum, svonefndan „hembygdsrätt“. Samkvæmt bókuninni geta menn ekki eignast fasteignir, lóðir eða lendur á Álandseyjum nema hafa þar lögheimili og fasta búsetu. Fleiri atriði fylgja sem snerta atvinnurekstur. Þessi ákvæði eru ekki tímabundin og aðildarsamningar ríkja hafa fullt gildi á við aðalsáttmála ESB. Svipaðar reglur gilda á Möltu. Ákvæði í viðbæti III.8 og í 6. bókun með aðildarsamningi Maltverja kveða á um rekstur þjónustufyrirtækja og fleira. Þarna eru sérréttindi heimamanna staðfest og tryggt að fjarstýring frá útlöndum á kostnað heimamanna eigi sér ekki stað. Í aðildarskilmálum Dana eru ákvæði um eignarhald á tómstundahúsum í Danmörku. Þar er komið í veg fyrir að útlendingar leggi undir sig lóðir og lendur Dana."

Ásmundi er hér með bent á þessa grein!

Nei-sinnar nota mikið af kröftum sínum til að básúna það að það sé ómögulegt að ná samningum (um næstum hvað sem er) við ESB.

Raunveruleikinn er hinsvegar allt annar og í raun hægt að nefna mýmörg dæmi um tillitssemi ESB við umsóknarþjóðir og virðingu fyrir sérstökum aðstæðum, bæði hvað varðar menningu og atvinnulíf.

 


Hvers vegna er Noregur ekki í Evrópusambandinu?

Vekjum athygli á þessum fyrirlestri/fundi:

Hvers vegna er Noregur ekki í Evrópusambandinu?


Hádegisfundur á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands

iver_b_neuman.jpgIver B. Neumann,prófessor við Óslóarháskóla og yfirmaður rannsókna við norsku alþjóðamálastofnunina. Mánudaginn 23. ágúst 2010 frá kl 12:00 til 13:00 í stofu 101 í Odda.

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands boðar til fundar með Iver B. Neuman, prófessor við Óslóarháskóla og yfirmanni rannsókna við norsku alþjóðamálastofnunina, mánudaginn 23. ágúst 2010 frá kl. 12:00 til 13:00 í stofu 101 í Odda. Neumann mun fjalla um stöðu Evrópumála í Noregi.

Iver B. Neumann er norskur stjórnmála- og mannfræðingur. Hann er prófessor í rússneskum fræðum við Óslóarháskóla og yfirmaður rannsókna við norsku alþjóðamálastofnunina.

Hann lauk doktorsgráðu í stjórnmálum frá Oxford háskóla árið 1991 og á síðasta ári lauk hann annarri doktorsgráðu í mannfræði frá Óslóarháskóla.

 


Meiri vöxtur í Evrópu en USA/Japan

Berlingske_TidendeDanska Berlinske Tidende greinir frá því i dag að hagvöxtur sé nú meiri í Þýskalandi og Bretlandi, en í Bandaríkjunum og Japan. Hér er fréttin, að sjálfsögðu á dönsku.

Þýskaland og Bretland eru meðal stærstu ríkja ESB.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband