Leita í fréttum mbl.is

Myndræn útfærsla á aðildarviðræðum Íslands og ESB

Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands gagnvart ESB birti þann 7.september áhugaverða mynd á Fésbókarsíðu sinni að loknum fundi með alþjóðanefnd ASÍ. Myndin skýrir sig sjálf og sýnir að aðildarviðræður ESB og Íslands eru á góðu róli!

En, það eru erfiðir/krefjandi kaflar eftir og þeir gera málið virkilega spennandi fyrir landsmenn og kosningabæra, sem fá að greiða atkvæði um aðildarsamning, þegar hann liggur fyrir! Smellið á myndina til að fá hana stærri.

stefan-samningar-esb

 


ECB samþykkir kaup skuldabréfa

Evra

Fréttablaðið birti þann 7.september þessa frétt:

"Seðlabanki Evrópusambandsins ætlar að kaupa skuldabréf verst settu evruríkjanna til að knýja fram lækkun á vaxtakostnaði ríkjanna, þannig að þau eigi þá auðveldara með að ráða við afborganir af skuldum sínum.

 

Á blaðamannafundi í gær sagði Mario Draghi, seðlabankastjóri ESB, að með þessu væri bankinn að standa við fyrri yfirlýsingar um að allt verði gert til að styðja við bakið á evrunni.

 

"Óttinn við að evran hrynji er ástæðulaus," sagði hann.

 

Christine Lagarde, yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fagnaði þessum áformum og sagði sjóðinn ætla að leggja fé til verkefnisins, eins og Draghi óskaði eftir.

 

Draghi sagði að ákvörðun um þetta hefði verið tekin næstum því samhljóða á fundi bankaráðs. Aðeins einn ráðsmanna hefði verið á móti, en hann vildi ekki upplýsa hver það hefði verið.

 

Þýski seðlabankinn hefur hins vegar ítrekað lýst andstöðu sinni við þessi áform, sem nú hafa verið samþykkt."

BBC fjallaði um þetta mál í gær og þar var rætt við starfsmann þýsks banka í London, sem sagði að ríkisstjórni bæði Bretlands og Bandaríkjanna hefðu frá 2007 keypt fimm sinnum meiri skuldir en Evrópski seðlabankinn 


Gunnar Bragi og hraðinn!

Þingflokksformaður Framsóknar, Gunnar Bragi Sveinsson (hann er það ennþá!) kvartar yfir því í lítilli frétt í and-ESB-blaðinu (Morgunblaðinu) að hraðinn á vinnunni í utanríksimálanefnd vegna byggðakaflans (sjá eldri frétt hér) sé of mikill. Og telur að það þurfi að ræða málið betur.

En okkur er spurn: Vill Gunnar Bragi yfirhöfuð nokkuð hafa hraða á einhverju sem tengist ESB-málinu?

Nei, sennilega vill hann engan hraða! Óskastaðan hans á því máli er líklega kyrrstaða! 

Sem myndi þýða að þjóðin fengi ekki að kjósa um aðildarsamning. 


Byggðamálakaflinn klár í ESB-samningaviðræðum

Stefán Jóhannesson

Í fréttum RÚV 31.ágúst kom fram að byggðakaflinn í samningaviðræðum Íslands og ESB, er klár. Sett er fram sú skoðun að Ísland sé allt svokallað harðbýlt svæði og að það sé grunnforsenda Byggðakaflans. Þetta kom fram í viðtali við aðalsamningamann Íslands, Stefán Hauk Jóhannesson.

Í fjölmiðlum hafa menn hinsvegar verið að rífast um það hvort kaflinn sé farinn úr nefnd Alþingis eða ekki, en Árni Þór Sigurðsson, VG, segir að kaflinn sé klár og farinn/afgreiddur úr nefndinni.

Stefnt er á að opna kaflann um byggðamál nú í haust.

ESB hefur nú þegar sagt að það viðurkenni sérstöðu Íslands á þessu sviði og landbúnaðar.


Der Spiegel: Bjartari tímar framundan?

Der Spiegel segir frá því í frétt á alþjóðlegu síðu sinni (á ensku) að búist sé við jákvæðum hagvexti á Evru-svæðinu á næsta ári, eftir þær þrengingar sem svæðið hefur gengið í gegnum eftir hrunið/krísuna 2008. Þetta komi fram í nýrri skýrslu frá þýska verlsunarráðinu.

Í fréttinni segir að samkeppnishæfni margra Evru-ríkja sé að aukast, og að mörg lönd hafi náð góðum árangri í ýmsum endurbótum.

Þá sé viðskiptahalli að minnka í mörgum ríkjum. Dæmi er tekið af Ítalíu, sem náði fyrr á þessu ári að vinna upp allan viðskiptahalla landsins.

Í skýrslunni eru þó einnig sagt að vandræði með að afla lánsfjár sé neikvætt fyrir viðskiptalífið og að þetta sé t.d. alvarlegt vandmál á Grikklandi. 


Krónan fellur - þrátt fyrir loforð um annað

Íslenska krónan hefur fallið töluvert síðust daga og er nú Evran komin yfir 154 krónur og féll krónan um hálft prósent í dag. Ýmisir hafa sagt að krónan muni styrkjast á næstunni, en svo virðist ekki vera. Gjaldmiðill í höftum virðist ekki vera trygginf fyrir stöðugu gengi!

Mynd frá vefsíðunni www.M5.is sýnir þetta ágætlega. Er "rússíbaninn" byrjaður?

kronan-3-9


ANDRÉS PÉTURSSON Í FRBL: AÐ LÆSA DYRUM

Andrés PéturssonAndrés Pétursson, formaður Evróðusamtakanna, skrifaði góða grein í Fréttablaðið, þann 31.ágúst, undir fyrirsögninni AÐ LÆSA DYRUM. Grein Andrésar birtist hér í heild sinni:

AÐ LÆSA DYRUM

Það er sérkennilegt en um leið sorglegt að fylgjast með enn einni tilraun andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu að stoppa ferli viðræðnanna. Þegar Alþingi samþykkti á lýðræðislegan hátt að hefja þessa vegferð þá litu margir á þetta sem einn möguleika af mörgum til að koma okkur út úr þeim vandræðum sem efnahagshrunið haustið 2008 olli okkur. Hvort það tekst á eftir að koma í ljós enda ekki búið að klára þessar viðræður. Síendurteknar fullyrðingar nei-sinna að ekki sé um neitt að semja eiga alls ekki við rök að styðjast enda höfum við Evrópusinnar margoft bent á dæmi um sérlausnir í aðildarsamningum annarra landa.

Hvers vegna má ekki ganga þennan veg til enda og láta síðan þjóðina útkljá málið á lýðræðislegan hátt? Eru andstæðingar aðildar ef til vill hræddir um að eitthvað jákvætt komi út úr ferlinu?

Tímabundnir efnahagsörðugleikar í nokkrum ríkjum Evrópusambandsins eru notaðir sem röksemd fyrir því að draga þurfi umsóknina til baka. Ákveðnir fjölmiðlar reyna markvisst að draga upp dómsdagsmynd af ástandinu í Evrópu og reyna að koma því inn hjá landsmönnum að Evrópusambandið sé að hruni komið. Samt geta þessir sömu aðilar ekki svarað þeirri spurningu af hverju Evrópusambandið semur við Landhelgisgæsluna um eftirlit á Miðjarðarhafi, er á góðri leið með að skipuleggja næstu kynslóð rannsóknar- og menntaáætlana fram til ársins 2020, tekur virkan þátt í aðgerðum gegn gróðurhúsalofttegundum og er á vissan hátt í framvarðasveit þeirra stofnana sem berjast gegn mansali og alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Hljómar þetta eins og félagsskapur sem er að fara að leggja upp laupana?

Með þessu er ekki verið að gera lítið úr þeim miklu vandræðum sem nokkur ríki í Evrópu glíma við. En slíkir örðugleikar eru ekki einskorðaðir við ríki Evrópusambandsins. Mörg ríki innan og utan Evrópu eiga við mikla efnahagsörðugleika að etja. Einnig má benda á að ýmis ríki Bandaríkjanna eru á vissan hátt gjaldþrota. Svarið hjá nánast öllum þessum ríkjum er ekki að hlaupa hvert í sína áttina heldur reyna þau að leysa úr sínum vandræðum með samvinnu en ekki sundrung.

Deilum Íslendinga við nokkur nágrannaríki okkar vegna makrílveiða hefur einnig verið beitt sem röksemd í þessari innilokunaráráttu. Vert er þó að benda á að deilan stendur einna mest við Noreg og ekki eru þeir í Evrópusambandinu! Að vísu eru Írar og svo Danir fyrir hönd Færeyinga aðilar að deilunni og þess vegna blandast ESB í málið. Deilan stendur því alls ekki við Evrópusambandið í heild sinni heldur tvö af aðildarlöndum þess.

Samsæriskenningar um að Evrópusambandið sé á einhvern hátt í heilögu stríði við Ísland eiga því ekki nokkra stoð í veruleikanum. Og óháð aðildarviðræðunum þá þyrftum við hvort sem er að útkljá þetta deilumál á ásættanlegan hátt fyrir alla aðila.

Það hentar hins vegar skammtíma þjóðernisöfgapólitíkusum að þyrla upp moldviðri í kringum þetta mál og blása það upp sem allsherjarsamsæri ESB gagnvart Íslandi. Staðreyndin er hins vegar sú að aðildarviðræður Evrópusambandsins við umsóknarríki eru sjaldan línulegt ferli. Nánast alltaf koma upp einhver mál sem hægja á ferlinu og báðir aðilar þurfa að hugsa upp viðeigandi lausnir. Dæmi um slíkar sérlausnir eru til dæmis skilgreiningar á „heimskautalandbúnaði" og „háfjallalandbúnaði" sem voru útbúnar þegar Finnar, Svíar og Austurríkismenn gengu í ESB árið 1995. Einnig má benda á landamæradeilur Slóvena og Króata sem töfðu aðildarviðræðurnar við Króatíu í næstum því heilt ár.

Í stað þess að reyna að þvælast fyrir aðildarviðræðunum og leggja stein í götu samninganefndar Íslands við nánast hvert einasta skref ættu stjórnmálamenn og flokkar að sameinast um að klára þetta mál með sóma. Allir aðilar eru sammála um að íslenska þjóðin muni eiga síðasta orðið í þessu máli. Af hverju að loka og læsa dyrunum þegar ekki er ljóst hvort þessi leið geti aðstoðað okkur til að komast út úr þeim vandræðum sem hrunið árið 2008 kom okkur í?


Ólafur Þ. um VG og ESB í FRBL

Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri FRBL, skrifaði góðan leiðara um VG og ESB-málið þann 28.8. Leiðarinn birtist hér í heild sinni:

" Vinstri hreyfingin – grænt framboð samþykkti ögn torskiljanlega ályktun um alþjóðamál á flokksráðsfundi sínum um síðustu helgi. Þar fagnar flokksráðið „þeirri umræðu sem nú fer fram um samskipti Íslands og ESB og hvetur til að henni verði haldið áfram."

Í ályktuninni segir líka að VG telji að „grundvöllur alþjóðlegs samstarfs eigi að vera lýðræðisleg vinnubrögð og barátta fyrir friði og öryggi í heiminum." Flokkurinn er sömuleiðis á því að til að Ísland geti tekið fullan þátt í alþjóðasamstarfi þurfi að fara fram umræða í samfélaginu um hvernig slíku samstarfi skuli háttað, „hvaða hagsmuni ber að verja og hvaða hagsmunir eru til þess fallnir að styrkja tengsl Íslands við alþjóðasamfélagið."

Það er fagnaðarefni að VG vilji fara í umræðu um samskipti Íslands og ESB á þessum forsendum, því að stundum virðist eins og flokkurinn sé fyrir löngu búinn að loka þeirri umræðu með einni, skýrri niðurstöðu; að hann sé alveg á móti aðild að ESB og ekki þurfi að ræða kosti hennar og galla neitt frekar.

Ætli VG hafi velt ESB-aðildinni fyrir sér út frá áherzlu sinni á frið? Að baki Evrópusamstarfsins liggur öflug friðarhugsjón fólks sem hafði upplifað hörmungar tveggja heimsstyrjalda – sem áttu upptök sín í erjum Evrópuríkjanna – og sór þess dýran eið að til slíks skyldi aldrei koma aftur. Hefur VG metið velgengni ESB sem friðarbandalags?

Evrópusambandið er líka bandalag lýðræðisríkja. Væntanlegum aðildarríkjum eru sett skýr skilyrði um lýðræðislega stjórnarhætti og virðingu fyrir mannréttindum. Bent hefur verið á „lýðræðishallann" í stjórnkerfi sambandsins sjálfs, sem felst í því að ákvarðanir eru teknar langt frá almenningi í aðildarríkjunum og flókið er að láta þá sem taka þær sæta lýðræðislegri ábyrgð. En væri VG til í að skoða einföldustu lausnina á lýðræðishallanum; að efla völd Evrópuþingsins sem er kosið beint af almenningi í aðildarríkjunum; eða teldi flokkurinn það andstætt þjóðernispólitík sinni? 

Og hvað finnst VG um hinn tvöfalda lýðræðishalla sem felst í aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu? Við tökum upp óbreytta löggjöf ESB, sem sumir telja ekki hafa orðið til með nægilega lýðræðislegum hætti. Alþingi hefur engin áhrif á hana og enginn þarf að svara fyrir lagasetninguna gagnvart íslenzkum kjósendum. Finnst VG að við eigum að segja upp EES-samningnum til að rétta þennan halla?

Það er líka forvitnilegt að velta fyrir sér spurningunni um hvaða hagsmuni eigi að verja. Vill VG verja hagsmuni framleiðenda og atvinnurekenda í landbúnaði og sjávarútvegi, sem vilja alls engar breytingar sjá á rekstrarskilyrðum sínum eða samkeppnisumhverfi, eða vill flokkurinn standa með neytendum, lántakendum og nýjum og vaxandi atvinnugreinum, sem myndu njóta góðs af lægri tollum, lægri vöxtum og sameiginlegum gjaldmiðli með aðild að ESB?
Kannski meinti flokksráð VG eitthvað allt annað með tali sínu um lýðræði, frið og hagsmuni. En þetta eru samt spurningar sem flokkurinn þarf að svara í umræðunni sem er fram undan.


Danir styðja aðildarumsókn Íslands að ESB

Á www.visir.is segir: " Forsætisráðherra Danmerkur segir Dani styðja aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og vonast til að viðræðurnar haldi áfram af krafti. Hún ræddi evrópumálin og makrílveiðar við Jóhönnu Sigurðardóttur í opinberri heimsókn til Íslands í dag. 

Helle Torning-Schmidt forsætisráðherra Danmerkur lenti á Reykjavíkurflugvelli í hádeginu í dag. Hún stoppar hér á landi í tæpan sólarhring og hóf heimsóknina á Þingvöllum þar sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður tóku á móti henni við Hakið og gengu þau saman í gegnum þjóðgarðinn. Helle var mjög áhugasöm um sögu Þingvalla og fræddi Ólafur hana um þinghald fyrr á tímum og þróun svæðisins á síðustu árum.

Að lokinni göngu um svæðið funduðu Jóhanna og Helle í Ráðherrabústaðnum á Þingvöllum. 

„Danmörk og Ísland eru góðir nágrannar og vinátta landanna stendur á gömlum merg. Við höfum auðvitað rætt vandann sem ríkir í Evrópu og ástandið þar. Einnig þróunina sem mun eiga sér stað í Evrópu í náinni framtíð. Við fjölluðum um aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu og viðræðurnar um makrílveiðar hafa þá óneitanlega borið á góma. Það málefni er auðvitað ofarlega á baugi bæði í ESB og á Íslandi." segir Helle.

Hún segir Dani vera mikla stuðningsmenn við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og vonast til þess að viðræðurnar muni halda áfram af sama krafti og hefur verið á meðan Danir hafa gegnt formennsku í sambandinu. " 

Sveiflu jó-jóið af stað?

Fram kemur í morgunkorni frá Íslandsbanka að krónan hafi veikst um 2,6% á mjög skömmum tíma. Í morgunkorninu segir:

"Væntingavísitalan hefur sterka fylgni við gengisþróun krónunnar og því þarf ekki að koma á óvart að væntingar landsmanna hafi lyfst svo mikið nú í sumar á sama tíma og krónan hefur verið að styrkjast, en styrkingin frá því í byrjun júní og þar til um miðjan ágúst nemur 8%. Síðustu daga hefur þessi þróun hinsvegar snúist við og gengi krónunnar hefur veikst um 2,6% gagnvart helstu gjaldmiðlum. Verði áframhald á þeirri þróun má búast við að væntingar landsmanna litist af því á komandi vikum samhliða því sem haustið skellur á, sem gæti einnig átt þátt í að tempra bjartsýni landans."

Þá er það bara spurningin hvort sveiflu-jó-jóið sé að fara af stað, nú þegar t.d. innstreymi tekna vegna ferðamanna minnkar verulega?


Samningsafstaða Íslands gagnvart ESB í tveimur köflum birt

Á www.vidraedur.is segir þetta:

Samningsafstaða Íslands varðandi tollabandalag annars vegar og utanríkistengsl hins vegar í samningaviðræðum Íslands og ESB hefur verið birt á viðræður.is. Samningsafstaðan var send framkvæmdastjórn ESB og aðildarríkjum sambandsins eftir að um hana var fjallað í viðkomandi samningahópum, samninganefnd Íslands og utanríkismálanefnd Alþingis, og hún samþykkt í ráðherranefnd um Evrópumál og ríkisstjórn. Búist er við því að viðræður hefjist í viðkomandi málaflokkum fyrir lok þessa árs.

Kafli 29 um tollabandalagið heyrir ekki undir EES-samninginn. Markmið tollabandalagsins er að örva viðskipti á milli aðildarríkja og við þriðju ríki og bæta samkeppnisskilyrði og samkeppnishæfni evrópskra fyrirtækja. Aðildarríki tollabandalags ESB hafa sameiginlega tollskrá gagnvart þriðju ríkjum en tollar á innflutning og útflutning falla hins vegar niður milli aðildarríkjanna, enda fara vörusendingar óhindrað yfir landamæri eins og um innanlandsviðskipti sé að ræða. Í samningsafstöðunni kemur fram að Ísland muni með nauðsynlegum lagabreytingum tryggja áframhaldandi öflug eftirlitsúrræði með ólöglegum innflutningi til landsins, ekki síst fíkniefnum. Í samningsafstöðunni er einnig vikið að hugsanlegum neikvæðum áhrifum sem breyttir tollar gætu haft á innflutning aðfanga til mikilvægra atvinnuvega, eins og til orkufreks iðnaðar, landbúnaðar og fiskvinnslu. Minnt er á að ESB er uppálagt að hafa að leiðarljósi þarfir aðildarríkja fyrir hráefni og hálfunnar vörur og að sama skapi tryggja að skilyrðum til samkeppni milli aðildarríkja sé ekki raskað hvað fullunnar vörur varðar. Um þessi atriði verður þó samið í kafla 30 um utanríkistengsl og kafla 11 um landbúnað, þó ekki sé útilokað að leita þurfi lausna í kafla 29 síðar í ferlinu.

Kafli 30 um utanríkistengsl er heldur ekki hluti af EES-samningnum. Kaflinn nær m.a. til viðskipta við ríki utan sambandsins, þ.m.t. fríverslunarsamninga og tolla, mál sem varða þróunarsamvinnu og mannúðar- og neyðaraðstoð. Í samningsafstöðu Íslands kemur fram að stefna Íslands á sviði þróunarsamvinnu og mannúðar- og neyðaraðstoðar falli vel saman við stefnu ESB á þeim sviðum. Í afstöðunni eru gerðar kröfur á sviði utanríkisviðskipta um að leitað verði leiða til að innflutningur á aðföngum til orkufreks iðnaðar, hráefnis til fiskvinnslu og aðfanga til fiskveiða og fiskeldis raskist sem minnst við aðild. Ennfremur er óskað eftir samstarfi við ESB um að áhrif aðildar Íslands að sambandinu hafi sem minnst áhrif á viðskipti við lönd utan þess. Síðast en ekki síst er lögð áhersla á að varðveita hið nána samband Íslands og Færeyja sem endurspeglast m.a. í Hoyvíkur-samningnum. Í afstöðunni er gerður fyrirvari um að tollverndin sé mikilvæg stuðningsráðstöfun í landbúnaði og að á því máli þurfi að taka í 11. kafla viðræðnanna um landbúnað og dreifbýlisþróun. Ennfremur áskilur Ísland sér rétt til að koma að málinu síðar ef ekki finnast viðunandi lausnir í 11. kafla.

Samningaviðræðurnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu snúast um 33 kafla í regluverki ESB, auk kafla um stofnanir og annað. Alls hafa 18 samningskaflar verið opnaðir frá því að efnislegar aðildarviðræður hófust í júní á síðasta ári og er samningum þegar lokið um 10 þeirra. Alls hefur samningsafstaða Íslands í 24 köflum verið birt á viðræður.is."


ESB-málið áfram rætt

RUV

Á RÚV segir:"Vinstri græn ætla að ræða við Samfylkinguna um hvernig beri að halda áfram samskiptum við Evrópusambandið. Sú umræða fer líka fram í þinginu og nefndum þess, segir formaður Vinstri grænna.

Margir í Vinstri hreyfingunni Grænu framboði eru andvígir aðild og aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Á flokksráðsfundi um helgi var þess þó ekki krafist að viðræðunum verði slitið en hvatt til þess að áfram verði rætt um samskipti Íslands og Evrópusambandsins.

„Þannig að við munum auðvitað halda okkar striki í því að ræða þetta mál bæði í okkar herbúðum og eftir atvikum taka það upp við samstarfsflokkinn og annars staðar þar sem það er á dagskrá í störfum þingsins og eftir atvikum í þeim nefndum og batteríuum sem koma að þessu máli," segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna.

Steingrímur vill ekki greina frá kröfum Vinstri grænna í þessu. Ræða þurfi málið efnislega en niðurstaðan sé ekki gefin fyrirfram. „Ég held að það sé alveg ljóst að sumir hlutir í þessu hafa ekki gengið eins og við hefðum viljað, til dæmis hefur tímaþátturinn í þessu þróast öðruvísi. Það voru tafir á því að mikilvægir kaflar opnuðust við þurfum að fara yfir það og hvernig þetta svona horfir núna og hvernig við ætlum að halda á málinu í framhaldinu," segir hann."
 
Það er gott að ræða ESB-málið, sem lýkur síðan með aðildarsamningi og þjóðaratkvæðagreiðslu um hann. Það er fín áætlun! Hún er hinsvegar eitur í beinum einangrunar og nei-sinna! 

Vel lukkaður fundur með Árna Páli hjá Já-Íslandi

Árni Páll ÁrnasonÁ vef Já-Ísland segir: "Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, og varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, sagði á fjölmennum hádegisfundi hjá Sterkara Íslandi í dag,  að krefjist Vinstri grænir þess að viðræðum við Evrópusambandið verði slitið og umsókn um aðild að Evrópusambandinu verði dregin til baka þýddi það að ríkisstjórnarsamstarfinu yrði slitið og boðað yrði tafarlaust til alþingiskosninga.

“En auðvitað er eðlilegt að eiga við VG samtal um þessa þætti eins og aðra,“ sagði Árni Páll í samtali við jaisland.is. „Ég óttast ekki að eiga við þá samtal um aðstæður í Evrópu og hvort þær hafi þau áhrif að það verði síður fýsilegt en ella að ganga inn í Evrópusambandið.”

Árni Páll sagði að það hefðu verið mistök af hálfu Samfylkingarinnar að binda ekki betur um hnúta í stjórnarsáttmálanum til að koma í veg fyrir að ráðherrar VG gætu tafið fyrir framgangi aðildarviðræðnanna í sínum ráðuneytum eins og raun hefði orðið.

Fundarefnið var staða umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Um sextíu manns sátu fundinn, hlýddu á erindi Árna og svör hans við fyrirspurnum að því loknu."


Rispaðar plötur!

Öskrað

Sumir forsprakka Nei-sinna eru eins og gamlar rispaðar vinyl-plötur, gargandi "brennandi hús" - "aðlögun - aðlögun" og svo framvegis!

Hafa menn ekki áttað sig á því að nútímavæðing Íslands er meira eða minna aðlögun að því sem gerst hefur í Evrópu? 

Það er jafnvel hægt að fara aldir aftur í tímann!

Er hægt að fá eintthvað nýtt á fóninn? T.d. ferskar tillögur í gjaldmiðilsmálum og um afléttingu gjaldeyrishafta? Um lækkun vaxta, minni verðbólgu, afnám verðtryggingar?

Menn úr þessum herbúðum hafa sagt; "...það er bara hægt að lækka vexti"!

Af hverju í ósköpunum er það þá ekki gert? 

Hvað segir "planlausa"-fólkið? 


Þórhildur Hagalín í FRBL: Veiðar á lóu og spóa

Þórhildur HagalínÞórhildur Hagalín, ritstjóri Evrópuvefins, skrifaði áhugaverða grein um ESB og fuglafriðunarmál í FRBL þann 21.8. Grein hennar hefst á þessum orðum:

"Að meginreglu eru allar villtar fuglategundir friðaðar hér á landi samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Þær tegundir sem heimilt er að veiða eru sérstaklega tilgreindar í reglugerð um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum. Það sama á við um veiðitímabil og veiðiaðferðir. Lóa og spói eru ekki á meðal þeirra 29 fuglategunda sem heimilt er að veiða á Íslandi en þær eru hrafn, fýll, dílaskarfur, toppskarfur, súla (hefðbundin ungataka), helsingi, hvítmáfur, rita, skúmur (hefðbundin eggjataka), kjói, álka, langvía, stuttnefja, teista, lundi, svartbakur, sílamáfur, silfurmáfur, heiðagæs, duggönd, hávella, toppönd, hettumáfur, grágæs, stokkönd, urtönd, rauðhöfðaönd, skúfönd og rjúpa.

Um vernd villtra fugla í Evrópusambandinu er fjallað í svonefndri fuglatilskipun. Markmið tilskipunarinnar er að tryggja vernd allra fuglategunda sem eiga náttúruleg heimkynni á yfirráðasvæði aðildarríkja ESB. Samkvæmt tilskipuninni er meginreglan sú að allar fuglategundir eru friðaðar en í viðaukum við tilskipunina eru taldar upp þær tegundir sem undanþegnar eru veiðibanni.

Í viðauka II-A við fuglatilskipunina eru taldar upp 24 fuglategundir sem öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins er heimilt að leyfa veiðar á. Af þessum 24 tegundum lifa fimmtán á Íslandi. Sex þeirra er heimilt að veiða hér á landi (grágæs, stokkönd, urtönd, rauðhöfðaönd, skúfönd og rjúpa) en hinar níu eru friðaðar. Ekki yrði þörf á að aflétta friðun umræddra tegunda við innleiðingu tilskipunarinnar, ef til aðildar Íslands kæmi, þar sem aðildarríkjum er heimilt að kveða á um strangari verndarákvæði en tilskipunin krefst."

Í lokin segir Þórhildur: "Til að halda ástandi fuglaveiða óbreyttu í landinu, ef til aðildar að Evrópusambandinu kæmi, þurfa stjórnvöld að semja um heimild til áframhaldandi veiða á þeim 23 tegundum sem heimilt er að veiða á Íslandi en ekki eru taldar upp í viðauka II-A. Það mundi krefjast þess að þeim tegundunum sem heimilt er að veiða á Íslandi en hvorki eru taldar upp í viðauka II-A né II-B yrði bætt við viðauka II-B.

Veiðar á lóu og spóa verða að sama skapi ekki sjálfkrafa leyfðar þótt Ísland gerðist aðili að ESB. Þær verða bannaðar áfram svo lengi sem íslensk stjórnvöld vilja, þar sem aðildarríkjunum er ætíð heimilt að kveða á um strangari verndarákvæði en tilskipunin krefst. Hins vegar yrðu veiðar á lóu og spóa ekki heimilaðar nema með samþykki Evrópusambandsins."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband